Það var merkileg uppákoma í ReykjavíkurAkademíunni, þegar við tókum okkur saman nokkur sem höfum skrifað um kommúnisma og kalda stríðið og efndum til umræðufundar um vinstriróttækni á Íslandi í samstarfi við RA og Sagnfræðingafélagið. Þar sem við erum öll (Skafti Ingimarsson, Guðni Th. Jóhannesson, Jón Ólafsson og Ragnheiður Kristjánsdóttir) frekar prútt fólk, og deilum ekki þeirri nautn af drulluslag sem stundum virðist loða við umræður um kommúnisma, ekki síst þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson tekur hann til umfjöllunar í Pressupistlum sínum, voru framsögurnar yfirvegaðar. Erindi og umræður má heyra á vef Sagnfræðingafélagsins.

Við lok fundarins breyttist hinsvegar þessi yfirvegaði tónn umræðnanna, þegar Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, steig fram og gerði harða atlögu að Hannesi Hómsteini (sem var staddur á fundinum og hefur reyndar lýst honum á sinn hátt í Pressupistli) fyrir vinnubrögð hans og misnotkun sögunnar í pólitískum tilgangi. Guðmundur var raunar fyrst og fremst að vísa til fyrsta bindis ævisögu Halldórs Laxness sem Hannes gaf út 2003 en fékk í kjölfarið ákúrur fyrir og loks ákæru vegna ritstuldar í verkinu sem endaði með dómi. Guðmundur virtist þó einnig beina gagnrýni sinni skrifum Hannesar almennt. Hann lýsti furðu sinni á að nokkur skyldi hlusta á Hannes eða taka sjónarmið hans alvarlega.

En það er allt of auðvelt að ráðast á Hannes Hólmstein Gissurarson og gera lítið úr verkum hans, og það er lítið á því að græða að endurtaka það sem réttilega hefur verið sagt um vinnubrögð hans í fyrsta bindi ævisögunnar. Hannes hefur líka viðurkennt mistök sín og lofað bót og betrun en það er fátítt um fólk sem verður svo gróflega á sem honum. Ég hef ekki lesið bók hans um íslenska kommúnista nógu vel til að geta dæmt um gæði hennar, en mér virðist bókin vera almennt rit um efnið, að mestu byggt á íslenskum dagblöðum tímaritum og nokkrum gömlum sögum úr baráttunni. Sem sagt meinlaust og jafnvel gagnlegt yfirlitsrit frekar en að þar komi fram eitthvað sem ætti að breyta eða skerpa viðhorf til þeirrar sögu sem þar er rakin.

Guðmundur Jónsson hefði átt að gagnrýna kollega sinn úr Sagnfræðinni, Þór Whitehead prófessor, sem í fyrra gaf út bókina Sovét-Ísland óskalandið. Aðdragandi byltingar sem aldrei varð, frekar en að eyða púðurtunnum sínum á Hannes. Það var bók Þórs sem mest var til umræðu á fundinum, enda langt síðan dagsetning hans var ákveðin, en bók Hannesar nýkomin út. Bók Þórs er ekki meinlaust verk. Í því gerir hann tilraun til að sýna fram á að íslenskir kommúnistar og sósíalistar hafi ekki verið málsvarar íslensks verkalýðs heldur þjónar yfirvalda í Moskvu. Allar þeirra aðgerðir megi tengja beint við fyrirmæli frá Sovétríkjunum.

Skafti Ingimarsson benti á að margar brotalamir eru á vinnu Þórs með íslenskar heimildir og hann lítur framhjá margvíslegum gögnum sem mæla gegn tilgátu hans. Enn verri sögu er að segja af meðferð hans á heimildum úr rússneskum söfnum, sem ég fjallaði um í mínu erindi. Þór hefur ekki gert neinar sjálfstæðar rannsóknir í rússneskum söfnum (þó að slíkt hefði verið auðvelt þar sem söfnin eru opin og heimildir frá þriðja og fjórða áratugnum að mestu á þýsku, ekki rússnesku). Allt sem hann byggir á eru skjöl sem gaukað hefur verið að honum í gegnum tíðina auk skjalaheimilda ég lét Handritadeild Landsbókasafnsins í té fyrir mörgum árum. Í stað þess að sannprófa tilgátu sína með því að rannsaka þeir heimildir sem til eru, velur Þór einungis það úr heimildum sem hann telur styðja tilgátuna og heldur því svo fram að hann hafi „sýnt fram“ á réttmæti hennar. Hann gengur reyndar svo langt í að kreista þær niðurstöður sem hann vill hafa út úr hinum fábreyttu heimildum sínum að það verður beinlínis skemmtiefni á köflum, en það er önnur saga (ég fjalla nánar um heimildavinnu Þórs í grein sem ætlunin er að birtist í vorhefti Skírnis).

Vinnubrögð eins og þau sem Þór stundar í Sovét-Íslandi er einmitt það sem mest ber að varast í öllum rannsóknum. Sagnfræðingur sem leitar einungis að þeim atriðum í heimildum sem geta staðfest það sem hann heldur, en forðast eða lítur framhjá öðrum, hlýtur að afvegaleiða þá lesendur sem þekkja ekki heimildirnar og sjá því ekki í fljótu bragði gallana á heimildavinnunni. Slíkt er því ekki betra en ritstuldur – og kannski verra. Það sést líka á viðtökunum að það er auðvelt að fordæma ritstuld, en flóknara mál að fordæma meingallaða heimildavinnu. Guðmundur Jónsson ræðst af hörku á Hannes Hólmstein, en hann víkur ekki einu orði að kollega sínum úr sagnfræðinni Þór Whitehead. Kannski er samstaða sagnfræðinga (eða sgnfræðiprófessora) svona mikil. En það er Þór sem Guðmundur ætti að gagnrýna, ekki Hannes.

24 replies
 1. asdf
  asdf says:

  vinnubrögð þórs eiga minna skylt við ritstuld, en meira við lúmska rökvillu sem kallast ‘staðfestingarvillan’ (e. confirmation bias), þ.e. að fólk hefur tilhneigingu til að líta framhjá mótrökum í máli sem það lætur sig varða og tekur einungis mark á meðrökum. Í öfgamynd sinni, t.d. í samsæriskenningum, verða mótrökin jafnvel að meðrökum; harkaleg gagnrýni er áskilin sem e-rskonar þátttaka í yfirhylmingu eða þöggun á meintum sannleika. Því miður þýðir lítið halda vitrænum rökræðum áfram þegar á það stig er komið – fólk verður bara þrjóskara og þrjóskara eftir því sem það hefur tekið sér ákveðnari stöðu með málstaðnum.. snýst allt um að tapa ekki andliti, eða öllu heldur viðurkenna mistök.

  meira um confirmation bias: sjá daniel kahneman & amos tversky

  Svara
 2. jonolafs
  jonolafs says:

  Alveg rétt. Enda sagði ég ekki að þau væru ristuldur heldur að þau væru ekki betri en ritstuldur. Staðfestingarvillan er einmitt það sem er mikilvægast að forðast í rannsóknum.

  Svara
 3. Ingi
  Ingi says:

  Mér finnst athyglisvert að fá heilu doðrantana úr þessari átt þegar kapitalisminn er næstum búinn að gera útaf við jörðina og við erum að byrja á rosalegri U beygju frá hengifluginu. Þá koma þessir gáfuðu menn með stórskotaárás á fólk sem aðhyltist aðra stefnu en þeim er þóknanleg og þvílik vinna sem þessir vesalingsmenn hafa lagt í. Einhvern tímann var sagt að eitt besta ráðið í svona drulluslag væri að bera ásakanir fram gegn meintum andstæðingum og láta þá svo um að þræta fyrir álygar. Let þem dínæ it. Er það ekki mottó hægri mannanna í dag.

  Svara
 4. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
  Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson says:

  Þessi fundarlýsing, með hliðsjón af lýsingu Hannesar á Pressunni, finnst mér benda til þess að þetta hafi verið eins og Moskvuréttarhöld nómenklatúrunnar yfir illa séðum sagnfræðingum, in absentia – fyrir utan Hannes sem gerðist boðflenna og æsti Guðmund Jónsson sem enn hangir í 1. bindi trílógíunnar um Laxness. Það getur vart verið hollt.

  Þetta virkar á mann eins og réttarhöld, sem stjórnað er af elítu sem heldur því fram að hún hafi framreitt gallalausa, réttláta og fullkomna söguskoðun. Mér leiðast alltaf hálfpólitískar sagnfræðielítur. Þær eru alltaf að skrifa sama gamla „sannleikann“ eða verja hann fram í rauðan dauðann. Kannski lýsir þetta bara smæð og einangrun sagfræðingasamfélagsins á Íslandi?

  Þór og Hannes eru, eins og ég sé hlutina, að fylla upp í eyður sem bráðvantaði svör við í ritum ýmissa ágætra sagnfræðinga. Gallalaus eru skrifin kannski ekki, en þau varpa ljósi á margt sem aðrir kollegar þeirra gleymdu, kannski vegna þessa að þeir gengu með pólitískt einglyrni.

  Ég hlakka til að sjá hvað vöntun á notkun heimilda í Moskvu færir okkur af vitneskju um hinn raunverulega ætlunarverk og eðli íslenskra kommúnista. Af hverju var hann öðruvísi en annars staðar. Bíð því eftir grein þinni í Skírni. Eðli skjala í Moskvu, t.d. um lítið land eins og Ísland, verða menn einnig að gera sér grein fyrir. Ísland og persónur þaðan vógu ekki mikið á vogaskálum Sovétrússlands.

  Svara
 5. Matthías Ásgeirsson
  Matthías Ásgeirsson says:

  Alveg sjálfsagt.

  Byrja á því að taka fram að ég er algjörlega sammála því sem þú hefur skrifað um þetta mál. Hef lengi haft áhuga á staðfestingarvillunni. Þýddi (eflaust illa) fyrir nokkrum árum pistil um þetta: http://www.vantru.is/2004/05/14/12.30/ (og nú ertu strax farinn að leggja saman tvo og tvo).

  Ég velti fyrir mér, í ljósi greinargerða sem ég hef lesið, hvort vegi þyngra, akademískt (mál)frelsi fræðimanna eða vinnubrögð þar sem fræimaður „leitar einungis að þeim atriðum í heimildum sem geta staðfest það sem hann heldur, en forðast eða lítur framhjá öðrum“ því það „hlýtur að afvegaleiða þá lesendur sem þekkja ekki heimildirnar og sjá því ekki í fljótu bragði gallana á heimildavinnunni“.

  Þetta skrifa ég einungis í ljósi opinberrar aftöku minnar sem verið er að skipuleggja þessa dagana – m.a. með þinni hjálp!

  Svara
 6. jonolafs
  jonolafs says:

  Það er eitt að gagnrýna fræðimann eða kennara fyrir vinnubrögð, framsetningu eða röksemdir, annað að fara fram á að þaggað sé niður í honum eða honum refsað, til dæmis með áminningu eða brottrekstri. Það fyrrnefnda er sjálfsagt og eðlilegt – þótt gagnrýni og deilur sem af henni sprettur geti vissulega verið þreytandi til lengdar. Það síðarnefnda finnst mér hinsvegar krefjast þess að einhverjum hafi verið unnið persónulegt tjón, eða hann eða hún svívirtur með einum eða öðrum hætti. Ég hef aldrei farið fram á að þeim sem eru ósammála mér sé refsað, aðeins áskilið mér rétt til að svara þeim og gagnrýna þá. Það þarf mikið til að ég leiti til dæmis til siðanefndar HÍ. Ég hef ekki gert það jafnvel þótt ákveðnir starfsmenn þeirrar stofnunar hafi í fræðilegum verkum sínum, sem þeir vinna á launum þaðan, fullyrt við lesendur sína að ég afvegaleiði fólk, leyni heimildum og jafnvel að ég segi vísvitandi ósatt!

  Svara
 7. baddi
  baddi says:

  „annað að fara fram á að þaggað sé niður í honum eða honum refsað, til dæmis með áminningu eða brottrekstri.“

  það var aldrei farið fram á þetta. Þú hefur kannski ekki séð öll gögn málsins, en ákveðið að notast við upplýsingar sem þér voru mataðar af öðrum aðilanum til að mynda þér skoðun á málinu?

  Svara
 8. jonolafs
  jonolafs says:

  Kæra fyrir siðanefnd felur í sér kröfu um úrskurð og úrskurði fylgja afleiðingar. Slíkt getur átt rétt á sér í mörgum tilfellum, en það er mikilvægt, finnst mér, að gera greinarmun á henni annarsvegar, og gagnrýni hinsvegar. Með kæru er maður að beita úrræðum til að stöðva þann sem maður kærir, ekki bara að láta í ljós andúð, gagnrýni, gagnrök eða efasemdir.

  Svara
 9. Ásgeir
  Ásgeir says:

  Ég setti inn athugasemd mína áður en þú settir inn þína athugasemd um að kæra fyrir siðanefnd fæli í sér kröfu um úrskurð, svo ég sá það ekki. Ég las þetta út út fyrra kommenti þínu. En gott og vel.

  Hvað finnst þér að fólk eigi að gera, sem ekki er hluti af hinu akademíska samfélagi, þegar málstaður þeirra er afbakaður og dregin upp af þeim algjör skrípamynd í kennslu við Háskóla Íslands, á þann hátt að það er skýlaust brot á siðareglum sem Háskólinn sjálfur hefur sett sér?

  Svara
 10. jonolafs
  jonolafs says:

  Mér finnst að þeir sem telja að brotið sé gegn sér eigi að leita úrræða. Engin spurning. En þá er líka mikilvægt að þeir sem taka við kærum og kvörtunum meðhöndli þær eftir öllum kúnstarinnar reglum. Þeir sem telja á sér brotið verða líka að vera viðbúnir því að aðrir séu þeim ósammála.
  Almennt finnst mér hinsvegar að þegar um er að ræða deilur um framsetningu skoðana, umfjöllun, gagnrýni, háskólakennslu eða rannsóknaniðurstöður þá ætti maður að forðast í lengstu lög að blanda úrskurðarnefndum í málin (siðanefndum eða öðrum).

  Svara
 11. baddi
  baddi says:

  http://www.hi.is/skolinn/sidareglur:

  „3.4 Niðurstaða siðanefndar í máli er bæði rökstudd og afdráttarlaus. Nefndin mælir ekki fyrir um viðurlög við brotum á siðareglum, en tekur afstöðu til alvarleika brotsins og hvort um endurtekið brot hafi verið að ræða.“

  Það var aldrei tilgangurinn að þagga niður í einum eða neinum eða refsa á annan hátt, tilgangurinn var að leiðrétta rangfærslur.

  Svara
 12. jonolafs
  jonolafs says:

  Telji maður einhvern fara með rangt mál má mótmæla honum á opinberum eða öðrum viðeigandi vettvangi. Kæra til siðanefndar er hinsvegar krafa um að sá sem maður taldi fara með rangt mál fái viðeigandi refsingu, orð hans séu dæmd ómerk, úrskurðuð brot við siðareglur eða gott siðferði eða eitthvað í þeim dúr. Þetta er munurinn. Þó að siðanefndin hafi ekki það hlutverk að ákvarða viðurlög, þá fer úrskurður hennar til yfirvalda innan Háskólans sem hafa vald til að beita viðurlögum og ber í rauninni skylda til að gera það. Hafi tilgangurinn verið að leiðrétta það sem þið tölduð vera rangfærslur völduð þið ekki rétta leið.

  Svara
 13. Matthías Ásgeirsson
  Matthías Ásgeirsson says:

  Sæll Jón, takk fyrir greinargóð svör. Ég ætla nú ekki að rökræða við þig hér.

  Það má vel vera að þetta hafi ekki verið rétti vettvangurinn að þínu mati. Ég minni þó á að opinberar samræður félagsins Vantrúar hafa litlu áorkað – þannig eru dæmi um að málefnalegar og hófsamar greinar hafi verið skrifaðar þar sem málflutningur guðfræðinga var gagnrýndur (t.d. BR) en fá dæmi eru um að þeir hafi séð ástæðu til að viðurkenna tilvist þeirra svara.

  En algjörlega óháð því að félagið kaus að nýta þennan kost til að leita réttar síns, þá er það sem veldur mér hugarangri það að málflutningur þinn í þessu máli (hvernig tilteknir menn fjalla um kommúnista) stangast gjörsamlega á við málflutning þinn í bréfi þínu til Siðanefndar HÍ. Þar virðist engu máli skipta að sá sem kvartar telji umfjöllun einhliða og villandi (eins og þú telur gilda um umfjöllun vissra manna um komma), það eina sem skiptir máli er algjört mál- og túlkunarfrelsi fræðimanna.

  Þannig að ég næ ekki að tengja þetta saman. Af hverju gildir ekki algjört mál- og túlkunarfrelsi fræðimanna þegar kemur að umfjöllun hægri manna með agenda um kommúnista, en það gildir þegar kemur að umfjöllun kristinna manna með agenda um trúleysingja?

  Hvað um það, takk fyrir að gefa mér og öðrum kost á að gera athugasemdir hér – við komumst ekkert lengra með þetta mál.

  Svara
 14. Ásgeir
  Ásgeir says:

  Ég næ ekki að skilja þá afstöðu þína að þér finnist að þeim „sem telja að brotið sé gegn sér eigi að leita úrræða“ og að það hafi ekki verið rétt í þessu tilfelli að kæra til Siðanefndar, hvað þá (óbeina) fullyrðingu þína um að Siðanefnd HÍ sé ekki af hinu illa.

  Finnst þér þá að Siðanefndin ætti að vera til, en enginn ætti nokkru sinni að leita til hennar vegna brota á siðareglunum, sem vissulega var gert í þessu tilfelli, á mjög meiðandi hátt, að þeir töldu sem áttu hlut að máli.

  Og svo ég bæti því við, þá er það ekki rétt hjá þér að kæra til Siðanefndar feli í sér kröfu um úrskurð, hvorki almennt, né í þessu tilfelli. Siðanefnd Háskóla Íslands hefur nefnilega aldrei úrskurðar um eitt né neitt, öllum málum sem hefur vísað til hennar hefur verið lokið með sátt, og það var margtreynt í þessu tilfelli.

  Það eina sem var farið fram á var afsökunarbeiðni og loforð um að bæta kennsluna í framtíðinni, að gefnu tilefni.

  Svara
 15. jonolafs
  jonolafs says:

  Ég ætla ekki að teygja lopann heldur, en vil einungis ítreka að vissulega tel ég málflutning ónefndra einstaklinga sem skrifað hafa um kommúnisma villandi, rangan og fræðilega ótækan. Einnig tel ég þá afbaka sjónarmið mín og held að það sé líklegt að það geri þeir í kennslu sinni rétt eins og í skrifum. Mér finnst þetta hinsvegar ekki vera ástæða til að kæra þá fyrir siðanefnd HÍ, fyrir siðanefndum fagfélaga eða öðrum nefndum eða ráðum.

  Svara
 16. Guðgeir Kristmundsson
  Guðgeir Kristmundsson says:

  Áhugavert málefni.
  Forvitinn að vita hver tilgangur úrskurðarnefnda háskólasamfélaga ætti þá að vera ef ekki á að beita honum gegn t.d. sagnfræðiprófessorum sem fara viljandi með sögufölsun?
  Hvaða mál eiga þá heima fyrir úrskurðarnefndum?
  Telurðu úrskurðarnefndir óþarfar í háskólasamfélaginu?

  Svara
 17. jonolafs
  jonolafs says:

  Fyrst, Ásgeir: Það verður hver og einn að meta fyrir sig hvort og hvenær rétt er að kæra til siðanefndar. Það er hinsvegar í mínum huga ljóst að slík kæra er ekki leið til að leiðrétta rangfærslur eða setja fram gagnrýni. Besta leiðin til þess er opinská umræða. Sá sem kærir óskar þar með eftir að tekið sé í taumana. Það getur vel verið að sættir náist í mörgum tilfellum, en það breytir ekki því að kæra til yfirvalds felur alltaf í sér ósk eða kröfu um að þetta yfirvald skerist í leikinn. Kæra er því í vissum skilningi andstæða opinnar umræðu. Þetta finnst mér að þeir sem leggja fram kæru verði að hafa í huga, þeir geta ekki bæði haldið og sleppt.
  Næst, Guðgeir: Ég vona að það gerist aldrei að nokkur siðanefnd hér á landi úrskurði að höfundur rits eða greinar sé „sögufalsari“. Slíkir úrskurðir eru felldir í alræðisríkjum ekki í lýðræðisríkjum. Það getur vel verið að mér eða þér finnist einhver halda fáránlegum hlutum fram og grunum viðkomandi jafnvel um að gera það vitandi að það sem hann/hún er að segja sé rangt. Við slíku held ég að svarið sé ekki kæra heldur einmitt opin umræða.

  Svara
 18. Ásgeir
  Ásgeir says:

  Opin umræða er auðvitað góð og gild en ég skil bara ekki að þú skulir ekki sjá hvernig þessi rök eiga bara alls ekki við í þessu tilfelli.

  Fólk utan Háskólans hefur enga rödd og engan vettvang til að verjast þvílíku sem fór fram í þessari skólastofu aðra en Siðanefnd, sem starfar eftir reglum sem skólinn setti sér sjálfur, reglum sem voru þverbrotnar í þessu tilfelli.

  Ég hef fylgzt vel með þessu máli og verð að segja eins og er, að ég var steinhissa á þér, og mörgum öðrum akademískum starfsmönnum Háskólans, þegar ég sá viðbrögð ykkar. Frá mínu sjónarhorni, og það má vel vera að það sé rangt hjá mér, þá virðist það vera svo að þið hafið bara fengið að heyra eina hlið málsins, og tekið afstöðu eftir það.

  Ég segi þetta ekki til að ráðast á þig, ég vil bara að allir fái að njóta sannmælis, það hefur svo sannarlega ekki gerzt hér.

  Svara
 19. Guðgeir Kristmundsson
  Guðgeir Kristmundsson says:

  Gott og vel.
  Mér finnst áhugavert að ræða þessi mál þar sem eftir hrunið var mikið talað um ábyrgð háskólaakademíunnar; það að auðmenn og hagsmunasamtök gátu „keypt“ sér akademískan stimpil á stefnu sína og gefið því þess vegna meiri vigt.
  Rætt var um að siðareglur, og þá jafnvel einhverskonar úrskurðarnefndir, gætu komið í veg fyrir slíkt í framtíðinni.
  Sögufölsun er kannski illa orðað hjá mér. Köllum það frekar forkastanleg vinnubrögð

  Ræðum þá aðeins þetta sem þú skrifar:
  „Vinnubrögð eins og þau sem Þór stundar í Sovét-Íslandi er einmitt það sem mest ber að varast í öllum rannsóknum. Sagnfræðingur sem leitar einungis að þeim atriðum í heimildum sem geta staðfest það sem hann heldur, en forðast eða lítur framhjá öðrum, hlýtur að afvegaleiða þá lesendur sem þekkja ekki heimildirnar og sjá því ekki í fljótu bragði gallana á heimildavinnunni. Slíkt er því ekki betra en ritstuldur – og kannski verra.“

  Svo ég spyrji aftur.
  Telurðu úrskurðarnefndir óþarfar í háskólasamfélaginu?
  Ef ekki, hvers eðlis þyrfti atvikið að vera til þess að ganga til þeirrar nefndar?

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *