Einn mikilvægasti þátturinn í bók Þórs Whitehead Sovét-Ísland Óskalandið er sú niðurstaða hans að tengsl íslensku kommúnistanna við Komintern séu skýringin á slagsmálum sem urðu í fáein skipti á fjórða áratugnum, þegar sló í brýnu á milli yfirvalda og verkalýðs. Þessvegna tengir hann frásögn sína af ólátum, mótmælum og óeirðum í Reykjavík og víðar við þá staðreynd að Kommúnistaflokkur Íslands hafði verið stofnaður haustið 1930. Þannig verður ólga kreppuáranna að samsæri kommúnista, sem hafi, einsog Þór orðar það leitt „íslenska stjórnmálabaráttu inn á nýjar og annarlegar brautir“ (bls. 136). Nú skyldi maður ætla að Þór hefði heimildir sem sýndu fram á þetta orsakarsamhengi. En þær er hvergi að finna í tilvísunum hans. Í þessum kafla fer ég í saumana á heimildum sem rekja má til Kominterns og Þór notar til að styðja niðurstöðu sína. Heimildir Þórs sýna engin tengsl á milli Kominternaðildarinnar og þátttöku kommúnista í slagsmálum. Nú er ekki þar með sagt að sýnt sé fram á að Þór hafi rangt fyrir sér. Það eina sem sýnt er fram á með þessu er að hann getur ekki fullyrt það sem hann gerir á grundvelli þeirra heimilda sem hann hefur.

Ég hef annarsstaðar haldið því fram að gögn úr sovéskum skjalasöfnum bendi til hins, að þeir sem stunduðu nám í Moskvu hafi dregið úr félögum sínum að beita ofbeldi frekar en hitt, og dæmi eru um að menn hafi sagt það hreint út í bréfum til félaganna heima. Ekkert af því sem Þór vísar til gefur tilefni til annarrar niðurstöðu. Ég hef líka bent á ekki er hægt að taka yfirlýsingar og mælskulist sem heimildir um ákvarðanir og athafnir (sjá Jón Ólafsson, Voru íslenskir kommúnistar hættulegir? og Heilagt stríð). Herskár málflutningur kommúnista og þátttaka margra félaga í Kommúnistaflokki Íslands í átökum sýnir ekki að KFÍ hafi skipulagt átökin. Til að hægt sé að sýna fram á það þarf að hafa heimildir um skipulagið sjálft. En þær hefur Þór ekki. Aftur þýðir þetta ekki að hann hafi rangt fyrir sér, það þýðir aðeins að niðurstöður hans eru getgátur og vangaveltur, en ekkert meira en það.

Bréf Jens Figved

Fyrr í þessum athugasemdum birti ég bréf Jens Figved sem hann skrifaði KFÍ 1931. Í bréfinu fordæmir Jens harðlega áform um bardagalið sem hann hafði fengið fréttir af í bréfi frá félögunum á Íslandi og bendir á að engin ástæða sé til að stofna ólöglegan félagsskap. Ef kommúnistar vilji þjálfa lið sé eðlilegast að það starfi fyrir opnum tjöldum eins og íþróttafélög. Að sjálfsögðu fordæmir Jens ekki beitingu ofbeldis almennt í bréfinu, en bréfið sýnir (vegna þess að hann segir það hreint út) að KFÍ var ekki undir neinni skyldu að stofna ólöglega bardagasveit. Þó heldur Þór því blákalt fram að KFÍ hafi verið skyldugur til þess og að bréfið staðfesti það! (bls. 148, 151). Lykilatriði í bréfi Jens er það sem hann nefnir „smáborgaralegan sportradikalismus“. Flokksskólanemarnir voru ábyrgir flokksmenn, ekki áflogaseggir eða múgæsingamenn. Þessvegna áttu þeir að hugsa um það verkefni sitt öðru fremur að vinna verkalýðinn á sitt band. Ólögleg bardagasveit væri ekki líkleg til þess. Jens skrifar: „Það hlýtur að komast upp … að kommúnistar séu farnir að „koma upp rauðum her“ og allir borgarar hvetja lýðinn til þess að berja niður þennan ófögnuð.“ Jens taldi, eins og félagar hans í Moskvu almennt, að skipulag flokksins og starfsemi ætti að miða að því að auka áhrif hans meðal verkalýðsins. Það krafðist þess að menn héldu aftur af þeim einstaklingum sem harðast vildu ganga fram og stoppuðu „sportradikalistana“.

Fyrra bréf Jens Figved

Þór er afar alvarlegur yfir öðru bréfi Jens Figved, sem hann sendi Brynjólfi Bjarnasyni frá Moskvu í febrúar 1930 og segir að Jens hafi hvatt „til ofbeldis á væntanlegri Alþingshátíð á Þingvöllum“ (bls. 148). Í bréfinu skýtur Jens því að Brynjólfi að nokkrir flokksfélagar gætu hæglega hertekið ræðustólinn á Alþingishátíðinni og haldið þrumandi ræðu yfir mannfjöldanum. Einnig verði að dreifa flugritum á erlendum málum, svo erlendir gestir sjái að á Íslandi eru líka kommúnistar. „Einhvern djöfulinn verðum við að gera“ segir Jens. Sjálfsagt má halda því fram að hér sé um að ræða hvatningu til skipulagðs ofbeldis og jafnvel byltingartilraunar á Alþingishátíð, en ég myndi nú telja eðlilegra að setja hugmyndina í samhengi við áætlun um að láta á sér bera. Að geta vakið heimsathygli með lítilli aðgerð á Alþingishátíðinni er það sem Jens hefur í huga.

Þingrof og bylting

Hingað til hefur engum sagnfræðingi, mér vitanlega, dottið í hug að halda því fram að byltingarhætta hafi skapast við þingrofið 1931. Þór vísar hinsvegar í skjal sem ég sendi honum afrit af í nóvember síðastliðnum og er bréf stjórnmálaráðs (politsekretariat) framkvæmdanefndar Kominterns sem það sendi KFÍ í lok árs 1931. Þór óskaði eftir því að ég sendi honum afrit af skjalinu þegar hann var að leggja lokahönd á bók sína í haust, sem ég gerði. Af bók hans verður hinsvegar ljóst að tilgangur hans með því að fá afrit hjá mér var að sýna lesendum sínum fram á að ég hefði skjalið, og hlyti því að hafa leynt því fram að þessu, þar sem hann telur það sanna ofbeldishugmyndir hans ótvírætt! Sjá bréfaskipti okkar Þórs hér og umrætt skjal hér. Nú er vitanlega hægt að hafa fleiri en eina skoðun á því hvernig túlka beri þetta tiltekna skjal. Túlkun mín á því er pólitísk. Hér er um að ræða mat stjórnmálaráðs framkvæmdanefndarinnar á aðgerðum sem kommúnistar tóku þátt í við bústað forsætisráðherra, Tryggva Þórhallssonar, í Suðurgötu í apríl 1931. Það er skrifað mörgum mánuðum síðar og í því kemur fram gagnrýni á kommúnistana fyrir að hafa verið linir í framgöngu sinni gegn fámennu lögregluliði. Einnig er fundið að því að þeir hafi tekið undir „legalistísk“ rök, það er samþykkt það viðhorf að aðgerðir þeirra skuli miðast við lagabókstafinn. Í skjalinu er enga hvatningu til byltingar að finna og þaðan af síður hvatningu til kerfisbundins og skipulegs ofbeldis. Ummæli stjórnmálaráðsins í plagginu einkennast af þeirri afstöðu Kominterns á þessum tíma að kommúnistum beri að leggja höfuðáherslu á að vinna fjöldann á sitt band, þeirri trú að verkalýðurinn sé að verða róttækari og mikilvægi þess að sýna fram á skýran greinarmun kommúnista og sósíaldemókrata (sósíalfasista). Þetta bréf breytir því engu um það mat mitt að Komintern hafi ekki hvatt KFÍ til skipulegra ofbeldis- eða hermdarverka. Það liggur hinsvegar í augum uppi að kommúnistar vildu skipa sér í forystu launþega og atvinnulausra og leiða fjöldann. En til þess þurftu þeir líka að afla sér fylgis hans og trausts. Það var aðalatriðið.

Heimildir í þessum kafla

An die K.P. Islands. Frá stjórnmálaráði, 23. nóvember 1931. RGASPI 495 31 113, bls. 50-53.

Jens Figved. Bréf til félaga á Íslandi, 10. júní 1931. RGASPI 529 1 633, bls. 13, 22.

Jens Figved. Bréf til Brynjólfs Bjarnasonar, 1.-7. febrúar 1930. Lbs. 26 NF. GBB.

Jón Ólafsson. Voru Íslenskir kommúnistar hættulegir? Lesbók Morgunblaðsins, 7. október 2006.

Jón Ólafsson. Heilagt stríð. Lesbók Morgunblaðsins 3. mars 2007.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *