Umrótið í samfélaginu í kjölfar kreppunnar krefst þess að háskólamenntun hér á landi sé endurhugsuð í grundvallaratriðum. Íslenskir háskólar eru sundurleitir og ósamstæðir og rígur og samkeppni á milli þeirra kemur í veg fyrir að íslensk háskólamenntun sé bæði hagkvæm, fjölbreytt og í hæsta gæðaflokki. Megináhersla undanfarinna ára hefur verið á tengsl háskóla og atvinnulífs. Nú er vonandi komið að því að gæði menntunarinnar sem slíkrar verði aðalatriðið. Samstarfsyfirlýsing stjórnarflokkanna gefur vissulega til kynna að ætlunin sé að gera eitthvað í málum háskólanna, en þó er erfitt að átta sig á hvað það verður.

Nýja ríkisstjórnin ætlar, samkvæmt yfirlýsingunni, að „endurmeta … eftir öran vöxt á háskólastiginu, skipulag og rekstur háskólanna, samstarfsmöguleika, innviði og fjármögnun, námsframboð og aukna möguleika á fjarnámi í háskólum landsins“. Þetta er athyglisvert orðalag og margrætt. Í yfirlýsingu stjórnarflokkanna kemur einnig fram að „gjaldfrjáls grunnmenntun [sé] lykill að félagslegu jafnrétti“ og að endurskipulagning háskólanna eigi að fara fram „í samráði hins opinbera og háskólasamfélagsins.“

Beinast liggur við að lesa áhuga á sameiningu skóla og mögulega fullt afnám skólagjalda í grunnnámi úr þessu orðalagi. Það hefur lengi legið í loftinu að stjórnvöld vilji fækka sjálfstæðum háskólastofnunum, jafnvel slá þeim öllum saman. Það er ekki langt síðan háskólar á Íslandi voru 9 talsins, síðan hefur þeim fækkað í 7 með sameiningu HR og Tækniháskólans fyrst, svo sameiningu KHÍ og Háskóla Íslands. Nú blasir við að Landbúnaðarháskólinn verði sjötta fræðasvið HÍ – og þá eru háskólarnir orðnir 6. Næsta skref gæti verið að sameina Hóla og HA og svo HA og HÍ. Og þá eru háskólarnir orðnir fjórir. Lokaskrefið væri þá sameining HR, LHÍ og Bifrastar. Sameining Keilis og HÍ er væntanlega aðeins formsatriði. Þá væru hér starfandi tveir háskólar, í stað margra háskólastofnana. Þessi breyting getur hinsvegar, eftir því hvernig á er haldið, verið hvort heldur sem er, bylting í íslensku háskólastarfi eða algjört fíaskó.

Markmið endurskipulagningar

Ef við lítum á fyrri möguleikann, að endurskipulagning háskólanna sé nýtt upphaf, bylting á sviði háskólamenntunar, þá veltur hún á því að sameining þjóni akademískum markmiðum og snúist um að auka gæði háskólamenntunar. Stjórnvöld myndu þá stilla sig um að breyta háskólunum í stofnanir þar sem reynt er að gera kennsluna sem allra ódýrasta og handleiðsla nemenda er skorin niður eins og hægt er. Lykillinn að þessu er að skólarnir veiti þeim nemendum úrvalsmenntun sem standast kröfur. Það er ekki líklegt til árangurs að háskólarnir dragi úr kröfum og kannski er aldrei mikilvægara en nú að háskólarnir geri miklar kröfur. Seinni möguleikinn, fíaskóið, gæti einmitt verið afleiðing þess að stjórnvöld létu undan þeirri freistingu að gera háskólana að velferðarstofnunum í atvinnuleysinu. Stífar gæðakröfur eru grundvallaratriði, annars er hætt við að háskólarnir hrynji eins og bankarnir.

Núverandi fjármögnunarkerfi háskólamenntunar er því miður líklegra til að minnka gæðakröfur en að auka þær. Ástæðan er einföld. Kerfið felur aðeins einn hvata í sér fyrir háskóla og hann er sá að fjölga nemendum eins mikið og mögulegt er. Eini handfasti mælikvarðinn á árangur háskóla samkvæmt kerfinu, er fjöldi nemenda og því reyna allar háskólastofnanir á Íslandi (að Listaháskólanum undanskildum, sem býr við örlítið annað kerfi) að laða til sín nemendur með öllum tiltækum aðferðum. Það er enginn munur á háskólunum hvað þetta varðar, þeir eiga allir í samkeppni um nemendur til þess að geta náð til sín hærra framlagi frá ríkinu. Það gefur auga leið að kerfi sem byggir eingöngu á fjölgun er ekki vænlegt til að tryggja gæði. Það sem verra er, það gerir raunverulega stefnumótun á sviði háskólamenntunar í rauninni ómögulega. Þær greinar sem laða til sín flesta nemendur eru sjálfkrafa taldar eftirsóknarverðastar, en stöðug óvissa er um fámennari greinar.

Og svo eru það skólagjöldin

Staðreyndin er sú að háskólamenntun á Íslandi er næstum að fullu fjármögnuð af hinu opinbera. Háskólarnir fá greiðslu fyrir ákveðinn fjölda nemenda samkvæmt reikniflokkum sem endurspegla mismunandi kostnað af ólíkum tegundum menntunar (nám í hug- og félagsvísindum telst ódýrast, kennaramenntun næstum tvöfalt dýrari, raungreinar eru í enn hærri reikniflokki osfrv.). Ríkisháskólarnir eru bundnir því framlagi sem kemur frá ríkinu, en aðrir háskólar geta innheimt skólagjöld að því marki sem greiðsla hins opinbera dugir ekki til að standa straum af þeirri kennslu sem þeir bjóða upp á og starfsemi sem tengist henni. En þar sem nemendur geta tekið námslán til að greiða skólagjöldin lenda þau á ríkinu beint og óbeint. Það er því ekki fráleitt að líta svo á að með því að veita lán til skólagjalda ofan á ríkisframlag viðurkenni hið opinbera sérstöðu þeirra skóla sem taka skólagjöld og þann kostnað sem þessari sérstöðu fylgir.

Skólagjöld hafa kosti og galla. Kostirnir eru fólgnir í því að nemendur verða að taka kostnaðarhlið námsins alvarlega og gera má ráð fyrir að fjárhagslegar skuldbindingar hafi heilbrigð áhrif á val og ástundun. Einnig gera skólagjöld mögulegt að leggja meira í kennsluna. Háskóli Íslands er alræmdur fyrir hjarðkennslu á meðan Bifröst, HR og Listaháskólinn leggja kapp á persónulegri kennslu, smærri hópa og meiri samskipti nemenda og kennara frá upphafi náms.

Gallarnir eru hinsvegar þeir að skólagjöld hafa óhjákvæmilega þau áhrif að mismuna nemendum. Nemendur sem eiga fullt erindi í skólagjaldaskólana og kjósa aðferðir þeirra fram yfir það sem boðið er upp á annarsstaðar vilja ekki endilega axla þær fjárhagslegu skuldbindingar sem því fylgir jafnvel þótt námslán séu veitt fyrir skólagjöldum. Á sama tíma má þó halda því fram að skólagjöld hafi almennt ekki haft þau áhrif hér á landi sem þau ættu að hafa. Fyrir þessu eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi er aðgangur að námslánum til að greiða skólagjöldin svo almennur, að einungis sérlega ábyrgir einstaklingar hugsa út í skuldbindinguna sem þeim fylgir. Í öðru lagi er staðreyndin sú að aðsóknin að skólagjaldaskólunum er ekki svo mikil að hægt sé að halda því fram að hún réttlæti gjaldtöku. Þannig má segja að umtalsverð aðsókn að HR og Bifröst á undanförnum árum sé ekki tilkomin vegna þess að sérstök gæði skólanna eða aðferðafræði þeirra valdi því að nemendur eru tilbúnir til að borga fyrir námið, heldur er aðgangur að námslánum svo auðveldur og lánin svo hagstæð, að þorri nemenda getur í raun tekið ákvörðun sína alveg óháð þeirri staðreynd að á einum stað þarf að borga skólagjöld en á öðrum ekki. Þessvegna er líka mjög líklegt að breytt viðhorf fólks til lántöku og fjárhagsskuldbindinga í kjölfar kreppunnar, valdi samdrætti í umsóknum hjá bæði Bifröst og HR.

Fjármögnun þarf að endurskipuleggja

Allt gefur þetta tilefni til að spyrja grundvallarspurninga um skólagjöld: Ætti ríkið einfaldlega að breyta fjármögnun skólanna þannig að engin skólagjöld séu tekin í grunnnámi? Hvað myndi það þýða? Það má vera að afnám allra skólagjalda í grunnnámi væri snjall leikur, en ef hugsunin er sú að tryggja þurfi óheftan aðgang allra að grunnnámi væri þetta þó sennilega mikill afleikur sem hætt er við að myndi hafa slæm áhrif á alla háskólamenntun. Lykillinn að því að stefnumótandi ákvörðun af þessu tagi skili árangri er að hámarksfjöldi nemenda væri ákveðinn fyrirfram í öllum háskólum og háskóladeildum, þannig að gæðakröfur stýri háskólamenntun. Það er mikilvægt að hafa í huga að aðgangstakmarkanir á grundvelli gæða eru ekki í neinni mótsögn við það markmið að allir hafi jafnan aðgang að háskólanámi. Slíkar takmarkanir leiða eingöngu til þess að nemendur keppi að því marki að komast í það grunnnám sem hugur þeirra stendur til, en geri ekki ráð fyrir því að aðgangur sé sjálfsagður óháð frammistöðu. Aðgangstakmarkanir í háskóla eru einnig besta leiðin til að tryggja að nemendur og kennarar taki framhaldsskólann alvarlega sem undanfara háskólanáms. 

Það mætti hugsa sér að um leið og skólagjöld í grunnnámi eru afnumin, verði skólagjöld almennt reglan í framhaldsnámi. Spurningin er með hvaða hætti þetta væri gert. Það er ljóst að fólk fer í framhaldsnám af mörgum ástæðum. Margir sjá beinan fjárhagslegan ávinning af því. Þetta getur átt við um MBA nám og margvíslegt annað nám á sviði stjórnunar og rekstrar, lögfræði og réttindanám af ýmsu tagi. Aðrir hafa áhuga á að auka menntun sína af ýmsum persónulegum og faglegum ástæðum án þess að því fylgi beinn eða augljós fjárhagslegur ávinningur. Loks er stór hópur nemenda í framhaldsnámi vegna áhuga á að leggja fyrir sig rannsóknir og kennslu á háskólastigi. Það er í raun óeðlilegt að taka ekki skólagjöld fyrir nám sem tengist beint betri stöðu á vinnumarkaði og hærri launum. Það má hinsvegar vel halda því fram að framhaldsnám eigi líka að vera opið þeim sem hafa áhuga á að bæta við sig menntun hennar sjálfrar vegna. Hvað þriðja hópinn varðar, þá er aðalatriðið að til staðar sé gott styrkjakerfi fyrir nemendur sem hyggja á starfsferil í rannsóknum og kennslu. Þannig eru mörg rök fyrir því að framhaldsnám sé verðlagt í samræmi við kostnaðinn af því, en um leið skapaðir möguleikar á styrkjum eða niðurfellingu gjalda.

Það ríkir óvissa um framtíð háskólanna eins og flest annað í samfélaginu. Flatur niðurskurður eða einhverjar einhliða aðgerðir á borð við að hætt verði að lána til skólagjalda eru ekki hjálplegar þegar svona stendur á. Stjórnin segist ætla að hafa samráð um „endurmat“ við háskólana. Vonandi gerir hún það.

7 replies
 1. Finnur Beck
  Finnur Beck says:

  Þetta er góð hugleiðing Jón og þarft innlegg í umræðuna um þróun háskólastigsins. Það er tvennt sem ég vil nefna sem oft er teflt fram í umræðu um skólagjöld og ég tel eiga heima í þessari umræðu. Þar sem ég hef bæði stundað nám við HR og HÍ þá hef ég reynslu af námi með og án skólagjalda.

  Hið fyrsta er mýtan um að nemendur leggi sig meira fram í námi því þeir greiði svo mikið fyrir menntunina. Ég leyfi mér að segja mýtan því þetta rímar ekki við mína reynslu. Í sannleika sagt hef ég engan mun séð á því hvernig nemendur stunda nám sitt eftir því hvort þeir greiða ekkert fyrir önnina, 150 eða 250 þúsund. Í öllum hópum eru hins vegar námsmenn misduglegir. Að sama skapi get ég líka sagt að klisjan um að nemendur verði latir, eða ætlist til að fá allt upp í hendurnar vegna þess að þeir borgi, á heldur ekki við rök að styðjast. Nú veit ég ekki hvort til eru rannsóknir sem sýna fram á annað en þetta en reynsla mín er þessi.

  Í öðru lagi á ég erfitt með að sjá hvernig greina eigi á milli menntunar sem ætlað er að styrkja stöðu fólks á vinnumarkaði og þeirrar sem ekki á að gera það nema e.tv. þegar þetta á við í sinni skýrustu mynd (eins og þú nefnir t.d. réttindanámskeið). Þvert á móti tel ég að það geti verið í þágu samfélags að gefa sér ekkert fyrirfram og draga menntun/fræðasvið ekki dilka af þessu tagi. Þannig sé ég heldur ekki ástæðu til að taka skólagjöld frekar á framhaldsstigi en í grunnnámi.

  Í þriðja lagi vil ég bæta við, að það verður áhugavert, og e.t.v áhyggjuefni fyrir „skólagjaldaskólana“, að sjá hvort efnahagsástandið nú skili sér í dræmari aðsókn í ljósi aukinnar vitundar/“fjármálalæsi“ fólks um áhrif skuldsetningar og minni möguleika á því að afla hárra tekna. Og þá reynir enn á skólana sjálfa að slaka ekki á eigin kröfum.

  Svara
 2. Þráinn Kristinsson
  Þráinn Kristinsson says:

  Takk fyrir pistilinn.

  En hér er hugmynd:

  Við gætu lagt niður allt háskólabatteríið og samið við alvöru háskóla eins og Kaupmannahafnarháskóla og Edinborgarháskóla um að opna hér útibú. Nemendur (og kennarar) væru „neyddir“ til að aðlagast alþjóðlegu náms og vinnuumhverfi…það myndi minnka molbúaháttarlagið sem hér ríkir í öllu…

  Svara
 3. anna benkovic
  anna benkovic says:

  Ég kláraði t.d kennaranám í HR í haust, þar sem námið mitt í DK var metið…en svo vill HÍ ekki meta það og ég fæ ekkert leyfisbréf? (og sit uppi með verðlaust nám sem ég bara skulda hjá L’IN)

  Svara
 4. Hrappur Steinn
  Hrappur Steinn says:

  Anna skrifar :
  „en svo vill HÍ ekki meta það og ég fæ ekkert leyfisbréf? “

  Það er Menntamálaráðuneytið semgefur út leyfisbréf um kennsluréttindi, en það er grafalvarlegt mál fyrir HR ef þeir hafa metið þig inn í námið hjá sér án þess að ganga úr skugga um að það væri viðurkennt sem grunnur fyrir kennsluréttindi. Í raun þá er það mál HR að vesenast í því að Menntamálaráðuneytið samþykji sitt mat ellegar verða þeir að endur greiða þér gjöldin og borga framfærslulánin eða einhvern hluta af þeim.
  Ég held að eithvað sé um atvinnulausa lögfræðinga ef HR felst ekki á að ganga í málið.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *