Giorgio Agamben hefur í gegnum tíðina skrifað skrítna hluti um fangabúðir Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni og merkingu þeirra fyrir okkar samtíma. Hann bendir stöðugt á og varar við valdsækni yfirvalda og ráðandi afla – veruleiki fangabúðanna er aldrei jafn langt undan og hin „heilbrigða“ skynsemi telur sér trú um. Bókin sem ég er að lesa á milli þess sem ég geri allt sem ég þarf að vera að gera og laumast í twitterlopann sem teygður er af iphone fréttamönnunum úr Landsdómi, heitir „Það sem eftir er af Auschwitz“. Auschwitz er í augum Agambens rétt eins og Primos Levi ekki nafn á stað og starfsemi sem hrottar komu á fót og héldu gangandi þangað til þeir voru stöðvaðir af boðberum friðar og frelsis, heldur einn hluti samtímaveruleika sem hættir ekki eftir að hann er orðinn til. Veruleikinn er hluti af Auschwitz og Auschwitz af honum.

Agamben talar um sekt og skömm í ljósi þeirrar lífsreynslu sem fangabúðirnar sköpuðu milljónum manna. Skömm er ekki sama og sekt. Hún er ekki tilkomin vegna atvika eða aðstæðna þar sem hegðun manns var önnur en hún átti að vera, eða önnur en sú sem hefði skilað árangri. Grunnur hennar er dýpri og myrkari. Í formála bókarinnar segir hann: „einn af lærdómum Auschwitz er hve óendanlega miklu erfiðara það er að skilja anda venjulegrar manneskju heldur en það er að skilja anda Spinoza eða Dantes“. Hvers vegna eru menn eins og þeir eru? Hvers vegna tala menn eins og þeir gera og hvað fær þá til að lýsa sjálfum sér og athöfnum sínum eins og þeir gera?

Þið fyrirgefið, en mér hefur aldrei gengið vel að lesa bækur öðruvísi en að tengja þær við það sem er að gerast í kringum mig og hringsólið fram og til baka af tölvunni í „Það sem eftir er af Auschwitz“ og þaðan í Landsdóm og svo til baka losar mann ekki við þessa tilfinningu að Agamben sé að segja eitthvað djúpt um skömm þá mannlegu dýpt sem í henni felst og reisnina sem í henni getur birst.

Andstæða skammarinnar – andstæða þess að geta skammast sín – er lágkúra. Lágkúra og skömm. Þetta eru andstæðurnar. Í samhengi fangabúðanna var það Hannah Arendt sem dró lágkúruna fram þegar hún lýsti Adolf Eichmann og svörum hans við spurningum í réttarsal í Jerúsalem árið 1961. Uppgötvunin sem Hannah Arendt gerði var einfaldlega að hið illa sjálft, þegar það birtist í öllu sínu veldi – þegar búið er að fanga það og loka það inni í búri – reynist ekki vera neitt annað en lágkúra þess að þykjast vinna sín verk af samviskusemi án þess að hugsa um eða skilja afleiðingar þeirra. Myndin af Eichmann sem sat eftir hjá Hönnuh Arendt var mynd embættismanns sem hafði, þannig séð, ekkert á móti gyðingum, ekki frekar en hjólreiðamönnum eða einkariturum. Hann skammaðist sín ekki fyrir það sem hann hafði gert eða fyrir það hver hann var, enda hafði hann, eftir því sem hann sagði, unnið sín störf af samviskusemi.

Landsdómur er enn ein myndin af hruninu og enn einn flöturinn á stjórnmálamönnum, embættismönnum og kaupsýslumönnum Íslands. Vonbrigðin með hin yfirborðslegu og óáhugaverðu samtöl sem fara fram í Landsdómi þessa dagana eru greinileg hjá þeim sem á hlýða. En bækur Agamben geta hjálpað okkur að skilja hversvegna þetta hversdagslega, grunna og útjaskaða samtal ætti að vera uppspretta enn einnar uppgötvunarinnar um hrunið. Það er birtingarmynd lágkúrunnar – andstæðu skammarinnar. Það er samtal þar sem vitnið eða sakborningurinn hefur talið sér trú um að með því að byggja upp frásögn heilbrigðrar skynsemi, þar sem allar gerðir hans voru eðlilegar, sjálfsagðar, jafnvel nauðsynlegar við tilteknar aðstæður og að það eina sem hann eða hún hafi gert hafi verið að bregðast við óviðráðanlegum aðstæðum, með þessu sleppi hann óskaddaður frá öllu saman.

Var hægt að búast við einhverju öðru? Er hægt að búast við því að þeir sem björguðu eigin fjármunum undan hinu óhjávæmilega hruni um leið og þeir sögðu öðrum, þar á meðal eigin viðskiptavinum og kjósendum að allt væri í besta lagi, haldi öðru fram en að þeir hafi unnið sín störf af ítrustu samviskusemi og gert sitt besta? Er hægt að búast við öðru en að langvarandi vitnaleiðslur yfir stórum hóp fólks sem er í sameiningu búið að búa til hentugan vef skilnings á veruleikanum birti annað en lágkúru þess að afneita skömminni – vaða frekar í salinn dreissugur og halda því fram að allur málatilbúnaðurinn sé eitt stórt mannréttindabrot?

Eichmann var venjulegur maður, enginn stór hugsuður – enginn Spinoza eða Dante. Ekki frekar en allir þeir sem sitja á spjalli við Landsdóm. Í dag eru þeir allir Eichmann.

Birt á vefnum Subbukallar og sóðarit 9. mars 2012.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *