Fátt hefur jafn jákvæð áhrif á sálarlíf góðra manna og iðrandi syndari. Fátt er jafn gefandi og tækifæri til að taka þeim opnum örmum sem villst hafa af leið, en sjá svo að sér, viðurkenna mistök sín og biðja þá afsökunar er kunna að hafa beðið tjón vegna gerða þeirra.

Kannski einhverjir hafi fellt tár yfir hinum auðmjúka Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni sem nú hefur með hjálp Hæstaréttar gert sér grein fyrir afglöpum sínum við ritun fyrsta bindis ævisögu Halldórs Laxness. Fyrir fáeinum vikum lagði Hannes spilin á borðið og játaði allt í viðtali í Kastljósþætti sjónvarpsins, bað alla hlutaðeigandi afsökunar og hét á velviljaða einstaklinga sem áður hafa gagnrýnt hann að styðja sig við endurritun alls fyrsta bindis ævisögunnar sem hann mun ætla að takast á hendur í yfirbótarskyni.

Hannes ritaði ævisögu Halldórs Laxness í þremur bindum sem út komu haustin 2003, 2004 og 2005. Fyrsta bindið, sem tilnefnt var til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna, var skömmu eftir tilnefninguna „afhjúpað“ þar sem nokkrir gagnrýnendur bentu á að texti verksins væri að miklu leyti uppsuða úr sjálfsævisögulegum skrifum Halldórs sjálfs auk þess sem nýting fræðilegra skrifa um nóbelsskáldið væri frjálsleg í meira lagi. Hannes svaraði gagnrýnendum sínum fullum hálsi og stuðningsmenn hans fundu upp orðið „fótnótufræðingur“ til að leggja áherslu á smásmygli og forpokun gagnrýnendanna.

En þegar maður hefur þurrkað sér um augun og ræskt sig er erfitt að forðast undrun og jafnvel aðdáun yfir þeirri miklu list sem jafnan einkennir málflutning Hannesar. Á meðan hann neitaði því að klúðrið væri klúður og kallaði aðferð sína „allsherjartilvísun“ var eins og hann væri hjartahreinn sannleiksleitandi á flótta undan fláráðum öfundarmönnum. Nú, þegar klúðrið er kallað sínu rétta nafni og vörusvikin viðurkennd, tekst honum enn að haga máli sínu þannig að allt gott fólk snýst á sveif með honum. Það kemur í ljós að hann gerði mistök. Hann las verk bókmenntafræðinga vandlega áður en hann fór að skrifa ævisöguna en misskildi leiðbeiningar þeirra. Hann ætlaði að vinna eins og flottasti bókmenntafræðingur en missteig sig þá svona herfilega.

Fáir spunameistarar komast með tærnar þar sem Hannes hefur hælana. Spunameistarar þurfa alltaf að vera að hagræða sannleikanum því að þeir vita að annars er líklegt að illa fari. Spunameistari sem getur viðurkennt klúður, vanþekkingu, vinnusvik og ritstuld og verið áfram riddari sannleikans hefur náð yfirburðasnilli í spuna sem erfitt er að sjá að nokkur geti jafnað. Al Gore, sem fer um heiminn og reynir að sannfæra fólk um að rétt sé að hafa áhyggjur af loftslagsmálum fékk uppnefnið loddari í þætti hjá vinsælasta sjónvarpsmanni landsins í vikunni eftir játningu Hannesar. Sjónvarpsmaðurinn heldur nefnilega að varnaðarorð Gores séu ómerkilegt skrum sem hylur ósvífin pólitísk markmið. En Al Gore er, hvernig sem á það er litið, hreinn amatör við hliðina á Hannesi sem heldur samúð fólksins jafnvel á meðan hann viðurkennir, auðmjúkur og iðrandi, að allt sem hann er sakaður um sé satt.

Þessi frammistaða verðskuldar eitthvað meira, einhvern nýjan frama. Hannes Hólmsteinn Gissurarson á skilið að verða leiðtogi. Kannski forsetaembættið væri við hæfi?
Birt í Lesbók Morgunblaðsins 26. apríl 2008

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *