Lýsing Þórs Whitehead á flokksskólunum í Moskvu er eins og ég skýrði í fyrri pistli mjög villandi, þar sem hann virðist halda að hlutverk þeirra hafi verið annað en það var. (Sjá fyrri pistil og inngang að þessum athugasemdum). Í upphafi 19. kafla bókarinnar fullyrðir hann að námið þar hafi minnt á þá þjálfun sem leyniþjónustur stórveldanna veita og um leið átelur hann mig í neðanmálsgrein fyrir að nota orðið verkamannaþjóðfélag um Sovétríkin (bls. 103). Hér er vert að staldra við til að átta sig betur á vandanum við fullyrðingar Þórs.

Orðalag mitt um verkamannaþjóðfélagið er að sjálfsögðu írónískt: Nemendur í flokksskólunum litu sjálfir þannig á að dvöl þeirra í Sovétríkjunum og nám í flokksskólunum væri ekki síst reynsla af verkamannaþjóðfélagi, þar sem byltingin hefði sigrað. Sjálfsmynd þeirra var því sjálfsmynd sigurvegarans og þeir töldu sig hafa margt að miðla félögum sínum heima fyrir. Um leið og Þór leiðir hjá sér eða skilur ekki íróníu textans í bók minni, gerir hann einfalda rökvillu um skólana. Það er vissulega staðreynd að margir þeirra þúsunda nemenda sem fóru í gegnum einhverja af námsbrautum Lenínskólans og Vesturháskólans urðu síðar virkir í neðanjarðarstarfsemi eða tóku þátt í borgarstyrjöldinni á Spáni. En af þessu er augljóslega ekki hægt að draga þá ályktun að flokksskólarnir hafi verið sérstaklega ætlaðir til undirbúnings fyrir þetta. Hinsvegar liggur í hlutarins eðli að hvergi væri líklegra að finna trygga einstaklinga til trúnaðarstarfa fyrir Komintern en einmitt í nemendahópnum.

I. Neðanjarðarstarfsemi í Þýskalandi

Þór vitnar í rit um andspyrnu kommúnista í Þýskalandi máli sínu til stuðnings, en þegar betur er að gáð er það sem þar stendur enginn stuðningur við fullyrðingar hans (bls. 104). Í ritinu Communist Resistance in Nazi Germany segir einfaldlega að þýskir nemendur Lenínskólans hafi verið þrautþjálfaðir flokksmenn sem gátu rekið flokk sinn leynilega þar sem hann var bannaður. Eins og ég hef bent á miðaðist þjálfunin í skólunum við aðstæður heima fyrir og því er ekki að undra þótt félagar í ólöglegum kommúnistaflokki væru þrautþjálfaðir í neðanjarðarstarfsemi sem fylgdi því að starfrækja slíkan flokk (sjá Merson 1986, bls. 62, 92 og 105).

2. Flokksskólarnir og alþjóðleg starfsemi

Gallinn við umfjöllun Þórs er ennfremur kerfisbundinn ruglingur á annarssvegar flokksskólunum og hinsvegar alþjóðlegri njósnastarfsemi Kominterns. Það að nokkrir nemendur skólanna gengju í þjónustu Alþjóðasamskiptadeildarinnar svokölluðu (OMS) á meðan á Moskvuvist þeirra stóð segir ekkert um nám þeirra við skólana, heldur lýsir einungis stöðu þeirra innan hreyfingarinnar. Það er líka mikilvægt að átta sig á því að með því að starfa fyrir OMS í byrjun fjórða áratugarins útsettu menn sig fyrir tortryggni síðar. Arne Munch Petersen, danski kommúnistaleiðtoginn, er ágætt dæmi um þetta. Hann starfaði fyrir OMS snemma á fjórða áratugnum en tengslin sem það starf færði honum urðu til þess að hann var handtekinn í ágúst 1937. Einmitt vegna þessa er mjög hæpið að Eggert Þorbjarnarson hafi unnið fyrir OMS, á þessum tíma. Eggert yfirgaf Moskvu eftir þriggja ára dvöl haustið 1937. Það er ólíklegt að honum hefði lánast það, hefði OMS haft hann í sinni þjónustu. Hinsvegar kann vel að vera að hann hafi orðið OMS fulltrúi síðar (sbr. bls. 106, 128 og Jón Ólafsson 1999, bls. 127-131).

3. Ársæll Sigurðsson

Einn áhugaverðasti flokksmaður Íslenska Kommúnistaflokksins á þessum árum, Ársæll Sigurðsson, bjó í Kaupmannahöfn á fjórða áratugnum og það hefur lengi verið vitað að hann starfaði þar fyrir Komintern. Þór hefur engar nýjar heimildir um þetta efni, en það er sennilega rétt að Ársæll hafi starfað beint fyrir OMS. Því miður hafa hvorki afkomendur Ársæls né Eggerts Þorbjarnarsonar sem starfaði fyrir Komintern í Moskvu, gefið leyfi sitt fyrir því að gögn um þá og störf þeirra fyrir Komintern verði opnuð. Hvert hlutverk þeirra er því háð sögusögnum enn um sinn. Ársæll var aldrei í flokksskóla og vegna alþjóðlegra tengsla hans er líklegt að hann hefði lent í vandræðum hefði hann farið til Moskvu á seinni hluta fjórða áratugarins. Það gerði hann ekki. Ársæll kom fyrst til Moskvu árið 1946, þá á vegum Nýsköpunarstjórnarinnar, í nefnd sem gerði viðskiptasamning við Sovétstjórnina. Þannig nýttist þekking hans íslenskum stjórnvöldum eftir stríðið (sjá Jón Ólafsson 1999, bls. 141-142).

Vandinn hér er sá, að þótt Þór Whitehead geti vissulega rakið tiltölulega vel þekkta sögu neðanjarðarstarfsemi á vegum Kominterns og tengt ákveðna einstaklinga í hópi Íslendinganna við hana, þá skortir hann alltaf heimildir til þess að sýna fram á það sem þó er meginforsenda hans, að Íslendingarnir hafi með veru sinni í flokksskólum í Moskvu orðið þrautþjálfaðir bardaga- og uppreisnarmenn, færir um að beita vopnum og skipuleggja byltingu heima í Reykjavík. Það dugir nefnilega ekki að hamra á því að í námsskrá sumra sektora, til að mynda þess finnska, hafi innihaldið hernaðarlega eða hertengda þjálfun. Til þess að niðurstaða Þórs verði trúverðug  þyrfti hann að hafa heimildir um að þjálfun Íslendinganna hafi raunverulega farið fram og verið mikilvægur (kannski mikilvægasti) hluti af starfsemi skólanna. En slíkar heimildir hefur hann ekki fundið.

4. Harry Wicks í Lenínskólanum 1927-1930

Það er við hæfi að enda þennan kafla á frásögn Harry Wicks, kommúnista frá Bretlandi, sem stundaði nám í Lenínskólanum 1927 til 1930. Þar segir hann frá því að á enska sektornum hafi yfirmaður í Rauða hernum kennt nemunum meðferð vopna. Einnig hafi uppreisnir verið stúderaðar og til þess notaðir leikir þar sem líkt var eftir ákveðnum sögulegum uppreisnum. Þá hafi nemendum verið kennd reiðmennska og meira að segja að stjórna járnbrautarlest. Wicks segir að nemendunum hafi þótt lestarkennslan svo leiðinleg að þeir hafi hætt að mæta í hana og þar sem hann hafi verið umsjónarmaður í hópnum hafi hann fengið það hlutverk að reyna að fá þá til að taka þátt. En allt kom fyrir ekki, tilraunir hans til að skýra mikilvægi þess að geta stýrt járnbrautarlest við byltingaraðstæður hafi engum árangri skilað og hann hafi að endingu gefist upp. Wicks bendir á að æfingar af þessu tagi beri vott um „blanquisma“, það er þá stefnu að þjálfa beri sveit atvinnubyltingarmanna, en hún hafi einfaldlega ekki hlotið hljómgrunn. (Wicks 1992, bls. 90-91).

Frásögn Wicks er áhugaverð sem heimild um andrúmsloft í Lenínskólanum, eða að minnsta kosti í enskum sektor hans á þessum tíma. Hugmyndin um „atvinnubyltingarúrvalssveit“ er til, þar hefur Þór vissulega rétt fyrir sér, en hún nær ekki fótfestu. Sagan sýnir okkur líka togstreitu innan Lenínskólans á milli skólastjórnenda og nemenda, þar sem stjórnendur þurfa að sannfæra nemendurna um gagnsemi þess sem kennt er. Sagan dregur því enn fram vandamál þess að gera svo mikið úr herþjálfun sem Þór gerir og undirstrikar mikilvægi beinna heimilda um hana frekar en getgátna.

Framhald síðar.

Heimildir í þessum kafla:

Jón Ólafsson (1999). Kæru félagar. ͍slenskir sósí­alistar og Sovétríkin 1920-1960. Reykjavík: Mál og menning.

Merson, A. (1986). Communist resistance in Nazi Germany. Lawrence and Wishart.

Wicks, H. (1992). Keeping my head: the memoirs of a British Bolshevik. Socialist Platform Ltd.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *