Aluminiumindustri ud af Island
Í síðustu viku vakti nemandi minn athygli mína og samnemenda sinna á frétt um að unnið hefði verið spellvirki á íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn og á byggingu þess letruð orðin „Aluminiumindustri ud af Island“. Visir.is þýddi setninguna fyrir lesendur sína og bætti við þeirri skarplegu ályktun að líklega væru álversandstæðingar að verki. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Mel-rakki@visir.is lét innan tveggja tíma það álit sitt á atburðunum í ljós að hér væri „Seifing Æsland“ á ferðinni enda væri „þetta lið er líklegt til að gera allt sem það getur til að ógna lýðræðinu hér“.
Uppúr hádegi var fréttinni fylgt eftir með ítarlegri upplýsingum um rannsókn málsins og í kjölfarið létu þrír lesendur skoðanir sínar í ljós. Einn reyndist sammála mel-rakka um að hér væri fólk á ferðinni sem ógnað gæti lýðræði á Íslandi og væri auk þess iðjuleysingjar. Tveir mölduðu í móinn og einn benti á það væri ekki nauðsynlega svo að einungis iðjuleysingjum gæti þótt svo „vænt um landið“ að þeir freistuðust til að láta það í ljós með þessum hætti.
Fréttin og viðbrögðin við henni eru merkilega fyrirsegjanleg og það er engu líkara en í þessum stuttu fréttum og fáu yfirlýsingum lesenda um hana birtist öll flóra umræðunnar um mótmæli, mótmælahreyfingar og mótmælakúltúr sem hægt er að finna á landinu. Í grundvallaratriðum má segja að tvö sjónarmið komi hér fram. Samkvæmt því fyrra á að leiða mótmæli hjá sér og líta svo á að þau séu brölt fólks sem hefur hvorki rétt til að á það sé hlustað né nokkurt erindi á opinberan vettvang. Hér er þetta fólk nefnt iðjuleysingjar, en margar aðrar nafnagiftir gegna sama hlutverki. Sjónvarpsmaðurinn greindi og geðþekki, Egill Helgason, kallar félaga í Saving Iceland til dæmis „trúða“ til að undirstrika að það sem þetta fólk hefur að segja sé ekki þess virði að á það sé hlustað.
Samkvæmt síðara sjónarmiðinu eigum við að taka harðar á því sem þetta fólk segir og gerir og telja það hryðjuverkamenn sem „ógna lýðræðinu“. Það er kannski vandséð að málningarslettur, veggjakrot og minniháttar truflanir og spellvirki ógni lýðræðinu út af fyrir sig, en hugmyndin er væntanlega sú að um stigmögnun geti verið að ræða. Fyrst er slett málningu, svo einhverju verra og á endanum koma sprengjurnar. Stigmögnunarhugmyndin er afar rótgróin í íslenskum goðsögnum um mótmælendur. Fyrir mörgum árum ræddi ég við samstarfsmann um aðgerðir hvalfriðunarsinna sem hann vildi mæta af fyllstu hörku. Þegar hann var spurður hversvegna var svarið þetta: Jú, ef við stöðvum þetta lið ekki nú, þá heldur það áfram og tekst á endanum að koma í veg fyrir að við getum veitt þorsk.
Semsagt: Mótmælendur eru annaðhvort iðjuleysingjar/trúðar eða hryðjuverkamenn.
Hversvegna ætli þolmörkin gagnvart mótmælum liggi svona lágt? Er þetta eitthvað séríslenskt? Eða eru viðbrögðin hér merki um þversögn lýðræðisins: Óhlýðni á borð við þá sem birtist í mótmælaaðgerðum ásamt minniháttar truflunum og spellvirkjum fer út fyrir þröngt skilgreindar og afmarkaðar leiðir „umræðnanna“ og þá er aðeins um tvennt að ræða, berja hana niður eða leiða hana hjá sér.
Hvað með að hlusta og spyrja?

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *