Þegar maður þarf endurnýja tilfinninguna fyrir Bandaríkjunum er gott að horfa á FOX. Þessa stundina er sjónvarpsstöðin að kveðja forseta sinn með tárum. FOX hefur elskað Bush í gegnum þykkt og þunnt. Og viti menn ég heyrði í fyrsta sinn í mörg ár í kvöld talað um „Compassionate conservatism“ eitt helsta kosningaslagorð Bush fyrir átta árum. Þá rifjaðist líka upp fyrir mér að rétt fyrir kosningarnar 2000 skrifaði ég pistil um Bush í DV sem olli mikilli hneykslun ef ég man rétt. En ég er samt að hugsa um að birta hann aftur núna. Það verður gaman að sjá hvernig FOX mun meðhöndla Obama.

Fífl í forsetastól? 

Það er merkilegt þegar helstu stórblöðum vestanhafs er flett núna nokkrum dögum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, hvert álit flestra greina- og dálkahöfunda á öðrum forsetaframbjóðendanna virðist vera. Þótt George W. Bush sé talinn heldur sigurstranglegri en Al Gore, þá er samt ekki annað að sjá en að það sé viðtekin skoðun að maðurinn sé ekkert annað en fífl, svo ekki sé nú kveðið sterkar að orði 

Svo eindregin og almenn fordæming á manni sem hæglega gæti orðið næsti forseti Bandaríkjanna og þar með valdamesti maður í heiminum hlýtur að vera einsdæmi. Hvernig getur það gengið að þessi mikla lýðræðisþjóð, Bandaríkjamenn, séu í þann veginn að kjósa fífl til forseta næstu fjögur ár? Væri það ekki einhverskonar afskræming á lýðræðinu, sönnun þess hve brotakennt það stjórnarform er?  Mismæli og öfugmæli Bush hefur misstigið sig víða, en þó líklega hvergi jafn hrapallega og í notkun móðurmálsins. Hann hefur einstakt lag ekki bara á mismælum heldur líka á því að setja saman setningar sem eru í besta falli merkingarlausar.

Hvað ætli menn mundu segja um það hér á landi ef sitjandi ráðherrar fullyrtu til dæmis að „stöðugt meira af innflutningi landsmanna komi frá útlöndum“ eða að „væntingar séu komnar fram úr því sem vænst er“ eða létu út úr sér setningu á borð við „að segjast ætla að gera eitthvað og gera það svo ekki það er að vera traustsins verður.“ Allt þetta og margt fleira hefur komið út úr forsetaframbjóðandanum án þess að fólk hafi kippt sér svo mjög upp við það.

Eins og sálfræðingurinn og málvísindamaðurinn Steven Pinker bendir á í nýlegri grein í New York Times þá er það nú svo að þrátt fyrir klaufalegt orðalag átti fólk sig nú oftast á því hvað Bush sé að fara og það sé látið duga. Flestir geti skilið að í því annasama fyrirtæki sem kosningabarátta í Bandaríkjunum er geti manni vafist tunga um tönn og ekki sé hægt að ætlast til að allt komi út úr mönnum í slípuðum frösum.

En skiptir meðferð tungumálsins þá ekki máli í meðferð valds, að ekki sé talað um önnur eins völd og þau sem forseti Bandaríkjanna hefur heima fyrir sem erlendis? Pinker bendir á að maður sem þarf að reiða sig á velvilja áheyrenda sinna til að það skiljist sem hann segir sé nú kannski ekki heppilegasti maður í forsetaembættið. En á hinn bóginn má líka hugsa sér að maður sem hefur afburða vald á tungunni og beitir hártogunum um merkingu orða jafn miskunnarlaust í eigin þágu og Bill Clinton hefur gert í hneykslismálum sínum kunni að vera dæmi um hinar öfgarnar og síst skárri.

 Er Clinton fyrirmynd Bush Það er raunar ýmislegt fleira en málglöp sem andstæðingum Bush stendur ógn af. Eitt er hin ótrúlega fáfræði um menn og málefni sem hann gerir sig hvað eftir annað beran að, annað tengsl hans við stórfyrirtæki og vægast sagt óljós málflutningur um flest stórmál dagsins allt frá fóstureyðingum til ástandsins í Mið-austurlöndum.

En hvað er það þá sem almenningur sér við hann? Hversvegna eru svo margir tilbúnir til að taka hann fram yfir Gore jafnvel þó að menn viðurkenni yfirburði Gores í flestu sem lýtur að málflutningi? Það er erfitt að benda á eitthvað eitt, en kannski tengsl Bandaríkjamanna við forseta sinn séu ein skýringin í málinu. Það er að sumu leyti eins og fólk sé að gera það upp við sig hvern það geti elskað heitar fremur en hvor frambjóðendanna hafi meira til síns máls. Það er oft sagt að fólk telji Bill Clinton góðan forseta og mundi kjósa hann eina ferðina enn, þrátt fyrir mestu skömm á hvernig hann hefur komið fram í einkalífi sínu. En þetta er ekki öll sagan: Vinsældir Clintons byggjast ekki síst á því hve sterkt hann höfðar til fólks og hve auðvelt mönnum reynist að fyrigefa honum brestina.

Kannski lykillinn að velgengni Bush sé einmitt að hann höfðar til fólks á svipaðan hátt. Í samanburði við keppinaut sinn er hann mjúkur og þægilegur, jafnvel hógvær og lítillátur. Auðvitað hefur hann bresti, en það er hægt að fyrirgefa þá, ekki síst nú þegar fólk er farið að venjast hugmyndinni um að forsetinn sé breyskur og brotakenndur. Kannski Bush sé að þessu leyti miklu líkari Clinton heldur en Gore þó að svo eigi að heita að Gore sé arftaki Clintons. Gallarnir eru að vísu dálítið aðrir, en þannig að það má horfa framhjá þeim.

 Lýðræði í hættu? Líklega er fulllangt gengið að telja að lýðræðinu sjálfu sé hætta búin ef menn eins og Bush eru gjaldgengir í forsetastól í Bandaríkjunum. En það hlýtur samt að vera áhyggjuefni fyrir afganginn af heimsbyggðinni á hvaða forsendum menn komast til æðstu metorða þar í landi. Fólk furðar sig á hinni hræsnisfullu fullkomnunarkröfu sem Bandaríkjamenn hafa hneigst til að gera til frambjóðenda, einkum forsetaframabjóðenda. En á sama hátt er erfitt að skilja hvað þeir eru tilbúnir til að fyrigefa þegar á reynir. Það væri vissulega skemmtilegt ef í ljós kæmi að menn geti fyrirgefið Bush heimsku, fáfræði og málglöp en höfnuðu honum svo fyrir að hafa keyrt fullur fyrir 25 árum.

(Birt í DV í byrjun nóvember 2000)

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *