Um langan veg. Frásögn herdrengs, Ishmael Beah, 287 bls., þýðandi Sigurður Jónsson, JPV, 2007

Maður hrekkur óneitanlega við, þegar maður lítur á bakhlið þessarar bókar og horfir framan í sviphreinan og skælbrosandi höfund hennar, sem maður veit, að loknum lestri bókarinnar, að hefur drepið tugi eða hundruð manna. Ekki einu sinni hörðustu krimmar rússneskra undirheima eða asískra gengja kemst með tærnar þar sem þessi drengur hefur hælana. Hann hefur skotið fólk í höfuðið af stuttu færi, skorið menn á háls, sært fólk til að láta það þjást langtímum saman áður en hann bindur enda á líf þess og svo má áfram telja.
Þrátt fyrir þetta er aldrei neinn vafi hvar samúð lesandans liggur. Ishmael Beah er í hópi þeirra sem ungir að árum voru þvingaðir til að taka þátt í hernaði. Barnahermennska hefur á síðustu árum verið vaxandi þáttur í borgarastríðum sumra Afríkuríkja. Þetta á ekki síst við um Sierra Leone sem er sögusviðið í þessari bók, en saga Ishmaels er um leið saga borgarastríðsins þar sem stóð meira og minna frá 1991 til 2002. Það má fyllilega taka undir þrástef þeirra sem sjá um endurhæfingu Ishmaels og hans líka eftir að þeim er bjargað úr hermennskunni: Það sem gerðist er ekki þér að kenna – þú átt ekki sök á því hvernig fór.
Um langan veg er vel skrifuð bók og ótrúlega blátt áfram þegar miðað er við efnið. Fyrri hlutinn fjallar um hvernig Ishmael verður viðskila við fjölskyldu sína og svo vini og lendir á vergangi eftir að uppreisnarmenn leggja þorp hans í rúst. Hann segir frá því hvernig hann fær herþjálfun tæplega 13 ára gamall og eyðir svo tveimur árum sem hermaður í stjórnarhernum og síðasti hluti bókarinnar fjallar um endurhæfingu hans og loks flótta frá Sierra Leone.
Ishmael Beah er óvenjulegur maður og sennilega fáir sem geta risið upp og lifað eðlilegu lífi með þá fortíð sem hann á að baki. Bók hans sýnir í senn hve botnlaus grimmdin getur orðið í stríði eins og því sem háð var í Sierra Leone þar sem menn drepa hvern annan eins og pöddur, og hitt að það enginn sekkur svo djúpt að honum sé ekki viðbjargandi.
Þó að frásögnin sé opinská finnur lesandinn líka fyrir því á köflum að margt er ósagt. En það gerir kannski ekkert til. Það sem sagt er hér dugir – og alveg rúmlega það. Og það er vissulega hægt að taka undir með hinum fjölmörgu ritdómurum bókarinnar sem vitnað er í á kápu íslensku útgáfunnar: Sem flestir ættu að lesa þessa bók.
Birt í Morgunblaðinu 14. desember 207

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *