Hérna áður fyrr, þegar kommúnistar skrifuðu í þetta tímarit og margir höfðu enn áhuga á að fræðast um byltingu öreiganna, hvað leiddi til hennar og hvernig hún brytist út fyrr eða síðar, þótti stundum eðlilegt að byrja slíkar útskýringar á því að segja sögu mannkynsins, hvernig samfélög manna hefðu orðið til og þróast, um upphaf landbúnaðar, verslunar, iðnaðar og svo framvegis. Þetta þótti nauðsynlegt meðal annars vegna þess að kommúnistar sögðu söguna með öðrum hætti en tíðkaðist í hefðbundinni söguritun, sem þeir kölluðu borgaralega. Áhersla kommúnistanna var á sögu hinna undirokuðu, sögu þeirra sem voru í beinni eða óbeinni andstöðu við valdið, frekar en á sögu kónga, keisara eða nafngreindra landnámsmanna svo tekið sé nærtækara dæmi.
Andri Steinþór Björnsson fer hliðstæða leið í bók sinni um Vísindabyltinguna því að það er ekki nema síðasti þriðjungurinn af bókinni eða svo sem fjallar raunverulega um þá atburði og uppgötvanir í vísindum sem menn nefna stundum vísindabyltinguna einu nafni. Megnið af bókinni er um rætur þessarar byltingar, um heimspeki og vísindalegar uppgötvanir fornaldar og svo er stiklað á stóru yfir það langa tímabil Evrópusögunnar sem nefnt er miðaldir og sem löngum hefur þótt drungalegt og fátæklegt í samanburði við það sem fór á undan og því sem kom á eftir, að minnsta kosti hvað „afrek mannsandans“ varðar.
Sú spurning vaknar því óhjákvæmilega við lestur bókarinnar hvort hér sé fyrst og fremst um að ræða yfirlitsrit sem rekur sögu og heimspeki vísindanna frá upphafi og til vísindabyltingar, eða hvort höfundinum finnst einfaldlega að rétta leiðin til að skýra eðli vísindabyltingarinnar fyrir lesendum sé sú að rekja fyrst ákveðna sögu, eins og þessi bylting væri rökrétt afleiðing hennar, rétt eins og kommúnistarnir töldu nauðsynlegt að rekja mannkynssöguna til að geta skýrt eðli öreigabyltingarinnar með tilhlýðilegum hætti.
Andri virðist sjálfur taka af öll tvímæli um að hann lítur svo á að síðari skilningurinn sé réttur. Hann segir bókina fjalla um Vísindabyltinguna, hvað í henni hafi falist og hvernig beri að skýra hana (bls.7) og fullyrðir svo að tilteknir atburðir í fornöld og síðar skipti máli fyrir vísindabyltinguna á 16. og 17. öld (bls. 9). Hann talar einnig um framvindu og það er ljóst að hann kýs að sjá Vísindabyltinguna í ljósi heilsteyptrar framvindu sögunnar og ef til vill framþróunar hugmyndanna frá því í fornöld og fram á nýöld.
Það má segja að þessi sýn Andra á Vísindabyltinguna sé hefðbundin og strax á fyrstu síðum bókarinnar er ljóst að markmið hans er ekki að gera uppreisn gegn eða hverfa frá hefbundinni söguskoðun í þessum efnum, heldur þvert á móti að útfæra hana, útskýra og færa í aðgengilegan búning sem hæfir íslenskum lesendum. Andri sýnir líka íslenskum lærimeisturum sínum hollustu með því að leggja útaf skrifum þeirra og skoðunum á vísindasögu í inngangi. Það má því slá því föstu að markmið Andra er að skýra, fræða og síðast en ekki síst færa í íslenska búning og auðvitað styrkir bók eins og þessi alla fræðilega umfjöllun og umræðu um sögu og heimspeki vísinda.
Mig grunar að notin sem nemendur, kennarar og aðrir áhugamenn um efnið hafi af bókinni kunni fyrst og fremst að varða þá staðreynd að hvað sem þessum markmiðum höfundar líður þá er hún fyrst og fremst yfirlitsrit. Hún er einmitt bók af því tagi sem hægt er að nota til að fletta upp einstökum höfundum, stefnum og kenningum. Nú veit ég ekki vel hvort þetta ætti heldur að teljast til galla bókarinnar eða kosta hennar. Bókin hefur gríðarmargt til síns ágætis, en það er ekki víst að hún hafi það sem fræðileg úttekt eða heildarskýring á vísindabyltingunni.
Óslitnir þræðir og framvinda sögunnar
Nú er ekki svo að skilja að Andri sé sér ekki meðvitaður um að það er umdeilt að hægt sé að segja sögu Vísindabyltingarinnar með þeim hætti sem hann ætlar sér. Í inngangskaflanum fjallar hann stuttlega um aðferðafræðileg álitamál, ekki síst þau sem varða sýn á fortíðina frá sjónarhóli nútíðar. Hvernig getum við gert grein fyrir vísindakenningum fyrri tíma þegar ljóst er að við höfum allt aðrar kenningar nú? Er besta leiðin að gleyma einfaldlega því sem við vitum – þurrka afstöðu okkar út – eða getum við látið eldri kenningar njóta sannmælis jafnvel þó að sýn okkar á þær sé mótuð af af allt öðrum kenningum og hugmyndum? Andri tekur afdráttarlausa afstöðu í slíkum málum og reynir að skýra grunnhugtök og heimspekileg viðhorf sem hann aðhyllist og sem greining hans á vísindakenningum og sögu þeirra litast af. Hann segir réttilega að það skipti miklu máli að sagnfræðingar skýri frá forsendum sínum svo að lesandinn geti áttað sig á því á hverju greining á sögulegum fyrirbærum byggist.
En eitt er að gera grein fyrir meginhugtökum og skilningi á þeim, hugtökum eins og hluthyggju, framförum, sannleika og svo framvegis, annað að ganga út frá því sem vísu að söguna megi segja í ljósi rökréttrar framvindu, þar sem eitt leiðir af öðru. Andri gerir sér vel ljóst að afleiðingar kenninga, uppgötvana og nýjunga af öllu tagi eru ófyrirsjáanlegar. Hinsvegar virðist hann ganga út frá því að eftir á megi gera grein fyrir röklegum tengslum á milli slíkra fyrirbæra og rekja þráð sem hægt sé að kalla framvindu. Hann bendir auðvitað á að framvindan sé að einhverju leyti valkvæð – sagnfræðingurinn uppgötvar ekki framvinduna að öllu leyti, hann velur sér framvindu með áhugasviði og áherslum, en þetta merkir ekki að framvindan sé tilviljunarkennd (bls. 22).
Það álitamál um framvindu sögunnar sem Andri tekur ekki til neinnar sérstakrar meðferðar er spurningin um áhrif eins heimspekings og eins vísindamanns á annan og áhrif einnar kenningar fyrir aðra. Hugtakið vísindabylting tjáir þá hugmynd að þær nýjungar sem heimspekingar 16. og 17. aldar innleiddu í hugsun manna um vísinda og þekkingu hafi gerbreytt heimsmyndinni. Byltingarhugtakið táknar rof frekar en framvindu. Það er þó erfitt að festa hendur á þessu með góðu móti. Hvað sem byltingu líður, nýrri heimsmynd eða nýju viðmiði, þá vilja menn líka með einhverjum hætti skýra byltinguna, hversvegna hún á sér stað. Og það verður ekki gert nema með því að gaumgæfa þann hugmyndaheim sem fyrir er og vandamálin sem leiða til byltingarinnar.
Kenning Thomasar Kuhns um vísindabyltingar er nánast viðtekin grundvöllur skýringa á róttækum grundvallarbreytingum í kenningakerfi vísindagreina. Hún gengur í stuttu máli út á það að spennan sem skapast og eykst jafnt og þétt við það að vísindakenning getur ekki skýrt athuganir og niðurstöður sem þó hrannast upp, verði að lokum til þess að rammi kenningakerfis springur og nauðsynlegt reynist að endurskoða það frá grunni. Við slíka byltingu er eldra kerfi ýmist varpað fyrir róða með öllum hugtökum sem því tilheyra, eða það heldur áfram að vera til að svo miklu leyti sem það á við um takmarkaðan þátt viðfangsefnisins. Svona má skýra tengsl Newtonskrar eðlisfræði og þeirrar eðlisfræði sem leiðir af afstæðiskenningunni og það má skýra tengsl evklíðskrar og óevklíðskrar rúmfræði með sama hætti.
Þannig er alltaf viss þversögn fólgin í því að tala bæði um byltingar í vísindum og um framvindu. Sagan er full af eyðum, undanbrögðum, hruni og afturför. Vísindabyltingar ekki síður en þjóðfélagsbyltingar hafa upplausn og óöryggi í för með sér. Heimsmynd sem áður var trygg og tiltæk víkur fyrir ógnvænlegu öryggisleysi, enda er nýjungum á sviði hugsunarháttar og heimsmyndar iðulega fylgt úr hlaði með ramakveini þeirra sem telja nýjungar í vísindum og fræðum í besta falli tískusveiflur í versta falli til marks um endanlega og óafturkræfa hrörnun vísindalegrar hugsunar.
Byltingin og byltingar
En það er eitt að tala um vísindabyltingar annað að tala um vísindabyltinguna. Sú vísindabylting sem Andri fjallar um í bók sinni er einstök í sinni röð og það kann að vera rangt að tala um hana á sama hátt og aðrar róttækar breytingar á kenningum eða hrun einstakra vísindakenninga. Vísindabylting 16. og 17. aldar fól ekki aðeins í sér að skipt væri um kenningu heldur breytti hún viðhorfi manna um það hverskonar kenning um heiminn og það sem í honum er ætti við um skilning okkar á honum. Eftir vísindabyltinguna getur tæplega orðið um aðra viðlíka byltingu að ræða því að eitt af því sem við hana varð mikilvægt einkenni vísinda var einmitt sú staðreynd að endurskoðun kenninga er hluti af starfi vísinda en ekki ógnun við þau. Það er hægt að skoða vísindabyltingu 16. og 17. aldar frá mörgum ólíkum sjónarhornum. Stundum leggja menn áherslu á þá staðreynd að Galíleó, Newton, Kepler og Kóperníkus beittu stærðfræðilegum aðferðum til að fjalla um náttúruna. Aðrir gera mest úr því að þessir heimspekingar meðhöndluðu forn vandamál á algjörlega nýjan hátt (sjá bls. 232), eða einblína á þátt tilrauna hjá vísindamönnum þessara tíma. Enn má horfa á þá staðreynd að vísindabyltingin beindi athygli manna að veraldlegum þáttum og dró skörp skil á milli þess sem varðaði Guð og hins sem varðaði náttúruna. Og svo má áfram telja.
En þessir þættir varða það sem gerir nýju vísindin ný – skilur þau frá eldri vísindum og réttlætir hugtakið bylting um þróun þeirra. Eins og margir vísindasagnfræðingar hafa einnig bent á er svo margt sem tengir vísindi 16. og 17. aldar við það sem á undan fór að það er ekki sjálfgefið að hugtakið bylting eigi við um breytingarnar sem urðu í kenningasmíð og hugsunarhætti á þessum tíma. Heimspekingar eins og Descartes höfnuðu vissulega skýringaleiðum Aristotelesar, höfnuðu tilgangsorsökum og svo framvegis. En þeir voru líka bundnir þeim hugsunarhætti sem þeir höfðu alist upp við, hugsunarhætti skólaspekinnar og ekki síst þeirri hugmynd að vísindalega þekkingu væri nauðsynlegt að grundvalla með frumspekilegum hætti. Það var til dæmis ekki fyrr en miklu síðar að menn fóru að leyfa sér að hugleiða að vísindin þyrftu ef til vill ekki á þeim undirstöðum að halda sem Descartes og aðrir töldu. Sú bjarghyggja sem einkennir heimspekina fram á þennan dag ræðst af þeirri hugsun að þegar upp er staðið þurfi vísindin að hvíla á traustum stoðum jafngildum þeim sem áður einkenndu heimsmynd kristninnar.
Andri fjallar um álitamál af þessu tagi eftir því sem efni og ástæður eru til í bókinni, en honum tekst ágætlega að koma þeim að án þess að spilla fyrir sögunni sem hann er jöfnum höndum að segja. Hann reynir ekki að taka á álitamálunum að öðru leyti en því að stefnuyfirlýsing formálans gefur lesandanum nokkuð skýra mynd af því hvar Andri staðsetur sjálfan sig í einstökum málum. Þetta er talsverður kostur á bókinni og það styrkir hana einmitt sem yfirlitsrit hve lipurlega Andra tekst að segja frá einstökum og oft ólíkum sjónarmiðum og þar með skerpa gagnrýnisvitund lesandans gagnvart efninu, án þess að týna sér í greiningu eða skýringu á einstökum atriðum.
Yfirlit og skýring
Ég byrjaði á því að velta fyrir mér spurningunni um hvort bók Andra eigi að flokka með yfirlitsritum eða hvort um sé að ræða tilraun til að fjalla um og skýra Vísindabyltinguna sem hugtak og fyrirbæri. Niðurstaða mín er sú að jafnvel þó að Andri gefi lesanda blendin skilaboð í upphafi bókarinnar þá sé eðlilegra að sjá bókina sem yfirlitsrit um sögu og heimspeki vísinda frá fornöld og fram til tíma vísindabyltingarinnar á 16. og 17. öld. Með yfirliti af þessu tagi hefur Andri unnið sérlega gott og þakklátt verk og bók hans auðveldar mjög að kenna sögu og heimspeki vísinda í íslenskum menntaskólum og háskólum.
Í formála bókarinnar lýsir Andri ýmsum viðhorfum sínum, meðal annars segist hann stundum hafa hluthyggju um hugtök vísindanna en sumstaðar verkfærishyggju – sumstaðar er eðlilegt að hugsa um hugtök vísindanna út frá því gagni sem að þeim er í rannsóknum og kenningum, en sumstaðar eigum við að taka þau alvarlegar og sjá þau sem tilraun til að lýsa veruleikanum. Andri segist vera hluthyggjumaður í þeim skilningi að vísindin leitist við að lýsa veruleikanum eins og hann er, ekki aðeins að ná árangri af einhverju tagi, spá fyrir um hluti og þar fram eftir götunum. Ég held að hluthyggjan nýtist Andra vel, hvað sem öðru líður, því að þrátt fyrir allt er hún, það er að segja sú kenning að niðurstöður vísinda lýsi heiminum og skýri hann, best leiðin til að skýra framfarir, vísinda, framþróun þeirra og framvindu í skilningi vísinda.
Þetta merkir alls ekki að hluthyggja sé rétt kenning um vísindalega þekkingu, eða um þekkingu almennt en það er ábyggilega rétt þegar rit á borð við þetta er sett saman að miða fyrst og fremst við kenningu sem annarsvegar kemur ágætlega heim við almennar viðteknar skoðanir og sem hjálpar við að búa til það samhengi sem skiptir lesandann á endanum mestu máli. En það verður líka að hafa í huga að þetta samhengi og í rauninni öll sú framvinda og söguþráður sem góðir og innblásnir höfundar eins og Andri skapa, er tilbúið samhenig og framvinda. Það er eftirsóknarvert að skapa innsýn í hugsun og starf einstakra heimspekinga og einstakra kenninga en óþarft og að mestu leyti rangt að láta eins og framvindan og samhengið sé augljóst eða með aðeins einum tilteknum hætti. Þessvegna er kostur bókarinnar ekki síður það sem hún gerir ekki, en það sem hún gerir.

Andri Steinþór Björnsson. Vísindabyltingin og rætur hennar í fornöld og á miðöldum. Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2004. 379 bls.
Birt í Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *