Jónsbók er stórmerkileg bók. Höfundurinn lætur að því liggja undir lok hennar að hann hafi tekið talsverða áhættu með því að skrifa hana, með því hneyksli hann marga, sem telji hann fórna listamannsheiðri sínum „við að mála helgimynd af illræmdum skíthæl“ (472). Myndina sem Einar Kárason dregur upp í bókinni má vissulega sjá sem ákveðna tegund af helgimynd, sé það haft í huga að á helgimyndum eru ekki aðeins helgir menn, þar er líka að finna engla, djöfla, svikara, hræsnara og ýmsa fleiri.
Það má skipta þessari bók í tvo hluta, nokkurnveginn jafnlanga. Í fyrri hlutanum er persóna Jóns Ólafssonar mótuð, en í hinum síðari segir af íslensku fjármála- og athafnalífi á síðasta áratug 20. aldar þar sem Jón leikur lykilhlutverk. Bókarhlutarnir eru nátengdir: Til að skilja hvernig Jón Ólafsson hagar sér og bregst við í darraðadansinum í kringum Stöð tvö og það sem síðar kom, þarf fyrst að skilja þá samsetningu hans sem fyrrihlutinn lýsir.
Einar byggir karakter sinn upp í kringum nokkur leiðarstef. Það sem birtist fyrst, og er mest áberandi, er stefið um villinginn sem í raun er enginn villingur þegar að er gáð, heldur bara greindari en margir í kringum hann, hugmyndaríkari og orkumeiri, kannski óheflaðri. Næsta stef er ótvíræðir leiðtoga- og samskiptahæfileikar og náttúrlegt viðskiptavit. Þá kemur stefið um samningshörku og gróðahug sem stundum virðist ryðja öllu öðru úr vegi, því næst stefið um ljúfmennsku og hollustu við vini og vandabundna og loks stefið um hinn heiðarlega glæframann: Manninn sem tekur oft mikla áhættu – er tilbúinn til að taka slaginn, en líka til að taka afleiðingum. Öll stefin byggjast upp í fyrrihlutanum og fléttast þar saman, en eru svo síendurtekin saman eða hvert í sínu lagi, eins og viðlög við einstaka atburði.
Jónsbók er engin hefðbundin ævisaga. Í fyrsta lagi beitir Einar fyrst og fremst list frásagnarinnar við að skapa karakter sem auðvelt er að skilja og fá samúð með. Í öðru lagi byggir hann bókina nánast algjörlega á spjalli við fjölda fólks sem þekkt hefur Jón í gegnum tíðina og átt samskipti við hann. Í þriðja lagi er nærvera Einars sjálfs í bókinni tvíræð. Hann vísar til sjálfs sín og samtala sinna við heimildamenn á sama hátt og sögumaður. Á stöku stað verkar frásögnin á mann á svipaðan hátt og um tilbúna persónu væri að ræða, svona eins og þegar sögumaður segist hafa fundið heimildir um söguhetjuna eða byggir frásögn upp á skálduðum viðtölum.
Það má segja Einar Kárasyni til hróss að honum tekst að gera sannfærandi sögupersónu úr sínum manni. Á helgimyndinni af Jóni er margvísleg togstreita og barátta sem Einar leysir ekki úr nema að hluta. Kristshliðstæðan er óhjákvæmilega sterkur þáttur í bókinni og ekki bara fyrir áherslu á trúrækni Jóns í bernsku, messusókn og gæsku, heldur einnig og ekki síður fyrir leiðtogahæfileikana. Jón er alltaf dálítið til hliðar við aðra, útundan að vissu marki en um leið sá getur leitt hópinn þegar á reynir. En sá sem safnar liði er ekki endilega frelsarinn – hann getur líka verið kölski sjálfur eða einhver útsendari hans. „Fylgdu mér, og þú munt verða ríkur“ (187) hefur gamall samstarfsmaður eftir Jóni. Í setningunni hljóma saman hin ólíku tilboð frelsarans og freistarans og í bakgrunninum hringlar í silfurpeningum Júdasar.
Síðari hluti bókarinnar um átökin í kringum Jón, einkum sviptingarnar um Íslenska útvarpsfélagið, er reifarakenndur og þar tekst Einari að setja nýlega atburði í íslensku viðskiptalífi í ófagurt samhengi sem þó er ekki að öllu leyti óvænt. Leiðarstefin úr fyrri hlutanum fylgja Jóni og skýra iðulega þátt hans en um leið dregur Einar upp ljóslifandi mynd af fjörbrotum hins pólitíska valds í íslensku viðskiptalífi. Hvað eftir annað birtist Jón sem hinn óbrotni og oft óheflaði bisnissmaður sem teflir stöðugt gegn valdaklíkunum að hluta til vegna þess að hann fylgir hinum einföldu línum viðskiptanna gegn hagsmunum þeirra sem telja sig eiga heimtingu á að stýra atburðarás fjármála og fjölmiðlunar, og að hluta vegna þess að hann fær ekki að vera með, er útskúfaður úr samfélagi heldri manna. Og það er sama hvernig skákin er tefld, útskúfun Jóns verður stöðugt meiri og afdráttarlausari þar til svo er komið öll viðskipti og samstarf við hann er áhætta sem enginn vill taka.
Jónsbók er mótsagnakennd saga og að mörgu leyti eru mótsagnirnar helsti kostur bókarinnar. Auðvitað má spyrja um hana eins og aðrar ævisögur og frásagnir úr samtímanum hversu trúverðug hún sé þegar upp er staðið. En Einar velur sér stíl sem í vissum skilningi sniðgengur spurningar um trúverðugleika. Hann fylgir sínum manni allt til enda, ekki síst þegar hann stendur gagnvart rógburði og að því er virðist vísvitandi lygum æðstu ráðamanna. Kannski er áhætta Einars af helgimyndinni ekki eins mikil og í fyrstu kann að virðast því hér fara hagsmunirnir saman, sögumannsins og athafnamannsins.

Jónsbók. Saga Jóns Ólafssonar athafnamanns. Einar Kárason, 500 bls., Mál og menning, Reykjavík, 2005.
Birt í Morgunblaðinu 6. desember 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *