Nýlega tók ég þátt í afar virðulegum fundi. Þetta var svokallaður hugarflugsfundur á vegum Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís, og ætlunin var að setja á blað hugmyndir um verkefni, verkefnasvið og áherslur í rannsóknum á Íslandi næstu árin eða til 2015. Það vakti athygli mína þegar farið var að vinna úr hugmyndum sem varpað var fram hve margir, líklega allt að helmingur tillagnanna, var orðaður svo að Ísland skyldi á fáeinum árum verða leiðandi, í forystu, öðrum fyrirmynd eða fremst á einhverju ákveðnu sviði. Þetta varðaði sumt efni sem segja má að Íslendingar hafi sérstakan áhuga á af náttúrlegum ástæðum en þó settu menn líka fram hugmyndir um leiðandi stöðu á ýmsum öðrum sviðum líka, svo sem í gæðamálum, mati, mælingum af ýmsu tagi og svo framvegis.
Mig langar að velta því aðeins fyrir mér hér hvað þessi sýn fyrir Íslands hönd feli í sér. Hvernig á maður að skilja það, þegar 50 til 100 fremur jarðbundnir vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar koma saman í einu af fámennustu sjálfstæðu ríkjum heims og láta sig dreyma um að ná forystu á ýmsum sviðum? Má kalla þetta heilbrigðan metnað eða eru orð eins og draumórar, barnaskapur eða eitthvað slíkt nær lagi?

Áður en ég held áfram með þá spurningu, ætla ég að segja aðra sögu. Fyrir fáeinum vikum var ég yfir helgi í Kaupmannahöfn og komst ekki hjá því að fylgjast með því sem efst var á baugi í Danaveldi þá daga, en það var skírn verðandi krónprins Dana, sonar núverandi krónprins, en hann fékk eins og allir vita nafnið Kristján. Ég var í samneyti við góðan vin minn þessa daga, en sá er brattur útrásarmaður og ætlar að hasla sér völl í Danmörku eftir góða byrjun á Íslandi. Við fórum að ræða um hvænær að því kæmi að Kristján þessi, sem verður væntanlega Kristján XI, tæki við krúnunni. Kristjánarnir hafa nú tengst okkur Íslendingum á sérstakan hátt, sá níundi færði okkur stjórnarskrá, sá tíundi var síðasti kóngur Íslands og sá sem mátti sjá á bak Íslandi, en hvað með þann ellefta? Ja hann verður auðvitað kóngur yfir Danmörku um það leyti sem Íslendingar verða búnir að eignast hana alla, sagði þessi vinur minn.

Maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér, þegar markmið af þessu tagi eru orðuð, hvort sem um er að ræða áform um að Ísland taki forystuna á nokkrum meginsviðum vísinda og tækni, eða að íslenskir fjárfestar og athafnamenn kaupi rótgróin dönsk eða bresk fyrirtæki – jafnvel fjölmiðlana eins og talað var um í fréttum í dag, hvaða hugsun ráði ferðinni.
Að hluta er hér vafalaust um að ræða eitthvað sem kalla mætti heilbrigðan metnað. Það er ekkert óeðlilegt við að góðu gengi, hröðum breytingum, auknu fjármagni fylgi hugmyndir um frægð og frama. En samt er eitthvað hlægilegt við þetta líka, það er einhver ofmetnaður sem birtist í því að fólk æsist svo upp yfir þokkalegum árangri að alla taki að dreyma um að þjóðin leggi næst heiminn að fótum sér.
Hversvegna ættum við til dæmis að stefna að því að verða fremst í heiminum á sviði jarðvísinda, haffræði og heimskautafræða og þar að auki menntaðasta þjóð í heimi, þegar skynsamlegra markmið væri ef til vill að stefna að því að vera í hópi þeirra ríkja sem standa fyrir traustum rannsóknum á nokkrum sviðum vísinda og geta boðið upp á samkeppnishæft nám á þessum sviðum og góða aðstöðu til rannsókna? Það hljómar vissulega betur að stefna alltaf á toppinn, en er líklegast að slík stefna eða slík hugsun skili árangri? Á tímum vinstri róttækni og hippamenningar var eitt slagorðið: „Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega“. Er það kannski hugsunin hér – að með því að berja sér á brjóst og setja sér ómöguleg markmið, þá hámarki maður árangurinn, hvernig sem á það er litið?
Ég verð að viðurkenna að ég efast um þetta. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að stefna að heimsyfirráðum. Ómöguleg markmið eru ekki góð markmið nema maður sé byltingarmaður og finnist á endanum að annaðhvort fari maður alla leið eða farist. Valkosturinn við heimsyfirráð er yfirleitt dauði.

Vinur minn, sem ég sagði frá áðan var auðvitað að grínast, þegar hann sagði að við yrðum búin að kaupa alla Danmörku eftir 50 ár eða svo. En grínið sýnir hugsunina, ekki hans heldur þeirra sem eru að hlusta – yfirráð yfir Danmörku er kannski draumur Íslendingsins þegar öllu er á botninn hvolft, djúpt í þjóðarsálinni. En í raun og veru lýsir þessi hugsunarháttur sem ég hef verið að lýsa, þessi ofdirfska sem allsstaðar kraumar, hugsunarhætti nýlenduskeiðsins, hugsunarhætti frelsingjans. Loksins þegar við erum ekki lengur leiguliðar og kotbændur, þá viljum við taka sæti nýlenduherrans.

Ég held að sú þórðargleði sem nú ríkir víða í samfélaginu og sem við tengjum gjarnan við stórmerkilegan árangur síðustu ára erlendis, bæði í vissum listgreinum eins og tónlist en sérstaklega í viðskiptum, leiði til þess að við hættum að sjá þá hluti sem við ættum að hugsa um og huga að. Þetta eru dæmigerð einkenni ofmetnaðar. Þetta veldur því að okkur hættir til að láta eins og við þurfum ekkert að hugsa um innviðina. Þetta birtist í alltof mikilli áherslu á peninga í stóru og smáu, auðmenn og athafnamenn eru dýrkaðir sem guðir væru, og jafnvel í þeirri hugmynd að sýndarmennskan sé eitthvað annað en einmitt það, sýndarmennska.
Mig langar að taka dæmi. Á síðustu árum hefur gríðarlegu fé verið varið og lofað til byggingar mannvirkja sem eiga að hýsa skóla, svo sem grunnskóla, og menningarhús af ýmsu tagi, allt frá gríðarlegu tónlistarhúsi við höfnina í Reykjavík til svokallaðra menningarhúsa annarsstaðar á landinu. Á sama tíma er mjög erfitt að láta rekstur menningar- og menntastofnana ganga upp. Ég hef vissar efasemdir um að það sé grundvallaratriði um gæði grunnskólans í landinu hversu flotta skóla hægt er að byggja í nýjum hverfum og úti á landi. Mig grunar að gæði skólastarfs í grunnskólum velti á kennslunni og þar með á kennarmanntun, kröfum til kennara, viðhorfi til menntunar og ýmsu fleiru miklu fremur en glæsilegum byggingum.
Upp á síðkastið hefur mjög mikið verið talað um tungumálakunnáttu Íslendinga. Þetta er umræða sem blossar alltaf upp annað slagið og alltaf eru einhverjir sem koma og halda því fram fúlustu alvöru að Íslendingar eigi að vera tvítyngdir. Mig grunar reyndar að það sem átt er við sé öllu heldur það, að Íslendingar ættu að tala mjög góða ensku og það er að sjálfsögðu óumdeilt. Íslendingar ættu almennt hafa mjög góða tungumálakunnáttu en að öðrum tungumálum ólöstuðum er augljóst að enska er mikilvægasta tæki alþjóðlegra samskipta um þessar mundir.
Það er hinsvegar minna talað um það hvað þurfi að gerast til að Íslendingar geti orðið jafn góðir í ensku og þeir vilja vera. Erum við það kannski nú þegar? Ég held ekki en ástæðan er ekki sú að enskukennsla sé ekki nógu mikil eða nógu góð, hún er vegna þess að skólakerfið vanrækir kerfisbundið þær greinar sem varða heimsmenningu, samfélag og tungumál. Kennsla í þessum greinum er frumstæð langt fram eftir grunnskólanum og afar ómarkviss í framhaldsskólum.
Það kemur fram í könnunum sem gerðar hafa verið í háskólum að Íslendingar ofmeta iðulega enskukunnáttu sína, einkum íslenskir karlnemendur. Er það gott eða vont? Lengi vel héldu menn því fram að mikið og jafnvel óraunhæft sjálfstraust væri af hinu góða, það yki frekar árangur en hitt. Nýlegar rannsóknir sýna hinsvegar enga fylgni þarna á milli. Montrössunum gengur ekkert betur en hinum sem eru hógværir eða draga jafnvel úr þegar þeir eiga að meta eigin kunnáttu eða getu.

Viðskipti og vissir hlutar menningar eru í útrás, það er óumdeilt, en hinsvegar gleymist iðulega að vísindi og fræði hér á landi, jafnt raunvísindi sem hug- og félagsvísindi hafa verið í útrás miklu lengur. En það er hægfara útrás, sem ber ekki jafn mikið á og hinni og kannski á ekki að bera á henni. Útrás vísinda og fræða byggist einfaldlega á því að hér á landi eru fjölmargir einstaklingar með góða menntun og þjálfun úr bestu háskólum sem stunda fræði- og vísindastörf í samstarfi við erlenda kollega sína. Þessvegna held ég að fræðaheimurinn ætti að fara varlega í að tileinka sér orðræðu og mælskulist viðskiptaheimsins. Kannski finnst fólki stundum að hófsöm mælska sé til marks um metnaðarleysi og alltaf eigi að stefna sem allra hæst. Það er ekkert að því að stefna sem hæst, en að lifa í óraunhæfum blekkingarheimi er líklegt til þess að skapa tilhneigingu til að ofmeta og oftúlka eigin árangur. Risafyrirtækið Enron, sem hrundi með eftirminnilegum hætti fyrir tæpum 5 árum er gott dæmi um hvert slík sjálfsblekking getur leitt. Markmiðin voru svo mögnuð og metnaðurinn svo mikill að á endanum þurfti að falsa bækurnar til að halda blekkingunni gangandi þangað til spilaborgin hrundi. Raunsæi er ekki metnaðarleysi, þvert á móti.

Í vísindum og fræðum á að huga að innviðunum, raunverulegum gæðum og raunverulegum styrk. Þegar farið er að setja mælistiku augslýsingamennsku og viðskipta á fræðaheiminn þá erum við komin á villigötur. Ef hinn akademíski heimur hefur eitthvert samfélagslegt hlutverk, þá á það hlutverk að felast í raunsæi, aðhaldi og umfram allt gagnrýni. Það er að mínu mati of lítið um það að akademían og einstakir háskólamenn láti að sér kveða í umræðum um stjórnarfar, lýðræði, og svo framvegis. Þetta er ekki vegna þess að menn taki ekki þátt í umræðunni heldur vegna þess að trúverðugleiki og framlag fræðaheimsins sker sig ekkert úr. Vísinda- og fræðimenn verða ekki leiðtogar út á auglýsingatrikk heldur fyrir vel útfærða, hugsaða og rétta gagnrýni.

Hér á landi eru hugmyndir stundum eins og fen sem fólk festist í. Einhverju er skellt fram og um leið og búið er að skella því fram þarf að keyra það í gegn hvað sem það kostar og sama hver mótstaðan er. Þetta á við um styttingu framhaldsskólans (án þess að ég leggi dóm á hana sem slíka), virkjanir, álver og margt fleira. Alltaf er það valdið sem hefur yfirhöndina, vitið fær ekki að komast að, og þegar það kemst að þá er eins víst að enginn sé að hlusta. Þessvegna fær maður oft á tilfinninguna að þótt mikið sé talað og mikið rifist, þá sé iðulega alls ekki talað um það sem skiptir máli. En þetta held ég að sé aðalatriðið þegar um hug- og félagsvísindi er að ræða. Ólíkt því sem kann að gilda á kauphallargólfinu eða í mælskuleik viðskiptalífsins. Það er ekkert á því að græða að hafa hátt, langtímamarkmiðin skipta öllu máli og þeir velta á innviðum, innihaldi og því að hafa eitthvað að segja.

Flutt á Rannsóknastefnu ReykjavíkurAkademíunnar 16. febrúar 2006

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *