Björn Bjarnason dómsmálaráðherra bloggar og hlustar á útvarp. í gær var hann að hlusta á útvarp Sögu eins og sjá má af þessum setningum í dagbók ráðherrans:
„Í morgun ræddi Jóhann Hauksson við Jón Ólafsson, prófessor á Bifröst, um þessi mál [öryggismál og kommúnista á kadastríðsárunum] á útvarpi Sögu. Jóhann sleppti því að spyrja Jón, hvernig í ósköpunum hann hefði komist að þeirri niðurstöðu, að ríkisstjórn Íslands hefði ákveðið að styrkja öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík vegna sovéska síldarflotans.“ Og hann heldur áfram: „Jón veit ekki mikið um skoðanir mínar á þessum málum öllum, ef hann heldur mig álíta, að Sovétmenn hefðu gert árás á Ísland eitt, án þess að það væri liður í meiri hernaðaraðgerðum þeirra á Norður-Atlantshafi eða í Evrópu.“
Það er merkilegt að sjá Björn hafna fyrri skoðun sinni að útþenslustefna Sovétríkjanna hafi skapað hættu að þau reyndu að hernema Ísland svo greinilega sem hún birtist í grein hans „Jón og fimmta herdeildin“ í Morgunblaðinu 6. janúar síðastliðinn. Þar segir Björn um tengsl síldarflotans og íslensku leyniþjónustunnar: „Íslenska lögreglan kom að málum vegna ótta við, að innrás Sovéthersins annaðhvort úr lofti eða af sjó, yrði studd af innlendum Sovétvinum, sem sumir höfðu fengið hernaðarþjálfun og safnað hér að sér skotvopnum á fjórða áratugnum.“ Er hægt að skilja Björ öðruvísi en svo að hann álíti innrásarhættan, sem menn töldu meðal annars stafa af síldarflotanum, hafi orðið til þess að tekið var að safna upplýsingum um þá Íslendinga sem taldir voru vera kommúnistar? Þá á Björn vart orð til að lýsa vandlætingu sinni á þeirri fásinnu að Sovétmenn hafi talið Ísland á bandarísku áhrifasvæði, þó að þessi skoðun megi heita viðtekin meðal sagnfræðinga.
En nú vitum við að Björn telur ekki að hætta hafi verið á annarri innrás en þeirri sem hefði getað komið í upphafi styrjaldar stórveldanna. Það er gott að Björn hefur gert hreint fyrir sínum dyrum hvað það varðar. En er þá ekki tesan um fimmtu herdeildina orðin enn fráleitari? Eða heldur Björn virkilega að íslenskir sósíalistar kunni að hafa átt að vera málaliðar Sovétríkjanna í heimstyrjöld?

Morgunhaninn, 19. janúar:
campus.bifrost.is/JON/JO_vidtal_morgunhaninn.mp3
Heimasíða dómsmálaráðherra:
http://www.bjorn.is

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *