Í ritdómi mínum um bók Guðna Th. Jóhannessonar sem birtur var í Lesbók Morgunblaðsins 23. desember síðastliðinn sagði ég að kalda stríðið hefði verið ímyndað stríð. Með því átti ég við að það hefði snúist um möguleg stríðsátök frekar en eiginleg átök, um viðbrögð, áætlanir, ógnir og ótta. En ímynduðum stríðum lýkur ekki á sama hátt og eiginlegum stríðum. Enginn samdi frið þegar kalda stríðinu lauk og því er ekki skrítið að hugir þeirra sem lifðu sig sterkast inn í kalda stríðið á sínum tíma séu enn helteknir af ímyndum þess. Þannig er um Björn Bjarnason og því dettur honum ekki annað í hug en að þeir sem halda fram öðrum skoðunum en hans á persónum og atburðum kalda stríðsins séu annað hvort að grínast eða hafi annarlegan tilgang með málflutningi sínum. Björn krefst þess jafnvel að fjölmiðlar stundi sjálfsritskoðun til að tryggja að einungis sjónarmið hans fái að koma fram og átelur þá harðlega sem hlíta því ekki. Þannig telur hann „dapurlegt“ að Morgunblaðið skuli leyfa skoðunum mínum að koma fram í ritdómi um bók. Við skulum þakka fyrir að Björn er dómsmálaráðherra í lýðræðisríki en ekki einræðisríki!
Það er algeng aðferð í kappræðum að snúa út úr skoðunum andstæðingsins, segja hann aðhyllast allskyns hæpin eða fráleit sjónarmið, og eyða svo púðrinu í að mótmæla þessum sjónarmiðum. Björn beitir þessari aðferð í ríkum mæli í grein sinni „Jón og fimmta herdeildin“, sem birt var í Morgunblaðinu 6. janúar og því er hún ekki nema að litlu leyti marktæk sem innlegg í vitræna umræðu um viðfangsefnið, Sovétríkin, kommúnisma, njósnir og kalda stríðið. Í grein þessari veitist Björn að mér og því kemst ég ekki hjá að svara fullyrðingum hans. Ég vona að skýringar mínar á nokkrum atriðum séu ekki með öllu gagnslausar fyrir áhugamenn um stjórnmálasögu síðustu aldar.

Njósnastarfsemi
Í ritdómi mínum þann 23. desember sagði ég stutta reynslusögu, sem ég hef ekki sagt áður (þó að Þór Whitehead hafi að vísu haft hluta hennar eftir mér án þess að nafngreina mig í grein sinni „Smáríki og heimsbyltingin“ í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmál). Sagan er af viðskiptum mínum við fulltrúa FSB og SVR (stofnanirnar sem tóku við hlutverki KGB) í Moskvu fyrir rúmum áratug, er ég freistaði þess að ná sambandi við einstaklinga sem hefðu starfað fyrir KGB eða leyniþjónustu hersins á Íslandi á kaldastríðsárunum. Ég sagði frá svörum og viðbrögðum sem ég fékk við þessum málaleitunum, og jafnframt að ég hefði kynnst því viðhorfi hjá starfsmönnum þessara stofnana að íslensk leyniþjónusta hefði starfað á kaldastríðsárunum, að hún væri í afar nánu sambandi við þá bandarísku og að Sovétmenn hefðu ekki reynt að stofna innlent njósnanet á Íslandi.
Björn misskilur þessa reynslusögu svo, að hér sé um fullyrðingar mínar, jafnvel niðurstöður að ræða. Svo er að sjálfsögðu alls ekki. Ég legg ekkert mat á innihald eða sannleiksgildi þessa og orða það svona í grein minni: „Staðhæfingar af þessu tagi segja manni svo sem ekki mikið, en það er kannski ekki úr vegi að láta þær flakka hér án ábyrgðar.“ Það hvarflaði aldrei að mér að halda að þetta mætti skilja svo að Sovétmenn hefðu ekki stundað njósnir á Íslandi. Að sjálfsögðu gerðu þeir það, enda eru njósnir hlutverk þeirra stofnana sem um er að ræða.
Þegar þessi misskilningur Björns hefur verið leiðréttur stendur ekki mikið eftir af öðrum fullyrðingum hans. Mér er jafn kunnugt um þekkt njósnamál á Íslandi á kaldastríðsárunum og Birni, og vafalaust hafa verið gerðar fleiri tilraunir til að fá Íslendinga til njósna en vitað er um. Enginn hefur mér vitanlega reynt að draga í efa að njósnaumsvif Sovétmanna á kaldastríðsárunum hér á landi hafi verið mikil og það er fjarri mér að gera það.
Raunar er stórfurðulegt að Björn skuli bregðast ókvæða við reynslusögu minni, þar sem hún gefur aðeins til kynna það sama og ummæli Olegs Gordíevskís, fyrrum njósnari KGB, í viðtali við Morgunblaðið fyrir rúmum 16 árum, en Björn vísar meira að segja til ummælanna í grein sinni. Gordíevskí sagði að KGB hefði verið bannað að ráða íslenska uppljóstrara, en það merkir einmitt að ekki hafi verið starfrækt innlent njósnanet á Íslandi. Innlent njósnanet felur meira í sér en „eðlileg“ njósnaumsvif. Leyniþjónusta sem treystir á net uppljóstrara hefur hóp fólks á sínum snærum sem vinnur kerfisbundið að upplýsingasöfnun innan stjórnkerfisins. Stórveldin höfðu, og hafa sjálfsagt enn, net af þessu tagi í mörgum löndum. Þó að njósnastarfsemi Sovétmanna hafi verið mjög virk hér öll kaldastríðsárin hafa engar heimildir komið fram sem benda til þess að innlent njósnanet hafi starfað hér á landi.
En Björn misskilur ekki aðeins orð mín, hann gerir sig einnig sekan um að rugla saman njósnastarfsemi á Íslandi annarsvegar, og störfum Íslendinga erlendis fyrir öryggislögreglu þar sem þeir voru staddir hinsvegar. Það er dálítið annað að fá íslenskan námsmann í Austur-Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, til að segja frá því sem félagar hans eru gera, heldur en að ráða íslenska embættismenn eða stjórnmálamenn til að safna upplýsingum um eigið ríki og afhenda fulltrúum erlendra njósnastofnana. Það er fáránlegt að taka það fyrrnefnda sem dæmi um njósnir á Íslandi eins og Björn gerir í grein sinni.

Innrás síldarflotans
Í bók Guðna Th. Jóhannessonar segir af áhyggjum íslenskra ráðamanna, einkum föður Björns, Bjarna Benediktssonar ráðherra, af mögulegri innrás Sovétríkjanna í Ísland. Bjarni virðist hafa haldið að sovéskur fiskiskipafloti norður af Íslandi árið 1950 hafi í raun átt að undirbúa og jafnvel hrinda í framkvæmd innrás í landið. Í bók sinni sýnir Guðni fram á að þetta mat Bjarna stangaðist á við álit breskra og bandarískra hermálayfirvalda. Það telur Björn hinsvegar alrangt og sakar bæði mig og Guðna um grunnhyggni fyrir að sjá þetta ekki. Ég fæ hinsvegar ekki betur séð en að frásögn Guðna af málinu sé skýr, heimildir hans trúverðugar og greining hans á atburðum til fyrirmyndar. Björn telur að vestræn hernaðaryfirvöld hafi almennt talið mikla hættu af skyndiárás Sovétríkjanna á þessum tíma og því hafi áhyggjur Bjarna föður hans verið á rökum reistar.
Umfjöllun Björns um þetta efni er afar athyglisverð, og í raun eini bitastæði hlutinn af grein hans, þar sem hann nýtir sér áður óbirtar heimildir úr einkaskjalasafni föður síns. Nú verður tæpast hægt að átta sig til fulls á ótta Bjarna við sovéska innrás og öllum ástæðum slíks ótta, fyrr en Björn lætur þessar heimildir af hendi. Hinsvegar fæ ég ekki séð að þeir kaflar sem Björn birtir úr minnispunktum föður síns breyti nokkru um niðurstöðu Guðna. Það er greinilegt af þeim brotum sem Björn dregur fram úr þessum minnispunktum, að hershöfðingjar þeir sem Bjarni ræddi við óttuðust ekki að síldarflotinn fæli í sér meiri eða bráðari hættu en annað sem Sovétmenn höfðu fyrir stafni á norðurslóðum á þessum tíma.
Björn veitir ekki athygli einu litlu atriði sem þó skiptir hér höfuðmáli í þessu samhengi. Eins og fram kemur í grein Þórs Whitehead í greininni „Leiðin frá hlutleysi“, sem birt var í tímaritinu Sögu árið 1991, og Björn vísar til, þá töldu bandarísk hernaðaryfirvöld líklegt á þessum tíma að Sovétmenn kynnu að beita skyndiárás „í upphafi stríðs“. Það var með öðrum orðum talið að slíkt væri hluti af almennum hernaðaráætlunum Sovétríkjanna ef til átaka stórveldanna kæmi. Þetta þýðir ekki að stöðug og viðvarandi hætta hafi verið talin á innrás þeirra í Ísland. Ísland skipti miklu máli í öllum hernaðaráætlunum Sovétmanna á kaldastríðsárunum en það eitt og sér segir okkur ekkert um hættuna á innrás hér hverju sinni. Eins og Guðni Th. Jóhannesson hefur bent á er afar ólíklegt að Sovétmenn hafi nokkurn tímann lagt á ráðin um innrás í Ísland utan áætlana sinna um aðgerðir í styrjöld stórveldanna eða upphafi hennar.

Fimmta herdeildin
Björn bendir einnig á að bandarísk hernaðaryfirvöld hafi talið að ákveðinn hluti íslenskra kommúnista myndi fá það hlutverk að styðja sovéskan innrásarher ef til átaka kæmi og ég sé ekki betur en að Björn trúi því að þetta mat Bandaríkjamanna hefði reynst rétt ef til innrásar hefði komið: Þá hefðu herdeildir kommúnista risið upp, sótt vopnin sem hann heldur að þeir hafi átt og gengið milli bols og höfuðs á leiðtogum þjóðarinnar.
Ég tel hinsvegar mjög ólíklegt að Sovétmenn hefðu undir nokkrum kringumstæðum treyst á „fimmtu herdeild“ íslenskra kommúnista. Í fyrsta lagi benda samskipti Sovéska kommúnistaflokksins og íslenskra sósíalista ekki til að um slíkt traust væri að ræða þrátt fyrir öll trúnaðarsamtölin, enda kvörtuðu sovéskir erindrekar stöðugt yfir þjóðernisstefnu íslenskra sósíalista. Í öðru lagi var hópur þeirra sósíalista sem enn var skilyrðislaust sovéthollur orðinn afar fámennur þegar komið var undir lok fimmta áratugarins. Í þriðja lagi var fjárhagsaðstoð Sovétmanna við sósíalista ekki slík að hún skapaði þeim varanlega fjárhagslega fótfestu, sem þó hefði verið nauðsynlegt að gera ef ætlunin hefði verið að treysta á flokkinn eða hluta hans sem fimmtu herdeild. Eins og ég lýsi ítarlega í bók minni Kæru félagar (Reykjavík, 1999 bls. 199-201) treystu Sovétmenn íslenskum sósíalistum ekki einu sinni til að selja sovéskar vélar, en þeir sóttu hart að fá umboð til innflutnings og sölu á bifreiðum og vélum frá Sovétríkjunum. Viðskiptin voru fengin aðilum sem tengdust Sósíalistaflokknum ekki neitt. Er líklegt að Sovétstjórnin hefði treyst íslenskum sósíalistum til að veita innrásarher nauðsynlegan stuðning, úr því að hún treysti þeim ekki til að selja bíla?
Margt sem við vitum nú gerir kenningu Björns um fimmtu herdeildina fráleita. Það breytir ekki því að óttinn við hana, rétt eins og óttinn við innrás sovéska síldarflotans sumarið 1950 kann að vera skiljanlegur í ljósi andrúmsloftsins í heiminum á þeim árum.

Ótti við skemmdarverk kommúnista
Björn Bjarnason segir að ég hafi reynt að „breiða yfir vopnaburð Sovétvinanna og gera sem minnst úr honum“. Ég held að tilgangslaust sé að þrefa um þessi meintu vopn við Björn Bjarnason, enda eru heimildir hans um þau af skornum skammti. Viðhorf mín í þessu máli reifaði ég í grein í Lesbók Morgunblaðsins 19. nóvember síðastliðinn. Það er hinsvegar athyglisvert að sjá að Björn virðist telja að þar sem bandarísk hernaðaryfirvöld hafi gert ráð fyrir að óttast bæri skemmdarverkastarfsemi íslenskra kommúnista ef að stríðsátökum drægi og í undirbúningi þeirra, þá hljóti þessi hætta að hafa verið til staðar í raun og veru. Hér hendir það Björn að gera mjög einfalda rökvillu: Hann heldur að með því að sýna fram á að óttinn hafi verið raunverulegur, þá sýni hann líka fram á að rétt hafi verið að óttast það sem óttast var.
Það þarf engum að koma á óvart að hershöfðingjar NATO eða Bandaríkjamanna hafi talið að óttast þyrfti skemmdarverk og moldvörpustarfsemi kommúnista á Íslandi og þessvegna skipað íslenskum stjórnvöldum að láta njósna um þá, eins og Björn lætur í veðri vaka að hafi gerst. Vitneskja okkar nú um starfsemi íslenskra sósíalista og kommúnista sýnir hinsvegar alls ekki að þessi ótti hafi átt við rök að styðjast. Hann var fyrst og fremst ósköp skiljanlegur hluti af óttaþrungnu og tortryggnisfullu andrúmslofti kaldastríðsáranna. Ég veit ekki til að neitt hafi komið fram sem styður eða sýnir fram á réttmæti þeirrar tilgátu að íslenskir kommúnistar hafi skipulagt eða lagt á ráðin um skemmdarverk á 5. eða 6. áratugnum eða beðið eftir sovéskum fyrirmælum um slíkt. Ef Björn vill „hafa það sem sannara reynist“ verður hann að gera betur en að dylgja um þetta.

Var íslenska leyniþjónustan svona snjöll?
Í samtali Morgunblaðsins við Oleg Gordíevskí sem áður var vísað til kemur fram að KGB hafi ekki mátt ráða íslenska uppljóstrara til starfa hér á landi. Björn telur einsýnt að mikill árangur íslensku lögreglunnar í stríði sínu við fimmtu herdeildina sé ástæða bannsins. Nú kann auðvitað vel að vera að KGB hafi lagt niður rófuna gagnvart þeim frændum Sigurjóni Sigurðssyni og Árna Sigurjónssyni og séð að ekkert tjáði að eiga við hina snjöllu íslensku leyniþjónustu. Mér finnst hinsvegar líklegra að varkárni Sovétmanna á Íslandi hafi stafað af nokkrum þáttum sem höfðu afar lítið með njósnastarfsemi þeirra frændanna að gera.
Erfiðleikar við að ráða einstaklinga til njósnastarfa hér á landi hljóta að hafa verið töluverðir. Sovémenn forðuðust í fyrsta lagi að fá flokksbundna kommúnista til njósna. Í öðru lagi var smæð landsins og smæð stjórnkerfisins slík að það var sennilega of áhættusamt að ráða uppljóstrara, eða með öðrum orðum koma upp innlendu njósnaneti. Í þriðja lagi var ekki víst að eftir svo miklu væri að slægjast í íslenska stjórnkerfinu. Sovétmenn lögðu alla tíð mesta áherslu á hernaðarlega njósnastarfsemi hér og byggðu því starfsemi sína að því er virðist á tæknibúnaði og samsvarandi starfsliði í sendiráði sínu.
Þetta bendir óneitanlega til þess að eftirlit íslensku lögreglunnar með kommúnistum hafi verið tilgangslítið. Er ekki hugsanlegt að ein ástæða þess að Sigurjón Sigurðsson kaus að eyða öllum gögnum um þá starfsemi hafi verið sú að ef menn færu að skoða skjalamöppur um „fimmtu herdeildina“ fyndist fátt bitastætt? Kannski hefur Björn gögn um annað undir höndum úr einkaskjalasafni föður síns og fróðlegt væri þá að frétta af innihaldi þeirra.

Sérstaða Björns Bjarnasonar
Björn Bjarnason ber á mig ýmsar sakir í grein sinni og innheldur eftirfarandi listi það helsta. Hann segir að ég
1. beri blak af starfsemi KGB á Íslandi og haldi því jafnvel fram að KGB hafi ekki stundað njósnastarfsemi á hér á landi.
2. haldi því fram að hernaðarsérfræðingar hafi ekki talið hættu á árás á landið úr lofti eða af sjó á kaldastríðsárunum.
3. haldi því fram að öryggi ríkisins hafi ekki stafað hætta af íslenskum kommúnistum og hér hafi ekki verið nein „fimmta herdeild“.
4. haldi því fram að Sovétmenn hafi afskrifað Ísland sem bandarískt áhrifasvæði árið 1943.
5. haldi því fram að Sovétríkin hafi ekki verið alræðisríki.
6. vilji ekki hafa það sem sannara reynist og noti fölsk rök.
7. hafi skotið undan heimildum.
8. sé engu betri en þeir öfgamenn sem afneita alræðiseðli þýska ríkisins og glæpum þess.

Ég verð að viðurkenna að þessar ásakanir, sem settar eru fram af ofsa, valda mér nokkrum heilabrotum. Við verðum að hafa í huga að Björn er ekki einangraður öfgamaður og þaðan af síður er hann sjúklingur. Hann er dómsmálaráðherra landsins og ber sem slíkur ábyrgð á öryggismálum þjóðarinnar. Ég ætla því að bregðast við þessum atriðum, en þó í eins stuttu máli og unnt er.

1. Ég hef aldrei borið blak af starfsemi KGB eða GRU á Íslandi, enda væri það fáránlegt. Ég geri einungis þá eðlilegu kröfu til sjálfs mín og annarra að fjallað sé um þá starfsemi út frá heimildum og heimildirnar túlkaðar af skynsemi.
2. Í ritdómi mínum um bók Guðna Th. Jóhannessonar fjalla ég um frásögn hans af ákveðnum atburðum þar sem mér virðist hætta á innrás hafa verið ofmetin. Af þessu er ekki hægt að draga þá ályktun að ég hafni því að um innrásarhættu hafi verið að ræða á kaldastríðsárunum. Ég tel eins og flestir aðrir að vígvæðing og stríðsundirbúningur stórveldanna hafi einmitt skapað stórkostlega hættu á stríðsátökum og sömuleiðis ögrandi tilburðir af ýmsu tagi.
3. Það er rétt að ég tel ekki að öryggi ríkisins á Íslandi hafi nokkru sinni stafað hætta af íslenskum kommúnistum og tel mig raunar hafa fært fullgild rök fyrir þeirri skoðun minni í fyrri greinum hér í blaðinu. Trúnaðarsambönd nokkurra forystumanna sósíalista við fulltrúa sovéska kommúnistaflokksins og hugsanlega KGB eru vissulega siðferðilega ámælisverð en það þýðir ekki að þau hafi skapað hættu.
4. Það er vel þekkt staðreynd að Sovétstjórnin vildi skipta heiminum í áhrifasvæði stórveldanna eftir heimstyrjöldina síðari, þar sem hvort gæti farið sínu fram án afskipta hins. Bandaríkjamenn féllust aldrei á þessa uppskiptingu heimsins. Hinsvegar er ljóst að Sovétmenn litu svo á að Ísland væri á bandarísku áhrifasvæði og því seildust þeir ekki til áhrifa hér á landi umfram pólitísk áhrif í gegnum tengsl við sósíalista. (Um þetta má lesa nánar í Kæru félögum, bls. 133-134). Þessi staðreynd breytir auðvitað engu um mat þeirra á nauðsyn þess að halda uppi njósnum um Bandaríkjamenn og herstöð þeirra hér.
5. Ég man ekki eftir að hafa haldið því fram að Sovétríkin hafi ekki verið alræðisríki. Hinsvegar tel ég, eins og margir aðrir, að hugtakið alræði eigi fyrst og fremst við um stjórnartímabil Stalíns, enda er það þannig sem hugtakið er oftast notað í fræðilegri umræðu. Fáir tala um alræði á stjórnarárum Brésnévs, svo dæmi sé tekið, en með því er ekki á nokkurn hátt verið að verja Sovétríkin, heldur gera menn sér einfaldlega grein fyrir því að Stalíntímabilið var um flest án hliðstæðu.
6. Það er dálítið sérkennilegt að sitja undir ásökunum af þessu tagi frá manni sem margir virðast taka alvarlega. Björn hefur vissulega fullan rétt til að trúa öðru en ég og til að hafna rökum mínum, en upphrópanir af þessu tagi eru bara vandræðalegar.
7. Ég veit ekki til að ég hafi skotið undan heimildum, þvert á móti hef ég lagt mig fram um að finna heimildir og gera þær aðgengilegar m.a. úr sovéskum skjalasöfnum. Björn virðist hinsvegar sjálfur eiga heimildasafn sem hann kýs að halda fyrir sig og þá fræðimenn sem fá leyfi hans til að kynna sér það.
8. Sú ályktun Björns er mjög athyglisverð að með því að draga í efa að íslenskir kommúnistar hafi átt vopnabúr og verið þjálfaðir til að hjálpa sovésku innrásarliði, gerist ég sekur um að verja Sovétríkin á sama hátt og öfgamenn sem afneita alræðiseðli nasismans verji Þýskaland Hitlers. Varla getur nokkur sem lesið hefur skrif mín tekið þetta alvarlega. Jafnframt hlýtur sú spurning að vakna hvort hægt sé að taka þann dómsmálaráðherra alvarlega sem hrapar að ályktunum með þessum hætti.

Í grein sinni reynir dómsmálaráðherra að gera mig einhverskonar óvini ríkisins eða jafnvel lýðræðisins sjálfs; í huga sínum spyrðir hann mig saman við kommúnista fortíðarinnar sem hann óttaðist svo mjög. Hann heldur því fram að viðhorf mín til Sovétríkjanna, kommúnisma og kalda stríðsins séu á einhvern hátt á skjön við viðteknar skoðanir á Vesturlöndum. Ég get fullvissað ráðherrann um að svo er ekki. Vafalaust á margt enn eftir að koma á daginn um hernaðaráætlanir Sovétmanna á kaldastríðsárunum þegar betri aðgangur fæst að heimildum í rússneskum ríkisskjalasöfnum og jafnvel íslenskum einkaskjalasöfnum. Kannski eigum við eftir að sjá að heimurinn var oftar á barmi styrjaldar en marga grunaði – eða við eigum eftir að sjá að átök voru oftast fjarlægari möguleiki en menn töldu. Það breytir ekki því að óttinn við stríðsátök var raunverulegur: Þetta sýnir Guðni Th. Jóhannesson fram á í ágætri bók sinni. Og við eigum enn ágætt sýnishorn óttans í ímynduðum herdeildum dómsmálaráðherrans.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *