Seint í júní á því herrans ári 2016 urðu Bretar að athlægi um allan heim. Ástæðan var þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún leiddi til niðurstöðu sem í besta falli breytir litlu en í versta falli veikir hún stöðu Bretlands álíka mikið og tap í styrjöld. Það er upplausn í stjórnkerfinu og allar líkur á meiriháttar mannaskiptum í pólitískri forystu. Margir hafa haldið því fram að þjóðaratkvæðagreiðslan um úrsögn sýni galla beins lýðræðis í hnotskurn, þar sem niðurstaðan gangi þvert á framtíðarhagsmuni Breta og komi niður á næstu kynslóðum. Bent er á að yngra fólk sé mun hlynntara ESB aðild en þeir eldri, menntaðir hlynntari en ómenntaðir og svo framvegis.
Auðvitað tala ekki allir svona. Að sjálfsögðu eru þeir sem harðastir voru fyrir útgöngu enn á því að sú niðurstaða sé best fyrir Bretland og jafnvel upphaf nýrra tíma í Evrópu. Þeir halda því enn fram að Bretar muni ekki á nokkurn hátt einangrast frá öðrum löndum eða mörkuðum – þvert á móti, þeir geti gert mun hagstæðari samninga við önnur ríki og sparað gríðarlega fjármuni sem annars þyrfti að moka í Evrópusambandshítina. Þannig hafi vilji þjóðarinnar beint Bretum á réttan veg þótt auðvitað sé sársaukafullt breytingaskeið framundan.
Þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi var mögnuð pólitísk tilraun þar sem leiðandi stjórnmálamenn reyndu að kalla fram þjóðarvilja fyrir áframhaldandi veru í Evrópusambandinu og mistókst það hrapallega. Margir hafa lofað það hugrekki breskra stjórnvalda að láta kjósa um málið þótt svona hafi farið, þar sem það sé þrátt fyrir allt mikilvægt nú á tímum að meiriháttar ákvarðanir um framtíðina séu lagðar í dóm kjósenda. Nú þurfi stjórnmálamenn einfaldlega að fara eftir því sem þeir hafi ákveðið. Beint lýðræði eins og það gerist best. Afdráttarlaus og óafturkræf ákvörðun um stefnu sem gefur stjórnmálamönnum ekkert tækifæri til að fara á svig við þjóðarvilja. Leyfum heimsbyggðinni að hlæja, gætu menn sagt. Sá hlær best sem síðast hlær og viska fjöldans lætur ekki að sér hæða.

Gerir múgurinn „það sem verkast vill“?
Það er vissulega hægt að hæðast að viðbrögðum sigurvegaranna þegar úrslit lágu fyrir. Og sennilega er einsdæmi að voldugu og fjölmennu ríki, sem hefur ekki orðið fyrir neinum ytri áföllum sé steypt í annan eins og glundroða og ríkt hefur í Bretlandi síðustu vikur og haft í för með sér ómælt pólitískt og efnahagslegt tjón. Hvernig er þetta hægt? hljóta nágrannaþjóðirnar að spyrja, ekki síst þær sem eiga aðild að Evrópusambandinu, og kannski einhverjum detti í hug að þetta sé einmitt hægt ef menn eru svo vitlausir að trúa á beint lýðræði: Múgurinn geri ekki það sem er viturlegt – eins og Sókrates benti jú á – heldur geri hann „það sem verkast vill“.
Samkvæmt þessu viðhorfi er álíka gáfulegt að láta almenning ákveða og að kasta upp krónu: Það geri ekkert til ef ákvörðunin skiptir í rauninni engu máli til eða frá – eða að minnsta kosti litlu máli. En sé eitthvað í húfi megi alls ekki láta almenning koma nálægt ákvörðun. List stjórnmálamanna væri þá fólgin í því að ráðgast við almenning um það sem skiptir litlu máli, en láta ef til vill líta svo út sem um stórmál sé að ræða. Þá er villa Bretanna einfaldlega sú að hafa öðlast trú á þjóðarvilja sem allir viti jú að sé bara slagorð í pólitískri baráttu.

Vanþekking almennings og viska fjöldans
Hvort sem við ákveðum að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í Bretlandi sé til marks um visku fjöldans eða heimsku og vanþekkingu almennings er óvíst að hún veiti okkur mikla innsýn í kosti og galla lýðræðis – hvað þá beins lýðræðis. Hún segir okkur fyrst og fremst að í keppni tveggja hópa um fylgi hefur annar aðilinn haft betur. Það getur vel verið að sá sem hafði betur hafi líka haft betri málstað að verja, en sigurinn, sem slíkur, segir þó ekkert um það.
Þegar við tölum um þekkingu eða vitsmuni fjöldans er hægt að færa rök fyrir því með nokkuð sannfærandi hætti að almenningur búi yfir miklum vitsmunum og þekkingu. Þá hugsar maður það á þennan hátt: Við búum í samfélagi þar sem allur þorri fólks á margra ára skólagöngu að baki, stór hluti almennings er háskólamenntaður og fólk er almennt vel í stakk búið til að ræða og skilja hagfræðilegar, vísindalegar, menningarlegar og pólitískar röksemdir. Þeir sem sjálfir hafa ekki forsendur til að skilja slíkar röksemdir til fulls geta auðveldlega fundið einstaklinga í sínu nánasta umhverfi til að hjálpa sér að skilja. Í frjálsri, opinni umræðu munu því rök og sérhæfð þekking geta náð eyrum allra og þess vegna er almenningur í lýðræðisríki vel undir það búinn að koma að mikilvægum stefnuákvörðunum.
En það er tiltölulega auðvelt að færa rök fyrir því gagnstæða líka: Í hnattrænu samfélagi nútímans þarf að taka tillit til miklu flóknari og viðameiri forsendna en hver einstakur getur ráðið við. Stefnumarkandi pólitískar ákvarðanir þurfa þess vegna að vera í höndum þeirra sem geta nýtt sér bestu sérfræðikunnáttu sem völ er á hverju sinni. Besta leiðin til þess er að tiltölulega fámennum hópi sé falið þetta verkefni, en hann hafi greiðan aðgang að sérfræðingum og rannsóknastarfi. Þar að auki kemur í ljós þegar þekkingarstig almennings er kannað, að í vestrænum ríkjum skortir fólk iðulega þekkingu og skilning á grundvallaratriðum vísinda og fræða og blandar saman í einn graut staðreyndum og bábiljum af ýmsu tagi, ekki síst allskyns trúarlegum atriðum sem koma í veg að það hugsi skýrt um pólitísk verkefni samtímans.
Hvor afstaðan er réttari? Er múgurinn gáfaður – eða er hann heimskur? Getur hvorttveggja verið rétt? Það er stór munur á því að hinn almenni borgari komi að því að móta pólitíska valkosti eða sé leyft að velja á milli fyrirfram mótaðra kosta. Sennilega er versta leiðin til að virkja almenning að búa til tvo skýra valkosti og láta velja á milli þeirra eins og ekkert annað sé mögulegt. Þegar kjósendur eru fyrst og fremst áhorfendur að slag forystumanna í stjórnmálum, skapast engar kjöraðstæður til að virkja þekkingu almennings. Í atkvæðagreiðslu Breta um ESB er einmitt þetta atriði mest truflandi. Endurspegluðu valkostirnir raunverulega þá möguleika sem almenningur vildi velja á milli? Var nauðsynlegt að velja á milli einmitt þeirra? Hver mótaði þá? Hver orðaði spurningarnar? Hver ákvað að það þyrfti að spyrja þessara spurninga og á þennan hátt frekar en að spurt væri annarra spurninga, á einhvern annan hátt?

Leiksoppar lýðskrumaranna
Það er einfeldningslegur skilningur á beinu lýðræði að telja það felast í vali á milli kosta sem pólitískir leiðtogar hafa mótað. Pólitískir valkostir verða til í umræðum og umræðuhefð sem fyrst og fremst endurspeglar afstöðu og hugmyndafræðilegan greinarmun pólitískra fylkinga og hagsmunaaðila. Þegar þeim dettur í hug að láta kjósendur velja á milli kostanna sem þessar fylkingar takast á um hverju sinni er ekki þar sem sagt að búið sé að taka upp beint lýðræði. Þetta þýðir auðvitað ekki að það sé ekki stundum góð hugmynd að gera það, en í sjálfu sér er enginn grundvallarmunur á því að setja tiltekna fyrirfram mótaða valkosti í þjóðaratkvæði annarsvegar, eða velja á milli þeirra með atkvæðagreiðslu á þingi hins vegar. Eini munurinn er sá að í okkar lýðræðislega skipulagi er þjóðaratkvæðagreiðslan endanleg. Það er mjög hæpið fyrir stjórnvöld að láta almenning velja á milli kosta og gera svo það sem almenningur vill ekki. Það er hins vegar margt sem getur orðið til þess að meirihlutaákvörðun einn daginn er hnekkt með meirihluta fyrir einhverju öðru hinn daginn.
Gallinn við ákvörðun Breta um að ganga úr Evrópusambandinu er einmitt þessi óbreytanleiki hennar: Það er þversögnin við ákvarðanir af þessu tagi, þær skuldbinda umfram allt mat á gæðum þeirra. Sama hvort þær eru góðar eða vondar, þá standa þær. Það er hins vegar almennt mjög slæmt ef pólitískar ákvarðanir eru taldar hafnar yfir gagnrýni eða eru óbreytanlegar. Stjórnmál mega ekki vera kredda. Þau eru list hins mögulega. Leit að lausnum og leiðum frekar en að hinum endanlega sannleika. Þegar þjóðaratkvæðagreiðslur eru notaðar til að fella hinn endanlega úrskurð skapast alltaf þessi hætta, að eitthvað sé ákveðið sem svo reynist bara alls ekki sniðugt. Þetta er hálfu líklegra þegar valkostirnir eru mótaðir í kappræðu lýðskrumaranna sem hver um sig hugsar eingöngu um að vinna hylli kjósenda.

Hvort viltu láta skjóta þig eða hengja?
Við búum við gríðarlegt vantraust gagnvart kjörnum fulltrúum í vestrænum lýðræðisríkjum. Þetta vantraust brýst fram í auknum kröfum um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem kjörnum fulltrúum er einfaldlega sagt fyrir verkum. En íronían við þessa kröfu er iðulega sú að þegar valið er á milli kosta sem kjörnir fulltrúar hafa skilgreint og tekist á um, er framlag almennings ekkert. Í stað þess að almenningur komi að ferlinu áður en valkostir hafa verið skilgreindir og áður en umræða um mál hefur kallað fram tilteknar átakalínur, kemur hann að þeim í lokin, til þess eins að benda á einn kost eða annan og segjast vilja hann. Þetta minnir óneitanlega oft á valið á milli þess að vera skotinn eða hengdur.
Þeir sem finna beinu lýðræði allt til foráttu eru oft að hugsa um það á þessum forsendum, sjá galla inngripsins þegar almenningur er fyrst og fremst leiksoppur aflanna sem takast á um völdin í samfélaginu, pólitísk og efnahagsleg, þar sem niðurstaðan er vatn á myllu einna afla frekar en annarra.
En það þarf að hugsa um beint lýðræði á allt annan hátt. Í samfélagi þar sem raunverulega er unnið á forsendum beins lýðræðis, hefur almenningur leiðir til áhrifa á pólitísk ferli á öllum stigum þeirra. Þá snýst pólitíkin ekki um átök innan ríkjandi elítu sem af og til getur þóknast að skjóta málum til þjóðarinnar, heldur samráð fólks sem auðvitað getur líka tekist á af hörku, en er að einhverju leyti óháð lýðskrumi fulltrúastjórnmálanna. Þess vegna er stóra málið í pólítíkinni í dag ekki hvort beint lýðræði er gott eða vont, heldur hvernig fara eigi að því að skipuleggja þátttöku almennings þannig að dregið sé úr líkum á katastrófum eins og þeirri sem Bretar virðast hafa kallað yfir sig.

Upphaflega birt í Stundinni #26. 7. júlí 2016, sjá vefútgáfu: http://stund.in/PLF