Þegar fólk undrast fjölda háskólastofnana á Íslandi og spyr hvernig það megi vera að 300 þúsund manna þjóð hafi 7 eða jafnvel 8 háskóla, er byggt á úreltum skilningi á eðli og hlutverki háskóla í nútímasamfélagi. Það kann að vera að fram á síðustu öld hafi háskólinn verið staðbundin stofnun sem helst væri hægt að líkja við klett eða turn eins og hugmyndin um fílabeinsturn fræðanna ber með sér. Á undanförnum áratugum hefur hinsvegar orðið gerbreyting á rannsóknum og háskólastarfi. Háskólinn er hröðum skrefum að verða ríkari og mikilvægari hluti af samfélaginu en áður var. Háskólinn þjónar menntunarþörfum og menntunarkröfum samfélagsins á miklu fjölbreyttari hátt en fyrir aðeins fáeinum áratugum, tengsl rannsókna og efnahagslífs eru náin, sömuleiðis tengsl rannsókna og menningar og háskólamenn mæta stöðugt vaxandi óskum um að miðla rannsóknum sínum og niðurstöðum þeirra langt út fyrir þröngan hóp sérfræðinga.

Þessvegna hefur lítið upp á sig að býsnast yfir fjölda háskólastofnana eða fjölda rannsóknastofnana. Fjöldi þeirra eða stærð eininganna er algjört aukaatriði. Skilvirkni rannsókna, gæði þeirra, gæði kennslu og hagræðing sem felur í sér betri notkun á tækni og aukna samvinnu, það er aðalatriðið.

Það var einu sinni hundur sem elti kött inn í trjálund, en kötturinn lék á hann. Hann þóttist ætla klifra upp í tré, en á síðustu stundu sveigði hann örsnöggt að öðru og stökk upp í það án þess að hundurinn áttaði sig á. Hundurinn fór að gelta við tréð sem hann hélt að kötturinn hefði farið upp í, á meðan kötturinn laumaðist niður úr hinu trénu og lét sig hverfa án þess að hundurinn yrði nokkurs var. Hundurinn gelti af krafti við vitlaust tré. Prófessorarnir í HÍ sem nú leggja til að stofnun þeirra taki meira og minna yfir alla kennslu og allar rannsóknir í landinu eru í sporum hundsins. Þeir halda að vandinn sé allt annar heldur en hann er. Þeir eru að gelta við vitlaust tré – það er enginn köttur í því.

En hvernig á þá að spara? Við því eru tvö svör. Það fyrra er einfalt, að sjálfsögðu á að vinna að hagræðingu og samvinnu. Skólar eiga að nýta styrkleika hver annars til að framkvæma það sem annars væri erfitt eða ómögulegt, skipuleggja saman námskeið og námslínur og láta starfsmenn sína rugla saman reytum í rannsóknum. Seinna svarið er örlítið flóknara: Háskólamenn ættu að taka sig saman um að reyna að fá stjórnvöld til að setja menntun og rannsóknir efst í forgangsröðina, fá þau til að skilja að við höfum ekki efni á að spara í þessum málaflokki umfram það sem orðið er.

Þetta er aðeins hægt að gera með einum hætti: Með því að skapa eitt háskólasamfélag á Íslandi frekar en að láta margar stofnanir gelta hverja að annarri og slást um þá bita sem stjórnvöldum þóknast að fleygja til þeirra. Hversvegna eigum við að taka því eins og sjálfsögðum hlut að höggva eigi miskunnarlaust í háskólamenntun og rannsóknir þegar öllum er ljóst að þar liggur lykillinn að framtíð landsins?

Hættum að rífast um háskóla, förum að byggja upp háskólasamfélag.

4 replies
 1. stefan benediktsson
  stefan benediktsson says:

  Skilvirkni, gæði, hagræðing, betri notkun á tækni og samvinna. Þú biður ekki Guð um lítið Jón.

  Svara
 2. Árni Halldórsson
  Árni Halldórsson says:

  Sæll Jón,

  Það er enginn vafi á því, að háskólaumhverfi á Íslandi er sundrað.

  Séð utanfrá minnir núverandi uppbygging einna helst á gamalkunna hreppaskiptingu, með þeim (kostum og) göllum sem því nú fylgdi.

  1. Gögn til stuðnings tillögu prófessora HÍ?

  Hefur verið gerð einhver rannsókn á Íslandi á því hvað ‘prófessorar’ hinna ýmsu háskóla eru að vinna að í þeim hluta vinnutímans sem tileinkaður er rannsóknum? Hvernig er útkoman miðað við erlendan samanburð? Og ekki síst, er eitthvað sem bendir til þess að einn háskóli skari framúr?

  (séu gögnin til væri afar fróðlegt að sjá þau).

  Er það á grundvelli styrks eða veikleika sem prófessorar HÍ láta bæra á sér?

  2. Samfélag, já.

  Það er enginn vafi á því að stokka þurfi upp í háskólasamfélaginu, ég er sammála Jóni að það þurfi að hugsa um þetta sem „háskólasamfélag“, með áherslu á „sam…“ í stað þess að láta hrepparíginn ráða ferðinni.

  3. Excel æfingar og gamla góða deildaskiptingin.

  Það að leggja til að einn háskóli yfirtaki eitt eða annað getur sjálfsagt orðið niðurstaðan, en leiðin að slíku marki þarf að vera skýr, og má ekki koma niður á gæðum kennslu, rannsókna, og samfélagshlutverki háskóla almennt.

  Háskólar erlendis hafa margir hverjir farið í gegnum naflaskoðun síðustu árin, meðal annars til þess að endurskilgreina sig sjálfa gagnvart atvinnulífi viðkomandi lands. Og ekki síst til þess að kanna nánar hvaða rannsóknir eru stundaðar í þeim rannsóknartíma sem ríkið greiðir inn í háskólasamfélagið.

  a. Ein megin mælistikan er, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, birtingar í alþjóðlegum tímaritum.

  Það er ekki óvanalegt að sjá væntingar um að prófessor með 30% rannsóknarskyldu sé að öllu jöfnu með 1-2 birtingar í mjög góðu ritrýndu alþjóðlegu tímariti á ári. Sé þessu ábótavant yfir ákveðið árabil, og skýringar fáar, er líklegt að rannsóknar% sé leiðrétt niður á við.

  Háskólasamfélag þarf að geta sýnt ríkinu fram á það hvaða rannsóknir eru gerðar fyrir framlög til háskólanna.

  b. Sjálfskoðun háskóla erlendis byggir á ekki einungis á kostnaðartölum úr Excel, og miðar í mörgum tilfellum að því að brjóta upp hefðbundna deildaskiptingu.

  Fleiri dæmi eru til um háskóla sem skilgreina kjarna rannsóknarsvið – ekki með heiti fræðigreina eða deilda í fyrirrúmi, heldur er viðfangsefnið látið ráða.

  Ég hef starfað við háskóla bæði í Danmörku og Englandi sem hafa farið í gegnum slíkar æfingar með mjög áhugaverðum árangri, og veit um fleiri stofnanir sem hafa gert hið sama síðustu árin.

  Dæmi um kjarna rannsóknarsvið er ‘Orka’.

  Um það sameinast rannsóknarfólk úr ýmsum deildum, ekki bara náttúruvísindum heldur einnig félagsvísindum.

  Markmiðið er amk. tvíþætt.

  Annarsvegar endurspeglar svona kjarni þarfir þess atvinnulífs og samfélags sem viðkomandi háskóli starfar í.

  Hinsvegar verður til „samfélag“, sem gerir það mögulegt að sækja um rannsóknarstyrki úr stórum sjóðum.

  Tillaga prófessora HÍ hrindir af stað þarfri umræðu.

  En spurningin er hvort hún skili tilætluðum árangri, sé útgangspunkturinn lands- eða háskólapólitískur en ekki faglegur.

  Svara
 3. Anna María
  Anna María says:

  Mikið er ég sammála þér með þetta. Það er farin af stað einhver umræða í takt við að pabbi minn sé sterkari en pabbi þinn, í stað þess að fólk hugsi rökrétt og vinni af viti. Ég held líka að það yrði hörmuleg ákvörðun á þeim tímum sem við lifum að skera niður menntastofnanir. Þær á þvert á móti að efla. Mín skoðun er reyndar sú að það ætti að endurskipuleggja allt þetta kerfi sem hindrar fólk í að efla sig til þátttöku í uppbyggingu samfélagsins og sendir það þess í stað í það skelfilega niðurbrot sem langtímaatvinnuleysi er. Ég vil að við leggjum niður bæði LÍN og Atvinnuleysistryggingarsjóð í þeirri mynd sem þessir sjóðir eru og tökum upp styrkjakerfi til náms og þá ekki bara á háskólastigi heldur líka framhaldsskólastigi. Skólarnir, hver um sig endurskipuleggi sig með það að markmiði að bjóða upp á undirbúningsdeildir undir háskólanámið. Fólk fái styrki til náms en ekki námslán, sem hvort sem er greiðast ekki til baka nema að hluta til. Þeir sem ekki hafa atvinnu og þurfa að skrimta á atvinnuleysisbótum í fullkomnu tilgangsleysi geti fengið styrki til að fara í nám þess í stað. Svona kerfi væri uppbyggjandi en ekki niðurbrjótandi, það yrði til að gefa hæfileikafólki sem er til út um allt tækifæri til virkrar og uppbyggjandi þátttöku í samfélaginu. Þar yrðu nýttir hægileikar sem annars fara í súginn. Ég efast um að þetta myndi kosta okkur meira en það kerfi sem nú er við líði.
  Svo þarf að hætta þessum háskólaskætingi og metingi. Auðvitað eru allir okkar háskólar að gera góða hluti, þar eru rannsóknir stundaðar og fólk fær fína menntun í þeim öllum.

  Svara
 4. Þórður
  Þórður says:

  Takk fyrir mjög þarft innlegg í umræðuna. Við þurfum á öllum okkar æðri menntastofnunum að halda og fjölbreytileikinn er styrkur frekar en hitt. Ef allt nám væri fært inn í þrjá skóla er meiri hætta á einsleitni og það er ekki gott fyrir litla þjóð. Það hefur oft verið sagt að það sé dýrt að vera fátækur og þessar sparnaðarhugmyndir Prófessoranna eru sannarlega af þeim meiði og þvert á það sem kallað er eftir í samfélaginu núna. Við þurfum faglegri vinnubrögð í alla stjórnsýsluna, pólitíkina, atvinnulífið osfr. Hér er gott tækifæri fyrir islendinga að snúa vörn í sókn og efla frekar menntastofnanirnar og hugmyndir Önnu Maríu hér að ofan væru skref í rétta átt. Það er víða pottur brotinn í menntakerfi þjóðarinnar sem þarf að taka á og er t,d brottfall nemenda þar mikið áhyggjuefni. Besta fjárfesting þjóðarinnar nú sem endranær er menntun. Íslensk þjóð hefur ekki efni á því að draga saman seglin í menntamálum. Það lengir kreppuna, viðheldur ófaglegum vinnubrögðum og dregur úr samkeppnishæfni þjóðarinnar. Framfarir og hugrekki er það sem okkur vantar núna og það væri miklu nær að við værum að tala um það hvernig við getum virkjað menntastofnanirnar okkar til sóknar heldur en undanhalds. Það er án efa vaxtarbroddur víða í íslenskum skólum.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *