Nú í vor lauk fimm ára úttektartímabili íslenskra háskóla þegar Gæðaráð háskólanna gerði stofnanaúttekt á síðasta íslenska háskólanum af sjö – Háskólanum á Bifröst. Það er ekki víst að margir viti af þessari fimm ára úttekt, sem hefur kostað skólana ómælda vinnu. Hver háskóladeild – en þær skipta tugum – gerði sjálfsmatsskýrslu, skólarnir gerðu hver sína rýniskýrslu og loks gerði Gæðaráðið, sem skipað er erlendum sérfræðingum, stofnanaskýrslu um hvern skóla. Sú síðasta, skýrslan um Bifröst, átti að koma í júní, en skil hennar hafa dregist. Þó hefur innihald úttektarinnar komist á almannavitorð, einkum meginniðurstaða hennar. Morgunblaðið sagði frá því fyrr í mánuðinum að sú niðurstaða væri skólanum ekki hagstæð því ráðið gæti aðeins lýst yfir „takmörkuðu trausti“ á prófgráðum skólans.

Þegar úttektarferlið var hannað á sínum tíma var ákveðið að ekki aðeins fengju skólarnir ítarlega umsögn og mat á starfsemi sinni, heldur yrði þeim líka gefin einkunn. Ráðið getur lýst yfir „fullu trausti“ á hverjum skóla, það getur lýst yfir „trausti“, „takmörkuðu trausti“ og „engu trausti“. Það var reyndar ákveðið að í þessari fyrstu umferð gæðamatsins fengi enginn skóli „fullt traust“. Einkunnirnar eru gefnar fyrir tvo þætti, annars vegar reynslu eða upplifun nemenda, hins vegar fyrir prófgráður, eða það sem að baki þeim býr. Samkvæmt grein Morgunblaðsins um Bifröst er mat ráðsins að traust megi bera til reynsluþáttarins, en aðeins takmarkað til þeirra prófgráða sem skólinn veitir. Bifröst er eini skólinn sem fær takmarkað traust fyrir prófgráður, Háskólinn á Hólum fékk „takmarkað traust“ fyrir reynsluþáttinn en aðrir skólar hafa fengið „traust“ fyrir hvorttveggja.
Almennt má segja að íslensku háskólarnir komi vel út úr matinu og það er öllum ljóst að það hefur frekar hjálpað þeim en hitt að þurfa að eyða öllum þessum tíma í sjálfsmat og greiningu á sjálfum sér. Það eru góðu fréttirnar.

En er háskólaumhverfið þá í góðu ástandi? Er búið að votta það? Og hvað þýðir það að skóli eins og Bifröst fái „takmarkað traust“ fyrir prófgráður?
(Áður en lengra er haldið er rétt að ég taki fram að ég var aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst fram á mitt ár 2013, starfaði þar sem prófessor til ársloka 2014, en er nú prófessor við Háskóla Íslands – svo öll tengsl séu á hreinu)

Byrjum á fyrri spurningunni. Það hefur verið mál manna í mörg ár að háskólarnir séu of margir og umræður um sameiningar þeirra hafa tekið á sig ýmsar og stundum grátbroslegar myndir. Sameiningartilraun Bifrastar og HR endaði í farsa fyrir fimm árum þegar þáverandi rektor Bifrastar sleit viðræðum með yfirlýsingum í fjölmiðlum. Síðustu mánuði hafa tveir þingmenn haft það verkefni að gera einhverskonar úttekt á mögulegri sameiningu háskólanna á Hólum og Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands sem þó virðist allsstaðar mælast illa fyrir. Reglulega hafa komið upp hugmyndir um sameiningu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. HR ásældist lengi Listaháskólann og rétt eftir hrun var möguleikinn á sameiningu HR, Listaháskólans og Bifrastar einnig ræddur. Fleira hefur þótt koma til greina, en því miður hefur ekkert yfirvald í þessu kaotíska landi megnað að móta stefnu um íslenskt háskólaumhverfi í heild sinni. Það má því segja að þessi mál reki á reiðanum. Það sem hefur hins vegar gerst er að ríkisháskólarnir fjórir, Landbúnaðarháskólinn, Hólaskóli, Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands, hafa myndað samstarfsnet sem tengir þessa skóla stöðugt sterkari böndum. Jafnvel þótt ekki verði um formlega sameiningu að ræða má búast við að starfsemi þeirra renni að mestu saman á næstu árum, þannig að nemendur og akademískir starfsmenn færist óhindrað á milli þeirra.

Háskólaumhverfið er í hægfara þróun sem kemur ekki til af neinni stefnumótun, en mun þó hafa fyrirsegjanlegar afleiðingar. Sjálfstæðu skólarnir þrír þurfa að mynda sér skýra sérstöðu saman eða hver fyrir sig sem réttlætir starfsemi þeirra. Fyrir Listaháskólann er þetta mjög auðvelt. Skólinn hefur skýrt afmarkað hlutverk gagnvart ríksivaldinu og er eini skólinn sem vinnur út frá fyrir fram ákveðnum hámarksfjölda nemenda í einstökum greinum. Háskólinn í Reykjavík hefur verið að efla sérstöðu sína sem Tækniháskóla með viðskiptaáherslu og Háskólinn á Bifröst hefur upp á síðkastið lagt áherslu á tækifæri fyrir eldri nemendur og fólk sem vill snúa við blaðinu eftir einhvern tíma á vinnumarkaði. Það blasir í rauninni við að þessir þrír skólar gætu sennilega náð betri árangri með greindarlega skipulögðu samstarfsneti heldur en þeir gera hver fyrir sig. Til þess að af slíku geti orðið þurfa yfirvöld hins vegar að hanna umhverfi skólanna þannig að slíkt sé mögulegt og þeim hagstætt, en því miður virðist skorta allt sem til þarf (áræði, sýn, stefnu og áhuga o.þ.h.).

Ástandið er sem sagt miklu verra en það gæti verið. Í rauninni er ástæðan einföld. Þegar núverandi háskólakerfi varð til fyrir um tuttugu árum, höfðu yfirvöld og margir þeirra sem komu að rekstri og skipulagningu nýju háskólanna gríðarlegan áhuga á gjaldtöku fyrir nám — skólagjöldum — og trúðu því eins og nýju neti að gjaldtaka væri lykill að góðum árangri. Hvort sem þetta er rétt eða rangt svona almennt séð, þá var í rauninni aldrei hægt að prófa kenninguna hér á landi því námslán eru auðfengin og því þurfa nemendur sjaldnast að færa verulegar fjárhagslegar fórnir til að geta farið í skóla. Staðan er því sú að háskólarnir, að Listaháskólanum undanskildum, keppa um nemendafjölda — reyna að fá eins marga og mögulegt er — þar sem nemendafjöldinn ræður öllu um þá kröfu um fjárveitingar sem skólar geta gert til ríkisins. Kerfið felur því ekki í sér hvata til að reyna að fá sem besta nemendur, aðeins að reyna að tryggja að nemendur sem byrja útskrifist í flestum tilfellum líka. Þessu mætti breyta með þeim einfalda hætti að fjöldi plássa fyrir nemendur væri ákveðinn fyrirfram, eins og alltaf hefur tíðkast í Listaháskólanum. Undir slíkum kringumstæðum væri samband skólanna og yfirvalda allt annað en það er nú. Skólarnir gerðu samning við ríkið um einstakar greinar og þann hámarksnemendafjölda sem þeir mættu taka við í hverri grein. Hvatinn væri ekki endilega að sem flestir væru í hverri grein, heldur að hámarksfjöldi væri í samræmi við þann fjölda góðra nemenda sem gera mætti ráð fyrir. Þetta þýðir ekki að fólki væri vísað frá háskólanámi, en það þýðir að ekki væri hægt að tryggja öllum aðgang að hvaða námi sem hugurinn girntist. En jafnrétti til náms birtist ekki í að allir geti farið í hvað sem er, heldur að aðgangur að háskólanámi ráðist af árangri frekar en efnahag.

Þá er það seinni spurningin. Hvað þýðir það að skóli njóti aðeins „takmarkaðs trausts“? Undir venjulegum kringumstæðum þyrfti enginn að kippa sér neitt verulega upp við að einn og einn skóli fái slæmt mat. Það þarf ekkert að klóra sér mikið í skallanum yfir viðbrögðum við því: Taka á vandamálunum, nýta sér gagnrýnina, endurhugsa það sem veikast stendur og reyna að bæta skólann þannig að næsta umferð fari betur – semja við stjórnvöld um það svigrúm sem þarf til þess og jafnvel þann stuðning sem nauðsynlegur er til að slík markmið geti náðst. En tilfellið er að í okkar ofurlítið sjúka háskólaumhverfi er eins og mönnum sé stundum ómögulegt að bregðast eðlilega við.

Fréttin um Bifröst í Morgunblaðinu sem ég nefndi hér í upphafi er dæmigerð fyrir þetta: Það fréttist að skólinn komi ekki vel út úr matinu, blaðamaður hringir í rektorinn og spyr með vandlætingu ákaflega vitlausrar spurningar: er „eðlilegt að opinberu fjármagni sé varið í skóla sem getur ekki tryggt gæði prófgráða sinna?“ Viðbrögðin sem hann fær við spurningum sínum eru jafn vitlaus: Skólinn muni gera „verulegar athugasemdir“ við skýrsludrögin. Þar sé réttu máli hallað, skólinn leggi metnað sinn í að tryggja gæði námsins.

Þetta óheilbrigða ástand gerir að verkum að ekki er hægt að tala af almennilegu viti um heilsteypt íslenskt háskólasamfélag
Samtalið sýnir ástand þar sem fjölmiðlar lesa mat gæðanefndar eins og um sé að ræða áfellisdóm yfir skólanum – réttast sé að leggja hann niður. Rektorinn svarar eins og skólinn sæti árásum gæðaráðsins (sem vill svo til að í situr þrautreynt háskólafólk). Betra hefði verið að lýsa fyrir lesendum hvernig skólinn hygðist bæta úr þeim vanköntum sem gæðaráðið bendir á.
Það er furðuleg staða að ekki ríki almenn sátt um háskólana í landinu, starf þeirra hvers fyrir sig og samstarf og að rektorarnir og aðrir talsmenn þeirra upplifi sig sem einskonar riddara í eilífri baráttu fyrir tilvist skóla sinna, gangi um vígreifir og höggvi mann og annan. Þetta óheilbrigða ástand gerir að verkum að ekki er hægt að tala af almennilegu viti um heilsteypt íslenskt háskólasamfélag, þar sem stofnanir geta sameinast ef það hentar, unnið saman ef það er betra og keppt sín á milli um að fá sem besta nemendur og sem mesta rannsóknarstyrki. Þess í stað eru of margir fastir í orðræðu sýndarmennskunnar: Láta eins og allt sem þeir gera sé frábært og einstakt, vísa ábendingum á bug og neita að sjá veikleikana eða horfast í augu við það sem raunverulega þarf að takast á við.

Birt í áttunda tölublaði Stundarinnar 2. september 2015. Sjá vefútgáfu: http://stundin.is/pistill/haskolar-islands-2-vitlaus-svor-vid-vitlausum-spur/