Í einum af þáttunum þremur um ítalska skurðlækninn Paolo Macchiarini, sem sænska sjónvarpið lét gera og höfðu umtalsverð áhrif á skilning fólks á gervibarkaígræðslum hans, er stutt en áhrifamikil sena: Macchiarini er að spjalla við kollega sinn og vin sem lætur móðan mása um áhættuna sem skurðlæknar þurfa stöðugt að horfast í augu við. Oft er það mikilvægasta sem skurðlæknir gerir, segir vinurinn, að ákveða að skera ekki. Macchiarini horfir tómlega í hina áttina en áhorfandinn skilur – vinurinn skilur það kannski ekki eins vel – að þetta er einmitt málið. Macchiarini var maðurinn sem gat ekki stillt sig um að beita hnífnum, gat ekki beðið.
Allir sem fá völd, mikil eða lítil, til skemmri tíma eða lengri, standa frammi fyrir nákvæmlega sömu spurningu: Hvenær er betra að beita valdinu ekki, frekar en að beita því? Leyfa hlutunum að hafa sinn gang, frekar en hafa bein áhrif, segja ekkert, frekar en að segja stopp, hafast ekki að frekar en að grípa til aðgerða? Þetta getur verið erfið spurning. Það er eins og sumir haldi að völd feli alltaf í sér skyldu til að beita þeim. Eins og skurðlæknirinn sem finnst alltaf að hann eigi að skera, frekar en að skera ekki

Þegar hlutirnir þurfa að hafa sinn gang
Hugrakkasti leiðtogi síðari ára er án nokkurs vafa Mikhail Gorbatsjov, síðasti leiðtogi Sovétríkjanna (og í senn fyrsti og síðasti forseti þess ríkis). Hann ákvað að beita ekki valdi sem hann þó hafði hafði. Í stað þess að nota tiltækar aðferðir og meðul til að stöðva þá þróun sem á endanum varð til þess að hans eigið ríki leystist upp, gaf hann eftir og leyfði atburðarás að þróast. Þetta aflaði honum ekki vinsælda og mörgum fannst hlutskipti hans – að lúta í lægra halda og þurfa að játa sig sigraðan á meðan fáni ríkisins var dreginn niður í síðasta skipti – hreinn harmleikur. Sjálfur hefur Gorbatsjov aldrei tekið undir það. Og fyrir vikið er hann ekki misheppnaður eða fallinn leiðtogi. Hann hefur líka rétt fyrir sér. Það er fyrst og fremst honum að þakka að kalda stríðinu lauk átakalaust. Haukarnir vestanhafs og í Evrópu sem í dag eiga erfitt með að leyna aðdáun sinni á Pútín hæla sér gjarnan af því að hafa unnið kaldastríðið. En það geta þeir aðeins vegna þess að sá vægði sem vitið hafði meira.

Fundið vald og viljinn til að beita því
Íslenska forsetaembættið er valdalaust embætti – eða var það þangað til fyrir rúmum áratug þegar forseti Íslands ákvað að grípa inn í starf löggjafans með því að neita að skrifa undir lög sem Alþingi hafði samþykkt. Þetta var árið 2004. Skýringarnar sem hann gaf á þessari ákvörðun sinni var einfaldlega að það væri of mikil andstaða við þessi lög í samfélaginu til að rétt væri að staðfesta þau, betra væri að þjóðin fengið sjálf tækifæri til að greiða atkvæði um þau. Hann sveipaði þetta einfalda atriði í mælskulist sem mörgum fannst hljóma vel, eins og forsetinn væri að gera rétt. Hann hefði varið lýðræðið í landinu.
Þótt þetta inngrip forsetans – og sambærilegar aðgerðir hans sex og sjö árum síðar – hafi verið rætt fram og til baka er túlkunin á þeim enn mjög á reiki. Hvernig er rétt að skilja synjanir forsetans á fjölmiðlalögum og lögum um Icesave? Því er iðulega haldið fram að hann hafi breytt stjórnskipaninni, og þar með bæði væntingum til forsetambættisins og möguleikum sitjandi forseta til að hafa áhrif á gang mála.
En það sem blasir við var að forsetinn fann vald og beitti því og nú getur enginn horft framhjá því. Þetta þýðir að forsetar framtíðarinnar munu beita því. Hvers vegna? Jú af sömu ástæðu og skurðlæknirinn sker. Það er of erfitt að skera ekki, láta hjá líða að hafa áhrif frekar en að hafa ekki áhrif.
Það er athyglisvert að forsetaframbjóðendur í ár hafa allir sagst myndu bregðast við kröfum eða óskum frá almenningi um að neita að undirrita lög. Þeir ganga mislangt, flestir segjast myndu meta mál hverju sinni en ekki gefa út neitt fyrir fram um að þeir muni synja lögum staðfestingar ef til dæmis einhver tiltekinn fjöldi undirskrifta með ósk um slíkt berist. Það gæti alveg verið að þeir teldu rétt að gera það: Þeir vilja bara ekki gefa upp hverskonar aðstæður myndu leiða þá til þess. Enginn útilokar að beita þessu valdi og í raun virðast allir telja líklegt að til þess muni koma.
Ég er ekki frá því að það þyrfti meira hugrekki til þess núna af frambjóðanda að hafna synjunarvaldinu – nema sú aðstaða skapaðist að forsetinn einfaldlega gæti ekki samvisku sinnar vegna undirritað tiltekin lög – heldur en að segja eitthvað spekingslegt um að meta verði hvert mál fyrir sig. Kannski þýðir þetta að núverandi forseti hafi breytt stjórnskipaninni, eins og sumir hafa sagt, en kannski þýðir það bara forsetinn er kominn með hníf í hendurnar og fer þess vegna óhjákvæmilega að ala með sér þá ranghugmynd að hann eigi líka að skera með honum.

Valdalaust vald
Það er enginn vafi á því að fyrri forsetar, Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir, sáu ekki fyrir sér aðstæður þar sem réttlætanlegt væri að beita neitunarvaldinu og þau töldu bæði að ef til þess kæmi væri það fyrst og fremst persónuleg ákvörðun sem myndi líka kosta þau embættið. Þau sáu með öðrum orðum ekki fyrir sér að forsetinn gæti beitt valdinu og verið forseti áfram. Þau voru hugrakkir forsetar. Í þeirra augum var vald forsetaembættisins ekki beint vald heldur óbeint, staða til að beita áhrifum og samræðu frekar en beinum afskiptum af lýðræðislegri stjórn landsins.
Hugmyndin um að forsetinn sé valdsmaður sem getur þegar svo ber undir stöðvað mál og látið þjóðaratkvæðagreiðslur fara fram um umdeild málefni, grefur undan þeirri hefð embættisins sem skapaðist á fyrstu áratugum þess. Hún grefur undan forsetaembættinu sjálfu. En hún er líka afleiðing óljósrar stjórnskipunar sem mikilvægt er að breyta sem fyrst með formlegum og skýrum hætti.
Þeir eru til sem halda því fram að synjunarvald forsetans megi nýta í þágu lýðræðis og það hafi reyndar verið gert í þeim tilfellum sem forsetinn hefur neitað að undirrita lög. Þá hafi vilji fólksins fengið að ráða frekar en vilji þingmeirihluta sem hafi verið úr takti við almenning í landinu.
En þessi röksemd stenst enga skoðun. Það liggur í hlutarins eðli, í samfélagi sem úthlutar fulltrúum valdi á nokkurra ára fresti, og felur þeim að stjórna landinu, að ákvarðanir þessara fulltrúa geta verið á andstöðu við meirihlutavilja hverju sinni. Það er meira að segja ein mikilvægasta réttlæting slíks skipulags að fulltrúarnir eigi ekki að láta tímabundinn mótbyr stjórna ákvörðunum sínum, heldur eigi þeir að leita leiðanna sem þeir telja bestar og standa svo fyrir máli sínu þegar fram líða stundir. Enda er almenningsálitið mjög breytilegt.
Hvað sem manni finnst um þessa skipan mála, þá er hún ein útgáfa lýðræðis. Það er hins vegar mikilvægur hluti af lýðræðislegri þátttöku að þegar andstaða skapast við þing eða ríkisstjórn séu aðferðir tiltækar sem almenningur getur notað til að hafa áhrif á stjórnvöld. Þetta geta verið mótmæli eða undirskriftasafnanir, umræðu- eða upplýsingaherferðir og margt fleira. Það geta líka verið til formlegar leiðir fyrir almenning til að knýja fram atkvæðagreiðslur um umdeild mál eða aðrar leiðir til beinna áhrifa á þing eða ríkisstjórn.
Þegar forsetinn er orðinn sá milliliður sem fólk leitar til og biður náðarsamlegast um að stöðva lýðræðislega kjörna fulltrúa er hins vegar eitthvað allt annað á ferðinni. Með því verður forsetinn fyrst líkur kóngi eða keisara sem getur þegar honum líkar ekki það sem löggjafinn gerir tekið sig til að sagt stopp.

Veikur hangir í valdi
Það er ekki að undra að allir forsetaframbjóðendur skuli sammála um að forseti hafi í einhverjum skilningi þetta hlutverk, að taka fram fyrir hendur löggjafans þegar svo ber undir því annars væru þeir að gera lítið úr valdi forsetans og það getur litið út eins og þeir vilji að forsetinn sé „veikur“.
En í raun er þessu öfugt farið. Það er veikur forseti sem hangir í þessu valdi sínu, frekar en að gefa það einfaldlega frá sér – reyna að snúa af þeirri óheillabraut sem núverandi forseti hefur komið embættinu á með sínum lánlitlu ákvörðunum. Við höfum nefnilega ekkert við sterkan forseta að gera, ef með sterkum forseta er átt við frekan kall sem „stendur í lappirnar“ gagnvart stjórnvöldum og segir þeim fyrir verkum þegar honum sýnist svo.
Það getur hins vegar verið einhvers virði að hafa forseta eins og Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir voru. Fólk sem tekur það hlutverk sitt alvarlega að ræða við þjóðina á vitrænum nótum um hluti sem skipta máli. Stuðla að heilbrigðu pólitísku samtali og leggja sig fram um að skapa einingu.
Síðustu átta ár, frá hruninu 2008 hafa verið mikil sundrungarár. Það hefði verið gott á þeim tíma að hafa forseta sem gæti sameinað frekar en sundrað. Þótt núverandi forseti hæli sér af því að hafa stuðlað að því að betri niðurstaða fékkst í Icesave málinu og telji sig jafnvel hafa sameinað þjóðina í því, þá er erfitt að sjá nokkuð annað en sundrungu í því máli. Jú, við fengum kannski betri díl – en í boði forsetans var tekist á um málið tvö löng ár í hatursfullum hjaðningavígum.
Ef næsti forseti ætlar sér að vera farsæll ætti hann að gera tvennt: ákveða strax að skera ekki – láta ógert að beita valdinu – og vinna með fólkinu í landinu að því að fá nýja stjórnarskrá.

Upphaflega birt í Stundinni #25, 16. júní 2016. Sjá vefútgáfu: http://stund.in/PKg