Hvað má segja um álverin?

Rætt við Jón Ólafsson heimspeking um mörk orðræðunnar í stóriðju- og náttúruverndarmálum
(Viðar Þorsteinsson, framtidarlandid.is, 19. apríl 2007)

Jón Ólafsson prófessor í heimspeki við Háskólann á Bifröst og hefur yfirumsjón með BA-námi við skólann í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði (HHS). Jón er í hópi þeirra íslensku fræðimanna sem hafa tekist á við hitamál samtímans á ýmsum vettvangi. Hann fjallaði ásamt öðrum fræðimönnum og fjölmiðlafólki um lýðræði í þáttaröð á Rás 1 auk þess sem hann hefur skrifað um sögu kommúnistahreyfingarinnar. Nýlega birti Jón grein í Skírni, tímariti Hins íslenska bókmenntafélags sem nefnist „Siðfræði andstöðunnar og ævintýrið mikla“. Í greininni leitast hann við að varpa heimspekilegu ljósi á deilurnar sem staðið hafa undanfarin ár á Íslandi um virkjanir og náttúruvernd. Framtíðarlandið hitti Jón og bað hann að reifa vangaveltur sínar um þessi mál.

„Siðferðileg andstaða hefur einkennt nokkur stór deilumál í íslenskum stjórnmálum á síðustu árum“ segir Jón. „Helstu dæmin um þetta eru deilur sem orðið hafa um gagnagrunn á heilbrigðissviði, fjölmiðlalög ríkisstjórnarinnar árið 2004, stuðning við Íraksstríðið og nú síðast virkjanaframkvæmdir á Austurlandi.“ Með siðferðilegri andstöðu er átt við afstöðu gegn ríkjandi stefnu eða valdi sem stjórnast ekki af pólitískum, hugmyndafræðilegum eða tæknilegum rökum heldur er knúin áfram af siðferðilegum hvötum. Um leið beinist slík andstaða að pólitískri orðræðu sem slíkri.“ Jón notar hugtakið ‘orðræða’ til að lýsa aðferðum eða ramma sem stjórnmálamenn hafa til að reka mál eða til að sannfæra fólk um eitthvað. „Orðræða stjórnmálamanna er mikilvæg vegna þess að með henni er reynt að ákvarða fyrirfram hvaða viðhorf, skoðanir og rök mega teljast marktæk í pólitískri umræðu. Ég held því fram að orðræða stjórnmálamanna hér á landi sé þröng og takmörkuð og nái því ekki að rýma það sem stór hluti almennings lætur sig mestu varða, en það eru siðferðilega tækar ástæður fyrir stórframkvæmdum á borð við Kárahnjúkavirkjun.“
Sigur hinnar tæknilegu orðræðu

Að mati Jóns er það áberandi hefur pólitísk umræða snúist frá hugmyndafræðilegum og siðferðilegum gildum á síðustu árum í átt að aukinni áherslu á hið tæknilega. Þetta birtist til dæmis í því að deiluefni sem áður voru talin hugmyndafræðileg í eðli sínu, eru nú afgreidd sem tæknileg úrlausnarefni. „Einkavæðing er gott dæmi um þetta. Það er ekki langt síðan deilur um hana voru fyrst og fremst hugmyndafræðilegar um lögmæti og réttmæti einkarekstrar og opinbers rekstrar. Nú er fremur tekist á um það hvort einkavæðing sé í öllum tilfellum besta leiðin til að leysa tiltekið vandamál, sinna ákveðinni þjónustu o.s.frv.“

Landráðamenn og svikarar

Orðanotkun endurspeglar þessa breytingu. „Tökum orðið landsala sem dæmi. Þetta hugtak var áður níðyrði og merkti nánast það sama og landráð. Nú er það opinberlega viðurkennt verkefni sérstakra stofnana og virtra fyrirtækja að ‘selja’ Ísland og er það yfirleitt talið af hinu góða, enda er af því mælanlegur ábati. Menn nota ekki lengur slík hugtök á siðferðilega hlaðinn hátt, þó vissulega megi stundum greina írónískan tón í þessari orðanotkun ennþá.“

Jón leggur áherslu á að einn kostur tæknilegra röksemda umfram siðferðilegar sé að með þeim sé hægt að úhýsa tilfinningalega ofhlaðinni orðræðu og tilheyrandi gífuryrðum. „Á 20. öldinni gengu menn miklu lengra í stjórnmálaumræðunni í því að kalla hvern annan landráðamenn, svikara og ómenni heldur en nú tíðkast. Þetta var auðvitað oft fáránlegt og það er gott að hafa losnað við þennan ofsa úr samræðumenningu okkar. En hin tæknilega hreina og yfirvegaða orðræða gengur því miður of langt. Það er mikilvægt í stjórnmálaum að geta tekið djúpt í árinni og þegar stjórnmálamenn eru farnir að sýna hver öðrum of mikla hollustu sem kollegum er hætta á ferðinni. Þannig getur hin tæknilega mótaða orðræða svipt fólk getunni til að nefna hlutina sínum réttu nönfunm, benda á siðleysi, fordæma það og ráðast af hörku gegn siðlausum ákvörðunum. Tæknilega orðræða getur myndað múr utan um orðræðu stjórnmála sem veldur því að margvíslegri réttmætri gagnrýni er ýtt til hliðar.“

Gildaumræðunni klappað á kollinn

Áherslan á tæknilegar úrlausnir í stjórnmálum og tæknilegar áherslur í umræðum á sér margar birtingarmyndir að mati Jóns. „Verkfræðileg hugsun er ein tegund tæknilegrar hugsunar sem var víða áberandi á fyrri hluta 20. aldar. Á árunum eftir seinna stríð fá verkfræðingar mikilvægt hlutverk á Íslandi en verk- og tæknifræðingar höfðu verið áberandi í þjóðfélagsþróun í Sovétríkjunum á fjórða áratugnum og í Bandaríkjunum ennþá fyrr. Á þessum tímum iðn- og tækniþróunar gerðu stjórnmálamenn sér miklar hugmyndir um mátt tækninnar til að leysa samfélagsleg vandamál í eitt skipti fyrir öll. Nú er eins og þessi oftrú hafi færst yfir á fjármál og viðskipti. Það má segja að tæknihugsunin eigi sér þannig birtingarmynd í fjármálaheiminum og oftrausti á efnahagslega mælikvarða hans. Mér finnst t.a.m. athyglisvert að skoða þá tvo ópólitísku borgarstjóra sem vinstrimenn í borgarstjórn hafa valið í gegnum tíðina. Á árunum 1978-82 var Egill Skúli Ingibergsson gerður að borgarstjóra í Reykjavík. Vinstrimenn gátu sætt sig við hann þótt hann væri ekki pólitískur samherji, vegna þess að hann var verkfræðingur og þar með fulltrúi hinna faglegu og tæknilegu lausna. Samskonar hugmyndir virðast menn svo hafa gert sér um Þórólf Árnason 25 árum síðar: Hann var fulltrúi hins faglega og tæknilega sem athafnamaður og stjórnandi úr viðskiptalífi. Í báðum tilfellum sjáum við vissa oftrú á vammleysi og fagmennsku hins tæknilega sem birtist í barnalegum hugmyndum um að fulltrúar þess séu hæfari til að leysa vanda stjórnmála en stjórnmálamenn.“

Í umræðunni um stóriðju og umhverfisvernd er tæknilegum forsendum oft stillt upp andspænis tilfinningarökum. Jón bendir á að það segi töluvert um stöðu síðarnefndu rakanna hvernig andstæðingar þeirra virðast oft tala um þau af virðingu. „Með því að ‘taka tillit’ til tilfinningalegra röksemda er alls ekki verið að taka þær alvarlega. Stundum minnir slíkt tillit meira á það þegar framkvæmdum er hliðrað vegna álagabletta eða álfabyggða, en það er aðeins tekið þegar það er ábyggilegt að það kostar lítið eða ekkert. Friðrik Sófusson ræðir um þessar röksemdir í viðtali í Morgunblaðinu frá árinu 2002, sem mér finnst mjög merkilegt. Það er greinilegt að hann tekur slíkar röksemdir ekki alvarlega en á sama tíma er lesandanum ætlað að sjá Friðrik í jákvæðu ljósi sökum þess hver reiðubúinn til að ‘taka tillit’ til þeirra og lætur í ljós ríka samúð með þeim sem finna til djúpra tilfinninga gagnvart náttúru landsins. Það sem Friðrik og tæknilega þenkjandi menn hafa til síns máls í þessu er að auðvitað viljum við gera einhverjar skynsemiskröfur til málefnalegrar umræðu. Við viljum ekki að fólk fari í ræðustól á alþingi og tali eins og Gunnar í Krossinum. En við viljum ekki takmarka málefnalega umræðu við tæknileg rök. Hún verður líka að rúma siðferðileg rök og það þýðir að tilfinningarökin um náttúru landins eru ekki bara tjáning tilfinninga heldur rök sem verður að svara og ræða meðal annars með tilliti til sjálfsmyndar, lífvænleika og menningar.“

Lífstíll og lífvænleiki

Jón segir margt athyglisvert við þessi ósýnilegu mörk. „Það er mjög áhugavert að skoða hvað er leyfilegt að segja um virkjanir. Af hverju er ekki hægt að koma og segja í ræðustól á þingi að við viljum ekki álver af því að þau eru ljót. Má það? Má ekki reyna að rökstyðja að ljótleiki þeirra sé einfaldlega yfirþyrmandi? Þarna kemur kannski inn spurning um lífsstíl. Hvernig lífsstíl viljum við? Samrýmist hann ömurlegu verksmiðjuferlíki innan bæjarmarkanna. Er sá Hafnfirðingur óábyrgur sem greiðir atkvæði gegn álveri þó hann viti að missir þess baki bæjarfélaginu efnahagslegt tjón, en telur að tjón ljótleika verði ekki vegið upp með tekjum? Svo maður spyrji retóriskrar, en samt réttmætrar spurningar.“

Þetta var einmitt til umræðu í kosningunum í Hafnarfirði, en Jón segir alltof litla raunverulega gildaaumræðu hafa skapast þar. „Það var ekki mikið rætt um kosti, galla og lífvænleika samfélags í kringum álver. Þó hefði slík umræða verið þörf og skipt máli fyrir það sem er að gerast á Austurlandi. Kosningabarátta Alcans virðist líka hafa einkennst af hugmyndaleysi. Það skaðaði fyrirtækið mikið þegar svo virtist sem verið væri að kortleggja skoðanir bæjarbúa og beita vina- og fjölskyldutengslum til að knýja fólk til að samþykkja Álver. Maður hefði til dæmis getað ímyndað sér tilboð um að leggja meira af mörkum til sameiginlegrar framtíðarsýnar fyrir bæjarfélagið, frekar en að vera stöðugt að reikna út peningaupphæð á haus af álverinu til að sýna fram á væntanlegan gróða.“

Hver má mótmæla?

Mótmæli hafa verið áberandi þáttur í deilunum um stóriðjumálum. „Siðferði mótmæla snýst ekki bara um hvað má segja heldur líka hver má segja það og hvernig. Hverjir mega til dæmis hafa skoðun yfirleitt? Austur á landi segir fólkið jafnvel að stóriðjumálin komi Reykvíkingum ekki við. Er það kannski móðgun við sjálfræði Austfirðinga að Reykvíkingar séu að skipta sér af þessu? Ég þekki fólk fyrir austan, fleiri en einn, sem þekkja heiðarnar eins og lófann á sér og hafa farið þar um sumar og vetur. Það setur að þessu fólki ugg allt það rask sem framkvæmdirnar hafa í för með sér. En þegar liðið úr 101 kemur á svæðið þá liggur samúð þessa fólks með gröfumönnunum úr héraðinu. Og þegar útlendingarnir birtast, þá verður öll þjóðin eins og Austfirðingar og spyr hvað þessu fólki komi framkvæmdir hér nú við.“

Aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúkavirkjun síðasta sumar vöktu mikla athygli og umræður í samfélaginu. „Almennt held ég að við þurfum að átta okkur á því að mótmæli eru flóknara fyrirbæri en það að segja skoðun sína. Þau eru ekki bara yfirlýsing um tiltekna skoðun, og snúast ekki endilega um nákvæmlega það fyrirbæri sem þau beinast gegn. Mótmælandi sem beitir borgaralegri óhlýðni er líka að taka fram fyrir hendurnar á valdi. Með óhlýðni tekur hinn valdalausi sér pólitískt vald. Þannig knýr hann valdhafa til viðbragða sem stundum eiga fyrst og fremst að afhjúpa siðleysi, grimmd eða jafnvel glæpsamlegt eðli þeirra. Þannig reynir mótmælandinn að tvístra hinni venjubundnu orðræðu stjórnmálanna og knýja fólk til að taka á málefnum sem eru í eðli sínu siðferðileg. Fólk heldur oft að markmið mótmælaenda sé að vekja samúð með tilteknum málstað. En svo þarf alls ekki að vera. Mótmælandinn getur haft önnur markmið eins og þau að benda valdhöfum á að sjónarmið hans verði ekki vikið til hliðar, eða að sýna fram á hvernig valdhafi bregðist við þegar á hólminn er komið og margt fleira.“

Tilhneiging Íslendinga er sú að draga réttmæti mótmæla í efa og jafnvel þeir sem eru sammála viðkomandi málstað gagnrýna mótmæli fyrir að þau beri ekki árangur og skemmi jafnvel fyrir málstaðnum. „Ég held að þörf sé á dýpri og skýrari skilningi á aktívisma og mótmælum hér á landi. Mótmæli eru tjáningarform sem á sennilega eftir að verða enn meira áberandi í samfálaginu á næstu árum. Það á ekki að þarfnast neinnar sérstakrar réttlætingar að taka þátt í eða skipuleggja mótmæli. Þau hafa margvíslegar táknrænar víddir sem eru tjáning útaf fyrir sig og eiga fullan rétt á sér og eru mikilvæg til að pólitísk orðræða staðni ekki.“

Lobbí við hlið mótmæla

En það fyrirfinnast fleiri leiðir til að ná til stjórnmálamanna. Ein leið sem hefur lítt verið þróuð hér á landi er lobbíismi. Hvert er álit Jóns á því fyrirbæri? „Það er allt annað að vera lobbíistahreyfing og að vera stjórnmálaflokkur. Ég held að margar af þeim hreyfingum í samfélaginu sem vita hve lítið næst fram hérlendis með því að mótmæla ættu að skoða þessa leið frekar en að bjóða fram til Alþingis. Ég nefni sem dæmi Öryrkjabandalagið, sem hefur hreinlega neyðst til að fara dómstólaleiðina til að ná nokkru fram. Þá fara menn að halda að framboðsleiðin sé líklegust til árangurs. Ég held hinsvegar að hagsmunahópar hér á landi ættu að beita lobbíisma á markvissari hátt, hugsanlega við hlið mótmælaaðgerða, eða auglýsinga, sem Öryrkjabandalagið notar reyndar töluvert.“

Jón bendir á að stjórnmálamenn á Íslandi séu í raun frekar berskjaldaðir fyrir lobbíisma. „Þetta er hægt á Íslandi þar sem stjórnmálamennirnir eru ekki jafn vel varðir, líkt og í stærri löndum þar sem þeir hafa í kringum sig her manna til að verja þá fyrir áreiti.“

Erfitt að tala um gildi

Nokkrir heimspekingar á Íslandi hafa á undanförnum árum vakið máls á þörfinni fyrir umræðu um gildi. En að hve miklu leyti er sú umræða líkleg til að ná máli í stjórnmálum? „Vissulega er erfitt að tala um gildi, og hættan er sú að umræðan verði útvötnuð. Tvennt kemur til. Annars vegar erum við vön því að slík umræða sé fyrst og fremst tilfinningahlaðin og mórölsk, líkt og þegar kirkjunnar menn koma í blöðunum og segja að við eigum ekki að vera gráðug. Hins vegar er það sú staðreynd að gildi eru orðin viðtekin í viðskiptaheiminum og það er búið að búa til ákveðna aðferðafræði í kringum hana þar. Þetta tekur oft á sig mjög útvatnaða mynd, það verður eitthvað pínulítið falskt við það. Við eigum ennþá í erfiðleikum með að taka alvarlega að það séu til verðmæti önnur en peningar eða verðmæti sem hægt er að tala um við hliðina á peningum.“

Um HHS-nám við Háskólann á Bifröst
Jón Ólafsson: „Siðfræði andstöðunnar og ævintýrið mikla“, Skírnir 180 árg., haust 2006, bls. 421–448

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *