Það er ekki á hverjum degi sem hér á landi koma út frumsamdar bækur um sögu og heimspeki vísindanna. Tilhneigingin hefur verið sú að þýða slík rit á íslensku eða endursegja þau frekar en að semja þau og þó að það sé allra góðra gjalda vert og nauðsynlegur hluti af því að færa alþjóðleg fræði í íslenskan búning, þá er ekki síður nauðsynlegt að íslenskir fræðimenn skrifi sjálfir um vísindasögu. Þorsteinn Vilhjálmsson samdi ritið Heimsmynd á hverfanda hveli í tveimur bindum fyrir tæpum 20 árum og heimspekingarnir Atli Harðarson og Þorsteinn Gylfason hafa einnig gefið út rit sem meðal annars er ætlað að segja sögu heimspekinnar og skýra suma helstu drætti hennar fyrir íslenskum lesendum. En þegar á heildina er litið má segja að fjöldi frumsaminna og frumlegra verka um þessi efni beri smáu mál- og háskólasamfélagi vitni. Það er einfaldlega ekki við því að búast að hér á landi hafi margir nægilega færni og yfirgripsmikla þekkingu til að skrifa yfirlitsrit sem samsvara þeim kröfum sem íslenskur lesendahópur gerir, þótt fámennur sé.
Rit Andra Steinþórs Björnssonar um rætur vísindabyltingarinnar er framúrskarandi vandað yfirlitsrit um sögu heimspeki og vísinda. Það kemur lesandanum þægilega á óvart hve léttilega Andri vindur sér í gegnum flókin heimspekileg efni allt frá upphafi þeirrar hefðar sem nútímavísindi og heimspeki sækja til í Grikklandi til forna og fram á daga Newtons. Textinn er ítarlegur án þess þó að vera á nokkurn hátt langdreginn eða leiðigjarn og þó að bókin sé talsverð að vöxtum þá liggur við að maður renni í gegnum hana eins og hvern annan reifara.
Markmiðið sem Andri setur sér er eins og nafn bókarinnar gefur til kynna að varpa ljósi á þá þróun vísinda og fræða á 16. og 17. öld sem nefnd hefur verið vísindabyltingin. Þó fjallar bókin í rauninni ekki með beinum hætti um þennan umbrotatíma í sögu vestrænna samfélaga. Áherslan er fyrst og fremst á ræturnar og á samhengið. Andri leggur sig fram um að skýra þau vandamál sem heimspekingar og vísindamenn fyrri alda voru að reyna að leysa í samtíma sínum. Hann fellur ekki í þá gryfju að gera lítið úr hugmyndum og sjónarhorni fyrri tíma án þess þó að halda fram afstæðishyggju um hugmyndakerfi og heimspekilegar kenningar.
Í inngangskafla gerir Andri grein fyrir nálgun sinni sem byggist á hluthyggju um meginhugmyndir vísindanna. Hluthyggja er í grófum dráttum sú skoðun að vísindaleg hugtök geti verið sönn í þeim skilningi að þau samsvari veruleikanum. Af þeirri skoðun leiðir meðal annars að megineinkenni framfara í vísindum felist í því að kenningar komist nær því að lýsa heiminum eins og hann er fremur en til dæmis að þær felist í því einu að menn nái meiri árangri í að smíða stórfenglegar vélar og tæki. Þó að hluthyggja sé umdeild nú á tímum þá er hún engu að síður máttug hugmynd um vísindi og eðli þeirra. Og því má vissulega halda fram að hún hæfi einmitt yfirlitsriti á borð við Vísindabyltinguna. Með hluthyggju sem meginviðmið má gera hvorttveggja í senn, setja þróun vísindakenninga í auðskiljanlegt samhengi og skýra hversvegna eldri kenningar víkja fyrir nýjum.
En eins og Andri bendir á þá er ekki þar með sagt að hlutverk vísinda sé eingöngu í því fólgið að lýsa veruleikanum eins og hann er. Frá upphafi hefur forspárgildi vísindakenninga ekki verið síður mikilvægur eiginleiki þeirra og það þarf ekki alltaf að fara saman að geta spáð fyrir framvindu hlutanna og lýsa þeim eins og þeir séu eða hljóti að vera. Það er mikill kostur á bókinni að þótt Andri sé sjálfum sér samkvæmur í hluthyggju sinni þá er hann laus við kreddufestu. Meginmarkmið hans er að lýsa kostum og göllum kenninga á þeirra eigin forsendum og þetta tekst honum yfirleitt vel, ekki síst í umfjöllun sinni um Ptólemaíos og jarðmiðjukenningu hans sem um margra alda skeið var grundvöllur hinnar opinberu heimsmyndar vesturlandabúa.
Söguþráður vísindanna, eins og Andri rekur hann, felur kannski ekki í sér neinar sérstakar nýjungar. Andri fylgir þekktum vísindasagnfræðingum um helstu þætti og orsakavalda í sögu vísindanna. En vandaðar skýringar, staðföst aðferðafræði og einlægur vilji til að segja söguna á aðgengilegan hátt stuðlar að því að honum hefur tekist að skrifa bók sem getur höfðað til allra áhugamanna um vísindasögu og auðveldað skilning á undirstöðum nútímavísinda. Þetta er bók sem mögum mun þykja gagnlegt að lesa og mun vafalaust koma að miklum notum við kennslu í mörgum greinum hug- og félagsvísinda. Ekki sakar að maður finnur fyrir eldmóði höfundarins frá upphafi til enda. Og það er ekki hægt að verjast þeirri tilhugsun að þrátt fyrir allt sé einfaldleiki vísindalegra skýringa mesta undrið.

Andri Steinþór Björnsson. Vísindabyltingin og rætur hennar í fornöld og á miðöldum. Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2004. 379 bls.
Birt í Morgunblaðinu 8. janúar 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *