Þegar Siðanefnd Háskóla Íslands ákvað að taka til meðferðar erindi frá félagasamtökunum Vantrú, sem kvörtuðu yfir umfjöllun um sig í kennslu við skólann, gerði hún hrapalleg mistök. Í stað þess að kalla kennarann fyrir sig og fá hann til að útskýra hvernig hann hefði notað umdeildar glærur í fyrirlestrum sínum, hóf hún tilraunir til að sætta Guðfræði- og trúarbragðadeild og félagasamtökin, eins og ljóst væri að mistök hefðu átt sér stað. Kennarinn fékk ekkert tækifæri til að útskýra mál sitt.

Þegar tekist hafði, með aðkomu nokkurra háskólakennara við HÍ og fleiri skóla, að fá það viðurkennt að rangt hefði verið af stað farið og tryggja þyrfti réttmæta umfjöllun um málið tók ekki betra við: Tveir af þremur fulltrúum þeirrar nefndar sem hafði misstigið sig svo hörmulega sátu áfram í nýrri siðanefnd sem átti að fjalla um málið og eðlilega naut hún einskis trausts hins kærða kennara og stuðningsmanna hans.

Þetta eru hinar einföldu og skýru ástæður þess að málið var frá upphafi rekið á röngum forsendum. Í skýrslu „Óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð“ kemur fram að nefndin telur meginástæðu þess hvernig málið þróaðist og að ekki tókst að ljúka því innan Háskóla Íslands vera ákvörðun Siðanefndar og Guðfræði- og trúarbragðadeildar að gera út um málið með sátt sín á milli án aðkomu kennarans.

Hvað á Siðanefnd Háskóla Íslands að gera fái hún erindi á borð við það sem Vantrú sendi henni, rektor og Guðfræði- og trúarbragðafræðideild í febrúar 2010? Möguleikarnir eru nokkrir: Hún hefði getað komist að þeirri niðurstöðu að erindi af þessu tagi, og samskipti við félagið sem sendi það, ættu með réttu heima hjá viðkomandi háskóladeild. Þetta hefði að mínu mati verið eðlilegasta niðurstaða hennar. Hún hefði líka getað komist að þeirri niðurstöðu að málið þyrfti að rannsaka frekar. Í framhaldi af því hefði hún getað kallað kennarann fyrir sig og óskað eftir skýringum hans á glærunum umdeildu. Hún hefði einnig getað óskað eftir því að nemendur sem tóku þátt í námskeiðinu svöruðu spurningum hennar. Enginn hefði getað fundið að slíkri málsmeðferð, hver svo sem niðurstaðan hefði orðið að henni lokinni.

En nefndin fór í kolranga átt. Hvers vegna var það svo afdrifaríkt? Undanfarna daga hafa glærur úr námskeiðinu verið á flakki um vefsíður og eðlilega hafa menn misjafnar skoðanir á þeim. Lykilatriði fyrir háskólakennara er hinsvegar að innihald kennslu og efni fyrirlestra verður ekki dæmt eftir glærum einum, jafnvel þó að glærur kunni að vekja spurningar. Glærur eru aðeins lítill hluti kennsluefnis og þær er hægt að nota á margvíslegan hátt. Þeim sem fást við að kenna heimspeki, guðfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og aðrar greinar hug- og félagsvísinda hrýs þessvegna hugur við að Háskólasamfélagið ljái máls á því að hægt sé að sakfella þá fyrir rangfærslur eða mistúlkun á grundvelli glæranna einna.

Þetta mál snýst því ekki um Vantrú eða þann kennara, Bjarna Randver Sigurvinsson, sem bjó til hinar umdeildu glærur. Það snýst um hvernig og á hvaða forsendum hægt er að réttlæta inngrip í kennslu á háskólastigi. Það snýst um akademískt frelsi. Það er kjarni málsins.

25 replies
 1. Matthías Ásgeirsson
  Matthías Ásgeirsson says:

  > “ Glærur eru aðeins lítill hluti kennsluefnis “

  Ekki í þessu tilviki. Í námskeiðinu voru 1700 glærur. Eitt þúsundn og sjö hundruð. Glærurnar voru uppistaðan í kennsluefninu.

  Höldum okkur við staðreyndir.

  Svara
 2. Valgarður Guðjónsson
  Valgarður Guðjónsson says:

  Í sjálfu sér get ég fallist á að akademískt frelsi er mikilvægt og það á að þurfa mikið til að gripið sé inn í kennslu. En í þessu tilfelli er að mínu viti nægjanlegt mikið athugavert við kennsluefnið til að réttlæta athugasemd til siðanefndar.

  Þú ert varla á þeirri skoðun að kennarar í Háskóla (eða á öllum námsstigum) megi ljúga hverju sem er upp á hvern sem er? Fara með rangfærslur að eigin geðþótta út og suður? Á ekki að gera neinar kröfur til faglegra vinnubragða?

  Siðanefnd hefur svarað hvers vegna hún reyndi fyrst að sætta og hvers vegna þær viðræður fóru fram við forseta deildarinnar í upphafi og að viðkomandi kennari var boðaður á fund nefndarinnar.

  Glærur eru varla lítill hluti kennsluefnis þó oftast komi meira til. Og þó svo væri myndi það kannski réttlæta að einungis væri stiklað á stóru en það réttlætir varla vísvitandi rangfærslur eins og í þessum glærum. Eða hvað?

  Ef glærurnar gáfu í raun ranga mynd af kennsluefninu hefði þá ekki verið einfalt að leysa málið með því að laga þær að umfjöllun?

  Það hefur svo komið fram að umfjöllun í kennslunni var að engu ólík því sem stóð á glærunum. Í skýringum sem kennarinn skilaði – hann fékk nefnilega að skila greinargerð – kemur fram að hann telur sig ekki fara rangt með á glærunum.

  Það er reyndar forvitnilegt að fylgjast með hamaganginum (úr hinum ýmsu áttum) við að „píslarvætta“ viðkomandi kennara.

  Ýmist fékk hann ekki að vita neitt eða hann var lagður í einelti. Stundum fékk hann ekki að skila greinargerð og í annarri útgáfu var ekki tekið mark á greinargerðinni sem hann skilaði. Hann var ekki boðaður á fund siðanefndar eða ákvað að mæta ekki þegar hann var boðaður.

  Þannig að ég spyr (aftur)… á hvaða forsendum og í hvaða tilfellum er réttlætanlegt að grípa inn í kennslu?

  PS. jú, ég er meðlimur í þessum allsherjarsiðaregluundangreftrarsamtökum Vantrú – og nú á viðkomandi kennari eftir að grípa þetta sem sönnun þess…

  Svara
 3. Carlos
  Carlos says:

  Magn glæra segir ekkert um mikilvægi þeirra fyrir kennslu, Matti og Valgarður. Miklu nær er að horfa til heimilda sem lagðar eru til grundvallar, þótt þær segi ekki alla söguna heldur. Aðferðafræðin að baki kærunnar og umræðu Vanrtúar er meingölluð af þeim sökum.

  Svara
 4. Hversemer
  Hversemer says:

  Vek athygli á því að hvorugur ofangreindra dánumanna, Matthíasar og Valgarðs, stunduðu nám hjá Bjarna og byggja skrif sín því á ágiskunum eins og trúaðra er siður.

  Svara
 5. Valgarður Guðjónsson
  Valgarður Guðjónsson says:

  Carlos, magn glæra gefur jú hugmynd um hversu mikið færi var á umfjöllun um hverja og eina. En um að gera að skoða þær heimildir sem lagðar eru til grundvallar, það er nú kjarni málsins, að innihaldi þeirra er víða snúið á haus í umfjöllun.

  Það er rangt „hversemer“ að við byggjum á ágiskunum, vísvitandi rangfærslur á glærum er nægt tilefni til athugasemda, fyrir utan að við höfum bæði við frásagnir nemenda og greinargerð kennara.

  Ég átta mig ekki á þessari þráhyggju að halda fram að kennarinn hafi getað kynnt málið á einhvern annan hátt en fram kemur á glærunum. Þær skýringar gætu staðist ef glærurnar væru ófullnægjandi.

  Það gleymist að á þeim eru vísvitandi rangfærslur og staðlausir stafir.

  Svara
 6. baddi
  baddi says:

  Jón. lestu gögn málsins, finnst þér þetta í lagi? Halldór súmmeraði fræðimennsku Bjarna Randvers ágætlega með mynd í Fréttablaðinu sem sjá má hér: http://www.vantru.is/2011/12/17/10.00/

  Svo heldur Bjarni Randver áfram að ljúga og skrumskæla það sem fólk segir og skrifar, meðal annars með afbökun á því sem sagt var á lokuðum spjallþræði Vantrúar. Á námskeiðinu var augljóslega logið um trúleysinga og þeir málaðir eins vondir og hægt er og vinnubrögð Bjarna Randvers eftir að kvörtunin var lögð fram einfaldlega staðfesta að svona eru vinnubrögðin hjá honum. Og þú, Jón, ert að verja svona vinnubrögð?

  Svara
 7. Matthías Ásgeirsson
  Matthías Ásgeirsson says:

  > „byggja skrif sín því á ágiskunum “

  Reyndar höfum við einning 200 bls. greinargerð kennarans, sem staðfestir það sem við settum út á, því greinargerðin inniheldur afar mikið af rangtúlkunum sem eru algjörlega í takt við það sem fram kemur á glærunum.

  Svara
 8. Rósa Halldórsdóttir
  Rósa Halldórsdóttir says:

  Þó leiðinlegt sé að þurfa að ræða um þroskastig miðaldra karla þá vil ég nú leggja orð í þennan belg.
  Nú er ég búin að lesa umræður um þetta mál í 4-6 vikur og finnst umræðuþroski Vantrúarmanna ótrúlega barnalegur og nefni eftirfarandi dæmi máli mínu til stuðnings:

  Hér segir Valgarður um kennarann:
  „Hann var ekki boðaður á fund siðanefndar eða ákvað að mæta ekki þegar hann var boðaður.“ (hér lítur úr fyrir að kennarinn sé einhver vingull sem segist ekki vera boðaður á fund en var boðaður og vildi ekki mæta!)
  Vitað er að í marga mánuði eftir að kæra Vantrúar barst siðanefndinni í upphafi vissi kennarinn ekki af málinu. Þegar hann fréttir af því, vill hann koma fyrir nefndina til að skýra mál sitt en fær ekki. Mörgum vikum eða mánuðum síðar, er kennarinn kominn með lögfræðing sem ráðleggur honum að mæta ekki á fund siðanefndar, loksins þegar siðanefnd hentar að boða kennarann til sín.

  Vantrúarmenn halda nú áfram að reyna að afvegaleiða umræðuna með þessum hætti. Barnalegt er ekki slæmt en það er slæmt að miðaldra karlmenn skuli haga sér með þessum hætti í umræðunni. Dæmi um barnaskapinn eru víða hjá þeim þar sem þeir hrauna yfir fólk en setja broskall á eftir. „Skilurðu ekki broskallinn?“ Svo fer umræðan út í það að lesandinn, sem móðgaðist yfir lesningunni, er svo mikið fífl að hann skilur ekki að broskall þýðir að þetta er ekki móðgun!

  Svara
 9. Valgarður Guðjónsson
  Valgarður Guðjónsson says:

  Rósa, mér leiðist reyndar þessi umræðuhefð að uppnefna og gera lítið úr viðmælanda, td. með tali um barnaskap.. og ekki kannast ég við að hafa hraunað yfir fólk.

  Kennarinn vissi fullvel af málinu frá upphafi, það er staðfest af forseta guðfræðideildar. Hann var boðaður en ákvað að mæta ekki. Siðanefnd hefur skýrt þetta ágætlega, bæði tímasetningar og annað og óþarfi að endurtaka hér. Kannski er hugmynd að kynna sér málin áður en farið er að býsnast yfir skoðunum annarra.

  Eftir stendur að kennarinn gerðist að mínu viti sekur um vísvitandi rangfærslur og ófagleg vinnubrögð. Bæði hann og guðfræðideild komu í veg fyrir að siðanefnd fjallaði um málið. Hvers vegna? Vissi hann upp á sig skömmina? Hann neitað meira að segja að sýna próf og úrlausnir nemenda. Hvers vegna?

  Rangfærslur í kennslu er kjarni málsins.

  Allt moldviðrið um hversu vondir einstaklingar Vantrúarmenn eru og almennar vangaveltur um akademískt frelsi eru til þess eins fallin að skauta yfir og drepa á dreif því sem þetta mál snýst um.

  Svara
 10. Þorgeir Tryggvason
  Þorgeir Tryggvason says:

  Allt sem þú skrifar er held ég rétt, nema kannski titillinn. „Kjarni málsins“ er þetta ekki.

  Vantrúarmenn hafa ansi góð rök fyrir því að málstaður þeirra og sjónarmið hafi verið afflutt í þessum kúrsi.

  Málsmeðferðin er glórulaus – það er rétt hjá þér – og helgast sennilega af panik-viðbrögðum þeirra sem sáu fram á að akademískum ferli Bjarna væri hætta búin.

  Það að akademískum ferli manna sé hætta búin ef þeir fá athugasemdir af þessu tagi segir okkur að það sé eitthvað mikið bogið við kerfið. Að fólk sem fjallað er um í samfélagsvísindageiranum geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér án þess að sýstemið fari í hnút segir okkur að það sé eitthvað að. Laga það, takk.

  Þangað til verður akademían að sætta sig við að fólk eins og vantrúarmenn noti kanalana sem til eru – og ættu ekki að skæla yfir því og tala um einelti og ofsóknir.

  aftur: Þessi grein er ekki partur af því rugli – hún er hluti af lausninni – en það er til marks um vandann sem skapast hefur af vangetu akademíunnar að meira að segja hér sjá vantrúarmenn sig knúna til að að tjá sig.

  Svara
 11. Vilhjálmur Árnason
  Vilhjálmur Árnason says:

  Algerlega samála þessum pistli.

  Svo er það eðlileg framvinda að ef einhver er talinn hafa sýnt ámælisverða frammistöðu. Þá er það lágmark að manneskjan fái að heyra gagnrínina og verja sig eða bæta frammistöðu sína.

  Siðanefnd gengur því framm í ósið frekar en sið. Almenn regla á vinnumarkaði um þroska starfsmanna í starfi.

  Siðanefnd fellur á stjórnunarprófi 101

  Svara
 12. Þorsteinn
  Þorsteinn says:

  Æj, er þetta ekki kjarni málsins?

  Þú sérð og allir sjá að þessar glærur eru til vitnis um kúrs sem er brandari. Það hefur lengi verið hvíslað innan HÍ að allir kúrsar inn á guðfræðideildinni sem ekki snúa að prestmenntun séu brandari – þar læri maður ekki neitt. Trúarbragðafræðipartur deildarinnar er ekki til – þar kenna prestar nemendum um óvininn, þ.e.a.s. önnur trúarbrögð og trúleysingja, með hótfyndni og þvælu.

  Svara
 13. Þorsteinn
  Þorsteinn says:

  En þetta er extrapólerað sem ógnun við alla kennslu með slippery slope röksemd. Það er svo sem gott og blessað, en verða þeir sem svo gera ekki að byrja á því að viðurkenna að þessar glósur eru til skammar? Því afneitunin á því lítur bara út eins og þvermóðska.

  Svara
 14. Harpa Hreinsdóttir
  Harpa Hreinsdóttir says:

  „[Þetta mál] snýst um hvernig og á hvaða forsendum hægt er að réttlæta inngrip í kennslu á háskólastigi. Það snýst um akademískt frelsi.“

  Þessu er ég algerlega sammála. Og spurningin er hvort eigi að taka hártoganir og móðgelsi pínulítils hóps (skráðir félagar í Vantrú eru 80-90 talsins, skv. upplýsingasíðu um félagið á Wikipediu, væntanlega saminni af einhverjum félagsmanni) sem snerta pínulítinn hluta námsefnis í heilum kúrsi sem gilt kæruefni/beiðni/erindi sem heyri undir siðanefnd HÍ. Sjá má eina útgáfu af kæru/beiðni/erindi Vantrúar hér:

  http://www.vantru.is/skrar/pepe.pdf

  Það er áhugavert að sjá hvernig hnýtt er í alger smáatriði í flestum tilvikum. Og hvernig stjórn Vantrúar / formaðurinn Reynir Harðason sálfræðingur þykist geta metið kennslu út frá glærum einum saman, sbr.:

  „Af þessum glærum að dæma er umfjöllun Bjarna um Vantrú því ekki einungis ófagleg heldur er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að tilgangur hennar sé beinlínis að rægja félagið og ala á fordómum í garð meðlima þess. Við höfum oft furðað okkur á ranghugmyndum kirkjunnar manna um okkur í Vantrú og málstað okkar (og eflaust er það gagnkvæmt) en lítil von er á nokkrum breytingum í þeim
  efnum ef sú fræðsla sem upprennandi guðfræðingar / trúarbragðafræðingar hljóta er í höndum Bjarna Randvers að óbreyttu.“

  Mér finnast þessi orð í kærunni/beiðninni/erindinu komast nokkuð nærri því að vera atvinnurógur um háskólakennara sem væntanlega reynir að innræta nemendum sínum gagnrýna hugsun.

  Kannski er merkilegast að í þessari umræðu sem verið hefur á flestum vefmiðlum og í sumum fjölmiðlum hefur hvorki heyrst né sést til mannsins sem skrifaði undir kæruna/beiðnina/erindið, þ.e. formanns Vantrúar, Reynis Harðarsonar. Af hverju tjáir hann sig ekki? Hann hefur ekki verið feiminn við það til þessa, t.d. eru ekki nema örfáir mánuðir síðan hann vakti töluverða athygli fyrir að kynna í fjölmiðlum afar umdeildar kenningar um falskar minningar, í tengslum við útkomu viðtalsbókar við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur.

  Hvar er maðurinn sem hratt hringekjunni af stað en kaus að stíga af (draga kæruna/erindið/beiðnina) til baka þegar markmiðinu var náð: Að koma Vantrú í sviðsljósið, hvað sem það kostar?

  Raunar dáist ég að því hversu vel honum tókst upp í leiknum, hvernig siðanefnd HÍ tók þátt, háskólakennarar mótmæltu með undirskriftasöfnun, nýr siðanefndarformaður tók við þessu máli og virðist strax farinn að gera ýmsar gloríur, og enn logar allt í illdeilum á netinu… en Reynir Harðarson er stikk frí.

  Þetta er afbrigði af sama leik og með fölsku minningarnar; Þar tókst Reyni Harðasyni að fá tvo presta til að bíta á agnið, nokkuð stóran hóp presta til að safna undirskriftum gegn hinum tveimur en í þeim leik neyddist félagi Reynis, formaður Sálfræðingafélags Íslands til að skakka leikinn enda mátti skilja orð Reynis sem róg í garð annars sálfræðings. Þetta er sem sagt í grunninn sama herbragðið: Finna tilefni til að skapa úlfúð eða deilur meðal andstæðinganna. Líklega skiptir Bjarni Randver litlu máli í svona plotti, hvað þá fótgönguliðar Vantrúar sem þenja sig á bloggtorgum. Málið að etja saman háskólamönnum, á kostnað guðfræðideildar og siðanefndar og eflaust einhverra fleiri en til auglýsingar fyrir Vantrú. Og það er ólíklegt að Pétur Tyrfingsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, sem hlotið hefur heiðursviðurkenningu Siðmenntar, skakki þennan leik. Aftur á móti mætti kannski bera hegðun Reynis Harðarsonar í þessum tveimur málum saman við siðareglur Sálfræðingafélags Íslands, þar starfar nefnilega líka siðanefnd 🙂

  Svara
 15. Hrannar
  Hrannar says:

  Ég er búinn að vera að lesa og lesa en get samt ekki myndað mér hvað er á seyði og hvað málið snýst um annað en einhverja blessaðri glæru

  fólk ætti að útskýra betur en að vera þrasa með einhverskonar dulkóða

  Svara
 16. Valgarður Guðjónsson
  Valgarður Guðjónsson says:

  Ertu nú alveg viss, Vilhjálmur?

  Siðanefnd hefur skýrt vinnubrögð sín. Fram hefur komið að viðkomandi kennari vissi af gagnrýninni frá upphafi og skilaði greinargerð.

  Getur ekki hugsast að menn séu of fljótir til varnar kennara og full ákafir til gagnrýni á siðanefnd? Að eitthvað hafi vantað á þá góðu reglu að kynna sér sjónarmið beggja aðila áður en afstaða er tekin?

  Nei, ég spyr nú bara svona. Að því er virðist út í loftið. Það er að minnsta kosti fátt um svör.

  Svara
 17. Matthías Ásgeirsson
  Matthías Ásgeirsson says:

  > „Og spurningin er hvort eigi að taka hártoganir og móðgelsi pínulítils hóps“

  Þetta er afar forvitnileg afstaða hjá Hörpu. Ef hópurinn er lítill á ekki að taka mark á honum. Það væri forvitnilegt að heyra álit síðueiganda á þessu.

  > „það er til marks um vandann sem skapast hefur af vangetu akademíunnar að meira að segja hér sjá vantrúarmenn sig knúna til að að tjá sig“

  Það er rétt. Ef Jón Ólafsson hefði sleppt því að gerast dómari í sjálfu málinu, með því að fjalla efnislega um það (kennsluefnið/glærurnar) þá hefði ég ekki gert hér athugasemd. Með því að gerast dómari finnst mér ég knúinn til að benda á hina hlið málsins.

  Svara
 18. Helgi Ingólfsson
  Helgi Ingólfsson says:

  Ég tek undir sjónarmið Hörpu Hreinsdóttur hér að ofan.

  Ég vil ennfremur vekja athygli á að einn ofangreindra Vantrúarmanna hefur sagt um okkur Hörpu að við ættum að „sleppa því að tjá okkur á veraldarvefnum“. Því var fylgt eftir með ýmsu sem mátti skiljast sem misduldar ógnanir.

  Svara
 19. Kristján Kristinsson
  Kristján Kristinsson says:

  Af hverju er Harpa stöðugt að gera lítið úr þeim sem hún er ekki sammála? Hrikalega ómerkilegur málflutningur hjá henni.

  Svara
 20. Gísli
  Gísli says:

  Góð spurning Kristján. Sömu spurningar er hægt að spyrja Helga.

  Allt með „kurteisi, vinsemd og virðingu “ en bakvið er hæðni, yfirlæti og dónaskapur.

  Svara
 21. Carlos
  Carlos says:

  Kannski Harpa fylgi „góðu“ fordæmi Vantrúarmanna og notar sama umræðuviðmótið og þeir nota á andstæðinga sína. Fyndið, Kristján Kristinsson, að það skuli hrökkva svona illa í þig.

  Svara
 22. jonolafs
  jonolafs says:

  Í þessu máli eins og iðulega gerist er hægt að mynda sér skoðun á tvennskonar forsendum: Í fyrsta lagi á forsendum málsmeðferðarinnar í öðru lagi á forsendum innihaldsins.
  Ég tel að allir ættu að geta fallist á að málsmeðferð Siðanefndar var meingölluð, enda hefur sérstök rannsóknarnefnd komist að þeirri niðurstöðu og sumir þeirra sem sátu í siðanefndinni í raun viðurkennt það.
  Það er hinsvegar önnur spurning hvort eitthvað sé athugavert við kennslu í umræddu tilfelli, hvernig fjalla megi um það og á hvaða forsendum rétt sé að skera úr um það.
  Sú spurning felur í sér mikilvægar almennar spurningar á borð við þá hvort hægt sé að fordæma glærur eða glærunotkun kennara, að hve miklu leyti utanaðkomandi aðilar geta skipt sér af kennslu í háskólum osfrv. Það væri gott að geta átt umræður um slíkt án þess að henni fylgdi skítkast á tiltekna deild eða tiltekinn kennara.
  Mér fyndist málflutningur Vantrúar mun áhugaverðari ef hann fléttaðist ekki saman við fullkomlega forkastanlegar ofsóknir gagnvart einum kennara ásamt ummælum um kennslu hans sem eru fjarri öllum sanni, eða, í besta falli, byggðar á misskilningi.
  Ég þekki Bjarna Randver ekki náið persónulega en ég hef fylgst með því sem hann er að gera í sinni fræðimennsku í mörg ár og tel hann toppmann á sínu sviði. Námskeiðið umdeilda er að mínu mati dæmi um framúrskarandi vel skipulagt og ítarlegt námskeið (ég sótti það ekki, en hef kynnt mér gögn um það. Einnig hefur Bjarni kennt sambærilegt námskeið við Háskólann á Bifröst þar sem ég starfa). Nemendur hans sem ég hef lesið greinargerðir frá og rætt við (bæði af Bifröst og úr HÍ) hafa tekið undir það mat með mér. Ég hef aldrei hitt neinn nemanda Bjarna sem hefur sakað hann um einhliða málflutning, áróður eða ósanngirni í garð félaga eða einstaklinga.
  Að svo mæltu óska ég ykkur öllum árs og friðar.

  Svara
 23. Matthías Ásgeirsson
  Matthías Ásgeirsson says:

  > „Mér fyndist málflutningur Vantrúar mun áhugaverðari ef hann fléttaðist ekki saman við fullkomlega forkastanlegar ofsóknir gagnvart einum kennara ásamt ummælum um kennslu hans sem eru fjarri öllum sanni, eða, í besta falli, byggðar á misskilningi.“

  Þetta er einfaldlega rógburður Jón. Engar „ofsóknir“ áttu sér stað og ummælin um kennsluna standast einfaldlega rýni, sérstaklega í ljósi þess að Bjarni Randver staðfestir þau í greinargerð sinni.

  > „Ég hef aldrei hitt neinn nemanda Bjarna sem hefur sakað hann um einhliða málflutning, áróður eða ósanngirni í garð félaga eða einstaklinga.“

  Hafa þessir nemendur forsendur til að dæma til um það í þessu máli.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *