Stundum vildi ég að ég væri 1.000 manns en ekki bara einn maður. Þá væri miklu auðveldara fyrir mig að skilja hvað margvíslegar upplýsingar um áhættu fela í sér. Ef mér væri sagt að það væru 1,5 prósenta líkur á að ég fengi tiltekinn sjúkdóm gæti ég gefið mér að ef staðhæfingin er sönn megi búast við því að 15 okkar fái sjúkdóminn. Það er áþreifanleg hætta og hægt að bregðast við henni með skynsamlegum hætti. En þar sem ég er bara einn breyta upplýsingar um þetta afar litlu. Er ég (einn og aðeins einn) í hópi þeirra 15 sem fengju sjúkdóminn ef ég væri 1.000? Eða er ég í hópi hinna 985? Ég get vonað það besta en ég veit ekkert meira um það heldur en ég veit þegar ég frétti að allir geta fengið tiltekinn sjúkóm en aðeins fáir fá hann.

Ég komst að því um daginn að ég er 8,2 prósentum líklegri heldur en meðalmaðurinn til að fá sjúkdóm sem eru 15,3 prósenta líkur á að geri mig blindan, 21,1 prósents líkur á að geri mig heyrnarlausan og 3,7 prósenta líkur á að geri mig bæði blindan og heyrnarlausan. Líkur meðalmannsins á að fá sjúkdóminn eru 10,2 prósent ef hann nær 80 ára aldri, en minni ef hann gerir það ekki. Þessi forspá er byggð á erfðaupplýsingum og er mjög áreiðanleg.

Tölurnar eru líka mjög skemmtilegar. Segjum að ég sé 1.000 en ekki bara 1. Þá veit ég að 102 okkar fá sjúkdóminn ef þeir lifa nógu lengi, en ég veit líka að hvað mig varðar er eins og hlutfallið sé örlitlu hærra, næstum helmingi hærra, því ég er næstum því helmingi líklegri til að vera í þessum 102 manna hópi en flestir aðrir. Segjum að ég sé í þessum hópi. Þá veit ég að um 16 okkar verða blindir og um 22 verða heyrnarlausir og af þeim lenda líklega fjórir í því að verða bæði blindir og heyrnarlausir. Eða hvað? Til þess að þetta gangi upp þurfa allir að ná 80 ára aldri. En hvaða samband skyldi vera á milli sjúkdómsins og lífslíkna? Eru þeir sem fá sjúkdóminn líklegir til að verða skammlífari en þeir sem fá hann ekki? Eða öfugt: Getur verið að sjúkdómurinn leggist frekar á langlíft fólk? Getur verið að sjúkdómurinn hafi áhrif á lífslíkur? Valdi jafnvel langlífi?

Eftir sem áður er ég einn en ekki 1.000 og þess vegna segja tölurnar mér aðeins að til er sjúkdómur sem ég get fengið. Og það vissi ég fyrir. Þessar vísindalegu upplýsingar eru því gagnslausar fyrir mig á meðan ég er bara ég en ekki til dæmis lýðheilsustofnun eða tryggingafélag.

Þótt ég hafi mikið dálæti á gagnslausum upplýsingum og hafi eytt alltof miklum tíma í lífinu í að afla slíkra upplýsinga, þá vildi ég samt að ég væri tryggingafélag. Þá gæti ég virkilega notað þær. Þá gæti ég byrjað á að reikna út hve margir af þeim 1.000 meðalmönnum sem tryggja sig hjá mér fá tiltekna sjúkdóma. Svo gæti ég slegið á hve margir þeirra sem búa við hina ýmsu áhættuþætti fá sjúkdómana sem þeir eiga á hættu að fá. Og þá myndi ég vita eitthvað um áhættu – það er áhættu mína af því að selja fólki sem getur fengið sjúkdóma tryggingar gegn slíku.

En ég er ekki lýðheilsustofnun og ekki tryggingafélag heldur. Ég ætla þess vegna að halda áfram að fara til spákonunnar sem horfir í augun á mér og skynjar hvaða örlög blasa við mér. Það er auðveldara að vinna úr upplýsingunum frá henni, því ég þarf ekki að vera 1.000 til að skilja þær. Þær eru ekki síður áreiðanlegar – og miklu ódýrari.

Birt í Lesbók Morgunblaðsins 8. desember 2007

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *