Í bókinni Sovét-Ísland óskalandið heldur Þór Whitehead því fram að íslenskir kommúnistar hafi verið stórhættulegir stjórnvöldum og stjórnskipan Íslands um langa hríð, enda hafi þeir verið sérþjálfaðir í Moskvu til að gera blóðuga byltingu á Íslandi og brýndir áfram af leiðtogum Alþjóðasambands kommúnista og sjálfra Sovétríkjanna til að undirbúa byltinguna á Íslandi og væntanlega aðild Íslands að Sovétríkjum heimsins, ef að líkum lætur.

Ég hef á undanförnum árum nokkrum sinnum gert athugasemdir við skrif Þórs um íslenska kommúnista, einkum þann hluta þeirra sem varðar tengslin við Alþjóðasamband kommúnista, en Kommúnistaflokkur Íslands var deild í Alþjóðasambandi kommúnista 1930 til 1938 eins og gilti um flesta kommúnistaflokka á þeim tíma. Í nýju bókinni heldur Þór því fram að heimildir sýni að ég hafi rangt fyrir mér um þessi tengsl, ekki síst um þjálfun Íslendinga í flokksskólum í Moskvu.

Efnið sem við Þór erum ósammála um er vissulega mjög áhugavert og umdeilt, ekki aðeins á milli okkar tveggja. Þessvegna er ég nú með grein í smíðum sem líklegt er að birtist í Skírni á þessu ári um nám Íslendinga við flokksskóla. Við Þór Whitehead erum hinsvegar ekki aðeins ósammála um túlkun. Heimildanotkun hans er svo ómerkileg og svo fjarri því að gefa rétta mynd af atburðum, atburðarás, umræðum, ákvörðunum og samskiptum þeirra sem hann fjallar um að mér er ómögulegt annað en að mótmæla þeim. Málflutning sinn kryddar hann þar að auki með aðdróttunum í minn garð sem eru í flestum tilfellum fáránlegar.

Meginveikleiki bókar Þórs er sá að hann byggir fullyrðingar sínar um dvöl Íslendinga í Moskvu og samskipti þeirra við leiðtoga Kominterns og fulltrúa Sovétstjórnarinnar ekki á neinum frumrannsóknum. Þór hefur aldrei komið í skjalasöfn Kominterns og Kommúnistaflokksins sáluga og því þarf hann að nota verk annarra og rífa úr samhengi allt sem hann finnur sem einhvernveginn tengist hernaði eða herþjálfun. Til viðbótar nýtir hann sér glefsur úr skjalasafni Kominterns, aðallega skjöl sem ég afhenti Handritadeild Landsbókasafnins fyrir mörgum árum. Því er það svo, að þegar lesandinn vill grafast fyrir um heimildir Þórs fyrir fullyrðingum sínum um menn og málefni og ályktanir um ofbeldisáform og beint ofbeldi, þá grípur hann iðulega í tómt.

Vandi Þórs í Sovét-Íslandi er raunar klassískur. Hann fer af stað til að færa sönnur á þá tilgátu sína að kommúnistar hafi lært að beita ofbeldi í Moskvu og sá lærdómur móti allt starf þeirra upp frá því. Hann leitar uppi allt sem hugsanlega getur stutt þessa tilgátu í skjalaglefsum og verkum annarra sagnfræðinga og hrósar svo sigri. Engin tilraun er gerð til að nálgast tilgátuna gagnrýnum augum og heimildir sem benda í aðrar áttir eru sniðgengnar.

Nú vill svo til að ég gjörþekki þeir heimildir sem Þór er að nota, enda hef ég farið í gegnum þær í mörgum heimsóknum á skjalasafn Kominterns og miklu meira til. Það er því tiltölulega auðvelt fyrir mig að benda á hvernig flestar tilraunir Þórs til að sýna fram á að Kommúnistaflokkur Íslands hafi með kerfisbundnum hætti skipulagt ofbeldisverk og að nokkrir liðsmenn hans hafi hlotið sérstaka þjálfun til að beita kerfisbundnu ofbeldi, missa marks. Til þess að gera þetta er hinsvegar nauðsynlegt að fara vandlega í gegnum heimildanotkun Þórs og sýna hvernig texti sem á yfirborðinu virðist sannfærandi, hrynur eins og spilaborg þegar tekið er á honum

Þar sem leiðréttingar mínar og gagnrýni eru ekki endilega skemmtilestur frá upphafi til enda þó að þær séu nauðsynlegar, auk þess sem æskilegt er að þær séu aðgengilegar stærri lesendahóp en þeim sem að jafnaði les Skírni, ætla ég að svara Þór hér á þessari vefsíðu og þannig nota hana fyrir hið óhjákvæmilega karp sem fylgir slíkum leiðréttingum. Ég mun eftir föngum einnig birta hér helstu heimildir, sem auðveldar mér að rökstyðja mál mitt hverju sinni. Þessi skrif munu birtast hér á þessari vefsíðu næstu vikur og mánuði en þau fyrstu strax í framhaldi af þessum inngangi.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *