Bækur Antony Beevors um stóratburði 20. aldar hafa orðið metsölubækur hver á fætur annarri. Bók hans um orrustuna um Stalíngrad sló rækilega í gegn fyrir nokkrum árum og sömu sögu er að segja um Fall Berlínar, sem fyrst kom út í Bretlandi fyrir réttum tveimur árum og er nú fyrst bóka Beevors til að birtast á íslensku, í þýðingu Jóns Þ. Þórs. Á þessu ári hefur bók Beevors um spænska borgarastríðið einnig vakið heimsathygli.
Það er auðvelt að skilja vinsældir bóka Beevors, hann er er bæði lipur og þróttmikill höfundur sem hefur lag á að finna rétt jafnvægi á milli nákvæmni og frásagnarlistar. Það er því ekki að ástæðulausu að bókum hans er iðulega líkt við skáldsögur. Honum hættir kannski helst til að vera smámunasamur þegar kemur að hernaðarlegum þætti þeirra atburða sem hann fjallar um í Falli Berlínar, en honum er greinilega mjög í mun að lesandinn átti sig á vel framrás sovéska hersins til Berlínar á síðustu mánuðum heimstyrjaldarinnar.
Verk Antony Beevors eru þó miklu meira en vel skrifuð saga atburða sem búið er að fjalla um í ótal bókum öðrum. Fall Berlínar er afrakstur merkilegra rannsókna á sovéskum heimildum sem í mörgum tilfellum hafa ekki verið aðgengilegar sagnfræðingum, síst vestrænum. Þannig getur Beevor sett saman frásögn sem bætir töluverðu við þekkingu fólks um stríðið og stríðslokin og án efa slær það flesta lesendur bókarinnar hvílíka áherslu Beevor leggur á ofbeldi gagnvart óbreyttum borgurum, einkum þær hrikalegu nauðganir sem fylgdu Rauða hernum alla sigurgöngu hans til Berlínar.
Það má segja að hryllingur stríðslokanna sé meginviðfangsefni bókarinnar; það er að segja sá hryllingur sem tók við hjá óbreyttum borgurum í Þýskalandi þegar stjórn nasista hrundi smám saman eftir því sem hersveitir bandamanna nálguðust hjarta ríkisins. Bersögli Beevors um nauðganir rússneskra hermanna hafa ekki skapað honum miklar vinsældir í Rússlandi og endurspeglar það líklega ólíkar túlkanir Rússa annarsvegar og Vestur-Evrópumanna og Bandaríkjamanna hinsvegar á sigrinum á Þjóðverjum. Það er nánast vonlaust að halda því fram í opinberri umræðu í Rússlandi að rússneskir hermenn hafi gerst sekir um jafn svívirðilegt og langvarandi ofbeldi gagnvart þýskum konum og Beevor heldur fram. En svörin sem gefin eru við slíkum staðhæfingum eru nokkuð mótsagnakennd: Ýmist er þvertekið fyrir að nauðganir hafi átt sér stað, eða því er haldið fram að slíkt ofbeldi sé skiljanlegt – jafnvel réttlætanlegt – með tilliti til þess sem sovéskir borgarar hafi orðið að þola við innrás Þjóðverja í Sovétríkin fjórum árum áður.
Síðara viðhorfið er raunar algengara í daglegu tali manna. Oft þykir ekki tiltökumál að viðurkenna ofbeldið og flestir hafa heyrt sögur – hryllingssögur, frá Königsberg í Austur-Prússlandi (þær eru verstar), og öðrum þýskum borgum sem Rauði herinn tók á leið sinni til Berlínar. Blaðamenn ýjuðu að ofbeldinu og hvöttu jafnvel til þess. Beevor notar skrif sovéskra blaðamanna og rithöfunda sem fylgdust með framrás Rauða hersins kunnáttusamlega og bendir á að iðulega gáfu menn eins og Ilja Ehrenburg tóninn með óbeinum réttlætingum á því að komið væri fram við óvininn af grimmd, jafnvel þegar af óvininum var ekki annað eftir en vopnlausir og hungraðir borgarar. En öðru máli gegnir um hina opinberu frásögn. Rússnesk yfirvöld halda enn dauðahaldi í glansmyndina af frelsun Evrópu og þær hetjuímyndir sem búnar hafa verið til í kringum hana. Annar breskur sagnfræðingur, Catherine Merridale, sem nýlega gaf út bókina Ivan’s War um Rauða herinn í heimstyrjöldinni, og byggði hana að miklu leyti á viðtölum, fékk næstum enga af viðmælendum sínum til að samþykkja að nauðganir og ofbeldi gagnvart óbreyttum borgurum hefði verið meira en við væri að búast undir þessum kringumstæðum, og þaðan af síður til að segja frá einstökum atburðum sem menn hefðu orðið vitni að sjálfir. Öllum tilraunum erlendra sagnfræðinga til að skyggnast undir þá hulu sem dregin hefur verið yfir þessa hlið atburðanna er í Rússlandi tekið sem árás á réttmætt stolt Rússa yfir sigrinum í heimstyrjöldinni.
Það er eðlileg spurning hvort Beevor geri of mikið úr hryllingnum sem fylgdi framrás Sovétherjanna en fegri framferði Bandaríkjamanna, Breta og Frakka. Vissulega gerðu menn sér glansmynd af framrás vesturherjanna sem vafalaust er að hluta byggð á fegrun, rétt eins og sú mynd sem Rússar hafa af sínu liði. Kannski leiða myndirnar úr Abu Ghraib fangelsinu í Írak til einhverrar endurskoðunar á ímynd Bandaríkjamanna í öðrum stríðum líka. En það er hinsvegar ekki víst að svarið við spurningunni sé áhugavert. Aðalatriðið er alls ekki hver var betri og hver verri heldur miklu fremur að ekki sé látið eins og það sem gerðist hafi alls ekki gerst.
Þýðing Jóns Þ. Þórs rennur að mestu leyti vel, þó að af til birtist stirðlegar setningar – þeim fer raunar fjölgandi þegar líður á bókina. Útgáfan er að flestu leyti vel úr garði gerð, en þó er það galli að ritaskrá, sem virðist vísað til í neðanmálsgreinum, er alls ekki að finna í bókinni.

Fall Berlínar, 1945. Antony Beevor, Jón Þ. Þór íslenskaði, 422 bls. Reykjavík: Bókaútgáfan Hólar, 2006.
Birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 2006.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *