(Frjáls, Ayaan Hirsi Ali, 359 bls., þýðandi Árni Snævarr, Veröld, 2007)
Ayaan Hirsi Ali lýsir kostulegu samtali í síðari hluta bókar sinnar Frjáls. Hún er þá búin að koma sér nokkuð vel fyrir í Hollandi, farin að stunda nám við Háskólann í Leiden og efasemdir um islam sækja að henni. Þá hringir gamall vinur frá Sómalíu, ímaminn Abshir nú búsettur í Sviss. Hún segist efast um heilagleika Kóransins, veltir því fyrir sér hvað geti fært henni sönnur á tilvist helvítis eða himnaríkis og spyr hvort englarnir í islam séu eitthvað líkir þeim kristnu, „í hvítum kyrtlum og með feitar kinnar“. „Nei“ svarar Abshir „englar múslima eru gjörólíkir. Þeir eru ekki með vængi“ (bls. 278).
Svarið dregur fram þau sannindi trúarbragðanna sem erfiðast er fyrir hinn trúaða að skilja, hvað þá sætta sig við: Að mörkin á milli mannlegrar ímyndunar og guðlegs veruleika virðast hopa og leysast upp um leið að reynt er að átta sig á þeim. Því betri sem spurningarnar verða, þeim mun þokukenndari verða svörin.
Þó að ekki sé hamrað á einni niðurstöðu bókarinnar, er augljóst hvað það er sem Ayaan Hirsi Ali telur að komi í veg fyrir að menn haldi áfram að spyrja gagnrýnna og ágengra spurninga. Það er óttinn við að brjóta gegn hefð og valdboði og – eins og í tilfelli Abshirs – óttinn við helvíti. „Abshir var gáfaður, góður og örlátur en hann var óttasleginn. Hræddur við englana sem myndu yfirheyra hann eftir dauðann um hollustu hans við Allah og Spámanninn. Hann óttaðist að falla á prófinu og eilíft helvíti biði hans“ (bls. 278-279).
Er hægt að setja sig í spor fólks sem óttast í raun og veru að það muni kveljast í helvíti til eilífðar, fylgi það ekki í einu og öllu bókstaf trúarinnar? Er hægt að áfellast þá sem halda að félagsleg útskúfun sé aðeins undanfari eilífrar útskúfunar? Er hægt að ímynda sér þann lamandi ótta sem fylgir sannfæringunni um að mistök kunni að kosta mann sáluhjálp til eilífðar?

Vörn hins veraldlega samfélags
Frjáls hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli um allan heim frá því að hún kom út í Bandaríkjunum snemma á þessu ári. Hún segir sögu höfundarins, af uppvexti hennar í Sómalíu, Saudi-Arabíu, Eþíópíu og Kenía og af því hvernig hún sótti um flóttamannahæli í Evrópu og tókst svo á skömmum tíma að koma sér fyrir í hollensku samfélagi, afla sér menntunar og skapa sér lífsviðurværi og hvernig hún vakti athygli í hollenskum stjórnmálum og varð loks einn þekktasti stjórnmálamaður Hollendinga á alþjóðavettvangi. Bókin er í senn þroskasaga og saga pólitískrar baráttu frá sjónarhóli konu sem hefur heilsteypta og yfirvegaða lífssýn. Hún er ævisaga en tilgangur hennar er þó alls ekki að segja frá merkilegu lífshlaupi flóttamanns sem nær að fóta sig í vestrænu samfélagi. Saga Ayaan Hirsi Ali gerir lesandanum fyrst og fremst ljóst hve nátengdur veruleiki múslima í Afríku og Miðausturlöndum er hinni kristnu Evrópu. Evrópumenn geta ekki haldið áfram að gera lítið úr þeim vanda sem stöðugt nánara sambýli við múslima skapar innan Evrópu. En þeir geta ekki heldur vígvæðst og snúist í vörn gegn múslimum. Þennan veruleika tekst Ayaan Hirsi Ali að draga fram með sláandi skýrum hætti. Hún bendir Evrópumönnum á að samskipti þeirra við innlytjendur úr löndum múslima, skilyrðin sem þeir skapa þeim og kröfurnar sem þeir gera til þeirra sé ekki bara spurning um réttindi hópa til eigin menningar og tungumáls, heldur snúist þetta um hverskonar samfélag við viljum að Evrópuríki skapi. Þetta er nýr veruleiki í Evrópu, orðinn til á síðustu 20-30 árum. Og það er mikið í húfi: Öll hin veraldlega stjórnmálamenning Vesturlanda. Þessvegna verða Evrópumenn að standa vörð um hana meðal annars með því að hafna hverskyns trúvæðingu opinbers lífs, ekki síst skólakerfisins. Þó að Ayaan Hirsi Ali fari ekki útí þá sálma má segja að sótt sé að hinu veraldlega samfélagi úr tveimur áttum, því bókstafstrú á sér sterka hefð í hinum kristnu Bandaríkjum líka og þaðan heyrast stöðugt frekjulegri raddir sem heimta að frásagnir biblíunnar séu lagðir að jöfnu við veraldlegar skýringar á náttúrunni.
Ayaan Hirsi Ali tekst að sameina tvennt sem sjaldnast fer saman: Annarsvegar reynir hún að sýna fram á að grimmd, ofbeldi og kúgun, einkum kvennakúgun, séu ekki tímabundnar öfgar islamskra bókstafstrúarmanna sem aðstæður í heiminum hafa kallað fram, heldur óaðskiljanlegur hluti ritningar og boðunar islams. Hinsvegar dregur hún upp mynd af fólki, ættmennum og vinum, sem gefur lesandanum merkilega innsýn í hugsunarhátt þess og ástæður hans. Bókin undirstrikar að það er hægt að skilja án þess að samþykkja og hún gerir lesandanum ljóst hvílíkt risaverkefni er framundan eigi Evrópumönnum að takast hvorttveggja: Að varðveita hina frjálsu og opnu stjórnmálamenningu sína og lifa í sátt og samlyndi við múslima innan og utan landamæra Evrópu.

Afstæðishyggja og hlutleysi
Ayaan Hirsi Ali talar í bókinni um afstæðishyggju sem einkenni Evrópumenn og tekur þar undir með þeim sem hafa gagnrýnt fjölmenningarhyggjuna sem um nokkurt skeið hefur einkennt viðhorf margra, ekki síst á vinstri vængnum, til vaxandi flóru innflytjenda. En það er iðulega tómahljóð í þessari gagnrýni og því miður gildir sama um umfjöllun Ayaan Hirsi Ali. Hún lætur duga að hafna afstæðishyggju almennt án þess að gera nokkra tilraun til að útskýra hvað í henni felst, en virðist gefa sér að afstæðishyggja sé algjört hlutleysi um verðmæti sem gangi jafnvel svo langt að hafna því alfarið að hægt sé að hafa skoðun á, hvað þá fordæma, það sem tilheyri menningu eða trúarbrögðum annarra hópa en eigin. Sé slík afstæðishyggja tekin alvarlega hljóta menn að yppta öxlum yfir grimmd og kúgun á þeim forsendum að fulltrúar einnar menningar geti ekki fordæmt það sem viðtekið er innan annarrar menningar.
En afstæðishyggja getur verið af tvennu tagi. Hún getur vissulega birst í því að menn hafni almennum réttlætingum á venjum og athöfnum. En þó er hófsamari skilningur á afstæðishyggju bæði eðlilegri og réttari. Þá birtist afstæðishyggja ekki í höfnun hinna almennu sanninda, heldur einungis í þeirri afstöðu að engin sannindi trúar eða menningar séu algild eða hafin yfir gagnrýni og efasemdir, eigin þar með talin. Ef fyrri tegundin er afstæðishyggja minnimáttarkenndarinnar, þá er síðari tegundin afstæðishyggja frjálslyndisins sem lætur ekki fordóma eða fyrirframgefnar skoðanir ráða ferðinni, en krefst alltaf samræðu og raka.
Þeir sem ráðast gegn vestrænni afstæðishyggju falla því miður oft í þá gryfju að gera ekki nógu skýra grein fyrir því hvað það er í afstæðishyggju sem þeir telja rangt og skaðlegt. Þessvegna er hætt við að kjarninn í vestrænum hugsunarhætti fari forgörðum og í stað þess að leggja sig fram um að skilja og rökræða, taki Evrópumenn að skylmast við múslima með sannindi sinnar menningar að vopni, að hætti bandarískra bókstafstrúarmanna.

Pragmatismi
Með bók sinni tekst Ayaan Hirsi Ali að hefja sig upp yfir marga þrætuna á vettvangi stjórnmála og sýna að hún hefur yfirsýn og skilning yfirburðamanneskjunnar. Í frásögn hennar slær það lesandann hvað hún er fljót að læra og snögg að draga eldskarpar ályktanir af reynslu sem margir hefðu gengið í gegnum án þess að taka eftir neinu, eða án þess að hugsa um nokkuð nema sjálfan sig. Allt viðhorf hennar, að minnsta kosti eftir að hún er komin til þroska í hollensku samfélagi um miðjan tíunda áratuginn, ber vitni þeirri öfgalausu pragmatísku sýn sem líka einkennir stjórnmálamenn á borð við Nelson Mandela eða hugsuði eins og Amartya Sen, indverska hagfræðinginn sem fékk nóbelsverðlaun fyrir nokkrum árum.
Sen lýsti því einu sinni í viðtali hvernig hann hefði reynt að útskýra fyrir föður sínum að hann væri trúlaus og faðir hans svarað af bragði – já en þú ert samt hindúi. Þú ert bara fylgismaður veraldlegs hindúisma. Þetta, að geta varðveitt sjálfsmynd og siðmenningu, án þess að sitja fastur í neti bókstafstrúar; viðurkennt trúleysi og virt trú í veraldlegu samfélagi, er leiðin út úr martröð trúarlegrar kúgunar.
Ayaan Hirsi Ali lýsir líka samskiptum við föður sinn – fordæmingu hans fyrst og svo hálfvolgri fyrirgefningu og jafnvel viðurkenningu. Samtalið við föðurinn er slitrótt. Þegar bókinni lýkur er hægt að vona að því sé ekki lokið, þótt það liggi niðri um sinn.
Þýðing Árna Snævarr er lipur og sannfærandi. Þó get ég ekki annað en furðað mig á titli bókarinnar. Á frummálinu heitir hún Heiðingi (Infidel) en í íslensku þýðingunni fær hún heitið Frjáls. Sérkennileg gelding á bókartitli það.
Birt í Morgunblaðinu

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *