Heimspeki snýst um rökræður og rökræður fela í sér að allir geta tekið þátt í þeim sem eru tilbúnir til að beita rökum og taka rökum. Hafi heimspekin einhverja hugsjón, þá felst hún í því að rökræður séu í senn opnar öllum skynsemi gæddum einstaklingum og að það sé með rökræðum frekar en til dæmis frekju eða yfirgangi sem einstaklingar komast að sameiginlegum niðurstöðum.
Í bókinni Hversdagsheimspeki gefur Róbert Jack áhugavert yfirlit yfir þá viðleitni nokkurra samtímaheimspekinga að færa heimspekilegar samræður inn í hugsun fólks og yfirvegun um sjálft sig, stöðu sína gagnvart öðru fólki, markmið sín, gildi og jafnvel sjálfsmynd. Lesandanum verður fljótt ljóst að fyrir Róbert er hversdagsheimspeki annað og meira en áhugaverð leið til að nota heimspeki og hafa gaman af henni. Eins og undirtitill bókarinnar gefur í raun í skyn telur Róbert hversdagslífið hin eiginlegu heimkynni heimspekinnar. Hann vitnar í franska fornfræðinginn Pierre Hadot til að undirstrika þetta en Hadot heldur því fram að grundvallarviðleitni heimspekinnar „í það minnsta frá Sókratesi hafi verið lífsmáti heimspekinganna og viðleitni þeira til að lifa góðu lífi“ (16).
Bókin er byggð á meistararitgerð höfundar frá heimspekiskor HÍ og ber umfjöllunin þess nokkur merki að bókin er upphaflega námsritgerð. Róbert byrjar á að gera grein fyrir margvíslegum leiðum til að setja heimspekiiðkun í samband við þær spurningar og vandamál sem hver hugsandi maður þarf að glíma við í daglegu lífi. Hann rekur eigin reynslu af heimspeki og hvernig sér virtist þau fræði sem í háskólum eru nefnd þessu nafni hafa lítið að gera með líf einstaklinganna sem þau stunduðu þó að í orði kveðnu ættu þau að gera það. Hann gaf því heimspekina upp á bátinn þar til hann komst í kynni við heimspekinga sem honum virtist að væru að færa heimspekina nær upprunalegu viðfangsefni sínu: Daglegu lífi fólks.
Mestur hluti bókarinnar fer í að gera grein fyrir hugmyndum, kenningum og störfum þessara heimspekinga, en þeir eru þekktir fyrir heimspeki með börnum, heimspekilega meðferð, aðferðir sem kenndar eru við frjálsa samræðu og aðferð sem Róbert kallar heimspekikaffihús. Allt eru þetta tilraunir til að gera yfirvegun og rökræðu heimspekinnar að aðferð sem hentar fólki við að takast á við hversdagvanda. Róbert fjallar þó mest um þýskan heimspeking, Wilhelm Schmid virðist hafa fjallað um hversdagsheimspeki af hvað mstri dýpt, en hann hefur skrifað um heimspeki út frá hugmynd sinni um lífslist. Heimspekileg lífslist er að áliti Schmid viðleitnin til að hugsa um og ná tökum á lífinu í heild sinni, ekki aðeins finna sér hentuga eða farsæla leið til að lifa lífinu.
Munurinn á heimspekipraktík sem Róbert kallar svo, og lífslistarspeki sem ættuð er frá Schmid og Pierre Hadot lýsir í hnotskurn þeim vanda heimspekingar standa iðulega frammi fyrir þegar þeir vilja „færa heimspekina til fólksins“ eða með öðrumorðum sýna fram á að allir geti – og eigi – að tala um heimspeki, ekki bara þær sem hafa sérstaklega lært heimspeki. Vandinn er að finna milliveginn milli hreinnar sjálfshjálpar annarsvegar og óhlutbundinnar yfirvegunar hinsvegar. Hrein sjálfshjálparfræði hafa ekki annað markmið en hjálpa fólki að finna hentugar eða ásættanlegar lausnir á allskyns vandamálum. Óhlutbundin yfirvegun virðist á hinn bóginn fjarlæg daglegu lífi og hversdagslegum viðfangsefnum og fælir því marga frá heimspeki.
Hversdagsheimspeki er prýðilegt yfirlit yfir tilraunir síðustu ára til að nota heimspekina og þó Róbert svari ekki þeirri spurningu hvar mörkin á milli heimspeki og sjálfshjálpar liggi, þá tekst honum að gera ágætlega grein fyrir þeirri skoðun sinni að heimspekin sé lítils virði ef ekkert gagn er að henni í hversdagslífinu.

Hversdagsheimspeki. Upphaf og endurvakning. Róbert Jack, Háskólaútgáfan, 2006, 160 bls.
Birtist í Morgunblaðinu 23. desember 2006.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *