Þegar Sovétríkin hættu að vera til og um skeið hirti enginn um að passa upp á heimildirnar um sögu þeirra rann upp sannkallað gullgrafaratímabil. Allir sem áhuga höfðu gátu sökkt sér í skjalasöfn ríkisins hrunda og hvort sem áhuginn var pólitískur, sagnfræðilegur eða heimspekilegur þá áttu flestir eitt markmið sameiginlegt: Að komast niður fyrir hið klossaða orðfæri og þungu frasa sem einkenndu alla opinbera sovéska orðræðu um áratuga skeið – komast að því hvernig hugsað hefði verið, ráðgert og áætlað í raun.
Skemmst er frá því að segja að árangur þeirrar leitar hefur verið öllu rýrari en margir bjuggust við. Þetta gekk svo langt að sumir sagnfræðingar lýstu því undrandi yfir á ofanverðum tíunda áratugnum að svo virtist sem sovéskir valdsmenn og leiðtogar hefðu „trúað eigin mælsku“ með öðrum orðum trúað því að frasar þeirra og þröng sýn á heiminn og eigið samfélag endurspeglaði raunveruleikann. Þeir hefðu semsagt ekki verið pragmatistar í dulargervi heldur raunverulegir, sannfærðir kommúnistar á sína vísu.
Sama má ef til vill segja um allan þorra almennings í kommúnistaríkjunum. Allri opinberri umræðu var stýrt með ritskoðun og öðrum eftirlitsstofnunum sem héldu orðræðunni innan viðurkennds farvegar. Þó að allskyns neðanjarðarmenning hafi vissulega þrifist og sumsstaðar blómstrað, má segja að það hafi verið nánast ómögulegt fyrir hinn venjulega borgara að taka til máls um félagsleg efni án þess að fylgja í meginatriðum opinberri línu. Ekki vegna bara þess að annað væri hættulegt, heldur fyrst og fremst vegna þess hin opinbera lína var eina orðræðutegundin sem tiltæk var.

Sannir sósíalistar
Þessi lærdómur – að menn hafi trúað sinni eigin mælsku – er mikilvæg vísbending um hvað kommúnisminn var. Kommúnismi var ekki mælska af ákveðnu tagi, eða pólitísk stefna sem hægt er að leggja að jöfnu við borgaralegar eða hálfborgarlegar stefnur í stjórnmálum. Kommúnisminn var harðsnúin hugmyndafræði sem laut að öllu daglegu lífi fólks, ekki aðeins að skoðunum þess á ákveðnum málum eða málaflokkum. Sannur kommúnisti þurfti að gera fleira en að tileinka sér rétt viðhorf til einkaeignar eða einkarekstrar, til hlutverks hins opinbera og til velferðarkerfis. Hann þurfti líka að lifa eins og kommúnista sæmdi.
Það er rétt að staldra hér við merkingu orðsins kommúnisti og rifja upp að hér á landi voru afar fáir sem kölluðu sig kommúnista. Róttækir vinstrimenn á Íslandi kölluðu sig sósíalista og kenndu hreyfingu sína við sósíalisma. Kommúnistaflokkur var ekki til á Íslandi eftir 1938, en róttækustu vinstriöflin áttu heima í Sameiningarflokki alþýðu – Sósíalistaflokknum fram á sjöunda áratuginn, eftir það í tvístruðum smáhreyfingum fram á níunda áratuginn, þegar segja má að hreyfing sósíalista hafi gufað upp að mestu.
En hvort sem róttækustu vinstrimennirnir kölluðu sig kommúnista eða sósíalista, kenndu sig við Maó, Trotskí, Marx, Lenín eða jafnvel Stalín, gerðu þeir miklar kröfur til sjálfra sín og síns fólks og fyrirlitu ákaft lífsstíl borgaranna, smáborgaralegar hneigðir sem meðal annars birtust í græðgi, samkeppni, öfund og löngun í jarðneska hluti á borð við fín hús og húsbúnað eða bíla – að ekki sé talað um sjúklegar þarfir borgaranna fyrir allskyns lúxus.
Sannir sósíalistar höfnuðu þessum gerviþörfum og sýndu með fordæmi – eða áttu að gera það – hver hin raunverulegu gildi og dygðir sósíalismans væri. Um þetta eru ýmis dæmi og sum kostuleg. Þegar sósíalistarnir Svavar Gestsson, Hjörleifur Guttormsson og Ragnar Arnalds tóku við ráðherraembættum sumarið 1978 tróðu þeir sér allir inn í pólskan fíat og óku þannig til fundar við forseta á Bessastöðum. Þeir sögðust aðallega vera að hugsa um orkusparnað, en sýndu einnig í verki að hér færu fulltrúar hógværðar og nægjusemi.

Við og hinir
Róttækir vinstrimenn gengust mjög upp í þessum skýra og djúpstæða greinarmun á sjálfum sér og „hinum“ á kaldastríðsárunum. Þetta kann oft að hafa birst í sakleysislegum myndum hér á Íslandi og ef til vill gerir nálægð og persónuleg kynni það að verkum að illindin deyfast, vatnast út – samfélagið er of einsleitt til þess að hægt sé að halda úti örgum fjandskap nema stutt. Allir eru háðir hinum að einhverju marki og dæmin sanna að jafnvel róttækir sósíalistar áttu samvinnu við andstæðinga sína undir vissum kringumstæðum og þráðu viðurkenningu þeirra. En þó að myndir greinarmunarins hafi stundum verið sakleysislegar, þá er rangt að gera lítið úr greinarmuninum sjálfum eða mögulegum afleiðingum hans.
Ein afleiðingin var til dæmis kaldhæðnislegt viðhorf sósíalista gagnvart hinu pólitíska ferli. Hér á árum áður, til dæmis á fjórða áratugnum þegar kommúnistar og jafnaðarmenn í Alþýðuflokknum ræddu um mögulegt samstarf, jafnvel sameiningu var einn ásteytingarsteinninn sá að kommúnistar neituðu að skuldbinda sig til þess að lúta leikreglum þingræðisins. Í þeirra augum var ekkert einfaldara eða nærtækrara fyrir borgarleg öfl en að misnota þingræði eða sveigja það að þörfum sínum og þessvegna væri ekki hægt að líta á það sem sameiginlegan grunn allra stjórnmálaafla. Sama mætti raunar segja um lýðræðið. Í augum róttækra vinstrimanna var grundvallarmunur á borgaralegu lýðræði og lýðræði alþýðunnar. Þessi munur var hugmyndafræðilegur en réðist þó einkum af því sem var talið vera gjörólíkir hagsmunir alþýðunnar og og borgaranna.
Á sjötta áratugnum hafði formaður Sósíalistaflokksins Einar Olgeirsson miklar áhyggjur af því að aukin velmegun yrði til þess að yngri sósíalistar linuðust í afstöðu sinni til borgaralegra lifnaðarhátta og viðhorfa og stéttvísi bilaði þegar fólk sæi aukna velmegun í kringum sig og fyndi jafnvel fyrir henni sjálft. Eitt af því sem hann taldi afar mikilvægt á þessum tíma var að flokkurinn sendi unga félaga til náms í sósíalísku ríkjunum í Austur-Evrópu og til Sovétríkjanna. Ungt fólk sem flokkurinn sendi til náms með þessum hætti fékk í fæstum tilfellum beina flokks- eða byltingarþjálfun en stundaði nám í háskólum og kom heim með gráður m.a. í raunvísindum, verkfræði og ýmsum tæknigreinum. Einnig taldi Einar mikilvægt að efla andann í æskulýðssamtökum flokksins með því að kynda undir hverskyns félagsstarfi og innblásinni byltingarrómantík, svo sem með því að senda stóra hópa ungra flokksmanna á heimsmót æskunnar sem haldið var á nokkurra ára fresti í helstu borgum kommúnistaríkjanna. Þetta var barátta um sálir og því þurftu flokkarnir að hafa upp á eitthvað að bjóða. Sósíalistar buðu upp á byltingarrómantík, innblástur, ást á landi og þjóð og andúð á hinni óhreinu spillingu burgeisanna. Það krafðist einlægs trúboðs og tilfinningahita.

„Landráðin framin í skjóli ofbeldis…“
Þó að yfirborðið hafi verið misheitt á árum Kalda stríðsins, og jafnvel andstæðingar hafi vingast, farið í boð hver til annars og rætt í bróðerni um daginn og veginn, eru mistök að halda að þessvegna hafi eitthvað annað en gagnkvæmt hatur og fyrirlitning ríkt á milli borgaralegra og óborgaralegra afla. Íslenskir sósíalistar voru, rétt eins og sósíalistar og kommúnistar víða annarsstaðar hugsjónamenn og margir þar að auki sprenglærðir í hugmyndafræði hreyfingarinnar. Þeir vissu allt – sáu í gegnum allt og sáu í hendi sér hvernig samfélagið hlyti að þróast, eða það héldu þeir sjálfir.
Þó að aldrei hafi komið til mannskæðra átaka á milli lögreglu og vinstrisinnaðra mótmælenda, og í rauninni hafi alvarleg átök ekki brotist út á milli fylkinga nema einu sinni, þegar Alþingi samþykkti að Ísland yrði stofnaðili að NATO, 30. mars 1949, þá lá ofbeldi oft í loftinu í því orðfæri sem vinstrimenn og hægrimenn tömdu sér á dögum Kalda stríðsins. Það má taka ófá dæmi um þetta úr blöðunum. Svo tekið sé tímabil af handahófi, þá getum við litið á árið 1956. Þjóðvilijinn sakar þá Bjarna Benediktsson um að ætla að stofna innlendan „stéttarher“ sem eigi að tryggja stöðugleika í landinu og halda uppi lögum og reglu en þetta sé – í raun – hlutverk bandaríska hersins. Sjálfstæðisflokkurinn stefni að einræði. Ólafur Thors forsætisráðherra er sagður hafa í dólgslegum hótunum við alþýðu manna, stjórnin er sökuð um svikasamninga við Breta í landhelgismálinu sem jafngilda landráðum, Bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvelli eru nefndir herþrælar og svo má áfram telja.
Það nægir alveg að opna eitthvert blaðanna fjögurra til dæmis á sjötta áratugnum til að sjá hve orðfærið er biturt. Þó að vel sé hægt að skilja þá tilhneigingu nú að vilja gera lítið úr þessu tali og halda því jafnvel fram að það sé einmitt ekkert annað en mælskan tóm, en í raun hafi menn verið bestu vinir þá má ekki gleyma merkingu orðanna sjálfra í túlkunum á orðræðu kaldastríðsáranna. Þegar sósíalistar sökuðu Sjálfstæðismenn um að vera þjónar Bandaríkjamanna og leiguþý bandaríska hersins, en þeir sósíalista á móti um að vera agentar og leiguþý Moskvuvaldsins þá meintu menn það sem þeir sögðu bókstaflega og trúðu því sennilega líka. Sú staðreynd að þegnlegt réttarumhverfi og efnahagsástandið í landinu olli því að pólitískt ofbeldi birtist í orðum frekar en að verkin væru látin tala, gerir orðræðuna ekki síður ofbeldisfulla fyrir vikið.
Kannski gefur orðfæri blaðanna í kjölfar óeirðanna á Austurvelli 30. mars 1949 vissa hugmynd um hverskonar andstæður ríktu í pólitíkinni á þessum árum. Ákvörðun Alþingis var í augum sósíalista ekkert annað en landráð sem framin voru „í skjóli ofbeldis og villimannlegra árása á friðsama alþýðu“ Blaðið sagði vitstola hvítlíða hafa gengið berkserksgang. Morgunblaðið, Vísir, Tíminn og Alþýðublaðið töluðu um árás kommúnista og að óður kommúnistaskríll hefði ætt um Austurvöll. Þjóðviljinn hikaði ekki við að kalla þá sem samþykktu aðild að NATO Bandaríkjaleppa, Og svona má halda áfram.

Rússagull
Á áratugunum eftir stríð lágu sósíalistar hér á landi undir stöðugu ámæli fyrir það að þeir væru ekki aðeins tryggir þjónar Moskvuvaldsins heldur þægju þeir greiðslur þaðan til að halda starfsemi sinni gangandi. Nú hefur komið í ljós að þessi orðrómur var að einhverju leyti réttur, forystumenn sósíalista tóku við greiðslum sem nýttar voru annarsvegar til að starfrækja Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna og sennilega til að standa straum af kostnaði við byggingu húss Máls og menningar að Laugavegi 18.
Í orðræðu Kalda stríðsins gegndi orðrómurinn um Rússagullið gríðarlega stóru hlutverki og kannski má segja að hann hafi öðru fremur orðið til þess að draga úr trúverðugleika Sósíalistaflokksins gagnvart kjósendum eða mögulegum kjósendum. Með því að núa sósíalistum því stöðugt um nasir að starfsemi þeirra væri fjármögnuð af erlendu stórveldi var auðveldara að brigsla þeim um landráð og beita ímynd óvinarins til að fæla fólk frá stuðningi við þá. Sósíalistar svöruðu í sömu mynt og sökuðu höfuðandstæðinga sína stöðugt um að ganga erinda Bandaríkjamanna í einu og öllu, hafa í raun selt þeim landið og fyrir að taka við fjármagni og fyrirskipunum frá þeim og sniðganga þannig hagsmuni eigin þjóðar.

Eineltispólitík
Gagnkvæmar ásakanir og landráðabrigsl voru auðvitað að hluta leikur sem pólitískir andstæðingar stunduðu til þess eins að bregða fæti hver fyrir annan. Leikurinn var því að vissu marki bara leikur. En þó skiptir mestu að hann var hann var rammi stjórnmálaumræðna og stöðug uppspretta raka sem stjórnmálamenn beittu hver gegn öðrum í baráttu völd og áhrif. Þessi tegund af valdapólitík skrumskældi alla pólitíska þátttöku og gerði að verkum að áratugum saman var öll pólitík, að ekki sé talað um menningarlífið, í spennitreyju hægri- eða vinstristimplunar. Það mætti kannski segja að opinber umræða á kaldastríðsárunum hafi einkennst af einelti öðru fremur.
Pólitísk átök kaldastríðsáranna voru hatursfull og ofbeldisfull og það sem meira er, þau voru oft frámunalega heimskuleg, hvort heldur sem á þau er litið frá vinstri eða hægri. Þessi átök sköpuðu stjórnmálunum orðræðuramma sem gróf undan vitlegri umræðu og spillti fyrir því að tekist væri á um málefni á heilbrigðan hátt eða að stuðlað væri að góðum, vel rökstuddum og skynsamlegum ákvörðunum. Þau komu líka í veg fyrir að einstaklingar nytu sannmælis eða fengju að njóta sín, hvort heldur var á hinum pólitíska vettvangi eða ýmsum öðrum sviðum samfélagsins. Því miður eimir enn eftir af þessari orðræðuhefð í dag með óbeinum hætti sem birtist meðal annars í því að stjórnmálamenn virðast oft halda að það sé meira spennandi og jafnvel eðlilegt að leggjast í skotgrafirnar heldur en að taka rökum og tala af viti. Menn hafa þó minni afsökun nú á dögum en þeir höfðu sem voru í eldlínunni á kaldastríðsárunum. Þá voru margir að minnsta kosti blindaðir af hugmyndafræði og töldu sig vera að gera rétt hvernig sem á það væri litið – trúðu eigin mælsku.

Birt í Lesbók Morgunblaðsins 8. júló 2006

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *