Segjum að námi í íslenskum menntaskóla væri lýst sem þjálfun í íþróttum og vélritun. Það er ekki ólíklegt að maður hefði tilhneigingu til að leiðrétta slíka fullyrðingu, jafnvel halda því fram að menntaskólanám á Íslandi væri alls ekki þjálfun í íþróttum og vélritun heldur fyrst og fremst bóklegt nám í nokkrum kjarnagreinum. En hvernig ætti maður að bregðast við ef áfram væri þrástagast á þessu og til sannindamerkis dregin fram námsskrá sem sýndi svo ekki yrði um villst að nemendur í menntaskólum fengju íþróttakennslu, og gætu ekki útskrifast án þess að læra vélritun? Hvernig væri best að sýna fram á að um misskilning á menntaskólanámi væri að ræða? Mögulega dytti manni í hug að benda á að íþróttirnar væru ekki aðalatriði námsins, heldur algjört aukaatriði, vélritun væri auðvitað gagnleg út af fyrir sig, en langt frá því að geta talist lýsandi fyrir inntak námsins eða tilgang þess.

Lýsingar Þórs Whitehead á námi í flokksskólum Kominterns í Moskvu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar minna á karp af þessu tagi. Þór er í mun að sýna fram á að megintilgangur þessara skóla hafi verið að þjálfa byltingarmenn til mannvíga og hernaðar og allar vísbendingar um að þeir hafi fengið þjálfun sem kalla má hernaðarlega telur hann að sanni þessa trú hans. Í kaflanum „Þjálfun í hernaði og mannvígum“ tínir hann til það sem hann virðist telja meginröksemdir sínar og túlkun sína á þeim. Málflutning sinn byggir Þór þó ekki á eigin rannsóknum, heldur á samtíningi úr skrifum annarra um flokksskólana. Þessi skrif tekur hann úr öllu eðlilegu samhengi til að sanna þá hugmynd sína að hernaðarþjálfun hafi ekki verið neitt aukaatriði í þessum skólum, heldur kjarni námsins.

Ég mun nú fyrst lýsa tilgangi flokksskólanna tveggja sem um er að ræða, Lenínskólans og Vesturháskólans, út frá tiltækum heimildum, skjalaheimildum og öðrum og í framhaldi af því fara í gegnum röksemdir Þórs í kaflanum lið fyrir lið. Tilgangur minn með þessu er að sýna fram á að fullyrðingar Þórs um þjálfun Íslendinga í þessum skólum standast ekki nákvæma skoðun.

1. Hver var tilgangur flokksskólanna?

Komintern stofnaði nokkra skóla í Moskvu og víðar þar sem erlendir kommúnistar  stunduðu nám á árunum frá 1921 til 1943 er sambandið var lagt niður. Á Vesturlöndum voru Vesturháskólinn (KUNMZ) og Lenínskólinn (MLS) þekktastir þessara skóla. 23 Íslendingar stunduðu nám í þeim á árunum 1929 til 1938.

Nokkrir sagnfræðingar hafa rannsakað flokksskólana eftir að sovésk skjalasöfn urðu aðgengileg og er sú niðurstaða óumdeild að markmið skólanna hafi verið að veita hugmyndafræðilega þjálfun. Nemendur skólanna áttu að verða leiðandi starfsmenn flokka sinna heima fyrir og það útheimti fyrst og fremst þjálfun í fræðum kommúnismans og skilning á yfirvaldi og forystu rússneska kommúnistaflokksins. Þannig er það ekki deilumál meðal sagnfræðinga hverskonar þjálfun erlendir kommúnistar hlutu í Vesturháskólanum og Lenínskólanum. Þessi þjálfun var svo einstrengingsleg að henni hefur jafnvel verið líkt við heilaþvott, en það er ekki vegna hernaðarlegs þáttar hennar. Út úr skólunum áttu að stíga dugandi og harðir flokksmenn, þjálfaðir í bolsévískum hugsunarhætti (sjá um þetta: Murphy 1927, bls. 1804; Cohen og Morgan 2002, bls. 331;  Köstenberger 2007, bls. 297-299; Krekola 2005, bls. 289-290; Rønning 2010, bls. 86-94).

Það gat verið nokkuð mismunandi eftir stöðu hvers flokks heima fyrir hvað í því fólst að vera dugandi flokksmaður. Sumsstaðar voru kommúnistaflokkar bannaðir á fjórða áratugnum, annarsstaðar höfðu þeir talsverð ítök í lýðræðislegum stjórnmálum. Kommúnistaflokkar á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð störfuðu fyrir opnum tjöldum og þetta skipti að sjálfsögðu höfuðmáli um framtíðarhlutverk nemendanna. Verkefni þeirra var að efla ítök og auka fylgi flokka sinna í umhverfi sem var í meginatriðum friðsamlegt, þótt alltaf hefðu menn vissar áhyggjur af því að stjórnvöld myndu banna einstaka kommúnistaflokka. Finnskir kommúnistar svo dæmi sé tekið, bjuggu við önnur skilyrði þar sem flokkur þeirra var ólöglegur og starfaði neðanjarðar (sjá til dæmis Krekola 2005, bls. 290-291 þar sem sérstaklega er bent á þetta atriði).

Sagnfræðingar sem fjallað hafa um skólana hafa gert mismikið úr þýðingu þeirra fyrir starf kommúnistaflokka heima fyrir. Undirritaður hefur bent á að íslenskir flokksskólanemar hafi í fæstum tilfellum leikið stór hlutverk í flokknum þegar fram liðu stundir. Cohen og Morgan hafa komist að svipaðri niðurstöðu um breska kommúnistaflokkinn, en þeirri niðurstöðu hefur verið andmælt (sjá Cohen og Morgan 2002; Campbell ofl. 2005).

Engar einhlítar upplýsingar hafa komið fram um að hve miklu leyti flokksskólanemendur fengu þjálfun sem kalla má hernaðarlega, svo sem í meðferð skotvopna, sprengiefnis eða í bardagaaðferðum skæruliða osfrv. Ég hef haldið því fram að íslenskir nemendur hafi sennilega fengið mjög litla slíka þjálfun og jafnvel þótt hún hafi verið einhver, sé hún algert aukaatriði í flokksskólamenntun þeirra. Sama má gera ráð fyrir að gildi almennt um Dani, Svía og Norðmenn auk Íslendinga.

Heimildir eru um tveggja vikna þjálfunarbúðir fyrir enskumælandi nemendur Lenínskólans sumarið 1936 (Klehr 1995, bls. 202-204). Þessar tveggja vikna búðir þóttu hinsvegar svo tilgangslitlar að fulltrúi Bandaríska Kommúnistaflokksins hjá Komintern lagði til að þær yrðu ekki endurteknar. Alltof áhættusamt sé að láta Bandaríkjamenn klæðast sovéskum einkennisbúningum og þar að auki sé herþjálfunin sjálf óþörf: „Aukinn líkamsþrótt, sem er eina raunverulega gagnið af þessari tveggja vikna þjálfun, má auðveldlega fá með venjulegum íþróttabúðum án einkennisbúninga, þar sem nemendur læra box, glímu, skotfimi og aðrar íþróttagreinar“. Vart er hægt að orða það skýrar að herþjálfun er ekki það sem sóst er eftir.

Ole Martin Rønning segir í nýrri doktorsritgerð sinni að hernaðarþjálfun norskra nemenda í Lenínskólanum hafi verið aukatriði, en umfjöllun hans kemur heim og saman við mat mitt á henni. Hinsvegar hafi meiri áhersla verið lögð á að búa nemendur undir ólöglegt starf þannig að þeir væru viðbúnir breyttum baráttuaðferðum ef flokkur þeirra yrði bannaður (Rønning 2010 bls. 91). Almennt má segja að sagnfræðingar, aðrir en Þór Whitehead, hafi aldrei gert mikið úr hernaðarlegum þætti flokksskólanámsins.

Í skýrslu yfirmanns Norðurlandadeildar Vesturháskólans sem gerð var 1933 er talað um að nemendurnir hafi hlotið „visst hernaðarlegt uppeldi“ án þess að tilgreint sé nánar í hverju það fólst. Út frá öðrum heimildum má þó gera ráð fyrir því að fyrst og fremst hafi verið um að ræða meðferð vopna (skotfimi og meðhöndlun skotvopna) auk glímu, skíðagöngu o.þ.h (sjá Christian Hilt: 5 Jahres Bericht der Skandinavischen Sektoren der KUNMZ, bls. 4)

Þegar á heildina er litið er niðurstaða mín að hvað Íslendingana varðar sé afar ólíklegt að þeim hafi verið veitt sérstök hernaðarleg þjálfun sem ætti að búa þá undir að gera vopnaða uppreisn gegn stjórnvöldum á Íslandi eða gera þá hæfari í götuslagsmálum almennt. Þótt vissulega megi fallast á það með Þór að enn geti komið fram gögn sem sýni slíkt, er því ekki fyrir að fara enn sem komið er. Hisnvegar eru til gögn sem gefa tilefni til að efast um niðurstöðu Þórs, en þetta eru bréf Íslendinga í Moskvu til félaganna heima í byrjun fjórða áratugarins.

Í bréfum sínum brýna Íslendingarnir fyrir félögum sínum að beita öguðum baráttuaðferðum. Þeir gagnrýna t.d. harðlega hugmyndir um bardagalið. Engar heimildir sem enn hafa komið fram gefa tilefni til að ætla að íslenski kommúnistaflokkurinn hafi fengið fyrirmæli um að beita ofbeldi eða um að undirbúa það í samráði við leiðtogana í Moskvu, síst af öllu í tengslum við flokksskólana. Þetta stafar að sjálfsögðu ekki af því að flokkurinn hafi hafnað ofbeldi. Það gerði hann ekki, ekki frekar en kommúnistar annarsstaðar á þessum tíma. Ástæðan var sú að þeir sem leiddu flokkinn á Íslandi töldu það ekki þjóna málstaðnum. Leiðtogar Kominterns í Moskvu voru sömu skoðunar, svo og Íslendingarnir sem þar stunduðu nám. Fyrir þessu má fá glögga tilfinningu með því að lesa bréf Jens Figved frá Moskvu til félaganna á Íslandi um Jafetsmálið (RGASPI 529 1 633 bls. 13, 22).

Þór Whitehead reynir að sýna fram á annað í bók sinni. Í kafla 18 (Þjálfun í hernaði og mannvígum) telur hann sig leiða í ljós að það sem ég hef fullyrt um þessi efni sé rangt. Ég mun nú fara í gegnum röksemdir hans í kaflanum til að sýna fram á að svo er ekki, það er að segja, röksemdir Þórs sýna ekki að ég hafi rangt fyrir mér.

2. Námsskrá Lenínskólans

Þór heldur því fram að þar sem „vopnuð uppreisn“ er á námsskrá Finnska sektors Lenínskólans árið 1931 til 1932 megi draga af því þá ályktun að Íslendingar hafi fengið kennslu í því að gera vopnaða uppreisn. Þetta er hæpið. Í fyrsta lagi er ekki hægt að gefa sér að námsskrá eins sektors sé jafnframt námsskrá alls skólans. Í öðru lagi, og þetta skiptir meira máli, er hér ekki um verklegt nám í vopnaðri uppreisn að ræða, sem sjá má á upptalningunni, þar sem einungis skotfimi felur í sér „verklegt nám“. Reyndar má vissulega velta fyrir sér hvar munurinn liggur á verklegu og bóklegu námi. Ole Martin Rønning rekur stuttlega í doktorsritgerð sinni að framan af hafi verið byggt á Dalton aðferðinni svokölluðu í kennslu flokksskólanna, en það er aðferð sem byggir á verkefnavinnu nemenda frekar en fyrirlestrum. Samhengið (stríðsundirbúningur burgeisaríkja, borgarastríðið í Rússlandi, reynsla Rauða hersins sýnir hinsvegar að hér er tæpast um herþjálfun að ræða. Þór heldur því fram á sömu síðu (án heimildar) að „skipulagsstarf“ sé feluheiti yfir herfræði og meðferð vopna. Það kann að vera að svo sé, en sama heiti er í námsskrám einnig haft yfir það sem lýtur að flokksskipulagi. Þannig eru fullyrðingarnar hér einungis vangaveltur Þórs sjálfs, heimildirnar styðja ekki fullyrðingar hans.

3. Herþjálfun Vesturháskólans og Lenínskólans

Þór segir „aðalregluna“ hafa verið þá að nemendur Vesturháskólans fengju hagnýta herþjálfun utan Moskvu eftir að kennslu lauk á vorin, en Lenínskólanemendur hafi dvalið tvær vikur í æfingabúðum Rauða hersins (bls. 96). Hér er ekki fyllilega rétt farið með. Rétt er að Vesturháskólinn gat sent nemendur í æfingabúðir á vegum opinberra samtaka sem önnuðust meðal annars herþjálfun óbreyttra borgara á þriðja og fjórða áratugnum, en á þeim tíma var mikið gert úr mögulegri innrás í Sovétríkin (sjá Köstenberger 2000-2001, bls. 279). Það er hinsvegar ekki hægt að fullyrða af þeim heimildum sem Þór vísar í að allir nemendur hafa verið sendir í slíkar búðir og ekkert sem hann eða ég höfum í höndunum sýnir að Íslendingar hafi farið í þær. Vissulega er ekki hægt að útiloka það en miklu líklegra er þó að Íslendingarnir hafi farið í sumarþjálfun sem tengdist ekki heræfingum, eins og raunin var til dæmis með Þórodd Guðmundsson og Eyjólf Árnason sem unnu með fiskimönnum norður við Murmansk og sjómönnum í Batumi sumarið 1931 (sjá grein mína Í læri hjá Komintern, Ný Saga X 1997). Hvað tveggja vikna æfingabúðirnar varðar, þá segja heimildirnar sem Þór vitnar til einungis að enskumælandi nemendur hafi verið sendir í þær í tvær vikur sumarið 1936, en ekkert um að slíkar búðir hafi verið „reglan“. Háðuleg ummæli bandaríska fulltrúans um þessar búðir sem vísað var til hér að ofan ættu líka að benda til að þær hafi verið undantekning frekar en regla. Burtséð frá þessu, held ég þó að aðalatriðið sé að í öllum tilfellum er boðið upp á verklegt nám af fleira en einu tagi og því ekki hægt að fullyrða að íslensku nemendurnir hafi fengið verklega hernaðarlega þjálfun jafnvel þó að hún hafi staðið þeim til boða.

4. Frásagnir íslenskra flokksskólanemenda

Þór viðurkennir raunar að enginn íslenskur nemandi Vesturháskólans eða Lenínskólans hafi sagt frá hernaðarþjálfun (bls. 97). Hann veltir fyrir sér hvernig á þessu kunni að standa og virðist telja að skólareglur hafi krafist þess að allir nemendur fengju þessa þjálfun (þarna er væntanlega um sumarþjálfunina að ræða). Skólareglurnar sem Þór vísar hér til eru sennilega almennu reglurnar um starfsnám (praktik) eftir að skóla lauk á vorin. En þær hafa ekkert með herþjálfun að gera, þó að vel sé hægt að ímynda sér að í sumum tilfellum hafi praktik nemenda falist í slíku. Þar sem margir fyrrverandi nemendur skólanna sögðu frá skotæfingum og líkamsþjálfun er langlíklegasta skýringin á því að menn hafi ekki sagt neinum frá hernaðarþjálfun í búðum Rauða hersins sú að þeir hafi ekki fengið slíka þjálfun.

Þannig er sú ályktun Þórs að dæmin sem hann rekur sýni að íslenskir kommúnistar væru þjálfaðir í hernaði í Moskvu, til að vera tilbúnir með vopnin og herskipulagið þegar kallið frá Moskvu kæmi, vægast sagt hæpin. Eins og fram kemur í grein Joni Krekola sem vitnað var til áður höfðu Finnar sérstöðu meðal Norðurlandabúa vegna nálægðarinnar við Rússland og stjórnmálaástandsins heima fyrir. Finnar voru álíka margir í Vesturháskólanum og Lenínskólanum og nemendur frá öðrum Norðurlöndum samanlagt (sjá Krekola 2005, bls. 292-293; Köstenberger 2007, bls. 289). Finnskir nemendur sem fóru heim eftir nám í Moskvu þurftu að fara huldu höfði eða villa á sér heimildir, verkefni þeirra var að vinna með ólöglegum flokki að neðanjarðarstarfsemi af ýmsu tagi. Slík verkefni biðu ekki Íslendinga, Svía, Norðmanna og Dana. Þó að Komintern hefði vissulega alltaf þörf fyrir fólk sem gat sent dulmálsskeyti, komið sendingum til skila og sinnt trúnaðarstörfum á alþjóðlegum vettvangi og líklegt sé að fáeinir Íslendingar hafi fengið slík verkefni, hlaut yfirbragð þjálfunarinnar að vera annað af þessum orsökum. Þetta þýðir ekki að inntak námsins hafi verið ólíkt frá einum sektor til annars. Það þýðir einungis að aðferðir baráttunnar voru misjafnar. Mér virðist Þór rugla þessu tvennu saman þegar hann dregur þá ályktun að þar sem inntak námsins hafi verið það sama í öllum sektorum, hljóti allir nemendur að hafa fengið nákvæmlega sömu þjálfun.

En það er mikilvægt að ítreka að rökræður um hverskonar þjálfun nemendur fengu í flokksskólunum verða alltaf að taka mið af því hver tilgangur þeirra var til að byrja með, því tilgangurinn breyttist í sjálfu sér ekki þó að aðstæður og ástand breyttist með tímanum. Tilgangurinn var, sem fyrr segir, að þjálfa virka flokksmenn til leiðandi starfa í kommúnistaflokki sem skipulagður var eftir bolsjevískum meginreglum. Þetta fól fyrst og fremst í sér að nemendurnir hefðu tileinkað sér réttan sögulegan skilning á rússnesku byltingunni, væru færir um að leggja réttan hugmyndafræðilegan skilning í verkefni flokksins hverju sinni og gætu skipulagt starf hans á skilvirkan hátt. Það er mikilvægt að hafa í huga að kommúnistaflokkar á þriðja og fjórða áratugnum voru betur skipulagðir en aðrir flokkar, enda var krafan um helgun miklu meiri meðal kommúnista en innan sósíaldemókratískra og borgaralegra flokka.

Kommúnistar töldu sig vera raunsæja í því að vanmeta ekki stöðu andstæðinganna. Við aðstæður eins og þær sem Kommúnistaflokkur Íslands bjó við voru verkefnin fyrst og fremst fólgin í því að keppa við Alþýðuflokkinn um yfirráð í verkalýðsfélögum. Um það vitna bréfaskiptin við Komintern glögglega. Um leið þurfti flokkurinn að verja starfsemi sína gagnvart mögulegum njósnum og afskiptum annarra flokka með því að halda ákveðinni leynd yfir henni. Aðferðirnar sem beitt var til þessa voru teknar mjög alvarlega og hétu einu nafni „konspiration“. Það sést á skýringu Þórs á þessu hugtaki að hann hefur takmarkaða hugmynd um eðli kommúnísks flokksstarfs. Bókstaflega þýðir konspiration samsæri. Í tungutaki kommúnistaflokka á fjórða áratugnum var það hinsvegar haft yfir aðferðirnar sem beita átti til að villa um fyrir pólitískum andstæðingum og tryggja að þær gætu ekki áttað sig á áformum kommúnistaflokksins eða einstakra sella hans hverju sinni. Þór heldur að konspiration sem námsgrein vísi til samsæris kommúnista gegn auðvaldsríkjunum (bls. 94. Sjá einnig Studer og Unfried 2001, bls. 17).

Hér hef ég fari í gegnum röksemdir og heimildavísanir í kafla 18. Ég get ekki séð að heimildir sem Þór vísar til styðji fullyrðingar hans. Þegar ein þeirra er lesin vandlega, kemur í ljós að ummæli rétt á eftir tilvísun Þórs hrekur beinlínis það sem hann segir (ummæli fulltrúa bandaríska kommúnistaflokksins eru á bls. 204, tilvísun Þórs nær til bls. 202-203). Þar að auki liggur fyrir að enginn þeirra kommúnista sem Þór fjallar um, ekki einu sinni þeir sem hann átti sjálfur trúnaðarsamtöl við fyrir rúmum 30 árum, sagðist hafa fengið hernaðarlega þjálfun. Þótt ekki sé hægt að útiloka að þeir hafi samt fengið slíka þjálfun, er vart hægt að halda því fram að heimildirnar sýni þetta. Þær virðast fremur sýna hið gagnstæða.

Framhald síðar.

Heimildir í þessari færslu:

Campbell, A. (2004). The International Lenin School: A Response to Cohen and Morgan. Twentieth Century British History, 15(1), 51-76.

Cohen, G. (2002). Stalin’s Sausage Machine. British Students at the International Lenin School, 1926-37. Twentieth Century British History, 13(4), 327-355.

Figved, J. (1931). Jafetsmálið. RGASPI 529 1 633, bls. 13, 22.

Hilt, C. (1932). 5 Jahres Bericht Über die Tätigkeit der Skandinavischen Sektoren der KUNMZ 1928-1933. RGASPI 529 1 633 bls. 139-144.

Klehr, M. H., Haynes, J. E., & Firsov, P. F. I. (1996). The Secret World of American Communism (Annals of Communism Series) (p. 380). Yale University Press.

Jón Ólafsson (1997). Í læri hjá Komintern. Ný saga X.

Köstenberger, J. (2000-2001). Die Geschichte der Kommunistischen Universität der nationalen Minderheiten des Westens (KUNMZ) in Moskau 1921-1936. Jahrbuch für historische Kommunismusforschung, VI-VII, 248-303.

Köstenberger, J. (2005) Die Internationale Leninschule. Í Meschkat, Klaus (2005). Biographisches Handbuch zur Geschichte der Kommunistischen Internationale. Akademie Verlag.

Krekola, J. (2005) The Finnish Sektor at the International Lenin School. Í Morgan, K., Cohen, Gidon, & Flinn, A. (2005). Agents of the revolution: new biographical approaches to the history of International Communism in the Age of Lenin and Stalin. Bern: Peter Lang.

Murphy, J. T. (1927). Das Erste Jahr der Lenin-Schule und ihre Perspektiven. Die Kommunistische Internationale, 8 (37).

Rønning, O. M. (2010). Stalins elever. Háskólinn í Oslo (Óbirt doktorsritgerð).

Studer, B., & Unfried, B. (2001). Der stalinistische Parteikader. Köln, Weimar, Wien.

7 replies
 1. Þorsteinn Úlfar Björnsson
  Þorsteinn Úlfar Björnsson says:

  Flott grein en finnst þér það ekki svolítð kvikyndislegt að rassskella Þór opinberlega? 🙂

  Svara
 2. Torfi Stefánsson
  Torfi Stefánsson says:

  Finnst þér eitthvað skárra að gera það í leynum, Þórarinn?
  Annars finnst mér rangt að tala um rassskellingu í þessu sambandi.
  Þetta er einfaldlega löngu tímabær umræða því bók Þórs hefur ekkert verið smá hampað í fjölmiðlum fyrir og um jólin, svo sem í Fréttablaðinu og Fréttatímanum (og hjá Agli Helga, sem þó sýndi í dag , á Eyjunni, að hann hefur faglegan sans (með því að vísa á þessa umfjöllun Jóns)).

  Svo þegja sagnfræðingarnar þunnu hljóði þó svo að þeir hljóti að vita að rannsóknir Þórs séu byggðar á mjög hæpnum forsendum. Það hafa bæði Jón og Guðni Th. sýnt fram áður.
  Þöggun er einfaldlega ekki lengur í tísku.

  Svara
 3. stefan benediktsson
  stefan benediktsson says:

  Þakka þér Jón! Auðvitað er engin ástæða til að glorifisera gamla kommana en þeir voru svo sannarlega ekki sú „rauða hætta“ sem Þór er að reyna að sanna. Bókin ber heimildaskortinum glöggt vitni því fagmennska Þórs leyfir ekki að hann fullyrði annað um innihald þeirra en forsendur eru fyrir og er á líður bókina verða fullyrðingar hans um ógnina sem stafaði af þessum rúmlega tuttugu konum og körlum hálf vandræðaleg svo ekki sé meira sagt. Ég er ekki einn um þessa skoðun.

  Svara
 4. Gunnar Th. Gunnarsson
  Gunnar Th. Gunnarsson says:

  Ef einhver hefur verið rassskelltur, er það Jón Ólafsson, með ónákvæmum vinnubrögðum sínum.(svo vægt sé til orða tekið)

  Reyndar er það svo, að það er ekki hvað Jón segir og skrifar, heldur hitt, hverju hann kýs að sleppa.

  Á bloggi Egils Helgasonar eru á fjórða tug athugasemda frá fólki sem ekki hefur lesið bók Þórs Whiteheads, en tekur gagnrýnislaust undir ámáttlega réttlætingu hans um forkastanleg vinnubrögð sín. Í þessum pistli segir Jón Ólafsson:

  „Segjum að námi í íslenskum menntaskóla væri lýst sem þjálfun í íþróttum og vélritun. Það er ekki ólíklegt að maður hefði tilhneigingu til að leiðrétta slíka fullyrðingu, jafnvel halda því fram að menntaskólanám á Íslandi væri alls ekki þjálfun í íþróttum og vélritun heldur fyrst og fremst bóklegt nám í nokkrum kjarnagreinum.“

  Þetta er verulega aum samlíking og ég kalla hana hreinlega heimskulega.

  Þór Whitehead greinir frá ÖLLUM „kúrsum“ sem íslenskir komúnistar tóku í byltingarskólum í Moskvu, en sleppir ekki úr eftir hentugleikum. Á bls. 93 í bók Þórs, segir eftirfarandi:
  „Kennslustundir í Lenínskólanum 1933-1934 skiptust svo:
  Hagfræðikenning kommúnismans, saga Kommúnistaflokks Sovétríkjanna og Lenínismi, 260 stundir hver grein. Saga Kominterns og kommúnistaflokks heimalandsins, 232 stundir, alls 1012 stundir. Námsþátturinn; skipulagning flokksstarfs krafðist 161 stundar, þar af 40 stundir í neðanjarðarstarf. Skipulagsstarf, þ.e. bókleg herfræði, skotfimi og meðferð vopna, 110 stundir. Verkalýðsstarf, 85 stundir.
  …. Jón Ólafsson hefur fullyrt um þetta skyldunám íslenskra og annarra Lenínskólanema að „engar heimildir“ hefðu fundist um neðanjarðarstarfsemi „eða þjálfun íslenskra kommúnista til slíkra verka“ “

  Helstu fræðimenn á Norðurlöndum [samanb. doktorsritgerð sem Þór vitnar í] hafa birt heimildir um skyldunám og þjálfun í neðanjarðarstarfsemi. Þær heimildir eru opnar öllum sem vilja lesa þær, en Jón Ólafsson kýs að breiða yfir þennan þátt, hylja hann og afneita honum.

  Byltingarskólarnir gættu strangrar leyndar um starfsemi sína og nemendur máttu hvorki greina flokksfélögum sínum, né nánustu vandamönnum, frá námi sínu. Þeir áttu að gefa falskar skýringar á brotthvarfi sínu frá heimahögum. Í bréfi frá Komintern til KFÍ, segir:

  „Þið eruð ábyrgir fyrir því að þið fylgið þessum skilmálum stranglega“.

  Á bls. 156 í bók Þórs Whiteheads segir neðanmáls:

  „Jón Ólafsson fullyrðir: „Meira að segja á róttækasta tímibili Kominterns, þegar íslensku kommúnistunum var uppálagt að kalla Alþýðuflokksmenn sósíalfasista, fól línan engan vegin í sér að beitt skyldi ofbeldi“. Jón segist alls EKKERT hafa fundið í skjalarannsóknum í Moskvu „um kerfisbundið ofbeldi“ í boðskiptum í boðskiptum Kominterns og og íslenskra kommúnista. Nú hafði jón sannarlega aðgang að ofangreindu bréfi framkvæmdanefndar Kominterns, þar sem hún vítti flokkinn fyrir frávik frá línu sinni með því að ráðast ekki á lögregluna og virða lög og fyrirmæli lögreglustjóra um leið og nefndin fyrirskipaði flokksforystunni að herða byltingarbaráttuna. Jón kaus hins vegar að leiða þessi fyrirmæli hjá sér, þó að víturnar sýni ótvírætt að yfirboðarar KFÍ í Moskvu, kröfðust þess að kommúnistar beittu hér mun harðara ofbeldi en þeir höfðu gert til þessa – kerfisbundnu, skipulögðu ofbeldi.“ (Jón Ólafsson: „Kommúnistar og stjórnskipulagið“, Lesbók Morgunblaðsins 18. nóv. 2006)“.

  Þess má geta að þessi boðskipti milli Kominterns og KFÍ, áttu sér stað áður en þriðji „Gúttóslagurinn“ (og sá alvarlegasti) árið 1932 átti sér stað, en þá örkumluðust a.m.k. tveir lögregluþjónar og 20 af 28 lögregluþjónum Reykjavíkur á þessum tíma, voru ófærir til vinnu á eftir, til lengri eða skemmri tíma. Greinilegt er að kommúnistar á Íslandi tóku ábendingum yfirvaldsins í Moskvu, af fullri alvöru.

  Eftir þá útreið sem Jón Ólafsson fær í bók Þórs Whiteheads, „Sovét-Ísland, óskalandi“, er ekki óeðlilegt að hann reyna að bera í bætifláka fyrir sjálfan sig. En orðspor hans sem og sagnfræðings verður auðvitað aldrei bætt. Það hlýtur hver maður að sjá.

  Svara
 5. jonolafs
  jonolafs says:

  Sæll Gunnar.
  Þakka þér fyrir ítarlegar athugasemdir. Þeim vil ég þó ekki svara að öðru leyti en því að óska eftir að þú lesir svör mín við skrifum Þórs. Því miður eru margar fullyrðingar hans um skrif annarra fræðimanna rangar. Ég reyni eftir föngum að sýna þetta, þar sem lesandinn þarf að sjá heimildameðferðina til að sannfærast.

  Svara
 6. Sævar
  Sævar says:

  Sæll Jón.
  Mér sýnist stefna að þetta verði álíka löng og umfangsmikil ritdeila á milli ykkar Þórs og kommanna og milli Skinners og Petit um Hobbes. Og fyrir utan spurningar um heimildanotkun er kanski einmitt um svipaðar spurningar að ræða hér. Það er hvernig eigi að túlka og hvaða ályktanir má draga af fyrirliggjandi gögnum.

  Svara
 7. Sævar
  Sævar says:

  Að vísu sýnast mér rökræða þeirra Skinners og Petit á nokkuð hófstilltari nótum og samlíkingin því kanski ekki viðeigandi. Það er ekki laust við að maður gruni Þór um að skrifa söguna í þeim tilgangi að fella að fyrri hugmyndum sínum og heimildaöflun og meðferð miðist við það.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *