Við lifum flest afskaplega þægilegu lífi í þessu landi. Það er ekki þar með sagt að allt sé í fullkomnu lagi, fjarri því, en það er þrátt fyrir allt algjör undantekning að fólk hafi ekki aðgang að rennandi vatni, eigi ekki kost á lágmarkshreinlæti eða skorti úrræði til að nærast sæmilega. Allir, eða næstum því allir, kunna ekki bara að lesa heldur hafa þokkalega undirstöðumenntun ásamt hugmynd um réttarstöðu sína og grunnþekkingu á umheiminum. Við búum við almenna velferð í formi menntakerfis, heilbrigðisþjónustu og almannatrygginga. Það er erfitt að ímynda sér að nokkur vilji að þessum grundvallargæðum verði stefnt í hættu, jafnvel ekki hörðustu frjálshyggjumenn, sem af prinsippástæðum eru þó á móti því að hið opinbera taki að sér að tryggja slík gæði.

Frjálshyggjumenn eru því í furðulegri stöðu. Þeir vita að það er algjör jaðarskoðun að hið opinbera eigi að hætta að veita þjónustu sem það hefur veitt um árabil og sem er því orðin hluti af eðlilegum væntingum fólks til samfélags síns. Þeir leggja því fæstir til að skólakerfið verði lagt niður eða heilbrigðisþjónusta aflögð – sem þó er hin rökrétta afleiðing skoðana þeirra.

En hvað vilja þeir þá í staðinn? Úr því að ekki gengur að láta leggja niður almannaþjónustu, vilja þeir einkavæða hana. En hvernig í ósköpunum er hægt halda að einkavædd almannaþjónusta jafngildi því að slík þjónusta sé þar með rekin á forsendum einkaframtaks– eða með öðrum orðum, hvers vegna halda frjálshyggjumenn að slík einkavæðing dragi úr umsvifum eða kostnaði ríkisins?

Þegar þjónusta, sem borgararnir eiga samkvæmt lögum eða stjórnarskrá rétt á að hið opinbera veiti þeim er einkavædd, gerist ekki annað en að í stað þess að ríki eða sveitarfélög annist rekstur þeirra stofnana sem þjónustuna veita, greiðir hið opinbera einkaaðilum fyrir að veita hana. Vissulega getur aukið svigrúm skapast við einkareksturinn, eins og að einstaklingar geti greitt mismikið fyrir þjónustuna sjálfir og þar með ráðið einhverju um hversu mikla þjónustu þeir fá og svo framvegis. En það er langur vegur frá því að setja almannaþjónustu með þessum hætti í hendur einkaaðila og að hætta almannaþjónustu, sem einkaaðilar gætu þá veitt gegn því gjaldi sem þeir kjósa að leggja á hana.

Þegar einkaaðilar veita þjónustu sem allir eiga að einhverju marki rétt á, eins og heilbrigðisþjónustu, skapast sú skrítna staða, að sá sem veitir þjónustuna hefur mest áhrif á að ákvarða magn hennar og gæði. Þar sem sá sem veitir þjónustuna hagnast mest á því að þjónustan sé sem mest eru hagsmunir hans fólgnir í því að gera sem allra mest fyrir viðskiptavininn þar sem það skilar honum eða henni mestum tekjum. Það kann að vera að í heilbrigðiskerfinu fari þetta í mörgum tilfellum einnig saman við hagsmuni sjúklingsins, en því fer þó fjarri að það sé reglan. Vandinn sem þetta skapar er einfaldur og klassískur: Einkavædd heilbrigðisþjónusta í velferðarríki þýðir að læknar og annað heilbigðisstarfsfólk hefur hag af því að hámarka slíka þjónustu. Samfélagið, og þeir sem þjónustunnar njóta þar á meðal, hafa hins vegar hag af því að hún sé í sem bestu samræmi við þörfina sem fyrir hana er. En hvernig er hægt að leggja mat á þörfina?

Það væri frábært ef þessari spurningu væri auðsvarað. Frjálshyggjumaðurinn reynir auðvitað að halda því fram að sjúklingurinn meti það best sjálfur, en það er augljóslega ófullnægjandi svar. Í fyrsta lagi er sjúklingurinn alltaf háður sérfræðingnum um bæði greiningu og úrræði og í öðru lagi er val alltaf málum blandið þegar í húfi er velferð og heilbrigði manns sjálfs eða nákominna og því erfitt að þurfa að velja um misgóða eða misdýra kosti.

Það er býsna algengt að heyra frjálshyggjufólk láta þá skoðun í ljósi að velferðarsamfélagið úthluti fólki gæðum (til dæmis í formi bóta) sem það eigi engan rétt á og í mörgum tilfellum alls ekki skilið að fá. Ágreiningurinn stafar af ólíku mati á þörf og hið einfalda svar frjálshyggjunnar við þeirri spurningu er að besta matið á þörf manns á þjónustu birtist í upphæðinni sem hann er tilbúinn til að greiða fyrir hana. Ef um er að ræða dýrari þjónustu en svo að fólk borgi hana beint úr eigin vasa, getur þörfin komið fram í ákvörðun um til dæmis tryggingar.

En það merkilega er að andúðin á því að fólk eigi kost á bótum eða verðmætri þjónustu hins opinbera leiðir ekki til neinnar andúðar á því að þeir aðilar sem hafa tekið að sér að veita almannaþjónustuna geti að miklu leyti skammtað sér verkefnin fyrir hana. En þannig virðist buna úr tveimur krönum frekar en einum: Í einkavæddri heilbrigðisþjónustu eru hagsmunirnir einkaaðilanna líka þeir að fólk fái sem allra mestar bætur og eigi sem ríkasta kröfu á endurgreiðslu hins opinbera á þjónustu.

Staðreyndin er sú að spurningunni um þörf er vandsvarað og kannski er ekkert endanlegt svar til við henni. Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnmála er einmitt að stöðugt sé tekist á um kerfin sem geta tryggt jafnvægi gildanna sem mestu skipta í samfélaginu, s.s. frelsis, jöfnuðar, gagnsæis, ráðdeildar og heilinda, svo eitthvað sé nefnt.

Því miður er eitt af einkennum íslenskra stjórnvalda (og þá er sama hvort þau eru hverju sinni til vinstri eða hægri) að taka ekki á ýmsum grunnspurningum af þessu tagi. Þetta er kannski eitt helsta vandamálið í íslenskri pólitík. Mörg dæmi mætti taka, en almennt má segja að þegar um almannaþjónustu er að ræða þurfi fyrst og fremst að tryggja að mörg sjónarmið komi til umræðu um hversu mikil hún eigi að vera, hvernig eigi að veita hana, hvaða réttur eigi að vera til hennar og hver mörk hennar eigi að vera.

Það getur vel verið að í öguðu samfélagi sé hægt að fela einkaaðilum að sjá um ákveðna hluta almannaþjónustu án þess að veruleg hætta sé á spillingu, en það á því miður ekki við um þetta samfélag hér. Enda eru þeir frjálshyggjumenn sem mest ber á í íslenskri pólitík engir sérstakir frjálshyggjumenn, heldur fyrst og fremst málsvarar alls kyns prívathagsmuna. Það er ekkert að einkarekstri á hvaða sviði sem vera skal. Vandamálið er að skilja á milli þess sem ríkið ber ábyrgð á og þess sem er alfarið í höndum fólks sjálfs. Ef einkaaðilar eiga að taka við þjónustu en ríkið ber eftir sem áður ábyrgð á henni skapast hvati til spillingar sem sannir frjálshyggjumenn ættu að hafa miklar áhyggjur af.

Birt í sjöunda tölublaði Stundarinnar 29. júlí 2015. Sjá vefútgáfu: http://stundin.is/pistill/islensk-frjalshyggja-i-krisu/