Umburðarlyndi er furðu­legt orð. Það er dregið af sögninni að umbera og vísar til skapgerðar eða lundarfars þess sem er eiginlegt að sættast við frekar en að fordæma eða hafna. Orðið ber með sér að sá sem umber eitthvað er í raun af gæsku sinni og þolinmæði að leyfa því að viðgangast sem þó stríðir gegn smekk hans eða hennar, tilfinningum, trú eða vitsmunum. Þannig umbera trúlausir trúaða – og öfugt: Þeir trúuðu umbera (stundum) þá trú­lausu. Vinstrimenn umbera (eða umbera ekki) hægrimenn, og öfugt. KR-ingar umbera Framara, bláir umbera græna og svo framvegis og svo framvegis, alveg sama hvað þeir sem maður þó umber geta farið í taugarnar á manni.

Þegar John Locke fjallaði fyrstur heimspekinga með nútímalegum hætti um þetta hugtak og fyrirbæri var hann að hugsa um hópa og flokka­drætti í eigin samfélagi, fólk sem hafði búið saman um langa hríð og sá ekkert framundan annað en áframhaldandi sambýli. Hjón geta skilið að skiptum, sam­starfs­fólk getur fundið ólíkan starfs­vett­vang, félög og fyrirtæki má skilja í sundur en samfélög eru flóknara fyrirbæri. Þar sjá hinir hyggnu og framsýnu að yfirleitt er ekkert annað í boði en að láta ólíka hópa umgangast af umburðarlyndi og tryggja að frávikum frá hinu viðtekna sé líka tekið af umburðarlyndi.

Boðskapurinn er þá þessi: Láttu þér finnast það sem þér sýnist um trúarbrögð fólks, lífsstíl, lifnaðar­hætti eða pólitísk viðhorf, en haltu því fyrir þig ef þetta fer eitthvað í taugarnarnar á þér. Það er á endanum bara þitt mál. Það kemur hommunum í samfélaginu bara ekkert við hvað þér finnst um samkynhneigð – ekki frekar en það kemur þér við hvað þeim finnst um hómófóbíu. Ef þér líður illa yfir þessu, leitaðu þér þá hjálpar. Svona er lífið.

Það er merkilegt að svo margir skuli blanda umburðarlyndi saman við vanda milljóna flóttamanna sem streyma nú frá Sýrlandi og fleiri stöðum í Miðausturlöndum. Eða ímynda sér að umburðarlyndi sé byggt á einhverri einfeldningslegri trú á að allir séu góðir og dýrin í skóginum eigi bara öll að vera vinir. Umburðarlyndi er í fyrsta lagi mikilvægt pólitískt hugtak sem er byggt inn í frjálslynt stjórnar­far Vesturlanda einmitt vegna þess að í því eru hugmyndir um grundvallarréttindi hvers ein­stakl­ings rótgrónar. Það er í öðru lagi afurð pólitísks raunsæis þess sem áttar sig á því að það er barnalegt og einfeldningslegt að ímynda sér að hópar sem hatast geti allt í einu orðið vinir. Þess vegna hefur líka mörgum pólitískum hugsuðum verið í nöp við umburðarlyndi og fundist lítill metnaður koma fram í því að látið sé duga að fólk hætti að meiða og drepa hvað annað.

Vandi flótta­fólks – og vandi Vesturlanda vegna flóttafólks – hefur ekkert með umburðar­lyndi að gera. Öll vestræn samfélög eru nú þegar flókin og margskipt og krafan um að umbera er þar rótgróin. Nýtt fólk frá nýjum löndum breytir engu um þetta. Að sjálfsögðu fylgja miklum breytingum hættur – til dæmis þegar stórir hópar fólks þurfa á stuðningi að halda við að koma sér fyrir í nýju landi – og það er ósköp eðlilegt að yfirvöld á hverjum stað séu við öllu búin. En þar kemur umburðarlyndi hvergi nærri heldur fyrst og fremst lagni við að laga fólk að nýjum aðstæðum.

Vandi Vesturlanda er miklu flóknari en svo að hægt sé að stilla honum upp sem vanda umburðarlyndis annars vegar – öryggiskrafna hins vegar og láta eins og umburðarlyndi feli í sér tilslökun gagnvart öryggiskröfum. Þegar þetta er gert er aðeins verið að breiða yfir hinar raunverulegu spurningar, sem því miður eru stærri og flóknari en svo að stjórnmálamenn treysti sér almennilega til að taka á þeim. Þetta eru spurningar um ábyrgð og skyldur annars vegar, um tækifæri og samfélagsþróun hins vegar.

Byrjum á tækifærunum: Hvers vegna er talað eins og það sé byrði fyrir vestræn samfélög að taka við stórum hópum af fullfrísku fólki, í mörgum tilfellum ungu fólki á skólaaldri, eða jafnvel ágætlega menntuðu fólki sem hæglega getur stundað atvinnu sína við nýjar aðstæður, en á ekki í vandræðum með að endurmennta sig ef svo er ekki? Er ekki augljóst að slík innspýting styrkir Vesturlönd, gerir samfélögin fjölbreyttari og dýnamískari? Þetta ættu allir framsýnir stjórnmálamenn að sjá – hvers vegna tala svo fáir um það?

Þá er það ábyrgðin og skyld­urnar. Þeir sem halda því fram að vestræn ríki beri ekki höfuðábyrgð á þeirri þróun sem orðið hefur í Miðaustur­löndum síðustu áratugi eru annað hvort lítt upplýstir eða haldnir ábyrgðar­fælni á háu stigi. Þessi ábyrgð hefur einfaldar afleiðingar: Hún skapar verknaðar­skyldur langt umfram það sem góðmennska og velvild gagnvart öðru fólki gerir. Það var gaman að sjá hér í haust hve margir voru tilbúnir til að leggja persónulega af mörkum til að aðstoða flóttamenn, en stað­reyndin er nú samt sú, hvað sem góðum hug einstaklinga líður, að ábyrgð Vesturlanda á tjóninu er þess eðlis að ríkar skyldur til að bæta stöðu fólks og bæta því skaða hljóta að fylgja. Þessu má ekki rugla saman við vilja sumra vestrænna ríkja til að sprengja Sýrland í tætlur sem er allt annað mál.

Við eigum auðvitað ekki að hætta að vera umburðarlynd, en notum þetta orð í sínu eðlilega samhengi. Við þurfum á umburðar­lyndi að halda gagnvart misvitrum stjórnmálamönnum, ekki flóttamönnum.

Birt í tólfta tölublaði Stundarinnar 3. desember 2015. Sjá vefútgáfu: http://stundin.is/pistill/er-umburdarlyndi-virkilega-adalmalid/