Hrunið hefur orðið íslensku háskólasamfélagi mjög gjöfult. Ég hef ekki tölu á fræðigreinum og bókum sem nú þegar hafa verið skrifaðar um hrunið, afleiðingar þess, aðdraganda eða einhverja þætti þess. Guðni Th. Jóhannesson var líklega fyrstur með einskonar heildarúttekt á hruninu 2009 með samnefndri bók og núna á síðustu tveimur árum hafa þekkt alþjóðleg forlög gefið út að minnsta kosti fjórar bækur um hrunið, Palgrave gaf út bækur Eiríks Bergmanns og Guðrúnar Johnsen en í þeim eru fyrst og fremst raktir ákveðnir þættir aðdraganda hrunsins. Tvær bækur hafa komið út hjá Routledge á þessu ári: Iceland’s Financial Crisis. The politics of blame, protest and reconstruction sem er greinasafn í ritstjórn Vals Ingimundarsonar, Irmu Erlingsdóttur og Philips Urqualino og bók Jóns Gunnars Bernburg, Economic Crisis and Mass Protest. The Pots and Pans Revolution in Iceland.
Þessi fræðilega gróska er auðvitað íronísk í vissum skilningi. Fyrir hrun var viðskiptavit íslensku útrásarvíkinganna talið leiðandi á heimsvísu. Þjóðin lifði sig meira og minna inn í þá fantasíu að Íslendingar hefðu eiginleika sem gerðu þá á að forystuþjóð í flestum greinum, sérstaklega fjármálum. Jafnvel virðulegir háskólamenn létu sig dreyma vota drauma um vellauðugt Ísland framtíðarinnar. Þessi ímynd hrundi sem betur fer fyrir fullt og allt í hruninu. En á móti kemur að hrunið hefur gefið íslensku háskólafólki einstök tækifæri til að láta til sína taka í alþjóðlegum fræðaheimi. Bækurnar sem ég nefndi eru aðeins lítið dæmi um það. Jón Gunnar lýsir þessari hlið hrunsins skemmtilega snemma í sinni bók þegar hann segir frá eigin angist gagnvart þeirri óvissu og óöryggi sem hruninu fylgdi, og frá gleðinni við að uppgötva að hversu mögnuð rannsóknaverkefni þessar aðstæður færðu honum í hendur.
Bækurnar fjórar eru allar tilraun til að taka hrunið og þjóðfélagsástandið hér á Íslandi fyrir og eftir, fræðilegum tökum. Þær velta upp mikilvægum hliðum þess og sýna annars vegar hvernig hægt að nýta ýmsar kenningar félags- og hugvísinda til að greina og skýra það sem gerðist, hins vegar sérstöðu íslenska hrunsins, sem líkt og arabíska vorið hefur orðið sérstakt rannsóknarefni og hefur því um leið áhrif á fræðilega umræðu um þjóðfélagshræringar. Þannig hefur veruleiki hrunsins haft áhrif á fræðin á óvæntan hátt og fræðimennirnir um hrunið skapað sér stöðu í fræðaheiminum sem íslensku stjórnendurnir þráðu í fjármálaheiminum og töldu jafnvel innan seilingar þegar allt fór á versta veg.

Stjórnvöld afhjúpuð án þess að skilja það
Það leið ekki á löngu eftir hrunið áður en farið var að hafa horn í síðu þeirra sem vildu greina það, rannsaka og reyna að draga lærdóma af því. Það var varla um garð gengið þegar þær raddir fóru að heyrast að betra væri nú að horfa fram á við en að vera alltaf í baksýnisspeglinum. Bók Jóns Gunnars sýnir ágætlega fram á hversu mikilvægt það er einmitt að horfa til baka og reyna að skilja það sem gerðist í hruninu og ekki síður hvernig samfélagið brást við hruninu. Í bókinni er fyrst og fremst byggt á kenningum um félagshreyfingar til að greina og skýra það sem gerðist í hruninu. Meginspurningin varðar tengslin á milli fjármálakreppunnar og fjöldamótmælanna í kjölfarið: Hvers vegna leiddi kreppan til mótmæla af þessari stærðargráðu – nægilega öflugra til þess að ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum?
Það kann vel að vera að sumum finnist þetta einfeldningsleg spurning – þegar horft er í baksýnisspegilinn finnst manni jú stundum að ekkert annað en það sem gerðist hefði getað gerst. En staðreyndin er sú að fjölmörg lönd hafa gengið í gegnum stórkostlegar efnahagskreppur án þess að þær hafi haft slíkar afleiðingar – án fjöldamótmæla.
Þegar viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hruninu eru skoðuð í dag blasir hið fullkomna skilningsleysi ráðamanna við á aðstæðunum sem höfðu skapast í samfélaginu. Þeir áttuðu sig ekki á þeirri grundvallarviðhorfsbreytingu sem varð á fáeinum dögum þegar í ljós kom að bankarnir voru í raun og veru að hrynja, og að þvert ofan í það sem haldið hafði verið fram, voru stjórnvöld búin að missa tökin á nokkrum grunnþáttum efnahagskerfisins.
Jón Gunnar bendir á að ástandið krafðist þess að samfélagið og einkum samband stjórnvalda og almennings væri endurskoðað og endurskilgreint. Þetta skapaði þörf fyrir orðræðubreytingu. Tómarúmið sem myndaðist skýrir að hluta hvernig á nokkrum vikum komu fram nýjar hreyfingar sem sköpuðu næyjan pólitískan verueika. Hrakfarirnar voru settar í samhengi pólitískrar spillingar, óheftrar nýfrjálshyggju og þöggunar og almenningur greindur sem fórnarlamb. Trúverðugleikamissir Íslendinga í aþjóðlegu samhengi og ógnanir við fullveldi landsins urðu sömuleiðis áberandi þemu í opinberri umræðu. Þessi grundvallarbreyting á orðræðu stjórnmálanna gat af sér pólitískt samhengi þátttöku og aktívisma og það merkilega er að þessi breyting virðist varanleg, þótt mótmælin hafi fjarað út eftir stjórnarskiptin. Afhjúpunin sem svipti stjórnvöld lögmæti strax haustið 2008 loðir við síðari ríkisstjórnir líka. Þemun sem tóku sér bólfestu í stjórnmálaorðræðu við hrunið og beindust að stjórnvöldum sem talin voru bera ábyrgð á hruninu, hafa einkennt pólitíska gagnrýni áfram og grafið undan ríkisstjórnum síðan – kannski einkum vegna þess að síðari ríkisstjórnir hafa ekki – ekki frekar en sú sem sat haustið 2008 – gert sér grein fyrir þeirri grundvallarbreytingu á samfélaginu sem hrunið olli.

Falskt öryggi og meint skaðleysi almennings
Jón Gunnar kemst í bók sinni að nokkrum athyglisverðum niðurstöðum sem draga enn fremur fram pólitískan veruleika hrunsins. Hann bendir í fyrsta lagi á að persónulegar efnahagslegar þrengingar hafi ekki haft mikil áhrif á mótmælahegðun. Sá hópur sem segja má að hafi verið líklegri til að taka þátt í mótmælum vegna eigin stöðu voru þeir sem töldu sig hafa farið verr út úr hruninu en aðrir en þessi hópur er innan við 20% heildarinnar. Þátttakan var mjög almenn og úr öllum þjóðfélagshópum. Í öðru lagi var stærð kreppunnar slík að stjórnvöldum reyndist ómögulegt að halda því fram að hún væri bara afleiðing alþjóðlegrar fjármálakreppu. Það er kannski þessi trúnaðarbrestur sem er upphaf trúnaðarrofsins á milli almennings og stjórnvalda sem hrunið hafði í för með sér og sem hefur alls ekki gengið til baka. Þegar almenningur hefur einu sinni gengið í gegnum þessa reynslu, að sjá stjórnvöld bregðast fullkomlega, þá breytist eitthvað varanlega.
Það virðist vera eitt einkenni á íslensku samfélagi fyrir hrun að traust á stofnunum var mjög mikið. Stjónvöld nutu þannig trausts þegnanna sem gerði að verkum að ekki þurfti að óttast ofbeldiskennd eða ógnandi mótmæli. Þessu er stundum lýst á þann hátt að Íslendingar hafi ekki haft neina mótmælahefð. Þótt það sé auðvitað umdeilanlegt (við eigum mörg dæmi um umfangsmikil og jafnvel dramatísk mótmæli) þá kann þetta mikla traust líka að hafa orðið til þess að skapa falskt öryggi – stjórnvöld, ekki síst eftir langa valdatíð Davíðs Oddssonar, hafi einfaldlega trúað því að almenningur væri skaðlaus – gæti aldrei ógnað valdi þeirra.

Hvenær leiðir breytt vitund til breyttra stjórnmála?
Pólitískt samhengi eftirhrunsáranna mótast af hruninu. Þó að bók Jóns Gunnars fjalli aðeins um mánuðina frá hruni að og fram að stjórnarskiptum, þá endurspegla niðurstöður hans pólitískan veruleika sem hefur ekki breyst í grundvallaratriðum frá því í janúar 2009. Sjúkdómsgreiningin á íslenskum stjórnmálum og íslensku lýðræði sem hrunið kallaði fram er í fullu gildi og það er enginn skortur á gerendum – leiðtogum og hreyfingum – sem sá í þann jarðveg. Þetta hefur breytt pólitísku hegðunarmynstri á þann veg að bein afskipti almennings af stjórnvöldum er nánast orðin hefð: Þegar ríkisstjórnin ætlar sér að láta þingið samþykkja ályktun um endanleg slit á umsókn um aðild að Evrópusambandinu þá skapast tímabundið stríðsástand í samfélaginu. Þegar forsætisráðhera reynist tengdur eignum í skattaskjóli þá neyðist hann til að segja af sér vegna mótmæla almennings. Hrunið gerði almenning að beinum þátttakanda í pólitískum ákvörðunum og það er veruleiki sem stjórnvöld virðast enn ekki hafa skilið.
Kannski er ástæða þess sú að hingað til hafa þeir hópar sem komu fram á sjónarsviðið sem pólitískir gerendur eftir hrunið í rauninni aldrei fengið nein völd. Flokkarnir sem hafa setið í ríkisstjórnum frá 2009 eru Samfylking, Vinstri Græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur – fjórflokkurinn með öðrum orðum. Það kann að vera að þegar hópar sem deila pólitískri sjálfsvitund hrunsins komast í raunverulegar áhrifastöður, verði loksins til einhver skilningur innan stjórnkerfisins á því hverju hrunið og búsáhaldabyltingin breyttu í raun og veru.

Mikilvægi baksýnisspegilsins
Staðreyndin er náttúrlega sú, og um það bera frásagnir hrunsins, sem hefur verið safnað í fræðilegum tilgangi, skýrt vitni, að hrunið breytti lífum fólks ekki vegna þeirra efnahagslegu áhrifa sem það hafði heldur vegna þess að það breytti heiminum – breytti öllu, ef svo má að orði komast. Fólki fannst það skyndilega lifa í allt öðru samfélagi en áður. Samfélagið fyrir og eftir hrun er í einhverjum djúpum, persónulegum skilningi, tvennt ólíkt.
Að þessu leyti er ekki fráleitt að leita hliðstæðna íslenska hrunsins í falli kommúnismans í Austur-Evrópu. Stjórnvöld missa lögmæti í augum borgaranna og um leið getuna til að beita valdi. Traust á stjórnvöldum sem gufar upp birtist í því að fólk treystir hvert öðru betur. Í stað þess að trúa málflutningi stjórnvalda, leita upplýsinga í hinum hefðbundna fjölmiðli, treysta á stöðugleika og faglegheit stofnana verður næsti maður og samkoma götunnar í senn vettvangur og uppspretta upplýsinga. Samtal við næsta mann á félagsmiðlum eða úti á götu – samskipti jafningja – taka við af hefðbundnu stýringarsambandi stjórnvalda og borgara.
Allar þær rannsóknir sem hrunið gaf tilefni til og sem við erum nú að sjá afraksturinn af í bókum og fræðigreinum draga æ betur fram hve mikilvægt að er að halda áfram að horfa í baksýnisspegilinn. Mótmælin á Íslandi voru ekki orsök mótmæla annarsstaðar í heiminum, en þau voru með fyrstu merkjum um að pólitískur veruleiki víða um heim væri að breytast. Þess vegna er líka mjög mikilvægt að gera ekki lítið úr hruninu eða láta eins og það sé um garð gengið. Hrunið breytti pólitískri vitund og var því algjör vatnaskil. En það merkilega er að á átta árum hefur þessi breyting á almenningi einhvern veginn ekki skilað sér í viðeigandi breytingum á stjórnmálum og stjórnkerfi.
Það hlýtur að koma næst.

Upphaflega birt í Stundinni #31, 22. september 2016. Sjá vefútgáfu: