Það er eins og allir séu að tala um „endurmat gilda“ þessa dagana. Það liggur við að þetta hafi orðið þrástef þeirra sem gera sig gildandi í opinberri umræðu síðustu vikurnar, ekki síst margra ráðamanna. Flestir virðast vera sammála um að einhverskonar róttækt endurmat verði að fara fram eigi fólk eitthvað að læra á hruninu mikla. En hvað er endurmat gilda? Um hvaða gildi er verið að tala og gildi hverra? Hvernig fer endurmat gilda fram? Af umræðu ráðamanna, stjórnmálamanna, embættismanna og nú síðast að minnsta kosti eins fjármálamanns mætti ætla að endurmatið fari þannig fram að menn líti í eigin barm, spyrji sig hvað þeir hafi gert rangt og reyni að læra af mistökum sínum. Sumir hafa gengið lengra: Forsetinn ræddi í nýársávarpi sínu um nýjan samfélagssáttmála til að tryggja „réttlátara og lýðræðislegra samfélag“.

Fyrsta spurningin sem vaknar er þó ef til vill sú til hverra orðið „við“ á að vísa í orðræðu þeirra sem gegna opinberum embættum. Biskupinn á sér söfnuð, hann er leiðtogi stærsta trúfélagsins í landinu og getur sem hirðir þess einnig talað fyrir hönd þess um endurmat gilda. Þar birtast gamalkunnug stef: Söfnuðurinn hefur látið afvegaleiðast, dansað í kringum gullkálfinn osfrv. En hvað með forsetann eða forsætisráðherrann? Hlutverk forsetans er táknrænt. Hann stendur utan stjórnmálanna að mestu leyti og allt sem hann segir er því dæmt til að hafa yfirbragð hátíðarræðunnar. Hann getur vel hvatt menn til að endurmeta gildi eða líta í eigin barm án þess að nokkur spyrji hvað hann eigi nákvæmlega við með því. En um forsætisráðherrann gegnir öðru máli. Hann er stjórnmálamaður sem situr í embætti vegna þess að flokkur hans hefur þann styrk á þingi sem hefur tryggt honum forystu í ríkisstjórn. Forsætisráðherrann er sem stjórnmálamaður fulltrúi þeirra gilda sem flokksmenn hans og kjósendur hafa. Hann getur ekki sett endurmat gilda í nefnd eða fyrirskipað þau heldur verður hann að taka þátt í því sama hátt og aðrir stjórnmálamenn, með flokksstarfi og stefnuskrá í kosningum.

Og hér liggur hundurinn grafinn. Vestræn lýðræðissamfélög deila vissulega ákveðnum grunngildum. En það eru ekki þau gildi sem þarfnast endurmats. Í lýðræðissamfélagi er það eðlilegur og náttúrlegur hlutur að endurmeta og breyta stefnu og gildum. Aðferðin sem þessi samfélög beita til að þess heitir frjálsar kosningar. Í opnu og frjálsu samfélagi hafa allir borgarar rétt til að bjóða fram og færa rök fyrir sýn, stefnu og grundvallarviðhorfum. Þegar það gerist að ríkjandi stjórnmálaöfl bíða skipbrot eins og nú hefur gerst hér á landi, endurmeta kjósendur gildi með því að kjósa nýja einstaklinga og nýjar hreyfingar til forystu. Það furðulega er, að íslenskir stjórnmálamenn virðast, sumir að minnsta kosti, álíta að það sé hægt að breyta gildum og endurmeta þau án þess að halda kosningar: Þeir halda því fram að endurmat á gildum verði að fara fram en fullyrða um leið að kosningar séu ótímabærar!

Gildismat í lýðræðissamfélagi er aldrei einsleitt, þar sem lýðræðið hefur þann tilgang að tryggja rétt allra þegna sama ríkis til þátttöku og áhrifa í stjórnmálum án tillits til gildismats, lífsviðhorfa og stjórnmálaskoðana. Til þess að slíkt samfélag geti verið til þurfa ákveðin grunngildi lýðræðisins að vera virk og óumdeild. Þetta á til dæmis við um jafnan rétt allra einstaklinga til stjórnmálaþátttöku, að lýðræðislegt umboð sé forsenda pólitísks valds og að víðtæk samstaða um mikilvægar ákvarðanir sé eftirsóknarverð. Stjórnmálahreyfingar sem keppa um stuðning og þátttöku borgaranna standa hinsvegar iðulega fyrir ólíkt gildismat og ólík grundvallarviðhorf til stefnumótunar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur til dæmis um árabil verið helsti boðberi markaðshyggju, lítilla ríkisafskipta og lágmarksregluverks um viðskiptalífið. Þessi viðhorf einkenna ríkjandi gildi á hægrivæng stjórnmálanna þar menn aðhyllast eindregna einstaklingshyggju og eru sannfærðir um að  samfélagið blómstri í öfugu hlutfalli við afskipti ríkisins af því. Vinstri Grænir hafa á hinn bóginn verið talsmenn þess að ríkisvaldið hafi þau afskipti af atvinnulífi og fjármálamarkaði sem telja má skynsamleg hverju sinni. Þeir beita sér fyrir umfangsmiklu velferðarkerfi og miklu aðhaldi í umhverfismálum. Hér eru megingildin fólgin í félagshyggju og jöfnuði þar sem athafnafrelsi er ekki efst á blaði.

Þegar stjórnmálamenn tala um endurmat gilda eru þeir þó líklega ekki heldur að hugsa um þau megingildi sem flokkar þeirra byggja á. En um hvaða gildi snýst þetta þá? Hér er ein tilgáta: Undanfarin ár höfum við búið við fyrirkomulag hér á Íslandi sem réttast er að kalla Alræði viðskiptalífsins. Alræði viðskiptalífsins hefur birst í því að um allar opinberar ákvarðanir hefur verið gerð sú krafa að þær þjóni hagsmunum viðskiptalífsins. Rökin fyrir þessu hafa verið þau að mestu framfarirnar séu innan viðskipta- og fjármálalífsins, þar séu samankomnir hæfileikaríkustu einstaklingarnir sem líklegastir séu til að stýra sínum fyrirtækjum þannig að það skili bæði framþróun og fjármunum til íslensks samfélags. Um leið hefur ekki þótt við hæfi að draga aðferðir þeirra í efa og gagnrýnin sýn á viðskiptalífið talin afleiðing öfundar eða forpokunar, ekki síst þegar menn hafi krafistvirkari eftirlitsstofnana eða strangari löggjafar um viðskipti og fjármál.

Með hruninu hefur þessi Alræði viðskiptalífsins beðið skipbrot. Það voru alls ekki hæfileikaríkustu einstaklingarnir, eftir allt saman sem stýrðu viðskiptalífinu, þeir kunnu ekki fótum sínum forráð, það voru gagnrýnendurnir sem höfðu rétt fyrir sér. Ráðamenn aftur á móti létu hafa sig að ginningarfíflum og gerðust sérstakir talsmenn og málsvarar viðskiptalífsins. Í stað þess að stjórnmálamenn stæðu vörð um hagsmuni almennings var vitist um hvaða athafnamenn væru góðir og hverjir væru vondir. Þetta sýnir vissulega að endurmeta þarf sýn stjórnvalda á viðskiptalífið. En spurningin er: Dugir að þeir sem hafa völdin lýsi yfir endurmati og segist hafa lært af reynslunni? Sitjandi ríkisstjórn hamrar á því að hún hafi lýðræðislegt um boð út kjörtímabilið og telur sig því ekki þurfa að biðja neinn um neitt sama hvað öllu afhroði og endurmati líður.

En vandinn er sá að það er afar erfitt að sjá hvernig endurmat og endurnýjun getur farið fram í lýðræðissamfélagi án þess að aðferð frjálsra kosninga sé notuð. Það dugir nefnilega ekki að þeir sem farið hafa með völdin í landinu árum saman setjist saman og sverji þess dýran eið að endurmeta gildi sín. Það verður ekkert endurmat nema völdum sé skipt upp á nýjan leik. Raunveruleg pólitísk umræða þarfnast tilgangs og tilgangurinn hennar er breytingar. Ef menn sjá ekki að umræður þeirra hafi neinn tilgang vegna þess að eftir sem áður ætli valdaflokkarnir að stýra stjórnmálaumræðu og hliðra sér hjá kröfum um nýja sýn á stjórnmál og samfélag, þá verða heldur engar breytingar.

Sá suðupottur sem verður til um leið og boðað er til kosninga er besta umgjörð endurmats á gildum sem völ er á og það er í rauninni stórmerkilegt að stjórnvöld skuli ekki koma auga á þetta. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa talað eins og kosningar séu stórhættulegt fyrirbæri og líklegri til að skapa óróa og glundroða heldur en vettvang umræðna og endurmats. Það hlýtur að vera fáheyrt í lýðræðisríki að stjórnvöld láti í ljós svo beina og afdráttarlausa vantrú á einu helsta tæki lýðræðisins.

Reyndar er til önnur aðferð en kosningar til að breyta gildismati, en sú aðferð hefur sannarlega í för með sér glundroða og stundum ógnarástand. Þessi aðferð er kölluð bylting. Hugtakið bylting hefur verið haft um margskonar stjórnarskipti í Austur-Evrópu á síðustu árum. Í Georgíu varð „Rósabylting“ þegar Mikheil Saakashvili komst til valda, í Úkraínu hefur samskonar „bylting“ verið kennd við appelsínugult, og allir muna eftir Flauelsbyltingunni í Tékkóslóvakíu á sínum tíma. Þessar byltingar voru friðsamlegar: Þær fólu í sér að sitjandi stjórnvöldum var svipt burtu og stjórnmálaelíta landanna að miklu leyti endurnýjuð. Ástæðan fyrir því að umskiptin eru kennd við byltingu var hinsvegar sú að í öllum tilfellum höfðu stjórnvöld nauðhaldið í völd sín langt umfram það sem traust og stuðningur almennings veitti þeim siðferðilegan rétt til.

Sá stjórnvaldshroki sem endaði með „byltingum“ í þessum löndum einkennir íslensk stjórnvöld í ríkum mæli um þessar mundir. Stjórnvöld þrástagast á ímynduðum ókostum þess að boða til kosninga, þau telja sig vera í björgunarðgerðum sem ókleift er að skilja í hverju felast, því að engin raunveruleg stefnumótun virðist að baki þeim. Margir ráðherrar ríkisstjórnarinnar virðast vera með áhættusamar aðgerðir á heilanum á borð við einhliða upptöku Evru og einn ráðherra hefur leyft sér að segja við fjölmenna mótmælafundi að fundarmenn „séu ekki þjóðin“ og hafi því í raun ekki rétt til að krefjast áheyrnar og samræðna við stjórnmálamenn sem fulltrúar hennar.

Nýr samfélagssáttmáli sem felur í sér nýjar venjur í öllu stjórnkerfinu og nýjar reglur til að stuðla að meira réttlæti í samfélaginu krefst verulegra mannabreytinga í stjórnmálum og stjórnsýslu. Ríkjandi stjórnvöld geta hvorki haft frumkvæði að slíkum sáttmála né stuðlað að honum með trúverðugum hætti. Allt sem núverandi stjórnvöld gera mun vekja grunsemdir frekar en tiltrú, stór hluti kjósenda mun telja að aðgerðir þeirra þjóni margvíslegum einkahagsmunum frekar en þjóðarhagsmunum og svo má áfram telja. Þessvegna er hætt við að á meðan ekki er boðað til kosninga takist ekki að leysa úr læðingi þau öfl sem eru nauðsynleg til endurmats: Endurmat gilda er nefnilega ekki „eins og að moka skafl“. Það er þjóðfélagsástand sem ríkjandi stjórnvöld virðast óska heitast að hægt verði að koma í veg fyrir.

Rammi:

Eina kómíska mynd endurmatsins gat að líta í Kastljósi sjónvarpsins að kvöldi mánudagsins 5. janúar. Þar var kominn Bjarni Ármannsson fyrrverandi forstjóri Glitnis með þaulæft almenningstengslaatriði sem hann kórónaði með því að upplýsa þjóðina um að hann hefði endurgreitt Glitni 370 milljónir króna af því fé sem hann hefði þegið frá fyrirtækinu í formi starfslokasamnings. Bjarni kvaðst vera „sjálfum sér reiður“ og að hann og sínir líkar þyrftu að líta í eigin barm og hugleiða hvað þeir hefðu gert rangt og um leið endurmeta eitt og annað. Það var áhugavert að hlusta á þessar bollaleggingar Bjarna á sama hátt og þegar rætt er við fólk sem lent hefur í slysum, eða farið flatt á áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Reiði Bjarna við sjálfan sig er í rauninni hans einkamál og kemur engum öðrum við, nema sem persónuleg reynslusaga.

Rétt eins og gildir um stjórnmálamennina, þá er merkilegt ef fjármála- og athafnamönnum á borð við Bjarna Ármannsson dettur í hug að þeir geti komið fram á opinberum vettvangi bljúgir og iðrandi og endurreist sig sem gildandi leiðtoga í athafnalífi. Á sama hátt og endurmat gilda í stjórnmálum krefst uppstokkunar og mannaskipta þarfnast íslenskt viðskiptalíf þess að nýtt fólk með nýjar hugmyndir, heilbrigðari og hreinskilnari afstöðu til hlutanna kom til skjalanna.

 (Birt í Lesbók Morgunblaðsins 10. janúar 2008)

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *