Það er skemmtileg tilviljun að nú þegar búið er að birta listann yfir þá sem íslensk stjórnvöld létu hlera síma hjá samkvæmt dómsúrskurði á kaldastríðsárunum, skuli sonur þess sem oftast óskaði eftir hlerunarheimild svara fyrir verk föður síns. Þetta setur málin í rétt samhengi: Svona er Ísland, vinir og skyldmenni út um allt, stundum samherjar en stundum líka í andstæðum fylkingum.

Sumum finnst þetta óviðeigandi: Björn Bjarnason hefur sýnt í ræðu og riti að hann telur, eins og títt er um góða syni að faðir hans hafi verið óskeikull, eða því sem næst. Möguleg afsökunarbeiðni ráðherra á gjörðum forvera síns fær því nýja og dýpri merkingu þegar hann á í hlut: Sonurinn á að fara að biðja afsökunar á gjörðum föðurins. En hafi faðirinn alltaf haft rétt fyrir sér, hvernig í ósköpunum getur sonurinn þá farið að biðjast afsökunar á því sem hann gerði? Hlýtur honum ekki að finnast að það séu hinir sem ættu að biðjast afsökunar? Nema ríkisstjórnin öll hafi ákveðið að hafa þessar gömlu þýsku húsreglur um hinn virta leiðtoga fyrri tíðar: Regla 1. Bjarni Benediktsson hafði alltaf rétt fyrir sér.

Regla 2. Komi í ljós að Bjarni Benediktsson hafi ekki haft rétt fyrir sér, tekur regla 1 gildi.

En vandinn við hleranirnar er ekki sá að þær fóru fram. Það er í sjálfu sér hægt að finna margar lögmætar skýringar á þeirri ráðstöfun stjórnvalda hverju sinni að fylgjast með einstaklingum sem liggja undir grun um að blandast í ólöglegar aðgerðir eða hafa illt í hyggju. Vandinn er sá að listinn yfir þá einstaklinga sem voru hleraðir vekur grunsemdir um að ástæður hlerananna hafi verið aðrar.

Þessvegna er lítil vörn fyrir Bjarna Benediktsson, eða aðra valdamenn fyrri tíðar, að benda á að hér á landi hafi verið hópur harðsnúinna kommúnista og halda því fram að þessi hópur hafi verið til alls vís, enda hafi hann um árabil haft í hótunum við stjórnvöld og hótað ráðamönnum og embættismönnum lífláti. Hafi Bjarni Benediktsson óttast um líf sitt eða sonar síns, um öryggi erlendra gesta eða jafnvel almennings og talið að menn eins og Einar Olgeirsson, Kjartan Ólafsson og Ragnar Arnalds væru líklegir til að vinna spellvirki eða fremja morð má skilja ástæðu hans fyrir að fá heimild til að hlera síma þeirra, jafnvel þótt síðar komi á daginn að þeir höfðu ekkert þessu líkt í hyggju.

Það er hinsvegar annað mál ef ástæðurnar voru ekki þessar, heldur allt aðrar. Ef hleranir voru fyrirskipaðar að kröfu erlends ríkis, eða í þeim tilgangi að safna upplýsingum um þessa einstaklinga sem hægt væri að nota gegn þeim síðar, í pólitík eða dómsmálum, gegnir öðru máli. Þá er krafan um afsökunarbeiðni réttmæt og eðlileg.

Viðbrögð Björns Bjarnasonar eyða ekki neinum grunsemdum um ástæður hlerananna. Þau bera því viðhorfi vitni, sem Björn hefur reyndar látið í ljós áður og af öðrum tilefnum, að atburðir og flokkadrættir kaldastríðsáranna hafi gert ákveðna einstaklinga réttlausa og í raun hafi hið opinbera mátt koma fram við þá eins og mönnum sýndist hverju sinni. Ef Birni er í mun að varðveita vænisýki kaldastríðsáranna er framkoma hans skiljanleg. En það grátbroslega er að hún er ekki líkleg til að verða orðspori föður hans til framdráttar.

Birt í Lesbók Morgunblaðsins 7. júní 2008