(Flutt á opnum borgarafundi Framtíðarhóps Samfylkingarinar, Iðnó, 15. nóvember 2008)

Það er mikilvægt að læra: Þetta er viðkvæðið eftir að kreppan skall á: Við eigum að læra af öllu saman og getum kannski grætt á því þegar upp er staðið. Það er orðað svo að samfélagið „standi sterkara eftir“. En hvernig lærir maður af reynslunni – og hvað er það sem mikilvægt er að læra? Forsenda þess að hægt sé að vonast eftir breytingum til hins betra er að fólki lánist að láta hugsjónir frekar en ótta knýja sig áfram. Óttinn lokar leiðum og kemur í veg fyrir að fólk geti séð og hugleitt alla möguleika sína hverju sinni. Óttinn byrgir sýn og drepur von en skapar þess í stað ofsaraunsæi þar sem ekkert sést annað en hindranir og vandamál.

Þeir sem eru vongóðir við núverandi aðstæður virðast halda að það sé hægt að draga svo mikilvæga lærdóma af reynslunni að koma megi í veg fyrir að „neitt þessu líkt gerist aftur“. Þeir svartsýnu (sem af einhverjum ástæðum fer minna fyrir þessa dagana) telja að fátt lærist til frambúðar, mistök hljóti að endurtaka sig, kreppur séu óhjákvæmilegar með reglulegu eða óreglulegu millibili. Þeir sem halda að hægt sé að læra af mistökunum eru hugsjónamenn. En þeir svartsýnu sem halda að við lærum aldrei neitt eru raunsæir. 

Ég held að báðir hópar hafi alfarið rangt fyrir sér: Þeir glaðbeittu sem halda því jafnvel fram að kreppan sé frábær, hún sé góð því að hún kalli fram allskyns nýja eiginleika og hinir sem tuldra og tauta og mála skrattann endalaust á vegginn. Fátt er meira þreytandi en svo hatrammt raunsæi að ekki sést til sólar og fátt meira truflandi en svífandi hugsjónamennska sem hefur ekkert jarðsamband.

Ég held að maður læri af öllu sem maður horfist undanbragðalaust í augu við. Auðvitað getum við lært eitthvað af þessu hörmulega hruni sem við höfum mátt horfa upp á, skammarlegum álitshnekki landsins og flóknum og rándýrum samningum sem við neyðumst til að gera til að koma okkur á réttan kjöl. En það er ekki þar með sagt að við getum komið í veg fyrir að nokkuð þessu líkt gerist aftur. Kannski getum við það, kannski ekki – líklega ekki.

Hugsjónir – dygðir

Hinsvegar er hægt að endurhugsa pólitíkina. Það er tækifæri núna til að gera hana hugsjónamiðaðri en mér finnst hún amk hafa verið síðustu ár. Það er tækifæri til að opna hana meira og tækifæri til að endurhugsa gildin sem hún endurspeglar og dygðirnar sem eru eftirsóknarverðar fyrir þá sem stunda hana.

Þegar menn byrjuðu að hugsa skipulega um siðfræði í Grikklandi fyrir um 2500 árum, þótti eðlilegt að gera það út frá góðum einkennum í fari fólks. Slík einkenni eru nefnd dygðir, og í siðfræði forngrikkja eru fjórar höfuðdygðir: Hyggindi, hófstilling, hugrekki og réttlæti. Eftir að kristni skaut rótum bættust við þrjár kristnar dygðir, trú, von og kærleikur, þannig að höfuðdygðirnar urðu sjö. Dygðirnar hafa hinsvegar orðið dálítið útundan á síðari öldum. Menn hafa frekar viljað greina siðferði út frá lögmálum og hafa deilt um hvort siðferði eigi að lúta algildum reglum eða hvort góð breytni snúist fyrst og fremst um að stuðla að aukinni hamingju og velsæld.

Talandi um dygðir…

En upp á síðkastið hafa dygðirnar verið að birtast á nýjan leik. Siðfræðingar hafa gefið þeim meiri gaum og í atvinnulífinu hefur áhuginn á „gildum“ farið vaxandi. Ólíklegustu fyrirtæki og stofnanir setja sér gildi sem þau segja að stýri starfsemi þeirra með margvíslegum hætti. Án efa er mikið af þessu gildatali orðagjálfur fyrst og fremst, en þó er áhugavert að með því að láta í orði kveðnu eins og fyrirtæki starfi í ljósi ákveðinna grunngilda, er vissulega horft til dygðanna. 

Þegar gildi eru sett í öndvegi verður klisjan stundum yfirþyrmandi. Tökum gildi háskólanna sem dæmi: Háskóli Íslands hefur eftirfarandi grunngildi í stefnu sinni 2006-2011: Akademískt frelsi, Sjálfstæði og ábyrgð, Fjölbreytni, Jafnrétti og lýðræði, Heilindi og virðing, Hagsæld og velferð. Háskólinn í Reykjavík hefur þessi: Metnaður, heilindi, snerpa og áræðni. Ef við færum okkur yfir í fyrirtækin: Alcoa hefur þessi: Heilindi, Umhverfi, öryggi og vinnuvernd, Viðskiptavinurinn, Afburðir, Starfsmenn, Arðsemi, Ábyrgð. Og síðast en ekki síst: Hvaða fyrirtæki skyldi hafa flaggað þessum gildum árið 2001: Samskipti (Communication), Virðing (Respect), Heilindi (Integrity), Afburðaframmistaða (Excellence). Það var auðvitað Enron, sem hrundi með miklum látum skömmu síðar.

Það er auðvitað allt gott um þessi gildi að segja. Þó eru þau í flestum tilfellum eingöngu til marks um viðleitni til að byggja upp ímynd og framhlið. Þau segja okkur ekkert um það sem er raunverulega að gerast inni í stofnunum sem flagga þeim. Þau eru partur af auglýsingaherferð og geta verið glæst og frábærlega vel skýrð og rökstudd án þess að nokkuð sé á bak við þau.

Hvernig notar maður dygðir?

Hugmyndin um grundvallardygðir getur hjálpað við að hugsa um það sem gerst hefur og við að vinna úr þeim staðreyndum sem hafa blasað við okkur naktar síðustu vikur, ef við föllum ekki í gryfju sýndarmennsku. Það er ekki ólíklegt að mönnum detti í hug að þegar verstu afleiðingar hrunsins verða farnar að bíta á fólki, að nú þurfi að bæta ímynd stjórnvalda, jafnvel ímynd stjórnmálanna sem slíkra. Kannski munu menn leita til ímyndarsérfræðinga og auglýsingamanna, sem ráðleggja allskyns vinnu með gildi og framleiðslu stefnuplagga með háfleygu orðavali. Ég vona samt að menn hafi vit á að sleppa ímyndarherferðunum. Ímyndarherferð er ekki til þess fallin að greina mistök og læra af þeim, heldur snýst hún um að fela og breiða yfir. Auglýsingamenn og ímyndarsérfræðingar eru fagmenn í því, ekki í sjálfsskoðun.

Öll komum við með misjöfnum hætti að stjórnmálum og stjórnmálaþátttöku. Margir hafa tamið sér íróníska afstöðu gagnvart orðræðu og ákvörðunum stjórnmálanna, reyna alltaf að sjá hina földu stefnuskrá, hinn ósagða tilgang yfirlýsinga og aðgerða og treysta engum. Aðrir trúa því sem þeim er sagt og leggja traust sitt á einstaklinga eða flokka. Með því að horfa á fáeinar grundvallardygðir stjórnmálanna er hægt að meta trúverðugleika og frammistöðu. Dygðirnar má vissulega skilja sem gildi en munurinn er sá að þær eru illa til auglýsingamennsku. Þessi fornu grunnhugtök stjórnmála- og stjórnmálasiðferðis duga hinsvegar vel sem greiningartæki og til að sjá eigin hugmyndir og gerðir í réttu ljósi. 

Hyggindi

Hyggindi byggjast á því að horfa á afleiðingar orða og aðgerða í víðu samhengi og forðast þröngar eða einhliða túlkanir á möguleikunum í stöðunni hverju sinni. Það er nokkuð ljóst að skortur á hyggindum hefur verið okkur afar dýrkeyptur síðustu vikur. Skortur á hyggindum getur líka birst sem skortur á fagmennsku. Stjórnmálaleiðtogi eða háttsettur embættismaður sem skortir þekkingu á orsakasamhengi því sem hann eða hún er að fjalla um hverju sinni er ófær um að beita hyggindum. 

Hófstilling

Fólki blöskra, eðlilega, ofurlaun og meint „græðgi“ ýmissa forstjóra og forkólfa útrásarinnar. Græðgi er sett í samband við áhættusækni og ýmsa fleiri lesti. Til viðbótar við þetta hefur hér á landi hefur ríkt vaxandi mikilmennskubrjálæði á öllum sviðum um nokkurra ára skeið. Jafnvel forseti Íslands hefur ferðast um heiminn og útmálað fyrir hverjum sem heyra vildi hve stórkostlegir Íslendingar væru. Allar hugmyndir manna um árangur hafa gengið út á að Íslendingar skyldu verða leiðandi í heiminum, bestir á öllum sviðum. Ef einhver hefur bent á að ef til vill væri raunhæfara að stefna að því að ná öðrum þjóðum, vera jafnoki nágrannaþjóða eða eitthvað slíkt, hefur það hljómað sem óspennandi úrtölur og metnaðarleysi. Ef hægt er að horfast í augu við að þessi viðhorf voru hvorki metnaðarfull né framsækin heldur fyrst og fremst barnaleg, má ef til vill sýna fram á að meðalhóf er eftirsóknarvert í sjálfu sér: Hófstilling snýst um að forðast að taka skammtímahagsmuni fram yfir langtímahagsmuni. Það er, þegar öllu er á botninn hvolft, veikleiki að geta ekki unað við hægari ferð, smærri skref, raunhæfari markmið. Sá sem alltaf er að setja sér óraunhæf markmið er þegar upp er staðið síður líklegur til að ná markmiðum sínum en hinn sem temur sér hófstillingu.

Hugrekki

Það hefur verið algengt að vísa til hugrekkis þegar gildum fyrirtækja er lýst, ekki síst þeirra sem kenna sig við hugvit, þekkingu og menntun. Háskólinn í Reykjavík setur til dæmis áræðni á blað sem eitt af fjórum grunngildum. En það er vonlaust að hugsa af viti um hugrekki öðruvísi en í ljósi þeirra tveggja dygða sem ég hef nefnt nú þegar, það er að segja hygginda og hófstillingar. Þegar menn gleyma sér í upphafningu áræðninnar er iðulega verið að tala um að ganga lengra en hinir, jafnvel klekkja á hinum, taka meiri áhættu en þeir og óttast ekkert. En líklega höfum við nú séð afleiðingar þess. Við vitum að „útrásarvíkingarnir“ voru ekki hugrakkir, þeir voru fífldjarfir – með öðrum orðum: Þeir voru fífl. En þegar við hugsum um hugrekki sem dygð, er það alls ekki þetta sem við ættum að hafa í huga. Dygð hugrekkisins er ákveðin tegund af raunsæi: Að geta horfst í augu við aðstæður sínar og metið þær rétt án þess að láta það brjóta sig niður. Verið fær um að spila úr því sem maður hefur frekar en að blekkja sjálfan sig um stöðu sína og getu. 

Réttlæti

Réttlæti er líklega mikilvægasta en um leið ofnotaðasta hugtak stjórnmálanna. Það má hugsa um réttlæti á tvo vegu: Annarsvegar felst það í sanngirni í samfélaginu og hvernig slíkri sanngirni verður best lýst. Hinsvegar er réttlæti dygð sem prýðir (eða prýðir ekki) einstaklinga og hópa. Í nútímastjórnmálum er oftast talað um réttlæti í fyrrnefndu merkingunni, það er að segja sem sanngjarna dreifingu gæða og byrða, leiðréttingu ranginda sem menn eru beittir og makleg málagjöld til handa þeim sem brjóta gegn öðrum. Réttlæti sem dygð hefur ofurlítið annað inntak. Réttlátur einstaklingur gætir ákveðins jafnvægis í samskiptum við aðra og meðferð sinni á öðrum. Í stjórnmálum birtist réttlæti til dæmis í jafnvægislistinni á milli þess að gæta hagsmuna sinna eða umbjóðenda sinna annarsvegar og að viðurkenna hagsmuni og rétt annarra hinsvegar. Því miður er réttlæti sjaldséður eiginleiki stjórnmálamanna. Stjórnmál samtímans virðast í flestum tilfellum byggja á þeirri meginreglu að um umdeild mál sé einfaldlega beitt styrk frekar en að rökrætt sé um ólík sjónarmið. Að koma til móts við ólík sjónarmið felur ekki í sér að reynt sé að þjóna einkahagsmunum sem flestra, heldur að tekið sé fullt mark á ólíkum röksemdum og sú krafa sé ríkjandi að þær séu brotnar til mergjar. 

Pólitískar dygðir í stað kristnu dygðanna

Í augum forngrikkja voru þær fjórar dygðir sem ég hef rætt um hér, þess eðlis að það mátti líta á þær sem einkenni jafnt einstaklinga sem samfélaga. Við getum sagt um hvort heldur sem er einstakling eða hóp að hyggindi, hófstilling, hugrekki eða réttlæti einkenni hann. Þær eiga við alla „aðila“ sem koma að ákvörðunum. Eins og ég nefndi áður eru kristnu dygðirnar þrjár viðbót við fornu megindygðirnar. Þær eru í eðli sínu persónulegar eða einstaklingsbundnar dygðir og varða sálarlíf mannsins og tengsl hans við Guð. Þessar dygðir eru merkingarlitlar í samfélagi sem er eins og okkar pólitískt frekar en trúarlegt eða guðrækið og þar sem mat okkar á farsæld einstaklings og samfélaga hefur lítið eða ekkert að gera með guðrækni þeirra eða trú. Þessvegna ætla ég að gera þá tilraun að skipta kristnu dygðunum út fyrir þrjár pólitískar dygðir sem henta sérlega vel þegar reynt er að hugsa um heilbrigt pólitískt viðhorf.

Einlægni

Við sáum í yfirlitinu yfir gildin hér áðan að hugtakið heilindi (integrity) kemur fyrir hjá öllum fjórum stofnununum sem nefndar voru. Heilindi eru ósköp eðlilegur hluti af ímyndarbyggingu: Allar stofnanir vilja skapa traust og heilindi eru grundvöllur trausts. En hver er þá samsvarandi dygð? Hugtakið einlægni vísar oft til trúnaðartrausts, allt að því barnalegs viðhorfs til annars fólks sem við fyrstu sýn virðist lítil tengsl hafa við pólitík. En einlægni í pólitík er í rauninni ekkert annað en andstæða íróníu. Írónískur stjórnmálamaður getur verið heiðarlegur að mörgu leyti, en hann gerir þó alltaf ráð fyrir því að stjórnmál feli í sér margvíslega nauðsynlega blekkingu. Hann sér alla stjórnmálaumræðu í strategísku ljósi og gerir ráð fyrir því að andstæðingurinn hugsi alveg eins. Þeir sem koma nýir inn í stjórnmál eru einmitt oft álitnir barnalegir af því þeir hafa ekki lært þessa kúnst og eru því einlægir. Þeir gera þau mistök að skilja og túlka það sem sagt er bókstaflega. Reyndir stjórnmálamenn eru sjaldnast einlægir, þar sem reynslan hefur gert þá að atvinnumönnum í að takast á við samherja og andstæðinga. Til þess að varðveita einlægnina þarf að fækka atvinnupólitíkusum en fjölga þeim sem taka þátt í pólitík tímabundið og sem hluta af samfélagslegri virkni.

Framsýni

Það er ósköp auðvelt að tala fjálglega um framsýni og halda því fram að hún sé mikilvægur eiginleiki í stjórnmálum. En staðreyndin er sú að framsýni umfram þá framsýni sem nauðsynleg er til að ná taktískum árangri er sjaldséð. Framsýnn stjórnmálamaður beitir sér fyrir málefnum sem hugsanlega skila árangri svo seint að hann nýtist alls ekki. Þetta er þekkt vandamál úr stjórnmálaheimspeki. Hvernig er hægt að tryggja að stjórnmálamenn sjái sér hag í því að tryggja afkomu og farsæld komandi kynslóða, þegar sá árangur þeirra þarf ekki að breyta neinu um samtíma þeirra? Það sem verra er: Stjórnvöld hæla sér oft af því að hafa tekið ákvarðanir sem muni leiða til framtíðarfarsældar, þegar margar ástæður eru til að efast um að þær leiði til farsældar í framtíðinni. Eina leiðin til að stuðla að framsýni er að krefjast hennar og fara fram á að ákvarðanir séu metnar í ljósi hagsmuna komandi kynslóða.

Samvinna

Undanfarnar vikur hefur það vægast sagt verið áberandi að stjórnvöld, og þetta á við um báða stjórnarflokkana, virðast með öllu ófær um að nýta samvinnu við að taka á fjármálakreppunni og skipuleggja starf utan mjög þröngs hrings einstaklinga sem talið er að sé treystandi. Þetta hefur beinlínis hamlað því að hægt væri að finna góðar lausnir á helstu vandamálunum, það hefur komið í ljós að þegar á reynir og mikilvægt er að nýta alla tiltæka krafta, þá reynist vonlaust að skipuleggja víðtækt samráð eða samstarf. Þetta sýnir mjög vel að lýðræðislegar aðferðir geta skipt höfuðmáli við aðstæður eins og nú. Stjórnvöld sem rækta samvinnu út fyrir sínar raðir eru einfaldlega betur undir krísuástand búnir. Samvinnan er það eina sem getur unnið upp kunnáttuleysi einstaklinga. Þannig má til dæmis benda á að ástæða mistakanna sem gerð hafa verið í Seðlabankanum stafi ekki af því að Seðlabankstjóri er ekki fagmaður, heldur vegna þess að hann er alræmdur fyrir að hlusta ekki eftir skoðunum og þekkingu annarra og vinnur ekki nema með örfáum nánum samstarfsmönnum. Það er þetta sem gerir hann og þar með bankann ófæran um að bregðast við ástandinu.

Raunsæi og hugsjónir

Raunsæi án hugsjóna er kæfandi; hugsjónir án raunsæis eru merkingarlausar: Ef stjórnmál eru knúin áfram af hugsjónum verður raunsæi að vera kjölfesta þeirra. Þegar ég segi knúin áfram af hugsjónum á ég ekki við að skýjaborgir eða draumar ráði ferðinni, heldur að tekist sé á við umhverfið og veruleikann án ótta. Það vonda við krísuástand eins og það sem nú ríkir er að öll viðbrögð og allar ákvarðanir séu takmarkaðar af hugmyndaleysi óttans, sem leiðir alltaf til þess að fólk heldur sig hafa miklu færri og miklu verri kosti en það hefur í raun og veru. Þegar ákvarðanir eru hugsjónamiðaðar byggjast þær á þeirri vissu að umhverfi, nágrannar, umheimurinn, náttúra efnahagur og svo framvegis séu uppspretta tækifæra frekar en ógnun sem stöðugt þarf að verjast. Raunsæi birtist ekki aðeins í því að sjá hættur og ógnir þar sem þær er að finna heldur einnig og ekki síður í því að takast á við þær þegar þær birtast en takast ekki á við þær nema þær birtist.

Það er auðvelt að vera naíf – barnalegur – í draumórum um stjórnmál framtíðarinnar. En við skulum vera raunsæ. Það er ólíklegt að við eigum eftir að sjá siðbót í stjórnmálum á augabragði þrátt fyrir móralskt gjaldþrot stjórnvalda um leið og hyldýpi þjóðargjaldþrotsins blasir við. Það er kannski ofurlítið sakleysilegt að fara að tala um dygðir á tímum eins og nú. En það má ekki skilja dygðir á sama veg og hin innatnómu „gildi“ fyrirtækja og stofnana. Dygðir eru eftirsóknarverð einkenni og sem hugtök eru þær greinginartæki sem geta skerpt sýn okkar á stjórnnmál. Þær eru góður samræðugrundvöllur við stjórnmálin. Þær eru einkum og sér í lagi góðar vegna þess að þær opna leið fyrir siðferðilega gagnrýni á stjórnmál sem iðulega vantar í stjórnmálaumræðu. Það á að vera hægt að krefjast þess að hyggindi, hófstilling, hugrekki og réttlæti einkenni pólitískar umræður og ákvarðanatöku og að í pólitík ríki einlægni, framsýni og samvinna. Ef ekki – þá er eitthvað að. En það er nú kannski einmitt málið.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *