Þegar Viðskiptaráðuneytið sagði frá hinum fræga fundi Björgvins G. Sigurðssonar og Alistair Darlings í byrjun september, þótti ráðherranum unga nauðsynlegt að láta segja ósatt um efni fundarins. Í stað þess að fjölmiðlum væri sagt sem var að fjallað hefði verið um Icesave reikningana og hvernig mætti koma útibúum Landsbankans í dótturfélög, var fjölmiðlum send einhver þvæla um að ráðherrarnir hefðu rætt góð samskipti landanna, sem þeir auðvitað birtu samviskusamlega. En hversvegna var nauðsynlegt að ljúga um efni fundarins? Og hvað segir það okkur um ábyrgð stjórnvalda á því sem gerst hefur í millitíðinni?

Væntanlega er fyrsta skýringin sem borin er fram á lyginni sú að mikilvægt hafi verið að gefa ekki í skyn að einhver óvissa væri um starfsemi Landsbankans, þar sem slíkt gæti skapað hættu á áhlaupi. En þessi skýring er þó í undarlegu ósamræmi við þá fullyrðingu ráðherrans að enginn sem á fundinum var, ekki hann sjálfur, ekki breski ráðherrann eða ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hafi haft minnstu áhyggjur af þessum reikningum á þeim tíma sem fundurinn var haldinn. Ráðuneytisstjórinn hefur meira að segja haldið því fram að sú staðreynd að hann seldi bréf sín í Landsbankanum tveimur vikum síðar hafi ekki tengst slíkum áhyggjum á nokkurn hátt.

Nauðsyn lyganna var undarlegur og óhugnanlegur hluti af þeim stjórnarháttum sem einkenndu Ísland fyrir hrun bankanna. Lygarnar voru orðnar svo samofnar stjórnsýslunni að stjórnmálamönnum virðist hafa þótt það algjörlega sjálfsagt mál að segja ósatt hvenær svo sem það virtist hagstæðara en að segja sannleikann. Og það sem verra var: Fjölmiðlum þótti það líka. Það ætti ekki að þurfa að vefjast fyrir neinum að viðskiptaráðherra Íslendinga og fjármálaráðherra Breta hittast ekki til að spjalla vinsamlega um góð fjármálasamskipti landanna. Kurteisissamtöl af því tagi kynnu að eiga við á fundi forsetans og drottningarinnar, en ekki tveggja ráðherra umfangsmikilla málaflokka. Hversvegna gerði enginn blaðamaður minnstu tilraun til að komast á snoðir um hvað ráðherrarnir ræddu um í raun og veru?

Það kann vel að vera að það sé mikilvægt að gefa ekki of miklar upplýsingar um stöðu fjármálafyrirtækja eða gæta þess að tala af varkárni um banka til að skapa ekki óþarfar áhyggjur. En þegar stjórnvöld eru orðin svo samofin fjármálafyrirtækjunum að þau verða að beita kerfisbundnum lygum til að þjóna hagsmunum þeirra, er það til marks um að grundvallarleikreglur lýðræðisins séu ekki lengur í gildi. Frásögnin af fundi Björgvins og Darlings er kannski bara lítið dæmi um þetta, en hún er alveg ábyggilega ekki eina dæmið og þó segir hún okkur allt sem segja þarf.

Ábyrgð stjórnvalda á hruninu er óumdeilanleg og hún minnkar ekki þótt fleira komi á daginn um óheiðarleika og spillingu innan fjármálafyrirtækjanna sjálfra. Þvert á móti eykst hún við það. Því stjórnvöld voru partur af þeirri spillingu. Þau höfðu sogast inn í hinn ímyndaða veruleika útrásarinnar og í stað þess að gæta hagsmuna almennings voru þau málpípur fyrirtækjanna og tilbúin til að segja almenningi og fjölmiðlum hvaða lygasögu sem hentaði bönkunum hverju sinni.

Þessu lauk mánudaginn 6. október. Þann dag og næstu daga lauk líka lífi útrásarbankanna. En það sem ríkisstjórnin hefur enn ekki skilið er að á sama tíma lauk lífi hennar sjálfrar. Það kann að vera að þetta hafi ekki blasað við þegar í stað. En með hverjum deginum sem líður verður það ljósara og þessvegna mun vantrú fólks og fyrirlitning á eigin stjórnvöldum aðeins vaxa á meðan ekki er stokkað upp.

2 replies
 1. Páll Vilhjálmsson
  Páll Vilhjálmsson says:

  Sæll Jón og þakka þér pistilinn. Ég er hugsi yfir niðurlaginu. Öðrum þræði er ég sammála, að ríkisstjórnina er ekki á vetur setjandi. Á hinn bóginn sýnist mér að tvennt þurfi að liggja fyrir áður en við göngum til kosninga. Í fyrsta lagi að efnahagsskaðinn liggi nokkurn veginnn ljós fyrir og í öðru lagi að stjórnmálakerfið, starfandi flokkum og e.t.v. nýjum framboðum, hafi einhvern tíma til að ræða sig inn á valkosti í stöðunni. Ótímabærar kosningar gætu gert illt verra.
  bestu kveðjur
  p

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *