Fyrir fáeinum vikum, áður en íslenska bankakerfið hrundi, áttum við ágæta möguleika á því að ná kosningu til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna næstu tvö ár. Fyrir tveimur vikum, eftir hrunið, áttum við líka ágæta möguleika. Í gær beið Ísland hinsvegar fremur háðulegan ósigur í fyrstu umferð kosninganna og þurfti að sætta sig við að fá næstum fimmtíu atkvæðum minna en Austurríki og um sextíu atkvæðum minna en Tyrkland. Hvað gerðist?
Í síðustu viku var bent á að efnahagslegar þrengingar þyrftu ekki að spilla möguleikum okkar. Í Öryggisráðinu hafa mörg ríki átt sæti, þar á meðal smá og fátæk og ríki sem stríða við efnahagskreppur með reglulegu millibili. Sennilega er því ekki hruni bankanna um að kenna.
Auðvitað er hugsanlegt að deilan við Breta hafi haft sitt að segja og jafnvel hið pínlega brot úr Kastljósviðtali við Davíð Oddsson sem Wall Street Journal birti sama dag og atkvæðagreiðslan var haldin (þótt reyndar sé varla við því að búast að ákvarðanir um hverjum skuli greiða atkvæði séu teknar sama dag og atkvæðagreiðsla fer fram).
Líklegast er hinsvegar að allt annað hafi haft áhrif: Rúmri viku fyrir atkvæðagreiðsluna var skýrt frá því að Íslendingar hygðust leita til Rússa um lán og dagana fyrir atkvæðagreiðsluna fóru fram samningaviðræður um lánið í Moskvu. Nú er ekki bannað að leita til Rússa, kalda stríðinu er lokið, þeir eru ekki lengur óvinurinn. Hinsvegar er ljóst að ákvörðun um það virðist, utan frá séð, fela í sér ákveðna stefnubreytingu, jafnvel tækifærismennsku. Íslensk stjórnvöld hafa fram að þessu tekið mjög einarða afstöðu gegn Rússum á vettvangi NATO, mótmælt flugi herflugvéla þeirra umhverfis Ísland sérstaklega og fordæmt framferði þeirra í Georgíu.
Allir skilja að efnahagsþrengingar eru ekki endilega afleiðing óstöðugleika í stjórnarfari eða merki um fjármálaspillingu. En ríki sem er tilbúið til að snúa við blaðinu með áberandi hætti þegar því líkar ekki viðmót bandalagsríkja sinna er kannski ekki trúverðugt. Að minnsta kosti kann að vera hæpið að greiða því atkvæði til setu í Öryggisráðinu aðeins fáeinum dögum eftir að forsætisráðherra þess hefur lýst því yfir á alþjóðavettvangi að „vinir“ hafi brugðist og nauðsynlegt hafi því reynst að afla sér „nýrra vina“. Það er sjaldgæft að leiðtogar ríkja lýsi bandalagaskiptum á jafn léttum nótum, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Er mögulegt að yfirlýsingin hafi vakið efasemdir um staðfestu Íslands í alþjóðastarfi?
Umskipti af þessu tagi hefðu svo sem alveg getað gengið á kaldastríðsárunum. Þá fylgdu fjölmörg ríki í Evrópu, Afríku og Asíu Sovétríkjunum að málum og hefðu því mögulega fylkt sér um nýjan vin. En hlutskipti Rússlands nú er annað. Sem stendur eru Rússar nánast einangraðir á alþjóðavettvangi. Öll Evrópuríki, nema Hvítarússland, hafa snúið við þeim baki og þau sem eru næst þeim keppast við að tryggja sig gagnvart þeim. Aðgerðir þeirra í Georgíu hafa vakið óhug um allan heim og eina ríkið sem hefur fylgt Rússum í viðurkenningu á Abkhazíu og Suður-Ossetíu er Nicaragua.
Það segir kannski sitt að það var annar nýr vinur Rússlands sem beið lægri hlut í kosningunum til Öryggisráðsins í gær um leið og við: Íran.

1 reply
 1. Karl
  Karl says:

  Athyglisverð greining Jón. Hallast að því að þetta gæti verið rétt hjá þér. Almennt hlýtur hins vegar að vakna efi (þ.e með tilliti til setu Íslands í öryggisráðinu) þegar blasir við að ríkisvaldið á Íslandi, stjórn og stofnanir, hefur ekki reynst fært um að tryggja öryggi þjóðarinnar. Vegna þess að allt var þetta fyrirsjáanlegt og enginn brást við. Það er auðvitað grundvallaratriði í öryggismálum ríkja að koma í veg fyrir hrun, upplausn og landflótta . Ríkinu , og ekki síður kjörnum fulltrúum þjóðarinnar á þingi ber auðvitað að standa vörð um hag umbjóðenda sinna, fólksins í landinu og öryggi almennings með tilliti til afkomu osfrv. Í því efni skiptir auðvitað öllu að grunstofnair á borð við banka og fjármálaeftirlit njóti trausts fólksins.
  Ég velti fyrir mér Jón hvort þessi skýring mín sé nærtækari? Sáu ríki öryggisráðsins ekki einfaldlega fyrir sér að stjórnvöldum á Íslandi var ekki treystandi fyrir verkefninu í ljósi þess hvernig þau höfðu leikið umbjóðendur sína, fólkið í landinu?
  Ef til vill skrifar þú um það? Kærar þakkir.
  Kveðja, Karl E. Reykjavík.

Comments are closed.