Forseti lýðveldisins panikeraði um daginn (eða lét líta svo út). Honum fannst vera slíkt upplausnarástand í samfélaginu eftir að forsætisráðherrann sagði af sér að honum væri hreinlega nauðugur sá kostur, skyldurækni sinnar vegna, að bjóða sig fram í sjötta sinn. Í yfirlýsingum forsetans var aldrei fullljóst í hvaða skilningi áframhaldandi seta hans í embætti gæti skapað þann stöðugleika sem honum þótti svo mikilvægt að tryggja, enda snerist honum fljótt hugur aftur.

Nú hefur annar maður boðið sig fram á svipuðum forsendum og knúðu forsetann til sjötta framboðsins. Sá hefur nú þegar gegnt nokkrum helstu valdastöðum þjóðfélagsins, en hann telur ógnir steðja að stjórnkerfi og samfélagsgerð landsins og því meira sem hann tjáir sig um þau efni, því ljósara verður þeim sem hlusta að hann er málsvari íhaldssamra sjónarmiða og telur að lýðræðisvakning undanfarinna ára sé þegar á heildina er litið aðför að lífsháttum og þjóðskipulagi Íslendinga. Og svo hefur hann auðvitað miklar áhyggjur af múslimum.

Mótsögnin um lýðræði

Áhyggjur þessara reyndu stjórnmálamanna endurspegla djúpa mótsögn í viðteknum viðhorfum til lýðræðis. Mótsögnin er þessi: Við skiljum lýðræði sem kerfi eða aðferð til að tryggja að fólkið (almenningur, þjóðin) sé hinn eiginlegi valdhafi; þingmenn og aðrir sem valdir eru til embætta með lýðræðislegum hætti aðeins tímabundnir fulltrúar þess. Hins vegar virðast þeir sem valdastöðunum gegna yfirleitt líta svo á að ábyrgð þeirra sé dálítið önnur en í þessari lýsingu felst. Þeir halda að þeir eigi fyrst og fremst að tryggja stöðugleika samfélagsins og stofnana þess, en stöðugleikanum telja þeir að sé best þjónað með því að koma í veg fyrir að ýmsir aðrir, sem þeir af einhverjum ástæðum amast við, geti komist til áhrifa. En þetta þýðir að þeim reynist erfitt að skilja að það er grundvallarmunur á því annars vegar að berjast fyrir hugsjónum og sjónarmiðum, hins vegar að tryggja völd sín með þeim aðferðum sem hægt er að láta virka hverju sinni, því aðalmarkmið þess sem telur mikilvægast að halda völdum sjálfur er jú að berjast gegn áhrifum allra annarra.

Reyndar kann að vera villandi að tala um þetta sem mótsögn. Hér er frekar um að ræða ákveðna ruglandi sem líklega er algengust meðal stjórnmálamanna, en sýnir sig þó furðu víða. Áhrif hennar eru að þurrka út grundvallargreinarmun á milli baráttu um völd annars vegar og samræðu eða rökræðu um stefnumál, sjónarmið, hugsjónir, hugmyndafræði, lausnir og annað slíkt hins vegar. Þetta er grundvallargreinarmunur vegna þess að án hans er óhugsandi að það traust myndist sem nauðsynlegt er til að stjórnvöld hverju sinni geti búist við samstarfi við almenna borgara.

Hvaða máli skiptir traust?

En hvað er traust og hvers vegna er það svona mikilvægt? Þegar spurt er um traust í skoðanakönnunum eða fjallað um traust á stofnunum almennt, er hugað að ákveðnum grunnþáttum starfsemi þeirra: Er lögreglan líkleg til að gera það sem henni ber að gera en láta það ógert sem hún á ekki að gera? Ef fólk telur líklegt að svo sé segist það treysta lögreglunni. Sama með Háskólastofnanir eða dómstóla. Traust á Alþingi hefur verið lítið undanfarin ár vegna þess að fólk telur það ekki líklegt til að gegna hlutverki sínu vel. En þegar um er að ræða helstu valdastofnanir samfélagsins þarf greiningin að vera dýpri og beittari en þessi skilningur á trausti leyfir. Alþingi og Stjórnarráð eru stofnanir sem hafa flóknara hlutverk en svo að hægt sé að fella skýran dóm um hvort þær uppfylla hlutverk sitt eða ekki – hvort þær eru sem hluti af gangverki samfélagsins skilvirkar stofnanir eða ekki. Alþingi og þó sérstaklega sá hópur fólks sem myndar ríkisstjórn hverju sinni fara með völd og það skapar þeim ábyrgð langt umfram það sem venjulegar embættisskyldur eða hlutverk stofnana gera. Sá sem fer með völd er vissulega bundinn af lögformlegu hlutverki og skyldum, en um leið ber hann/hún ábyrgð sem ræðst af samtali við almenning og persónulegu loforði um að sinna ekki aðeins skyldum sínum heldur leggja sig fram, vera jafnvel tilbúinn til að fórna eigin hagsmunum fyrir hagsmuni heildarinnar og sætta sig við kröfur um lífsstíl langt umfram það sem gerist og gengur hjá venjulegu fólki.

Mannkostir sem engu máli skipta

Nú liggur í augum uppi að í umhverfi þar sem mannkostir af ákveðnu tagi eru taldir mikilvægir eða jafnvel nauðsynlegir eiginleikar þeirra sem taka að sér forystuhlutverk, þarf að vera hægt að gera greinarmun á þeim sem raunverulega hafa þessa eiginleika og hinum sem aðeins þykjast hafa þá. Það er mikilvægt að almenningur geti ráðið í karakter þeirra sem vilja gegna forystuhlutverki og það þýðir að fólk þarf líka að hafa yfir tækjunum til slíks að ráða. Því miður er alltof algengt að reynt sé að draga ályktanir um mannkosti fólks á forsendum sem eru alveg ófullnægjandi. Það er til dæmis vel þekkt að rödd manna og blæbrigði hennar hafa mikil áhrif á hvort þeim er treyst. Djúp og hljómmikil rödd er líklega ekki síðri eiginleiki til að ná árangri í pólitík heldur en skerpa og góð dómgreind. Hægt er að benda á fjölmarga aðra tilviljanakennda eiginleika fólks sem hafa meiri áhrif til góðs eða ills á álit annarra á því og þetta gerir að verkum að við getum sjaldnast dregið miklar ályktanir um hæfni fólks til að axla ábyrgð leiðtoga eða löggjafa af þeim eiginleikum sem þykja aðlandi í fari opinberrar persónu.

Slóð loddarans

Hvernig er hægt að sjá í gegnum stjórnmálamenn – átta sig á því þegar þeir þurrka kerfisbundið út muninn á valdabaráttu og skoðanaágreiningi, eða þegar þeir blöffa – beita sér fyrir viðhorfum sem þeir hafa ekki og ætla sér ekki að berjast fyrir? Svarið við þessari spurningu er ósköp einfalt: Það er í rauninni ekki hægt nema í stöku tilfelli. Og þetta er einmitt það sem gerir að verkum að lýðræði getur í einum skilningi farið út í vitleysu. Það gerist þegar ákveðnum einstaklingum (sem geta eftir atvikum verið fulltrúar tiltekinna hópa eða hagsmuna eða bara loddarar sjálfra sín vegna) tekst að teyma almenning tímabundið á asnaeyrunum. Lýðræði getur farið út í vitleysu af því að við (almenningur) erum svo trúgjörn og góðviljuð og höldum þess vegna iðulega að fólk sem í rauninni er bara á höttunum eftir völdum til að ráðskast með samfélagið sé að flytja mikilvægan boðskap.

Það er svo merkilegt að iðulega þegar áhyggjur eru látnar í ljós af lýðræði er alls ekki verið að vísa til þessa heldur þvert á móti til þeirrar (meintu) tilhneigingar almennings að láta tilfinningar stjórna viðhorfum sínum. Þá er látið eins og málefnin skapi mikinn tilfinningahita sem aftur geri fólki ómögulegt að komast að skynsamlegum og réttum niðurstöðum. En þetta er í rauninni frekar ótrúlegt. Mestur tilfinningahiti virðist þvert á móti skapast um ákveðnar persónur og besta leiðin til að afla málstað fylgis er að fá aðlaðandi og aðsópsmikinn leiðtoga til þess.

Einn heili eða margir

„Leiðtogar og yfirvöld hafa leikið heiminn verr en múgurinn,“ sagði John Dewey í frægri bók sinni um vanda og verkefni almennings í nútímasamfélagi. Bókin kom út 1927 en á þeim tæpu níutíu árum sem eru liðin hefur staðan varla breyst hvað þetta varðar. Það merkilega er hins vegar að stjórnmálaleiðtogar láta sumir eins og þessu sé öfugt farið. Eins og aukin áhrif almennings á stefnu og ákvarðanir hverju sinni muni leiða til afskræmingar lýðræðis, en áframhaldandi seta þeirra koma í veg fyrir slíkt. Okkar fyrrverandi forsætisráðherra sem nú vill verða forseti og forsetinn núverandi sem langaði til að vera áfram en hætti svo við að láta sig langa til þess, eru bara dæmi um stjórnmálaleiðtoga sem lifa á slíkum spuna og næra þar með bæði samsæriskenningar og vantraust.

Upphafsspurning greinarinnar hljómar kannski eins og mælskuspurning – eins og spurning sem einhver spyr til að geta gefið hnyttið svar. En þetta er ekki svona einfalt. Auðvitað getur lýðræði eins og allt annað farið út í vitleysu. Ástæðan er hins vegar ekki einhverjir tilteknir eiginleikar almennings –fáfræði, tilfinningahiti, skilningsleysi eða heimska – enda er ekkert sem bendir til þess að almenningur búi yfir slíkum eiginleikum, frekar en hver einstaklingur fyrir sig og raunar er full ástæða til að ætla að fjöldinn bæti upp takmarkanir einstaklinga: Margar hendur vinna létt verk og margir heilar gera öll dæmi einföld.

Það eru leiðtogar sem fara með lýðræði út í vitleysu. Þeir eru vandamálið. Ekki almenningur. Og ekki múslimar.

Upphaflega birt í Stundinni #23, 19. maí 2016. Sjá vefútgáfu: http://stund.in/PKE