Í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar Íslenskir kommúnistar 1918-1998 er mikið stuðst við bók mína Kæru félagar. Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin 1920-1960, sem kom út hjá Máli og menningu 1999. Hannes leggur sig í framkróka við að leiðrétta ártala- og stafsetningarvillur í bók minni, sem er allra góðra gjalda vert, um leið og hann mjólkar heimildatilvísanir hennar. Viss misskilningur í sambandi við þær heimildir sem bók mín byggir á leiðir hann þó á nokkrar villigötur þannig að hann fer offari í leiðréttingum sínum og leiðréttir því í sumum tilfellum atriði sem þarfnast ekki leiðréttingar. Ég ætla því að dunda mér við það hér á þessari síðu, um leið ég les mig í gegnum rit Hannesar, að leiðrétta nokkur vandræðaleg mistök hans. Ég mun þó ekki ganga svo langt að leiðrétta stafsetningarvillur eða annað sem kalla mætti smáatriði. Ég vona að þessar leiðréttingar og fróðleiksmolar þeim tengdir geti gagnast lesendum bókarinnar.

1. Dagsbrúnarverkföll og sovéskur stuðningur

Í kaflanum Fagnaðarfundir í Moskvu (254-259) fjallar Hannes um styrk að upphæð 5000 sterlingspund sem verkamannafélaginu Dagsbrún hafi verið veittur sumarið 1952. Vísað er til miðstjórnarákvörðunar sem tekin hafi verið 3. júlí það ár og í neðanmálsgrein er heimildin sögð vera bók Árna Snævarr, Liðsmenn Moskvu og „gögn Jóns Ólafssonar“. Ekki kemur neitt fram nánar um hver þessi gögn Jóns Ólafssonar eru, eða hvar þau er að finna. Í kaflanum dregur Hannes svo heilmiklar ályktanir af því hvernig styrkfé þetta hafi verið notað og skýrir ýmis ummæli og athafnir leiðtoga sósíalista með tilliti til þessa mikla fjár, sem hafi numið rúmlega hundraðföldum mánaðarlaunum.

Í Liðsmönnum Moskvu, sem Árni Snævarr og Valur Ingimundarson gáfu út saman árið 1992, fjallar Árni í sínum kafla um sovéttengsl sósíalista og nefnir þar fjárstyrk sem hann segir að Dagsbrún hafi fengið 1952. Þegar Árni vann að bókinni vorum við samstarfsmenn á fréttastofu sjónvarpsins og veitti ég honum aðgang að þeim heimildum sem ég hafði undir höndum og að minnispunktum mínum. Þaðan hefur hann sínar upplýsingar um styrkinn, en svo óheppilega vill til að ártalið hefur skolast til hjá honum. Styrkurinn var ekki veittur árið 1952 heldur árið 1961. Í samþykkt miðstjórnar sovéska kommúnistaflokksins 3. júlí 1961 segir:  „Um aðstoð sovéskra verkalýðsfélaga við verkfallsmenn á Íslandi. Fjármálaráðuneyti Sovétríkjanna falið að senda Dagsbrún 5 þúsund sterlingspund … Bréf frá Miðráði Verkalýðssambands Sovétríkjanna til Miðstjórnar Kommúnistaflokksins. Farið er fram á að flokkurinn verði við beiðni Einars Olgeirssonar formanns Sósíalistaflokksins um fjárhagsaðstoð við íslenska Verkalýðsfélagið Dagsbrún. Miðráðið vill fá leyfi til að senda Dagsbrún sem svarar 5000 sterlingspundum í gjaldeyri.“

Frásögn Hannesar af styrkveitingum vegna verkfalls 1952 verður því æði skrautleg. Það var vissulega verkfall árið 1952, en það var í desember, löngu eftir að styrkurinn á að hafa verið veittur samkvæmt niðurstöðu hans og því erfitt að tengja hann verkfallsaðgerðunum sem slíkum. Hannes virðist reyndar koma auga á misræmið og reynir því að setja styrkinn sem hann telur að hafi verið veittur árið 1952 í samband við aðgerðir gegn varnarliðinu, sem gerir söguna enn kostulegri.

Hið rétta er að sumarið 1961 voru talsverðar vinnudeilur og Dagsbrúnarmenn í löngu verkfalli. Sjóðir voru takmarkaðir og lítið hægt að bæta verkfallsmönnum tekjutap. Sovéskur styrkur kom því í góðar þarfir, en ekki er að sjá að hann hafi verið neitt feimnismál á þessum tíma, og fjallað um hann í fundargerðum Dagsbrúnar sem eðlilegan hlut. Raunar er Alþýðublaðið fyrst með fréttina af honum laugardaginn 15. júlí og segist hafa „áreiðanlegar heimildir“ fyrir því að þessi styrkur hafi borist. Blaðið fordæmir ekki að Dagsbrún skuli þiggja sovéskan styrk, en er fullt tortryggni yfir væntanlegri notkun fjárins. „Hvers vegna sendu Rússar ekki Alþýðusambandinu peningana“ spyr blaðið. „Treystu þeir ekki Hannibal nægilega vel fyrir þeim? Eða áttu peningarnir að renna í eitt hvað annað en stuðning við verkfallsmenn…“ (bls. 15). Þjóðviljinn svara fullum hálsi daginn eftir og bendir á að Alþýðublaðið hafi haft upplýsingar um upphæð fjárins á undan Dagsbrún, því hljóti Landsbankinn, sem tók við greiðslunni, að hafa lekið (Þjóðviljinn, 16. júlí 1961, bls. 1). Morgunblaðið tekur málið upp í miðopnu næsta þriðjudag og segir ljóst að vel sé fylgst með Íslandi austur í Moskvu (Morgunblaðið 18. júlí 1961, bls. 10). Með öðrum orðum: Styrkurinn er á alla vitorði og tilefni dæmigerðs orðaskaks kaldastríðsáranna.

Þessi sérkennilegu mistök Hannesar sýna vel hve varhugavert það er að lifa sníkjulífi á heimildavinnu annarra. Vitlaus dagsetning hjá Árna Snævarr sendir aumingja Hannes á algjörar villigötur og þar sem hann hirðir hvorki um að leita ráða hjá þeim sem til þekkja, né um að fá einhverskonar staðfestingu í heimildum á sögunni sem hann spinnur í framhaldinu, verður til kjánalegt bull um áhrif styrks, níu árum áður en hann var veittur og eins og hann hafi þá farið mjög leynt. Væntanlega hefur Hannes litið svo á að það staðfesti styrkveitinguna enn frekar 1952 að ekkert komi fram um hana. Það sýni enn betur hve leynileg hún hafi verið.

2. Notkun á afritum úr sovéskum skjalasöfnum

Það má kannski nefna það í þessu samhengi, þar sem Hannes nýtir sér afrit af heimildum úr skjalasafni Kominterns sem ég afhenti Handritadeild Landsbókasafnsins til varðveislu sumarið 1992, að lítilsháttar misferli hefur átt sér stað við birtingu þessara skjala í bókum Árna Snævarr og Hannesar. Raunar á sama við um bók Arnórs Hannibalssonar, Moskvulínan sem kom út 1999. Þannig er að á tíunda áratugnum voru í gildi stífar reglur um birtingu skjala úr söfnunum, sem komu meðal annars fram í því að afrit sem ég fékk á þessum tíma (sama gildir um heimildir sem Arnór lét ljósrita í eina skiptið sem hann heimsótti Kominternsafnið sumarið 1992) voru stimpluð með orðunum „án útgáfuréttar“ (Без права публикации). Þetta var gert til þess að koma í veg fyrir að birtar væru myndir afskjölunum í heild án samþykkis safnsins, sem ætlaðist til að greitt væri fyrir slíkt sérstaklega. Árna Snævarr láðist að ráðgast við mig um birtingu mynda af skjölum og því birtast í kafla hans í Liðsmönnum Moskvu nokkrar myndir af skjölum þar sem hver rússneskumælandi lesandi getur séð að þau eru birti án heimildar – það stendur á hverri mynd, skýrum stöfum, en á rússnesku, að birtingin sé óheimil! Þótt Arnór sé læs á rússnesku gerist það sama í hans bók, kannski vegna þess að myndritstjórar höfðu ekki nægilegt samráð við hann. Það er auðvitað enn óheppilegra að Hannes heldur þessu áfram og er enn að birta, án heimildar, úr þessum skjölum (sjá bls. 146). Að vísu hefur í því tilfelli verið skorið af síðunni þannig að stimpillinn sést ekki.

Ég bjóst við því lengi eftir að bók Árna kom út að mér yrði núið þessu um nasir þegar ég þyrfti á þjónustu að halda í Kominternsafninu. Ég hafði fengið þessi afrit og bar því ábyrgð á birtingu þeirra. En það gerðist nú ekki sem betur fer. Það er líka rétt að taka það fram, að þótt svona skjalabirtingar gefi bók Hannesar vissan óvandvirknisblæ, er ekki hægt annað en að hrósa myndritstjórninni og þeirri miklu myndasöfnun sem aðstoðarmaður Hannesar Viktor Orri Valgarðsson á heiðurinn af.

Framhald fljótlega.

5 replies
 1. Sævar Finnbogason
  Sævar Finnbogason says:

  Maður er algerlega kjaftstopp. Hannes hlýtur að þurfa, í það minnsta, að bregðast við þessu varðandi styrkinn.

  Svara
 2. Guðjón Jensson
  Guðjón Jensson says:

  Hannes fer mikinn. Hann er hamhleypa og tekur stór stökk upp brattlendið án þess að gera sér grein fyrir betri og auðveldari leið. Félagsvísindadeild HÍ hefur setið uppi með þennan umdeilda „fræðimann“ sem Sjálfstæðisflokkurinn skipaði háskólalektor án þess að staða væri auglýst, stjórnarfarslega mjög ámælisverð tilraun til að grafa undan eðlilegu háskólasamfélagi.
  Hannes gefur sér yfirleitt niðurstöðuna fyrirfram en er ekki hlutlaus gagnvart viðfangsefninu eins og kenning sem kennd er við þýska þjóðfélagsfræðinginn Max Weber gerir ráð fyrir.
  Hannes fer frjálslega með heimildir eins og sagan sýnir, hann er „fræðimaður“ fremur magns en gæða. Stundum hefur honum verið líkt við kafbát en fremur væri heppilegra að líkja honum við jarðýtu sem fer mikinn en oft að því í einhverju tilgangsleysi.

  Þakka þér Jón Ólafsson fyrir fróðlega og góða umfjöllun þessa máls.

  Guðjón Jensson
  Mosfellsbæ

  Svara
 3. Þorsteinn Vilhjálmsson
  Þorsteinn Vilhjálmsson says:

  Faðir minn, Vilhjálmur Þorsteinsson, var um skeið formaður stjórnar Vinnudeilusjóðs Dagsbrúnar. Samkvæmt bók HHG á hann að hafa tekið við styrknum fræga árið „1952“ en ég er ekki viss um að hann hafi enn verið formaður árið 1961 þegar raunverulegi styrkurinn var veittur. Og myndin sem á að vera af föður mínum í bókinni er af einhverjum allt öðrum manni sem ég ber ekki kennsl á. Vonandi er það eina dæmið um slíka myndaritstjórn.

  Raunar talar HHG þarna um „sérstakan“ vinnudeilusjóð eins og hann geri sér ekki grein fyrir að slíkir sjóðir voru almennt starfræktir á þessum tíma og afar mikilvægir í verkföllum. Sjálfsagt veit hann ekki heldur að altítt var að þeir fengju styrki frá erlendum verkalýðsfélögum þegar deilur urðu langar og harðar. Skilningur hans á baráttunni fyrir bættum lífskjörum og réttindum launamanna er einnig afar takmarkaður, sem og á alþjóðlegum baráttumálum vinstri manna á þessum tíma, svo sem gegn herstöðinni, Nató og Víetnamstríðinu eftir að það kom til sögu.

  Allt þetta skiptir auðvitað sköpum þegar meta skal grunntesuna um erindrekstur fyrir erlent vald sem hafi yfirskyggt allt annað.

  Svara
 4. jonolafs
  jonolafs says:

  Mér skilst að farið sé mannavillt í fleiri tilfellum (Eyvindur Erlendsson verður Eyvindur Eiríksson). Þetta eru svo sem ekki óalgeng mistök í bókum af þessu tagi. En þegar umfjöllunin í kjölfarið afhjúpar vanþekkingu eins og þá sem þú bendir á, fyrir nú utan hve hneykslaður Hannes er á jafnvel stafsetningarvillum í bókum annarra höfunda, verður þetta allt ögn kjánalegt. Myndritstjórnin er hinsvegar ágæt að því leyti að aðstoðarmaðurinn hefur greinilega lagt sig í líma við að finna myndir af fólki sem kemur við sögu. Þarna er að finna sjaldséðar myndir af ýmsum erlendum kommúnistum, til dæmis. Það er að segja, ef myndirnar eru þá af rétta fólkinu…

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *