Það er varla hægt að halda því fram að það sem er að gerast þessa dagana hafi ekki verið fyrirsjáanlegt. Það þurfti ekki annað en átta sig á því að bankahrunið í haust var ekki bara efnahagslegt hrun heldur líka pólitískt og móralskt hrun. Sumir þingmenn stjórnarflokkanna vilja hugsanlega telja sjálfum sér trú um að mótmælendurnir í miðbænum séu fyrst og fremst reiðir yfir fjárhagsstöðu sjálfra sín, en mönnum hlýtur að vera farið að skiljast að það er í fæstum tilfellum persónuleg staða sem knýr fólk til að mótmæla: Mótmælin eru í senn siðferðileg og pólitísk. Ástæða þeirra er djúp hneykslun á skammsýni, þröngsýni og úrræðaleysi stjórnmálamanna.

En er hægt að halda því fram að ríkisstjórninni beri að fara frá? Er ekki sitjandi þing með umboð til fjögurra ára og getur því setið til 2011 ef ríflegum stjórnarmeirihluta sýnist svo? Svarið við fyrri spurningunni er augljóslega já. Svarið við síðari spurningunni er auðvitað líka já, en þá þarf það skilyrði að fylgja með að þinginu hugnist að sitja jafnvel þó að stærstur hluti kjósenda hafi tapað trúnni á það. Getur verið vænlegur kostur að sitja áfram þrátt fyrir skýran og greinilegan fjandskap almennings?

Umboðið er eitt meginatriði okkar stjórnarhátta. Það þýðir að á milli þegnanna og yfirvalda ríkir ekki fjandskapur heldur samvinna. Stjórnvöld þurfa alltaf á stuðningi almennings að halda, ekki aðeins vegna hins formlega kerfis, heldur vegna þess að án stuðningsins eru aðgerðir, ákvarðanir og lagasetning marklaus. Eina leið stjórnvalda til að halda áfram að stjórna eftir að almenningur hefur snúið við þeim baki er bein valdbeiting. Sumsstaðar þar sem trúverðugleikabrestur af þessu tagi kemur upp geta stjórnvöld beitt ofbeldi og þvingunum. Sem betur fer er þessi kostur ekki fyrir hendi hér. Við erum herlaus þjóð og möguleikar stjórnvalda til valdbeitingar eru almennt mjög takmarkaðir. Þessvegna er líka ennþá ólíklegra að sitjandi ríkisstjórn geti þótt vænlegt að halda áfram. Hana skortir bæði möguleika og (vonandi) vilja til að beita því ofbeldi sem nauðsynlegt er til að hún geti komið nokkru í framkvæmd.

Nei við erum sem betur fer léleg í ofbeldinu. Aðal vopnin eru málning og matvæli og það er ótrúlegt að 42 manna hópur geti sammælst um það að hanga áfram á völdum sínum þegar  allt er hrunið. Til hvers? Geir Haarde er sannfærður um að upplausnarástand verði ef boðað er til kosningar, en upplausnarástand virðist eftirsóknarvert miðað við það sem nú er að gerast.

Það er hætt við því að eina leiðin til að koma í veg fyrir raunverulegt ofbeldi og gera flísbyltinguna mjúka, er að flokkakerfið gliðni inni á þinginu sjálfu og fólk sem enn hefur heilbrigða skynsemi til að bera taki sig saman um að koma ríkisstjórninni frá, mynda starfsstjórn og boða til kosninga. Þegar upp er staðið sitja 63 einstaklingar á þingi og þeir geta myndað hvaða bandalög sem vera skal, með þjóðinni eða gegn henni eftir atvikum.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *