Ég er alinn upp undir ströngu málfarseftirliti. Það fór fram heima hjá mér og innan fjöl­skyldunnar, í skólanum og öðrum menningarstofnunum og svo var því fylgt eftir af fjölmiðlum, einkum að sjálfsögðu Ríkisútvarpinu, því sem yfirleitt er kallað gamla Gufan nú til dags. Það hvarflaði aldrei að mér að andæfa eða vefengja þá innrætingu sem í þeirri skýlausu kröfu fólst að tala rétt mál. Ég vorkenndi þágufallsjúklingum og öðrum sem áttu erfitt með að tala fyllilega rétt, settu orðin vitlaust saman, rugluðu málvenjum eða tókst ekki að sambeygja, en dáðist hins vegar að þeim sem töluðu fallegt mál, með auðugum og litríkum orðaforða, jafnvel þótt málfarið gæti orðið ögn hátíðlegt og upphafið fyrir bragðið.

Það var löngu eftir að ég taldist vera orðinn fullorðinn að ég fór aðeins að efast um að sú ofurárhersla á rétt mál sem hafði ríkt þegar ég var að alast upp væri jafn nauðsynleg og sjálfsögð og mér hafði fundist fram að því. Þessi baráttuhyggja um íslenskt mál var alltaf réttlætt með því að tungumálið væri algjör grundvöllur þess að Íslendingar væru sjálfstæðir og þess vegna væri linkind gagnvart vondu málfari nánast jafngild því að gefast upp á að vera sjálfstæð þjóð. En staðreyndin var auðvitað sú að hún hafði skapað menningarlegt stigveldi sem útilokaði fleiri en hún efldi. Í stað þess að treysta íslenska sjálfsmynd rústaði hún sjálfsmynd þeirra sem stóðust ekki hinar ströngu kröfur mál­fræðinganna og máttu þola napurt háð hinna réttmæltu.

Það var góð þróun þegar menn hættu að leiðrétta svokallaðar ambögur og málvillur á opinberum vettvangi og fóru að tala öðruvísi um tungumálið – fræða fólk frekar en að vanda um við það. Mér datt ekki í hug að við sem vorum vanin við rétt mál af svo mikilli hörku að okkur líður eins og eftir töfluískur þegar við heyrum þágufall á röngum stað, værum dýrategund sem einhver söknuður væri að. En upp á síðkastið hef ég verið að velta því fyrir mér hvort mér ætti að finnast það – eða hvort það geti verið að tegundin sem ég tilheyri sé í útrýmingarhættu og að það sé ekki gott.

„Í stað þess að treysta íslenska sjálfsmynd rústaði hún sjálfsmynd þeirra sem stóðust ekki hinar ströngu kröfur mál­fræðinganna.“
Ég veit þetta er farið að hljóma skringilega. Kannski ég ætti að reyna að skýra hvað ég er að fara. Tökum dæmi: Um daginn var ég að hlusta á morgunútvarpið á Rás 2 (jú það var vissulega undantekning, mín tegund hlustar frekar á Rás 1). Ég datt inn í þáttinn undir lokin. Á dagskrá var liður sem heitir Málskot, en hann er þannig skipulagður að málfarsráðunautur spjallar við um­sjónarmenn þátt­arins um íslenskt mál. Þennan dag hafði annar umsjónar­mannanna tekið til texta sem hann hafði rekist á í blaði og vildi ræða um við málfarsráðu­nautinn. Honum fannst furðulegt að texti eins og þessi væri birtur í fjölmiðli sem ætlaðist til að lesendur skildu það sem þar birtist. Hann væri með öðrum orðum óskiljanlegur.

Textinn var úr fréttatilkynningu um verðlaun til listamanns og þar var að finna skýringu dómnefndar á því að verk þessa listamanns hefðu þótt eiga tiltekin verðlaun skilin. Textinn sem svo var lesinn upp hljóðaði svona: „Hann eignar sér kunnugleg tákn og endurraðar þeim til að kanna samskeyti samfélagslegra og menningarlegra fyrirbæra. Með því að kanna þemu stigveldis, innbyrðis tengingu á mótum merkingar, kemur hann sér inn á svæði sjónrænnar merkingar með samblandi af trega og ósamræmi og endursmíðar þannig hugmyndafræðileg, menningarleg og rökfræðileg kerfi í tilraun til að staðsetja mannlegt rými upp á nýtt.“ Þegar útvarpsmaðurinn hafði lesið þetta (í senn íbygginn og valdsmannslegur) spurði hann málfarsráðu­nautinn og samstarfskonu sína: Skiljið þið þetta? Í framhaldinu spunnust umræður um réttmæti þess að birta „uppskrúfað“ mál eða nota „fræðimál“ í texta sem ætti að miðla „upplýsingum til almennings“. Ég var dálítið undrandi á þessu tali, þar sem ég heyrði ekki betur en að þetta væri prýðilega orðuð lýsing og ágæt tilraun til skýra verk listamanns á góðri íslensku. Það væri þá helst að orðið „stigveldi“ gæti verið ókunnuglegt, en öll hin orðin hefði ég haldið að væru bara góð og auðskiljanleg íslenska. Auðvitað geta samsetningar orða stundum vakið spurningar, svona eins og í lýsingunum á rauðvínunum í Ríkinu, en varla er hægt að segja að þær séu óskiljanlegar.

Þetta gap á milli skilnings míns og þessa útvarpsmanns á því hvað væri góð og auðskilin íslenska ýtti dálítið við mér. Vissulega er hugsanlegt að það sé fyrst og fremst þessi tiltekni útvarpsmaður sem á við vandamál að stríða, nokkrum vikum fyrr heyrði ég hann af tilviljun vera alveg að fara á límingunum yfir hugtakinu „orðræða.“ „Hvað þýýýðir þetta eiginlega?“ Sagði hann og virtist telja að hér væri komið merkingarlaust hugtak sem yfirborðskenndir glamrarar slægju um sig með, þegar þeir væru að þykjast vera gáfaðir. En ég held að þetta eigi sér dýpri rætur.

Stundum er talað um gömlu réttlínustefnuna um íslenska tungu sem málfarsfasisma. Þótt mér hugnist ekki þetta orðfæri verð ég samt að viðurkenna að það er ekki algjört vindhögg. Eins og ég sagði hér á undan var gengið hart fram. En manni líður samt eins og farið sé úr öskunni í eldinn, ef algjörlega andstætt viðhorf fær að vaða uppi á sama hátt. Við getum kallað það fílístínisma. Það er tökuorð alveg eins og fasismi og á sér merkilega sögu sem ég ætla ekki að rekja hér, en hefur verið notað um andúð eða hatur á menningu og menntun.

Því það er kannski þetta sem hér er á ferðinni. Textinn var ekki óskiljan­­legur frekar en sá sem þú, kæri lesandi, ert að lesa nú, heldur kom fram í honum virðing fyrir listaverki og listamanni og tilraun til að orða lýsingu á innihaldi verks eða verka hans sem hlýtur að kalla fram hryllilega tilfinn­ingu hjá þeim sem þolir ekki að slíkum hlutum sé hampað. Fílistíninn fær kannski sömu ískurtilfinninguna þegar hann les eitthvað svona og mín tegund fær þegar hún heyrir slæma málvillu.

Og þá komum við að kjarna málsins og það er meint menningarhlutverk stofnana á borð við Ríkisútvarpið – eða RUV, minni tegund er heldur í nöp við þessa skammstöfun. Ég hef nefnilega á tilfinningunni að það sem þessa dagana er gerast í kringum þessa stofnun sé einmitt magnaður eða massívur fílistínismi (jú og minni tegund er líka stundum legið á hálsi að sletta útlendum orðum til að upphefja sjálfa sig). Hann birtist ekki í því að afneita opinskátt mikilvægi ákveðinnar menn­ing­areflingar og menningarvarð­veislu. En hann grefur stöðugt undan starfinu sem unnið er í nafni menningar og um leið gert lítið úr allri umfjöllun um menningu, dýpri greiningu á samfélagi og pólitík, tilraunum til að skilja ekki aðeins yfirborð heldur það sem er að gerast undir niðri og svo framvegis.

Já fasisminn var auðvitað ömur­legur og gott að hann er að mestu úr sögunni, en fílistínisminn er bara lítið skárri. Vont að þurfa að láta hann útrýma sér.

Birt í ellefta tölublaði Stundarinnar, 19. nóvember 2015. Sjá vefútgáfu:http://stundin.is/pistill/fra-fasisma-til-filistinisma/