Um daginn bauð flugfélagið WOW stórum hópi fjölmiðlamanna í mikla ferð til Washington þar sem þeir heimsóttu sendiherra Íslands og margvíslegt annað fyrimenni. Allur kostnaður var greiddur af fyrirtækinu, enda er það viðurkennd aðferð kynningar og markaðssetningar að dekra við fjölmiðlamenn með þessum hætti.

Að boð eins og þetta sé viðurkennd leið fyrirtækja þýðir ekki að það sé sjálfsagt að fjölmiðlamenn þiggi slík boð. Hvers vegna skyldu þeir gera það? Er ferðin á einhvern hátt líkleg til að hjálpa þeim í starfi? Er hugsanlegt að þeir geti notað hana til að skapa tengsl, afla upplýsinga eða öðlast betri skilning á ákveðnum málum með því að láta fyrirtæki dekra við sig?

Kannski. Það var siður hér í gamla daga að hópi blaðamanna var boðið í árlega NATO ferð. Þá var flogið með hópinn til Norfolk, hann var látinn skoða hernaðarmannvirki og tól, hitti generála og stjórnmálamenn, orrustuflugmenn og landönguliða og svo framvegis. Allt var borgað og öllum þótti sjálfsagt að fara.

En WOW? Hefur þetta ágæta flugfélag eitthvert prógramm fyrir fjölmiðlamenn sem skilar þeim innsýn eða upplýsingum sem þeir geta ekki flett upp á netinu? Varla.

Spurningin sem vaknar er auðvitað hvort maður á að trúa þessu. Og svarið er mjög einfalt: Það á maður alls ekki að gera.
En það getur verið önnur ástæða til að fara. Fjölmiðlafólk er illa launað og stundum hundelt. Það fær oft skammir fyrir störf sín – jafnvel það sem það gerir vel – en er ekki oft hrósað. Hvað er að því að stöku sinnum taki fyrirtæki sig til og veiti því smá lúxus, sem það á svo sannarlega skilinn, og gefi því kost á að slaka á með skemmtiferð í góðra vina hópi? Það er ekki þar með sagt að það þurfi þegar heim er komið að fara að flaðra upp um fyrirtækið.

Þeir fjölmiðlamenn sem hafa tjáð sig um WOW ferðina hafa að sjálfsögðu sagt að þeir láti hana engin áhrif hafa á umfjöllun sína um fyrirtækið, eða skrif sín almennt. Og þó að þeir hafi eytt kvöldi með sendiherranum í Washington er ekki þar með sagt að þeir fari að skrifa eitthvað öðruvísi um hann – eða yfirhöfuð að ferðin slævi á nokkurn hátt þeirra sjálfstæðu og krítísku eðlishvöt.

En spurningin sem vaknar er auðvitað hvort maður á að trúa þessu. Og svarið er mjög einfalt: Það á maður alls ekki að gera.

Ég vona að enginn misskilji mig. Ég er ekki að saka fjölmiðlafólkið um að segja ósatt. Þau leggja sig að sjálfsögðu öll fram um að halda sjálfstæði sínu og gagnrýninni hugsun og þau trúa því að það verði ekki mikið vandamál.

Það er tvennt sem skiptir máli í þessu sambandi. Það fyrra eru almenn sannindi: Við erum ekki alltaf bestu dómararnir um ástæður eigin breytni. Við höfum sterka tilhneigingu til sjálfsréttlætingar og margir eru ótrúlega góðir í því að fela raunverulegar ástæður breytni sinnar fyrir sjálfum sér og öðrum. Þess vegna getur verið erfitt að leggja mat á það, jafnvel fyrir okkur sjálf, hvaða áhrif það hefur á hvernig við hugsum eða skrifum um einstakling eða fyrirtæki að sá aðili hafi dekrað við okkur, boðið okkur í ferðir og haldið okkur uppi á hótelum og veitingahúsum.

Við höfum sterka tilhneigingu til sjálfsréttlætingar og margir eru ótrúlega góðir í því að fela raunverulegar ástæður breytni sinnar fyrir sjálfum sér og öðrum.
Hið síðara eru viðteknar vísindalegar niðurstöður. Rannsóknir sýna að markaðs- og kynningarstarfsemi sem byggir á því að dekra við mögulegan viðskiptavin hefur áhrif á hann. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að svo sé í öllum tilfellum. Þess vegna vitum við að þegar fyrirtæki beitir þessari aðferð gagnvart hópi fólks sem það hefur áhuga á að hafa áhrif á, þá eru heildaráhrifin á endanum jákvæð fyrir fyrirtækið. Þetta er ekkert sem tekur því einu sinni að deila um, og jafnvel þótt í hópnum séu einstaklingar sem dekrið hefur engin áhrif á, og jafnvel einn og einn sem þiggur það en bregst alveg öfugt við því sem ætlast er til, þá eru heildaráhrifin þekkt og fyrirsegjanleg.

Fjölmiðlamenn eru vitsmunaverur sem hafa sama aðgang að upplýsingum og röksemdum og hver annar. Þeir ættu ekki halda því fram við lesendur sína, hlustendur eða áhorfendur að dekur fyrirtækja hafi engin áhrif á þá og þar með sé málið dautt. Þeir geta lofað að reyna sitt besta, en staðreyndin er sú að í flestum tilfellum hefur það áhrif. Þetta veit markaðsfólk enda hefur það oft ágæta menntun í sálfræði. Þess vegna eyða fyrirtækin peningum í að dekra við fjölmiðlafólk. Og þess vegna væri vissulega trúverðugra af fjölmiðlafólki að forðast að láta dekra við sig og forðast að þiggja boð nema af því sé skýr og umtalsverður ávinningur í starfi.

Birt á vef Stundarinnar 15. maí 2015. Sjá vefútgáfu http://stundin.is/pistill/er-fjolmidlafolk-onaemt-fyrir-dekri/