I Frá Jóhanni Huss til Össurar Skarphéðinssonar
Þráinn Bertelsson skrifar Bakþanka Fréttablaðsins í gær, mánudaginn 25. febrúar og fjallar þar um þá sem tala um fræði á „skiljanlegan hátt“. Það er á Þráni að skilja að margir líti slíkt fólk „hornauga“. Hann segir að það hafi ekki þótt fínt hér áður fyrr að „vera í talsambandi við illa þveginn almúgann“. Þráinn virðist ekki vera að hugsa um alveg síðustu ár með orðunum „áður fyrr“ – hann nefnir til sögunnar Johann Huss, tékkneska siðbótarmanninn sem réðist gegn valdaskipan kirkjunnar, lastafullu líferni kirkjunnar manna, græðgi þeirra og auðsöfnun og predikaði á móðurmálinu, tékknesku, en kirkjunnar menn höfðu þá, að sögn Þráins, þulið yfir lýðnum á óskiljanlegri latínu í 1400 ár, svo það var greinilega tími til kominn.
En hvað sem þessum sögulega fróðleik Þráins líður, vill hann hnýta ofurlítið í þá „meðalskussa í fræðunum“ sem tala ekki svo almenningur skilji. Þar er komin hliðstæðan við 1400 ár af latínumuldrandi prestum – eftir sögubókum Þráins. Johann Huss samtímans verður hjá Þráni eðlisfræðingurinn Stephen Hawking, sem hafi skrifað metsölubækur um jafn óaðgengilega hluti og svarthol og afstæðiskenninguna. Þessar bækur vekja að sögn Þráins „öfund“ meðalskussanna – hinna sofandi sauða í fræðunum.
En markmið Þráins er ekki að gera þunglamalega meðalskussana að umtalsefni – það eru reyndar stjórnmálamenn sem hann beinir spjótunum að. Þeir séu „hulduhrútslegir“ í tali og þoli ekki að menn séu ómyrkir í máli og lýsi veruleikanum hreint út með sterku myndmáli án óskiljanlegra frasa og málalenginga. Þannig að á endanum er hliðstæða samtímans við Johann Huss, ekki Stephen Hawking heldur Össur Skarphéðinsson, eins og Johan Huss hafi ásamt ritum sínum verið brenndur á báli fyrir sakir sem svipar eitthvað til ummæla Össurar um kollega sinn í pólitík, Gísla Martein Baldursson.

II Frá pólitík til fræða
En það er ekki út af þessari athugasemd um pólitík sem ég legg hér út af þessum pistli Þráins, heldur vekur athygli mína viðhorf til fræða sem alltaf hefur verið grunnt á í opinberri umræðu hér á landi. Þetta er sú gagnrýni menntamanna (intellektúala) á þá sem stunda rannsóknir af vísindalegu og fræðilegu tagi, að þetta fólk eða stór hluti þess, noti óskiljanlegt orðfæri til að hylja vanþekkingu og andleysi. Verk þess séu því í rauninni einskis virði, en það skáki í skjóli þess að að flestir dragi þá ályktun að hið óskiljanlega þvaður þeirra sé mikil speki, ekki þrátt fyrir heldur vegna þess að það er leikmanninum óskiljanlegt. Þráinn vill hinsvegar benda á að í rauninni sé fræðaþvaðrið bara þvaður og um leið og mönnum verði það ljóst, hylji það ekkert, ekki frekar en nýju fötin keisarans.1
Fleiri menntamenn en Þráinn Bertelsson tala á þessum nótum. Menntamannaþátturinn Kiljan sem margir horfa á er uppfullur af samskonar efasemdum um vísinda- og fræðimenn. Þáttastjórnandinn ygglir sig þegar hugtakið „teoría“ kemur við sögu og hælir þeim sem geta skrifað um flókin efni „eins og menn“ án þess að sökkva öllu í kenningakjaftæði. Og þessar efasemdir eru reyndar ekki nýjar af nálinni. Þorsteinn Gylfason flutti frægan fyrirlestur fyrir meira en 30 árum þar sem hann gerði grín að vísinda- og fræðafólki sem kvaðst eiga erfitt með að ræða um sérgreinar sínar á íslensku og hélt því fram að slíkir erfiðleikar flettu í raun ofan af kunnáttuleysi í fræðunum sjálfum.2 Þorsteinn var auðvitað fyrst og fremst að hugsa um tungumálið og þýðingar, en þráðurinn er sá sami og sjá má hjá Þráni og menntamönnunum í Kiljunni, það er að segja að þau fræði sem hinum almenna lesanda/hlustanda/áheyranda gætu þótt torskilin eða óaðgengileg séu það einmitt vegna þess að í rauninni eru þau bara plat – reykfylltur speglasalur frekar en eitthvað nýtt eða djúpt.

III Menntamenn, vísindi og fræði
Það er vert að skoða þessa afstöðu menntamanna sem ræða stöðu fræðanna og fella dóma um fræðibækur í fjölmiðlum. Mér virðist nefnilega að hún sé byggð á dálítið sérkennilegum skilningi á vísindum og fræðum. Það er kannski best að byrja þó á að taka fram að ég ætla ekki að reyna að færa rök fyrir því að það sé gott að vera óskiljanlegur, myrkur í máli eða óaðgengilegur í skrifum og tali. Skýr framsetning og skýr hugsun er alltaf dyggð í fræðum hvernig sem á það er litið. Hinn skringilega skilningur menntamannanna birtist í því að svo virðist sem þeir rugli stundum saman skrifum vísinda- og fræðimanna fyrir almenning annarsvegar, og skrifum þeirra fyrir vísinda- og fræðaheiminn hinsvegar. Vandamálið er að það sem er skýrt á einum stað, þarf ekki að vera það á öðrum. Til þess að vera fullkomlega skýr í fræðilegum skrifum, svo dæmi sé tekið, getur þurft að fara út í atriði sem skipta engu máli ef markmiðið er að draga upp skýra og skiljanlega mynd af fræðilegu viðfangsefni eða vandamáli þannig að lesandi sem ekki er sérfróður um það skilji kjarna málsins. Það er mjög mikill munur á því sem vísinda- og fræðimenn hafa að segja við þá sem eru atvinnumenn á sama sviði annarsvegar, og því sem þeir hafa að segja við áhugamenn hinsvegar. Það skiptir ekki máli hver greinin er í þessu samhengi, verkfræði, stærðfræði, lífræn efnafræði, bókmenntafræði, mannfræði, heimspeki eða stjórnmálafræði. Það er að vísu líklegt að áhugamenn um síðarnefndu greinarnar séu miklu fleiri heldur en þeirra fyrri, en það breytir þó ekki því að sé vel skrifað fyrir almenning um stærðfræði eða raunvísindi vekur það yfrleitt mikinn almennan áhuga eins og bækur Stephens Hawking sýna.
Það er hinsvegar ljóst að Stephen Hawking varð ekki þekktur eðlisfræðingur fyrir rit sitt um sögu tímans. Þvert á móti, áhugi manna á riti hans um sögu tímans var ennþá meiri en ella vegna þess að hann var frægur eðlisfræðingur og það varð hann vegna þess að hann birti ritsmíðar og komst að fræðilegum niðurstöðum sem aðeins lítill hópur kollega hans gat skilið til fulls.
Vísindamenn, fræðimenn og blaðamenn sem geta skrifað á aðgengilegan hátt um kenningar, rannsóknir og nýjungar í vísindum og fræðum leika auðvitað mjög mikilvægt hlutverk í því að auka skilning fólks á því hverju vísindi og fræði breyta um heimsmynd og lifnaðarhætti almennt. En það er mikilvægt að blanda þessu tvennu ekki saman. Sú staðreynd að Stephen Hawking er góður penni er önnur heldur en sú staðreynd að hann er merkilegur eðlisfræðingur.
En það er kannski ekki úr vegi að velta því aðeins fyrir sér hvað kenningar eru og hvaða gagn þær gera. Það má lýsa kenningum á nokkra mismunandi vegu. Í hug- og félagsvísindum hafa kenningar iðulega þann tilgang að skýra fyrirbæri sem eru mjög vel þekkt, stundum er markmið þeirra einnig að skapa mótvægi eða valkost við viðtekinn eða almennan skilning á einhverju. Stundum eru kenningar í þessum greinum settar fram sem tilgátur um heildarskýringar, stundum eru þær settar fram með þeim hætti að ákveðnar tilraunir eða ákveðin möguleg reynsla getur afsannað þær við ákveðnar kringumstæður.
Það liggur því í hlutarins eðli að til að geta fjallað um vísindi og fræði af einhverju viti þarf fólk að hafa bæði skilning á kenningum, áhuga á kenningum og síðast en ekki síst opinn huga gagnvart kenningum. Menntamennirnir í Kiljunni hafa ekki áhuga á kenningum. En það getur enginn leyft sér sem ætlar sér að hafa eitthvað um fræði og vísindi að segja sem er þess virði að á það sé hlustað. Það er fínt að vera á móti illa skrifuðum texta, óskýrum hugmyndum og illa rökstuddum eða myrkum kenningum. En það ber vott um þröngsýni og fáfræði að halda að það sem erfitt er að skilja hljóti þessvegna að vera óskýrt og illa hugsað.

IV Hagþenkir og fræðin
Ég verð að viðurkenna að ég er enginn aðdáandi verðlaunaafhendinga og fæ oftast hálfgerðan kjánahroll yfir verðlaunaveitingum og öllu tilstandinu sem þeim fylgja. Með verðlaunum er veitandinn yfirleitt á einhvern hátt að gera sjálfan sig merkilegan, stundum jafnvel á kostnað þiggjenda verðlaunanna. En það er önnur saga. Það gegnir hinsvegar dálítið öðru máli að mér finnst um þessi Hagþenkisverðlaun. Það má segja að það sé ákveðið jafnræði með veitendum og þiggjendum, Hagþenkir er samtök fólks sem skrifar fræðirit og kennsluefni og í rauninni eru tilnefningar til verðlaunanna og svo verðlaunaafhendingin sjálf fyrst og fremst tilraun til að vekja athygli á þeim verkum sem þykja skara fram úr að einhverju leyti. Ólíkt verðlaunum bókaútgefenda fyrir svokölluð rit almenns efnis er fyrst og fremst verið að huga að fræðilegum verðleikum og notagildi verka – margt annað kemur við sögu við val á verkum til íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Í ár sýnist mér í fljótu bragði að skipta megi þeim verkum sem tilnefnd eru í eftirfarandi flokka:
Yfirlitsrit fyrir almenning (2)
Kennslubækur (2)
Þjóðlegur fróðleikur (1)
Eiginleg fræðirit (4)
Fræðileg textaútgáfa (1)
Tilgangur þessara verka er augljóslega misjafn. Yfirlitsritin eru Síldarsaga Íslands og Erró í tímaröð. Þetta eru greinilega verk sem ætlað er að safna saman ákveðinni þekkingu og koma henni til skila við almenning. Hér má því búast við að lítið sé gert með kenningar sem slíkar, þær séu þannig séð aukaatriði, nema þá að reynt sé að skýra vægi þeirra við mat eða greiningu á efninu hverju sinni. Kennslubækur eru 2, Þroskasálfræði og Hljóðspor sem er kennslubók um dægurtónlist. Tilgangur þeirra er augljós önnur er ætluð nemendum í grunnskóla, hin framhaldsskólanemendum. Hér er sömuleiðis mikilvægt að matreiða efni og einfalda það og hugsanlega kynna til sögunnar ákveðnar kenningar, en alltaf í tengslum við frásögn sem hefur það markmið að kynna efnið fyrir óinnvígðum lesendum. Þjóðlegur fróðleikur þarfnast varla mikilla skýringa heldur. Tilgangur rita eins og Byggðasögu Skagfirðinga er fyrst og fremst að safna saman og halda til haga margvíslegum staðbundnum fróðleik. Slík verk eru ómetanlegar heimildir en hafa yfirleitt ekki fræðilegt gildi að öðru leyti.
En þá komum við að þeim flokki sem ég kalla eiginleg fræðirit (að hinum ritunum algjörlega ólöstuðum að sjálfsögðu, þessi nafnagift vísar eingöngu til tilgangs og gerðar verkanna ekki til gæða þeirra). Hér eru það doktorsritgerð Láru Magnúsardóttur, rit Þorleifs Friðrikssonar um Verkalýðsfélagið Dagsbrún, rit Sigrúnar Aðalbjarnardóttur Virðing og umhyggja sem fjallar um uppeldi og menntun og greinasafn Ólafs Páls Jónssonar Náttúra, vald og verðmæti sem fjallar um umhverfi og lýðræði á heimspekilegum nótum.
Þessar bækur eru auðvitað mjög ólíkar. Bók Þorleifs um Dagsbrún mætti hugsanlega líka flokka með yfirlitsritum fyrir almenning. Hún er ágætt dæmi um fræðirit sem á stóran lesendahóp aðra en sagnfræðinga, allt frá einstaklingum sem tengjast efninu til þeirra sem af einhverjum ástæðum þurfa að lesa sér til um það. En bókin er augljóslega unnin á hefðbundinn sagnfræðilegan hátt, með heimilda- og rannsóknavinnu sem væntanlega skilar nýjum niðurstöðum, frekar en samantekt á niðurstöðum annarra. Bók Sigrúnar Aðalbjarnardóttur virðist eiga að höfða til fagfólks í þrengri skilningi en verk Þorleifs, það er að segja bókin er greinilega skrifuð með kennara og uppeldisstéttir í huga, fólk sem hefur vissa sérfræðiþekkingu um efnið þó að það stundi ekki rannsóknir sjálft. Það breytir auðvitað ekki því að höfundurinn getur vonast til að bókin höfði ekki aðeins til atvinnumanna á sviði menntunar- og uppeldismála heldur einnig til allra áhugamanna um efnið. Greinasafn Ólafs Páls Jónssonar er pólitískt í eðli sínu, þar sem greinarnar sem þar eru birtar hafa flestar þann tilgang að skýra og rökstyðja ákveðin viðhorf til umhverfismála og stjórnmála – einkum þá lýðræðis. Hér á ferðinni rit þar sem einmitt er mikilvægt að setja pólitísk hitamál í fræðilegt samhengi, beita kenningum og greina málefni sem frá degi til dags er annað hvort ekki hugsað mikið út í, eða gengið út frá almennum og kannski ónákvæmum skilningi sem mikilvægt er að fjalla um á gagnrýninn hátt. Doktorsritgerð Láru Magnúsardóttur er kannski hreinræktaðasta fræðiritið. Rannsókn Láru er frumrannsókn, hún fjallar um Bannfæringu og kirkjuvald á Íslandi frá 1275 og fram að siðaskiptum. Hún fjallar um efnið frá mörgum hliðum, fer bæði nákvæmlega í saumana helstu hugtökunum sem við sögu koma og gerir nákvæma úttekt á ákveðnum atburðum og leiðarstefjum í sögunni. Lára leggur ákveðnar kenningar til grundvallar og gefur sér bæði rannsóknarforsendur og fjallar um þær. Með öðrum orðum hér er komið alvörufræðirit sem vissulega getur nýst áhugamönnum og verið þeim ánægjulegt aflestrar en þarf alls ekki að vera það og er alls ekki skrifað í þeim tilgangi að vera áhugasömum almenningi aðgengilegt, skýrt og fróðlegt yfirlit um efnið. Það væri gaman að vita hvað Þráni Bertelssyni þætti um bókina, hvort vinur hans Johan Huss kæmi upp í hugann eða honum þætti sem verið væri að kæfa sig með óskiljanlegu latínutuldri? Og hvað myndi menntamönnunum í Kiljunni þykja um rit Láru? Kannski myndu menn yggla sig yfir flóknum kenningavaðli, og kalla það óskiljanlegan póstmódernisma að vilja leggja niður fræðilegar forsendur áður en hafist er handa við greiningu og svo framvegis. En í þessu tilfelli umræðan um kenningar og metnaður höfundarins að fara sem dýpst í efnið augljóslega höfuðkostur þess en ekki galli.
Síðasta ritið af þeim sem tilnefnd eru, er Sverris saga sem Þorleifur Hauksson annast útgáfu á og ritar inngang að og skýringar við. Þetta rit mætti flokka með eiginlegum fræðiritum – hér er um að ræða hefðbundna textaútgáfu, en slíkar útgáfur eru eðlilegur og nauðsynlegur hluti af rannsóknum í íslenskum fræðum, rit sem ekki er beint líklegt til að seljast í þúsundum eintaka, en á þó vísan lesendahóp í bæði atvinnumönnum og fjölda áhugamanna um miðaldafræði hér á landi sem annarsstaðar.

V Fræðaáhugi og áhugaleysi
Nú má til sanns vegar færa að það er viss hefð fyrir því hér á Íslandi að þéttur hópur áhugamanna sjá til þess að lifandi og öflugt starf er á ákveðnum fræðasviðum. Íslensk fræði og sagnfræði eru augljósustu sviðin í þessu samhengi. Sumar greinar eiga sér mjög öflug tímabil vegna áhugamannahópa, það má nefna heimspeki sem dæmi, en fyrir 20-30 árum átti Félag áhugamanna um heimspeki mjög blómlega daga og fyrirlestrar um heimspeki voru fjölsóttir. Það er kannski í og með vegna þessa sem krafan um að fræðileg rit sé fyrir almenning er býsna rík hér og menntamenn eins og þeir sem koma fram í Kiljunni eða skrifa dálka í blöð, eru því mjög uppteknir af því að áhugamenn geti skilið ekki síður en atvinnumenn.
En gallinn við þessa kröfu er sá að hún leiðir til þess að raunveruleg fræði eru sniðgengin kerfisbundið. Nú er ég ekki að tala um að raunverulegum fræðiritum sé ekki sýndur nægur áhugi. Það sem ég á við er að í umfjöllun og vísindi og fræði ríkir beinlínis tortryggni gagnvart nýjabrumi í fræðunum. Nýjar kenningar, tilraunir til að þróa aðferðir, greina hlutina á nýjan hátt að ekki sé talað um tilraunir til að kynna það nýjasta í fræðigreinum á borð við heimspeki, menningarfræði og bókmenntir mæta fjandskap og tortryggni. Nýjabrumið er ýmist sniðgengið eða um það er fjallað með fjandsamlegum og hrokafullum hætti, eins og svindl eða loddaraskap og iðulega tala menn um „tískufræði“ til að setja þunga í mælsku sína.
Önnur ástæða fyrir tortryggni gagnvart kenningum og nýjungum í fræðum er að ég held sú staðreynd að íslenskir fjölmiðlar sýna vísindum og fræðum sáralítinn áhuga. Fjölmiðlar bjóða upp á vissa menningarumfjöllun, einkum Rás 1 og þar er kannski metnaðarfyllstu umfjöllunina að finna. Þáttur á borð við Víðsjá er dæmi um faglega og vandaða umfjöllun um menningarmál og vissan hluta fræðanna, það er hugvísindi. Blöðin leggja enga áherslu á að ráða til sín blaðamenn með sérþekkingu á sviði raunvísinda eða félagsvísinda. Þegar blöðin skrifa um vísindi og fræði er það yfirleitt í formi viðtala við fólk sem á margvíslegra hagsmuna að gæta um umfjöllunina, ýmist vegna eigin rannsókna eða viðskiptahagsmuna. Þessvegna er enga gagnrýna umræðu um vísindi og fræði að finna í fjölmiðlum aðra en þá sem stöku bókadómur felur í sér og svo auðvitað umræðu menntamanna sem, eins og ég sagði áðan, einkennist iðulega af ákveðnum hroka frekar en af þekkingu.

Erindi flutt á málþingi Hagþenkis
í ReykjavíkurAkademíunni 26. febrúar 2008

1 reply

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *