Hugsum okkur að í samfélaginu væri byltingarástand og stjórnvöld þyrftu ekki aðeins að þola regluleg friðsamleg mótmæli, heldur gætu þau átt von á árásum af götunni. Segjum að loft sé lævi blandið, ofbeldisógnin raunveruleg og sérsveitir lögreglunnar í viðbragðsstöðu, opinberar byggingar undir vopnuðu eftirliti, ýmsar hreyfingar, misaðlaðandi, farnar að gera sig gildandi og herskáir hópar á ferð á götunum. Á sama tíma héldu æðstu ráðamenn því fram að ekki tjóaði að halda kosningar við slíkar aðstæður – en við litlar undirtektir almennings. Þeir yrðu stöðugt einangraðri og þyrftu að reiða sig í auknum mæli á harðsnúna öryggisgæslu. Vopn yrðu smátt og smátt sýnilegri og áhrifafólk í hreyfingum á borð við skáta, hjálparsveitir og fleiri almenningssamtök væri farið að kanna sínar liðsheildir.

Segjum að í þessu spennuþrungna andrúmslofti tækju sveitarfélög landsins af skarið og lýstu sig óháð ríkisvaldinu. Flest eða öll stærri sveitarfélög tækju þátt í þessu og þannig einangraðist ríkisstjórnin enn frekar, ákvarðanir hennar yrðu léttvægari og jafnvel erfitt fyrir hana að tryggja aðgang að fjármagni. Flótti brysti í embættismannaliðið, og á skömmum tíma myndaðist öflugur en sundurleitur hópur stjórnarandstæðinga sem hefði í fullu tré við sérsveitir lögreglunnar. Borgarstjórinn í Reykjavík, sem sveitarfélögin hefðu gert að leiðtoga sínum, setti ríkisstjórninni úrslitakosti: Annað hvort færi hún frá eða gerð yrði bylting og stjórnskipan ríkisins numin úr gildi. Byltingarstjórn tæki við völdunum sem myndi í fyllingu tímans láta gera nýja stjórnarskrá og halda kosningar eftir nýjum reglum. Allt kerfið yrði stokkað upp og nýtt ríki stofnað á rústum hins gamla.

Fórnfýsi forsetans

Sá sem hlýddi á yfirlýsingu forseta Íslands mánudaginn 18. apríl síðastliðinn hefði hæglega getað ímyndað sér að ástandið í landinu væri einhvern veginn í líkingu við þetta: Samfélagið á barmi byltingar og opinberar stofnanir í upplausn. Frekari ummæli forsetans við fjölmiðla gætu svo komið inn hjá ókunnugum þeirri hugmynd að frá 2008 hefðum við alltaf af og til verið að takast á við óvissuástand af þessu tagi. Almennir borgarar hefðu mátt kenna á ýmsu, hefði ekki forsetinn sýnt ábyrgð, og vegna reynslu sinnar og djúps skilnings á samfélagi og stjórnmálum alltaf náð að skakka leikinn á síðustu stundu. Þannig hefði hann komið í veg fyrir að þjóðinni væri sundrað með umdeildum skuldasamningum og nú síðast tekið í lurginn á sitjandi forsætisráðherra og komið því til leiðar að nýr væri skipaður, allt fyrir stöðugleikann.

Það hefði mátt halda að forsetinn hefði hreinlega fórnað sér fyrir þjóð sína. Í stað þess að hverfa á vit frelsisins og njóta þess að sinna áhugamálum sínum að loknum löngum og farsælum ferli, hefði ábyrgðartilfinning hans krafist þess að hann beitti sér til að bjarga samfélaginu frá glötun. Og á þessum hættulegu og óútreiknanlegu tímum myndi hann því enn leyfa Íslendingum að njóta reynslu sinnar og djúps skilnings á stjórnskipan landsins, sem hann þekki betur en aðrir enda hafi hann „árum saman“ stundað þau fræði sem að baki henni liggja sem háskólaprófessor.

Valdalaust embætti verður valdaembætti

En bíðum við: Hefur ástandið nokkurn tímann verið svona? Hefur nokkurn tímann, þrátt fyrir deilur milli stjórnmálaflokka um stjórnarskrá, ESB, fiskveiðistjórnunarkerfi, rammasamning og fleira, nokkurn tímann myndast stemmning fyrir því að stíga út fyrir ramma stjórnskipunarinnar til að ná pólitískum markmiðum? Það er ekki hægt að halda því fram. Öll mótmæli undanfarinna ára hafa verið friðsamleg og eina truflun á kosningum sem tína má til, er sú furðulega ákvörðun Hæstaréttar að ógilda kosningar til Stjórnlagaþings árið 2010. Sömuleiðis birtast einu hindranir þingræðisins í því að forseti Íslands að hefur þrisvar sinnum neitað að undirrita lög frá Alþingi, því hvað sem fólki finnst um þau tilteknu lög sem þannig voru stöðvuð, er óumdeilt að þannig jók forsetinn pólitískt hlutverk sitt og völd sín þar með.

Embætti forseta Íslands er formlega séð valdalaust embætti. Forseti ber ákveðna ábyrgð: Hann þarf að sjá til þess að lögmæt ríkisstjórn sé við völd og hefur úrræði sem gera honum kleift að tryggja það. En formleg völd hans til að blanda sér með virkum hætti í stjórnmál eru engin – eða voru það þangað til okkar núverandi forseti fór að vinna með stjórnskipunina. Þannig bjó hann til völd, raunveruleg frekar en formleg og setti þingið í þá stöðu að þurfa við lagasetningu að taka tillit til viðhorfa forsetans. Engum reglum var breytt, en þó minnkuðu raunveruleg völd þingsins. Stjórnmál eru list hins mögulega og völd þeirra sem blanda sér í pólitík fara að stærstum hluta eftir getu þeirra til að eygja markmið sín, skilja meðulin sem þarf að beita til að ná þeim og síðast en ekki síst hafa til að bera nægilegt hugrekki – eða ósvífni – til að gera það sem gera þarf. Allt þetta hefur okkar maður til að bera í ríkum mæli. Þess vegna hefur hann nú raunveruleg völd í formlega valdalausu embætti.

Það öfuga gildir um þá sem hafa haft hin formlegu völd undanfarin ár. Síðasta ríkisstjórn tók við í skjóli forsetans fullviss um að hann myndi ekki beita sér gegn henni á sama hátt og hann hafði tekið fram fyrir hendurnar á þeirri sem sat á fyrra kjörtímabili. Og það hefur hann vissulega ekki gert á sama hátt. En leiðtogar stjórnarflokkanna gerðu sér enga grein fyrir breytingunni sem þó hafði orðið. Þeir héldu greinilega að með ríflegum meirihluta væru þeim allir vegir færir. Annað hefur komið á daginn. Formlegu völdin tryggðu ekki raunveruleg völd.

Óvinsæl ríkisstjórn – vinsæll forseti

En hvaða ályktanir er hægt að draga af þessu? Forseti Íslands beitir samskonar orðfæri til að réttlæta löngun sína til að sitja áfram í embætti og gjarnan heyrist í löndum þar sem valdamiklir leiðtogar eiga nóg undir sér til að geta framlengt valdatíð sína ótakmarkað. Hann höfðar á sama hátt til þarfar almennings fyrir öryggi og sáir fræjum efasemda um stjórnmálaþróunina þar sem staðfesta hans virðist eina kjölfestan. Enginn skyldi vanmeta hæfileika hans og getu til að stýra skilningi fólks á ástandinu, enda virðist stór hluti kjósenda sammála honum um að það sé best að hann sitji áfram.

Og kannski er það ekki nema von. Í atburðarásinni í kringum afsögn forsætisráðherrans varð lánleysi stjórnarflokkanna allt að vopni og af einni ríkisstjórn tók við önnur, ennþá óvinsælli en sú fyrri. Jafnvel þó að skoðanakannanir sýni að umtalsverður hluti kjósenda vilji að þessi ríkisstjórn sé til hausts og jafnvel lengur, ber hún þess merki að hafa verið við dauðans dyr. Hún hefur hin formlegu völd sem fyrr, en allt sem hún gerir orkar tvímælis, hún mun engum stórum eða umdeildum málum koma í gegn, í öllum hennar málflutningi verður holur hljómur en á fjósbitanum situr forsetinn og magnast því meir sem af stjórninni dregur.

Óvissan í honum sjálfum

Sú pólitíska óvissa sem ríkir í samfélaginu núna er óvissa um valdajafnvægi. Í rauninni er bara gott og æskilegt að dregið sé úr leiðtoga- og meirihlutaræði stjórnmálanna og að stjórnarmeirihluti hverju sinni skilji að það gengur ekki þjösnast á þinginu og þjóðinni á sama hátt og núverandi stjórnaflokkar hafa gert. En í stað þess að stjórnmálaflokkunum hafi tekist að móta samtal við kjósendur, hefur persóna forsetans stöðugt orðið fyrirferðarmeiri og skipað sjálfa sig sérstakan talsmann þjóðarinnar gagnvart þingi og ríkisstjórn. En þetta á alls ekki að vera hlutverk forsetans. Þingið og þjóðin geta talað saman án stöðugrar sálgreiningar hans.

Á endanum er óvissan og ójafnvægið sem knýr forsetann til að vilja halda áfram upprunnið í honum sjálfum. Honum tekst að láta líta svo út bæði gagnvart núverandi þingmeirihluta og gagnvart almenningi að þessu sé öfugt farið og allt kunni að leysast upp í vitleysu ef hann víkur. Jafnvel forsætisráðherrann heldur að það sé farsælast að forsetinn haldi áfram en skilur ekki að það er á kostnað hans sjálfs.

Leiðin út

Það er aðeins ein leið út úr þessari stöðu – ein leið til að gera forsetann óskaðlegan. Hún felst í því að allir flokkar á þinginu fari í massíva samskiptameðferð til að skapa traust sín á milli og reyni svo að klára helstu mál fljótt og vel eins og þroskað og sæmilega heilbrigt fólk og jafnvel tala af einhverju viti um nýja stjórnraskrá. Þá endurheimtir Alþingi kannski virðingu sína, ríkisstjórnin endurheimtir völdin – í aðeins hófstilltari mynd – og við getum hætt að hafa áhyggjur af forsetanum, því hann hættir að skipta máli. Þá getur hann slegið tvær flugur í einu höggi: Setið þessi fjögur ár sem hann vill í viðbót og notið um leið frelsisins sem hann þráir svo mjög.

Fyrst birt í Stundinni #21, 21. apríl 2016. Sjá vefútgáfu: http://stund.in/PJU