Það er tæpast hægt að halda því fram að ævisaga Hannesar Hafstein, sem Guðjón Friðriksson hefur nú skrifað, sé gagnrýnin ævisaga. Hún er vissulega engin lofrulla og að því leyti framför frá ævisögu Kristjáns Albertssonar, eins og Guðjón gefur í skyn í eftirmála sínum þegar hann segir bók Kristjáns úrelta. Hið stórkostlega glæsimenni sem Kristján skapar í ævisögu sinni, víkur fyrir hinum mennska Hannesi í ævisögu Guðjóns. Efnistök hans eru fínleg, skilningsrík og hjartnæm á köflum. Hann gerir mikið úr uppvexti Hannesar og heimilisaðstæðum, svo mikinn, að það litar alla ævisöguna og gerir að verkum að lesandinn hneigist til að túlka persónuleika og gerðir Hannesar í gegnum sterka lýsingu uppvaxtaraðstæðnanna. Það styrkir þessa mennsku ímynd Hannesar mjög að Guðjón hefur haft aðgang að miklu safni bréfa hans til móður sinnar sem ekki hefur birst úr áður. Maðurinn sem verður til á síðum bókar Guðjóns er ekki fullkominn, ólíkt Hannesi Kristjáns, en það er engu líkara en kostir hans minnki ekkert fyrir vikið. Guðjón fjallar um þætti í fari Hannesar og baráttumál á stjórnmálaferli hans sem Kristján veitti litla athygli svosem áhuga hans fyrir kvenréttindum, en það eru einmitt þættir sem nú eru mikils metnir en voru síður metnir áður. Þannig er mikilmennið ekki síður mikilmenni en áður var, það hefur einfaldlega verið uppfært til nútímans.
Hin persónulega nálgun Guðjóns er sterkust í fyrri hluta bókarinnar og nýtur sín kannski best í kaflanum um stúdentsár Hannesar. Þó að sá tími sem þar er fjallað um og þær persónur sem koma við sögu séu vel kunnar, tekst honum að draga fram atriði í samskiptum og persónulegum tengslum manna sem gera myndina skýrari en um leið flóknari og margræðari. Það er til dæmis sláandi hve umdeildur Hannes er frá fyrstu tíð og hvernig öll félagsleg þátttaka hans einkennist af hvorutveggja, sterkum stuðningsmönnum og hatrömmum andstæðingum. Sagan dregur líka ágætlega fram hvernig helstu kostir Hannesar, hyggindi, lipurð en um leið festa í samningum og framkoma sem er til þess fallin að vekja traust á æðstu stöðum, eru um leið til þess fallnir að vekja tortryggni á honum og beina andúð. Guðjón gefur oftar en einu sinni í skyn að Hannes hafi haft ótrúlega samningshæfileika og sé jafnvel fær um að opna leiðir þar sem öðrum voru allir bjargir bannaðar. Þetta kemur til dæmis skýrt fram í atviki á Garði þar sem Hannesi tekst að afstýra því að tveir landar hans væru gerðir brottrækir (154). Svipað er uppi á teningum tæpum 20 árum síðar þegar Hannes nær hagstæðum samningum við Stóra Norræna símafélagið um lagningu ritsímalínu (423). Í báðum tilfellum vekja samningar Hannesar talsverða tortryggni óvina hans, þó ólíku sé saman að jafna.
Í pólitíkinni er áhersla Guðjóns annarsvegar á frjálslyndi Hannesar, sem kemur auðvitað ekki á óvart, hinsvegar á hyggindin sem meðal annars birtast í því að hann gætir þess að segja löndum sínum ekki nema hálfa söguna um þátttöku sína í þeim stjórnarstofnunum Danaveldis sem hann hefur sem Íslandsráðherra beinan aðgang að og tekur jafnvel þátt í. Þannig staðfestir Guðjón á stundum sögusagnir og orðróm andstæðinganna en túlkar það í ljósi hygginda Hannesar og þess hve laus hann sé við þann uppbelgda þjóðrembing sem annars ríkti fyrir og á heimastjórnarárunum. Um leið fullyrðir Guðjón oftar en einu sinni að Hannes hafi verið langt á undan sinni samtíð í viðhorfum. Þetta á við um kvenréttindamálin og ýmis almenn framfaramál. Sérstaklega tíundar Guðjón kjördæmafrumvarp Hannesar um hlutfallskosningu og fækkun kjördæma úr 25 í 7. Þetta frumvarp lagði hann fram á þingi 1905 en það var fellt þá og langur tími leið áður en slíkar breytingar urðu á kjördæmaskipan (431-432). En hér er áherslan öll á einstaklinginn: Guðjón gerir litla tilraun til að greina eða kafa í pólitíkina sjálfa. Stjórnarathafnir Hannesar verða Guðjóni fyrst og fremst tilefni til að draga ályktanir um persónuleg viðhorf hans og til að staðfesta almenna lýsingu sína á honum.
Kostur bókarinnar – sannfærandi og litrík mynd af manneskjunni – er líka veikleiki hennar í vissum skilningi. Þegar kemur að hinum hörðu átökum heimastjórnaráranna er túlkunin á afstöðu Hannesar svo persónuleg að það er oft erfitt að taka andstæðinga hans alvarlega út frá frásögn Guðjóns. Þeir fá vissulega sanngjarnari meðferð en í ævisögunni sem Kristján Albertsson skrifaði fyrir tæpri hálfri öld, en lesandinn er orðinn svo nákominn Hannesi (að ekki sé nú talað um hina langlífu og vitru móður hans, en bréfaskipti þeirra leika stórt hlutverk í frásögninni) að andstæðingarnir geta vart notið sannmælis.
Guðjón Friðriksson er þrautþjálfaður ævisagnaritari. Hann hefur áður gert Jónasi frá Hriflu, Einari Benediktssyni og Jóni Sigurðssyni skil í stórum ritum sem hlotið hafa mikið lof og í tvígang hefur hann hlotið hin íslensku bókmenntaverðlaun fyrir ævisögur sínar. Þessi bók ber fagmennskuna með sér og það er erfitt að slíta sig frá henni þó löng sé. Styrkur Guðjóns er ekki síst fólginn í skemmtilegum staðhátta- og mannlífslýsingum. Hann leyfir sér skálduð innskot, sem oft eru vel heppnuð, þó ef til vill sé minna um þau í ævisögu Hannesar Hafstein en stundum áður. Hann vinnur vel úr því mikla magni bréfa sem eru langfyrirferðamestu heimildir hans og getur oft á sannfærandi hátt í eyðurnar.
Ævisaga Hannesar Hafstein nær tvímælalaust því takmarki að uppfæra Hannes, þó stundum sakni maður gagnrýninnar pólitískrar greiningar. En slík greining var kannski ekkert markmið höfundarins og í rauninni má telja það með kostum bókarinnar að hún gerir þörfina fyrir slíka greiningu á tímabilinu og persónunum í kringum heimastjórn bara enn ljósari.
Bókin um Hannes Hafstein er sú fyrsta af stóru ævisögum Guðjóns sem hann afgreiðir í einu bindi. Það er kostur að fá þessa sögu alla í einu lagi, en vissulega hefði verið lesandavænna af forlaginu af skipta sögunni í tvö bindi. Á þessum síðustu og verstu tímum er afar algengt að lesendur leyfi sér þann munað að njóta góðra bóka í rúminu en sá hnullungur sem þessi bók er hentar því miður illa til rúmlestrar, á áttunda hundrað þykkra síðna og á annað kíló að þyngd. Tvö bindi hefðu líka gert mögulegt að láta það ríkulega myndefni sem prýðir bókina njóta sín betur.

Ég elska þig stormur. Ævisaga Hannesar Hafstein. Guðjón Friðriksson, 726 bls., Mál og menning, Reykjavík, 2005.
Birt í Morgunblaðinu 20. desember 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *