Í felulitum. Við friðargæslu í Bosníu með breska hernum, Hildur Helgadóttir, 292 bls., JPV, 2007

„Í stað þess að vera þátttakandi í alvöru friðargæslu“ segir Hildur Helgadóttir í síðasta kafla bókar sinnar um tímann sem hún varði með breskri herdeild í Bosníu fyrir 9 árum, „leggja eitthvað merkilegt af mörkum, gefa af mér, nýta menntun mína og reynslu til góðs, þá hafði þetta að miklu leyti snúist um átök við sjálfa mig í umgengni við aðra“ (288). Þessi greining Hildar á veru sinni í Bosníu lýsir líka bók hennar í hnotskurn. Bókin er í senn frásögn manneskju sem lendir í tilvistarkreppu eftir sársaukafullan skilnað og opinská lýsing hjúkrunarfræðings á hvernig það er að starfa með herdeild við friðargæslustörf.
Lesandinn fylgist með Hildi allt frá því að hún ákveður að sækja um 6 mánaða starf með bresku herdeildinni og þar til hún lýkur tímabili sínu. Henni tekst vel að lýsa því hvílík umskipti það eru fyrir Íslending, fullkomlega fákunnandi um allt sem lýtur að hernaði, skipanakerfi hersins, tignarröð og hugsunarhætti, að þurfa allt í einu að ganga inn í þennan annars lokaða heim óbreyttra hermanna, liðþjálfa og foringja. Það sem hún lærir í friðargæslunni hefur lítið eða ekkert með Bosníu eða Bosníumenn að gera. Hún hefði geta verið með bresku herdeildinni hvar í veröldinni sem er. Herdeildin verður eins og heimur út af fyrir sig og allt snýst um hana.
Níu ár eru liðin síðan Hildur tók út reynslu sína með breska hernum og á þessum tíma hafa fjölmargir Íslendingar fengið samskonar reynslu af friðargæslu og Hildur lýsir í bók sinni. Það er alltaf dálítið áfall fyrir Íslendinga sem sendir eru til starfa með herdeildum eða sem hluti af þeim að átta sig á því hve framandi og fjarlægur heimur hermanna er. Íslendingar eru iðulega hreyknir af því að vera röskir til verka, áreiðanlegir og lítt gefnir fyrir að tvínóna við hlutina. Herdeild (og þetta á kannski sérstaklega við um breska herinn) er hinsvegar ofurseld skipulegu valdakerfi þar sem stöðugt þarf að huga að réttum boðleiðum, og ef eitthvað sameinar menn, þá er það einlæg fyrirlitning á öllu borgaralegu.
6 mánuðirnir í Bosníu eru í senn viðburðaríkir og viðburðasnauðir. Hildur byggir sjálfstraustið upp smátt og smátt, lærir á hermennina og ávinnur sér virðingu samstarfsmanna og yfirmanna. Það er ný manneskja sem snýr til baka að fáeinum mánuðum liðnum, búin að skipta eigin sársauka út fyrir lífsreynslu sem er að mörgu leyti sársaukafull en líka mikilvægt vegarnesti fyrir framtíðina.
Það er hægt að lesa þessa bók sem sjálfshjálpar- og þroskasögu en það er líka hægt að lesa hana sér til fróðleiks um lífið í herdeild við friðargæslu. Ég held að allir sem hafa áhuga á slíkum störfum ættu að lesa bók Hildar Helgadóttur áður en lengra er haldið. Hún gæti losað marga undan ranghugmyndum um hvernig hlutirnir í herdeild ganga fyrir sig: Þar sem lífið getur dögum og vikum saman einkennst af bið, hangsi og aðgerðaleysi sem í besta falli er kryddað með valdabaráttu og einstaka hneykslismáli. Hildur reynir ekki að fegra lífið í herbúðunum og þaðan af síður dregur hún einhlítar niðurstöður af reynslu sinni.
Í felulitum er vel skrifuð og á köflum mjög skemmtilega stíluð frásögn, blátt áfram og tilgerðarlaus.
Birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2007.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *