Baldur Guðlaugsson er ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og hefur sem slíkur tekið þátt í fundum íslenskra og breskra ráðherra um málefni Landsbankans. Baldur var líka eigandi hlutabréfa í Landsbankanum. Þessi bréf seldi hann eftir að hafa, starfs síns vegna, fylgst með og tekið þátt í umræðum æðstu ráðamanna um bankann. Hann hlýtur að hafa haft aðgang að meiri upplýsingum um Landsbankann heldur en „hver annar“.

Nú er því haldið fram að Baldur hafi ekki nýtt sér aðrar upplýsingar til að taka ákvörðun sína um sölu bréfanna en þær upplýsingar sem allir hlutabréfaeigendur höfðu aðgang að. Þetta er hugsanlegt, við getum aldrei vitað hvað nákvæmlega fór fram í höfði Baldurs. En staðreyndin er sú að hann hefði vafalaust tekið þá ákvörðun að selja ef hann hefði haft meiri upplýsingar. Raunar má fullyrða að því meiri upplýsingar sem hann hefði haft, þeim mun meiri líkur hefðu verið á því að hann seldi.

Þetta má orða svo að það sé ekki nauðsynleg forsenda sölunnar að Baldur hafi haft innherjaupplýsingar: Hann hefði getað tekið þá ákvörðun að selja án slíkra upplýsinga. Það er hinsvegar nægjanleg forsenda sölunnar að hann hafi haft slíkar upplýsingar, því að þær myndu skýra hana.

Reglur um innherjaviðskipti eiga við um bankastarfsmenn, en sama gildir um starfsmenn ráðuneyta hafi þeir aðgang að samskonar upplýsingum. Þeir teljast innherjar ef þeir búa yfir innherjaupplýsingum, hvort sem þeir taka ákvarðanir sínar á grundvelli þeirra eða annarra upplýsinga sem þeir hafa.

Baldur getur því ekki hreinsað sig af því hafa selt vegna sérstakra upplýsinga sem hann hafði alveg sama hve heiðvirður hann er og alveg sama hvað hann var að hugsa þegar hann tók ákvörðun sína. Í öllum löndum sem við berum okkur saman við, nema ef til vill vinaríki okkar Rússlandi, segja háttsettir embættismenn af sér við slíkar aðstæður.

7 replies
 1. Sveinn Arnórsson
  Sveinn Arnórsson says:

  Látum það verða upphafið en ekki endinn á því að hreinsa til. Fjármálaráðherra hefur t.d. sjálfur verið að vasast í hlutabréfaviðskiptum í fjármálastofnunum, vart er hægt að finna meiri innherja en þessa menn.

  Svara
 2. F.
  F. says:

  Þetta snýst ekki einu sinni bara um að hætta störfum. Þetta er refsivert athæfi. En er það ekkert sérstakt að tveir ráðherrar gefi flokksbróður sínum syndakvittun? Og eigum við að treysta því að fjórði flokksmaðurinn í FME taki sig þá til og kæri hann? Ef Jónas kærir ekki, þá getur ekki einu sinni lögreglan aðhafst, þótt brotið sé augljóst.
  (Get ég ekki einu sinni kært með hluthafi í bankanum?)

  Lögin eru skýr:

  Lög nr. 108 26. júní 2007 um verðbréfaviðskipti

  121. gr.
  Innherji.
  Með innherja er átt við:
  […] 2. tímabundinn innherja, þ.e. aðila sem telst ekki fruminnherji en býr yfir
  innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna, og […]

  123. gr.
  Innherjasvik. Innherja er óheimilt að:
  1. afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum, …
  
 130. gr.
  . […] Stjórnvöld og aðrir aðilar sem fá reglulega innherjaupplýsingar í starfsemi sinni skulu fylgja reglum Fjármálaeftirlitsins um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja eftir því sem við getur átt.

  146. gr.
  Sektir eða fangelsi allt að sex árum.
  Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
  […] 123. gr. um innherjasvik.

  147. gr.
  Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af
  broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
  Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
  148. gr.
  Brot gegn lögum þessum sæta aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu.

  Svara
 3. Bánker
  Bánker says:

  Flott greining hjá Jóni. Það er ótrúlegt að starfsmenn opinberra stofnana sem oft geta búið að innherjaupplýsingum um einstök fyrirtækja skuli geta átt verðbréfaviðskipti algerlega án eftirlits.

  Enginn bankamaður má kaupa eða selja hlutabréf í einstökum fyrirtækjum án þess að biðja um sérstakt leyfi til regluvarðar hvers banka sem heimilar eða bannar viðskiptin.

  Það er því löngu orðið tímabært að það sama gildi um opinbera starfsmenn sem gætu hagnast vegna upplýsinga sem þeir komast yfir t.d. starfsmenn Fjármálaráðuneytis, Fjármálaeftirlits, Seðlabankans, Dómsmálaráðuneytis, Ríkissaksóknara, Skattrannsóknarstjóra og annarra stofnana sem gætu búið yfir innherjaupplýsingum um einstaka fyrirtæki eða almennar upplýsingar sem gætu haft áhrif á verðmyndun á markaði.

  Svara
 4. Gunnar Guðmunds
  Gunnar Guðmunds says:

  Hvað vissi hann eftir þennan fund? Að Bretar hefðu áhyggjur af IceSave? Að íslensk stjórnvöld hefðu engar áhyggjur af IceSave? Þyrfti ekki fyrst að upplýsa hvað var sagt á fundinum góða áður en við göngum út frá því að hann hafi vitað _eitthvað_ meira en aðrir fjárfestar sem fylgdust með bankanum?

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *