Í þrítugasta kafla Sovét-Íslands heldur Þór Whitehead áfram að draga ályktanir af bréfinu frá stjórnmálaráði framkvæmdanefndar Kominterns sem ég fjallaði um í síðasta skammti þessara athugasemda við bók hans. Hann gengur nú svo langt að halda því fram að með bréfinu hafi kommúnistum verið „falið að ráðast af meiri hörku á lögregluna“ (bls. 159), enda eigi þeir að stunda „látlausa baráttu fyrir byltingu í landinu“ (bls. 156). Ég hef skýrt hversvegna ályktanir Þórs standast ekki skoðun bréfsins sjálfs og samhengis þess. Í þrítugasta og fyrsta kafla (bls. 166) heldur hann áfram að blóðmjólka bréf það sem einnig var vitnað til áður sem Jens Figved sendi félögum sínum frá Moskvu 1931, út frá þeirri túlkun sinni á bréfinu, að gagnrýni Jens á hugmyndina um leynilegt bardagalið séu um leið fyrirmæli Kominterns um að þeir stofni opinbert bardagalið. Í báðum tifellum blasa sömu mistök við. Þór skortir heimildir til að halda því fram að gefin hafi verið fyrirmæli um stofnun bardagasveitar og árásir á lögregluna, en þar sem hann er sannfærður um að slík fyrirmæli hafi verið gefin, túlkar hann það sem hendi er næst á þann veg.

Það sem heimildirnar sýna hinsvegar er að það var heitt í kolunum á Íslandi á árunum 1931 og 1932 og mikil spenna á milli verkafólks annarsvegar og yfirvalda hinsvegar. Kommúnistar voru ekki einir um að stofna einkennisbúið lið, það gerðu líka þjóðernissinnar, sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn eins og Þór rekur sjálfur (bls. 219-220). Þegar tekið er tillit til þess að Varnarlið verkalýðsins var aðeins ein af fjórum slíkum sveitum sem allar tengdust flokkum eða stjórnmálahreyfingum, verður ennþá erfiðara að tengja stofnun liðsins við óséð Kominternfyrirmæli. Sama gildir um gagnrýnina á framgöngu kommúnista í apríl 1931, sem kemur fram í nóvemberbréfinu. Fyrirmælin sem íslensku kommúnistarnir höfðu frá Komintern á þessum tíma voru mjög einföld. Þeir áttu að fjölga félögum í flokknum, skipuleggja flokksstarfið í sellum og vera í forystu verkalýðsbaráttunnar sem að sjálfsögðu fól í sér þátttöku í verkfallsaðgerðum, mótmælaaðgerðum og öðrum samkomum vinnandi fólks og atvinnuleysingja. Í þeim heimildum um samskiptin við Komintern sem ég hef séð er hvergi að finna fyrirmæli um að ráðast á lögregluna. Í þeim skýringum sem forystumenn KFÍ sendu Komintern er þess gætt vandlega að lýsa átökum svo, að lögreglan hafi ráðist á kommúnista sem hafi þurft að verjast. Hver svo sem sannleikur málsins var í hverju einstöku tilfelli, þá var þetta sú lýsing sem menn kusu að gefa yfirstjórninni í Moskvu á aðgerðum sínum.

Nú kann vel að vera að Þór telji sig hafa góðar ástæður til hinnar óvæntu túlkunar sinnar á bréfi Stjórnmálaráðs Kominterns frá 23. nóvember 1931, hún þarfnast þó sannarlega skýringar. En í stað þess að rökstyðja túlkun sína lætur Þór eins og hún sé augljós og fer verstu orðum um þá sem leyfa sér að skilja málið öðruvísi (bls. 167 nmgr.). Bréfið sjálft er þar að auki aðeins fylgibréf með fyrirmælum sem samþykkt hafa verið hjá Stjórnmálaráðinu 12. nóvember sama ár og send flokknum. Það hefði því ef til vill verið skynsamlegra að vísa til fyrirmælanna sjálfra, þótt bréfið lýsi þeim raunar ágætlega. Fyrirmælin eru í meginatriðum þessi: Afhjúpa Alþýðuflokksmenn og borgaraleg öfl sem óvini verkalýðsins, sýna forystu í aðgerðum verkalýðsins og láta ekki boð og bönn yfirvalda koma í veg fyrir mótmælafundi, vinna félaga í Alþýðuflokknum á sitt band og fá þá til að ganga í kommúnistaflokkinn (sjá RGASPI 495 3 294 bls. 247-254 hef ekki afrit).

Byltingarástand á Íslandi?

Í þrítugasta og níunda kafla Sovét-Íslands örlar í fyrsta skipti í ritinu á röksemdafærslu sem segja má að sé svaraverð. Í þessum kafla reynir Þór að minnsta kosti að setja fram túlkun á heimildum og rökstyðja túlkun sína. Kaflinn fjallar meðal annars um skilyrðin fyrir byltingu og hvort forystumenn íslenskra kommúnista hafi talið að þau væru að skapast á Íslandi árið 1932. Margt bendir til að Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason hafi talið að svo kynni að vera og þetta telur Þór að skýri „enn þá nauðsyn, sem bar til þess að ungir flokksmenn [Einars] sæktu kennslu í vopnaburði, hernaðarlist og neðanjarðarstörfum hjá Komintern“ (bls. 206). Til þess að botna röksemdafærslu sína hefði Þór hinsvegar þurft einhverjar heimildir til að sýna fram á að íslensku kommúnistarnir tengdu þetta mögulega byltingarástand við hernaðarþjálfun í Moskvu, óskuðu eftir fleiri plássum fyrir sína menn í byltingarskólunum og ræddu herskipulag og byltingaraðferðir við yfirstjórnina í Moskvu. Ekki hafa hinsvegar enn komið fram neinar heimildir um þetta. Í langri skýrslu sem Brynjólfur Bjarnason flutti í Moskvu sumarið 1932 og Þór vitnar í nefnir hann þetta mögulega byltingarástand, en samhengið er ekki vopnuð bylting, heldur neyðarástand vegna langvarandi vinnudeilna og matarskortur, jafnvel hungursneyð. Af einhverjum ástæðum kýs Þór að vísa einungis til lítils hluta skýrslunnar frekar en að fjalla um hana í heild sinni, það er að segja myndar af einni blaðsíðu hennar sem birtist í bók Arnórs Hanniblassonar, Moskvulínunni. Til þess að skilja hana og samhengi hennar er hinsvegar nauðsynlegt að lesa hana í heild og þau viðbrögð sem hún og aðrar upplýsingar um ástand mála á Íslandi vöktu hjá Komintern. Þessi viðbrögð koma meðal annars fram í bréfi sem Norðurlandaskrifstofan sendi Komintern í ágúst 1932. Í skýrslu Brynjólfs og bréfi Norðurlandaskrifstofunnar er fyrst og fremst fjallað um stefnu Kommúnistaflokksins og hvernig hann geti aukið áhrif sín meðal íslensks verkalýðs. Komintern setur Íslendingunum það markmið að fjölga félögum í flokknum um helming á einu ári. Leiðin sem talin er vænlegust til árangurs er að flokkurinn sýni að hann geti leitt baráttu verkalýðsins sem framundan er á meðan Alþýðuflokkurinn hafi afhjúpað sig með því taka málstað kapítalista og ráðandi afla í samfélaginu.

Nú má vissulega spyrja þeirrar spurningar hvort fyrirmæli Kominterns til forystumanna Kommúnistaflokks Íslands um að beita sér af meiri hörku í átökum við yfirvöld og atvinnurekendur séu fyrirmæli um kerfisbundið ofbeldi skipulagt af fyrrverandi nemendum við flokksskóla í Moskvu. Ég held að svo sé ekki. Fyrirmæli Kominterns varða skipulag aðgerða og leiðtogahlutverk í verkföllum og vinnudeilum. Þó að við því mætti búast að átök væru hörð og jafnvel ofbeldisfull, er verkefnið að fylkja verkalýðnum um málstað Kommúnistaflokksins með því að sýna að hann berjist af mestum krafti fyrir hagsmunum hans, ekki að yfirbuga lögregluna í blóðugum slagsmálum sem kynnu að kalla á harkalegar mótaðgerðir ríkisvaldsins. Flokkurinn átti að sýna sig sem trúverðugt forystuafl í stjórnmálaátökum og vinnudeilum samtímans. Það gæti vissulega krafist átaka, en flokkurinn væri, eins og Jens Figved hafði bent á, ekki trúverðugt afl ef talið væri að hann ætlaði sér að „koma upp rauðum her“ fólk gæti þá frekar viljað „berja niður þennan ófögnuð“ en að fylkja sér að baki flokknum.

Skýrsla Brynjólfs

27. júní 1932 var Brynjólfur boðaður á fund hjá Norðurlandadeildinni í Komintern til að fara yfir stöðu mála á Íslandi. Hann flutti þar munnlega skýrslu sem rituð var niður eftir honum. Í þeirri mynd sem skýrslan er varðveitt í skjölum Kominterns er hún tæpar þrjátíu síður. Í skýrslunni fer Brynjólfur yfir helstu mál í samfélaginu á þessum tíma og reynir að greina ástandið út frá kennisetningum kommúnismans. Efnhagsástandið er í fyrsta lagi mjög slæmt vegna kreppunnar og verðfalls á öllum afurðum, jafnt sjávar- sem landbúnaðarafurðum og versnaðrar afkomu bænda af þeim sökum. Þá heldur Brynjólfur því fram að ráðandi öfl í samfélaginu velti byrðum kreppunnar yfir á bændur, sjómenn og verkalýð yfirleitt. Kommúnistar þurfi að stunda kerfisbundið starf meðal bænda og sjómanna til að vinna gegn áhrifum framsóknarmanna meðal annars, og til að sjá til þess að menn skilji stöðuna rétt. Þá segir hann flokkinn hafa bætt við sig miklu fylgi frá því í kosningunum árið áður, ekki síst vegna tillögu sinnar um atvinnuleysistryggingar.

Brynjólfur skýrir frá því að fyrirmæli Stjórnmálaráðsins hafi borist flokknum eftir að flokksþing hans var haldið í nóvember 1931, en menn séu að mestu leyti sammála þeim og hafi reynt að fara eftir þeim. Þó byrjar Brynjólfur á því að mótmæla harðlega þeirri staðhæfingu sem fram komi í fyrirmælunum að Íslendingarnir hafi vanmetið sjálfstætt hlutverk borgarastéttarinnar á Íslandi, en með þessu var Stjórnmálaráðið að gagnrýna áherslu íslensku kommúnistanna á baráttu gegn dönskum yfirráðum. Í framhaldi lýsir Brynjólfur því að íslensku félagarnir sé sammála því að meiri áherslu þurfi að leggja á starf flokksins í Reykjavík, einnig séu þeir sammála gagnrýni Kominterns á kosningabaráttu flokksins þar sem hann hafi m.a. gengið of langt í að halda því fram að valið standi á milli umbóta og byltingar. Loks segir hann menn fallast á þá ábendingu að flokkurinn eigi að beita sér gegn Alþýðuflokknum frekar en að lifa í falskri von um að hann geti orðið róttækari.

Brynjólfur fer yfir þátttöku kommúnista í verkfallsaðgerðum og lætur í ljós það álit sitt að þeir hafi veitt verkfallsmönnum mikilvægan stuðning við nokkur tækifæri þó að þetta hafi ekki alltaf komið fram í þeim samningum sem náðst hafi í kjölfarið. Hann segir frá tillögum kommúnista um atvinnuleysistryggingar, undirskriftasöfnun þeirra til að þvinga yfirvöld til að láta ekki hætta síldveiðum. Hann reynir að útskýra það hversvegna kommúnistum muni ef til vill ekki takast að byggja upp sjálfstæða rauða verkalýðshreyfingu, en muni halda áfram að stuðla að samstöðu við aðgerðir og vinna að stofnun rauðra verkalýðssamtaka. Einnig bendir hann á að vegna nýrra reglna Alþýðusambandsins hafi staða kommúnista veikst og komið í veg fyrir að þeir séu kosnir til þátttöku á þing þess. Kommúnistar muni því gangast fyrir undirskriftasöfnun um samstöðu og freista þess að halda samstöðuþing í Reykjavík á sama tíma og Alþýðusambandið haldi þing sitt. Loks fer hann yfir fáein önnur mál sem flokkurinn hafi fengið fyrirmæli um frá Komintern að sinna.

Að þessu loknu segist Brynjólfur vilja svara stuttlega gagnrýni sem komið hafi fram á framgöngu flokksins í verkfallinu í Vestmannaeyjum fyrr á árinu. Komintern hafði gagnrýnt kommúnista fyrir að sætta sig of snemma við að verkfallinu væri aflýst og gefið í skyn að með því hafi minni árangur náðst en mögulegt hefði verið. Þetta segir Brynjólfur „alrangt“. Það hafi verið mat allra sem áttuðu sig á stöðu mála að verkfallinu þyrfti að ljúka, annars hefði neyðarástand getað skapast. Brynjólfur bendir á að kommúnistar hafi ekki stýrt verkfallinu, aðeins átt aðild að aðgerðum, og mómælir því að þeir hafi ekki náð að vefja alþýðuflokksmönnum nægilega um fingur sér („manövrieren“). Hann heldur því fram að kommúnistar hafi komið mjög vel út úr aðgerðunum, þær hafi skilað miklum árangri og það sem mikilvægast sé, aukið trú manna á kommúnistum.

Það sem skýrsla Brynjólfs sýnir er fyrst og fremst tvennt. Í fyrsta lagi er augljóslega ekki um það að ræða að Komintern gefi fyrirmæli, íslensku félagarnir hlýði. Það fer fram umræða um fyrirmælin, þeim er mótmælt, eða þau samþykkt. Sama gildir um gagnrýni á starfsemi KFÍ. Hún er tekin gild, eða henni mótmælt. Þannig verður til allt önnur mynd af sambandi KFÍ og Kominterns heldur en sú undirgefni þjónsins sem Þór Whitehead virðist halda að hafi ráðið ríkjum í þessum samskiptum. Í öðru lagi er spurningin um ofbeldi alls ekki hluti af þeim umræðum um þátttöku kommúnista í verkfallsaðgerðum og öðrum aðgerðum sem beinast gegn stjórnvöldum og atvinnurekendum. Vissulega má gera ráð fyrir að slíkar aðgerðir feli í sér átök, en þau eru sem slík ekki hluti af umræðunum og þaðan af síður þjálfun eða undirbúningur kommúnista fyrir slík átök. Eins og ég hef bent á áður hafnaði hvorki KFÍ né Komintern ofbeldi sem slíku, en af því leiðir ekki að unnið hafi verið markvisst af því að þjálfa Íslendinga til að beita ofbeldi eða að þeir hafi verið hvattir til að gera það.

Nú ætla ég ekki að fullyrða fyrirfram að í skjölum OMS (Alþjóðasamskiptadeildar Kominterns) sé ekkert að finna um eitthvað af því tagi sem Þór er svo sannfærður um að hafi átt sér stað í samskiptum Íslendinganna við Komintern, en staðreyndin er sú að það er ekkert sem bendir til þess. Þau skjöl sem eru opin fræðimönnum, bæði þau sem Þór hefur haft fyrir að kynna sér og hin sem hann hefur ekki kynnt sér gefa ekki tilefni til að ætla að svo sé.

Heimildir í þessum kafla

An die K.P. Islands. Frá stjórnmálaráði, 23. nóvember 1931. RGASPI 495 31 113, bls. 50-53.

Genosse Bjarnason über Island. Fundur á Norðurlandaskrifstofu Kominterns 27. júní 1932. RGASPI 495 18 940 bls. 2-30.

Jens Figved. Bréf til félaga á Íslandi, 10. júní 1931. RGASPI 529 1 633, bls. 13, 22.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *