Bók Þórs Sigfússonar um íslenskt viðskiptalíf á tímum hnattvæðingar er tvennt í senn: Hún er ein samfelld vörn fyrir alþjóðlegum stórfyrirtækjum og lýsing á því hvernig íslensk fyrirtæki geta tengt sig við heim stórfyrirtækjanna og jafnvel sjálf orðið alþjóðleg stórfyrirtæki. Þór sér engar hættur á vegi stórfyrirtækja, aðrar en þær sem lúta að lélegum rekstri og röngum ákvörðunum. Hið heilbrigða og vel rekna stórfyrirtæki sem hefur náð út yfir takmarkanir landamæra er hugsjón og framtíðarsýn sem hann telur leiðtogum fyrirtækja mikilvægt að skilja og stefna að.
Straumhvörf er einfalt lítið yfirlit yfir þá stórstiga þróun sem hefur orðið á síðustu árum þegar nokkur umsvif Íslendinga í viðskiptum á erlendum vettvangi hafa margfaldast á mjög stuttum tíma og fjárfestingar Íslendinga erlendis vaxið úr 20 milljörðum íslenskra króna í 300 milljarða (54-55).
Þór reynir að slá á tvennskonar efasemdir um þetta íslenska efnahagsundur.
Annarsvegar eru efasemdir viðskiptalegs eðlis um fjárfestingar og viðskiptahegðun Íslendinganna. Það mun víða vera litið svo á að það sem hér hefur gerst á undanförnum árum sé loftbóla sem á eftir að springa með ófyrirséðum afleiðingum. Þó að Þór færi ekki bein rök gegn þessari skoðun andmælir hann henni í raun með því að setja íslensk fyrirtæki í alþjóðlegt samhengi og benda á að árangur þeirra varðar fyrst og fremst hvernig þau leysa úr vandkvæðum sem alltaf koma upp í viðskiptum. Þó að stundum sé djarft teflt er ekkert sem segir að íslensk fyrirtæki séu háð einhverri loftbólu sem muni á endanum springa. Allt fer þetta eftir því hvernig mönnum tekst að vinna úr sínu. Þessi hlið bókarinnar er bæði upplýsandi og sannfærandi.
Hinsvegar eru efasemdir af pólitískum og siðferðilegum toga sem Þór andmælir beint. Slíkar efasemdir varða til dæmis hinn klassíska vanda láglaunasvæðanna og eru hluti af almennum efasemdum um ágæti hnattvæðingar. Íslendingar hafa svo dæmi sé tekið náð nokkrum árangri í Kína og hópur íslensks athafnafólks rekur fyrirtæki í þar, sum með fjölda innlendra starfsmanna. Sú spurning hlýtur hinsvegar að vakna hvernig hægt sé að réttlæta það siðferðilega að láta þetta kínverska starfsfólk sæta kjörum og meðferð sem að vísu er algeng þar í landi, en brýtur nokkuð augljóslega í bága við almennt siðferði – og lög – hér á landi. Þór réttlætir slíkt með þeim einfalda hætti sem einkennir bókina: Kínverjar hagnast á þessu þegar til lengri tíma er litið. Erlend fyrirtæki hafa það mikinn virðisauka í för með sér að það er vel hægt líta svo á að að báðir aðilar græði. Valkosturinn er að íslensk og önnur vestræn fyrirtæki leggi starfsemi í Kína niður, en þá væri þetta ódýra vinnuafl enn verr á vegi statt.
En það er hér sem Þór bregst bogalistin. Jafnvel þó að maður fallist á fyrri andmælin er ekkert sem segir að mður þurfi líka að fallast á hin síðari. Því miður er alltof algengt að þeir sem skrifa, fullir hrifningar, um hnattræna þróun viðskipta, vísi öllum efasemdum frá sér sem andstöðu við hnattvæðingu. En hvað er það annað en groddanytjastefna, og minnir helst á það England 19. aldarinnar sem sjá má í sögum Dickens, að réttlæta framferði stórfyrirtækja í Kína með því að þrátt fyrir allt sé það líklegast til að hjálpa Kínverjum þegar til lengri tíma er litið?
Bók Þórs er léttilega skrifuð og gefur ferska yfirsýn yfir straumana í íslensku og alþjóðlegu viðskiptalífi. Hún er ágæt lesning fyrir þá sem vilja fá glaðbeitta og fjörlega lýsingu sem fræðir, en hafa ekki of gagnrýna afstöðu til efnisins. Þór vinnur út frá hugmyndafræði hins alþjóðlega stórfyrirtækis og sér hnattvæðingu í því ljósi. Og hann er fullur kæti fyrir fegurð heimsins.

Straumhvörf. Þór Sigfússon, 142 bls., Mál og menning, Reykjavík, 2005.
Birt í Morgunblaðinu 23. desember 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *