Zadig eða örlögin, Voltaire. Hólmgrímur Heiðreksson íslenskaði, Ásdís Rósa Magnúsdóttir ritaði inngang. Hið íslenska bókmenntafélag, 2007, 190 bls.

Voltaire, einn af frægustu hugsuðum frönsku upplýsingarinnar, er ólíkt flestum hugsuðum og heimspekingum fyrri tíma einkum þekktur fyrir sögur sem hann skrifaði til að skemmta fólki, þó að þær hafi raunar einnig átt að fá það til að hugsa. Birtíngur, sem Halldór Laxness þýddi á íslensku fyrir mörgum árum, er oft talin beittust af þessum sögum Voltaires, en Zadig eða örlögin hefur marga sömu kosti og er ekki síður beitt samfélags- og heimspekiádeila en Birtíngur.
Þýðing Hólmgríms Heiðrekssonar er lipur og þjál og enga missmíði að sjá á henni, en henni er fylgt úr hlaði með ágætum formála Ásdísar Rósu Magnúsdóttur sem setur söguna í samhengi við annað höfundarverk Voltaires og samtíma sögunnar. Zadig er skrifuð í austurlenskum stíl, sem var mjög í tísku í Frakklandi á 18. öld. Sögur og ævintýri sem skrifaðar voru í þessum anda héldu vissum frásagnarblæ og andrúmslofti austurlenskra ævintýra á borð við Þúsund og eina nótt, en sköpuðu einnig tímalausa veröld sem reynist Voltaire frjór jarðvegur írónískrar og fyndinnar þjóðfélagsádeilu. Það er reyndar merkilegt hve vel húmorinn í sögunni stenst tímans tönn ekki síst leikur Voltaires að frásagnarformum og dillum samtíma síns sem hann hæðist að með því að ýkja þau og færa í stílinn.
Sagan af Zadig fjallar um ungan mann vel af Guði gerðan, sem fær þó að reyna hve fallvölt gæfan getur reynst. Hann er hin fullkomna mannvera, skarar fram úr á öllum sviðum og þar að auki hvers manns hugljúfi en þrátt fyrir það verða margir til að leggja snörur fyrir hann svo hann missir stöðugt það sem honum er kærast úr greipum. Samt fer allt vel að lokum. Sagan hefur þannig visst uppeldishlutverk dæmigert fyrir bókmenntir 18. aldar. Söguhetjan er reynslunni ríkari og það á lesandinn einnig að vera. Flest rit af þessu tagi sem samin voru um svipað leyti og Zadig og í svipuðum anda verka fremur þreytandi á nútímalesanda, en það gerir Zadig alls ekki.
Þrátt fyrir læsilegan og fróðlegan formála Ásdísar Rósu Magnúsdóttur, má þó finna að því að ekkert er minnst á fyrri þýðingu á Zadig, eða hluta sögunnar, sem gerð var ekki löngu eftir að bókin kom út á frummálinu. Þýðandinn var Jón Oddsson Hjaltalín, en þýðing hans var gefin fyrst út ásamt safni af öðrum verkum hans hjá Háskólaútgáfunni í fyrra. Það hefði verið gagnlegt að fá að vita meira um þá þýðingu tilurð hennar og örlög.
Birt í Morgunblaðinu í júlí 2007

1 reply

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *