(Erindi á Hugvísindaþingi, 6. mars 2010)

Í janúar árið 2009 skapaðist byltingarástand í Reykjavík. Götuvígi voru reist, varðeldar kveiktir á einu aðaltorgi borgarinnar og fyrir framan þjóðleikhús landsins. Múgur og margmenni skálmaði um göturnar hrópaði vígorð, barði bumbur og málmhluti. Lögreglan þurfti að margefla alla gæslu, verja opinberar byggingar, veita stjórnmálamönnum og embættismönnum skjól og hafa hemil á mótmælendum sem höfðu sig mest í frammi. Þegar þetta ástand hafði varað í nokkra daga hrikti í stjórnkerfi landsins, ríkisstjórnin sagði af sér og á fáeinum dögum fékk fólkið öllum helstu kröfum sínum framgengt.

Var þetta bylting? Það er kannski rétt að byrja á að setja ýmsa fyrirvara við spurninguna sjálfa. Svarið við henni er nefnilega dæmt til að vera já og nei á sama tíma. Auðvitað var „búsáhaldabyltingin“ svokallaða í einum skilningi bylting, en í öðrum skilningi ekki. Maður ætti því kannski að hugsa spurninguna á annan hátt og spyrja til dæmis frekar: Í hvaða skilningi var búsáhaldabyltingin bylting, því í einhverjum skilningi var hún það. Þá má spyrja áfram, til dæmis þeirrar spurningar hvort hún hafi að því leyti sem hún var bylting, heppnast eða misheppnast.

Þar sem tíminn er naumur ætla ég ekki að velta vöngum yfir spurningunni um hverskonar bylting búsáhaldabyltingin hafi verið. Ég ætla að gerast svo djarfur að fullyrða einfaldlega að hún hafi verið bylting í þrennum skilningi:

Hún var aðgerð sem hafði skýr markmið (koma ríkisstjórninni frá völdum og nokkrum lykilembættismönnum úr starfi) og þessum markmiðum var náð.

Þó beinir þátttakendur í mótmælunum væru aldrei fleiri en fáein þúsund, náðu mótmælin langt út fyrir hóp þeirra sem alla jafna taka þátt í mótmælaaðgerðum. Það er líka ljóst að miklu stærri hópur fylgdist með af áhuga og deildi sjónarmiðum með þeim sem tóku þátt í mótmælunum.

Mótmælin beindust ekki aðeins að ríkisstjórn og embættismönnum heldur að kerfinu sem slíku og þeim fylgdi hávær krafa um umbætur í stjórnmálum og stjórnsýslu. Þetta var krafan sem raunverulega sameinaði þátttakendurna.

Ég ætla þannig að beina sjónum að þremur þáttum búsáhaldabyltingarinnar: Aðgerðinni sjálfri, þátttakendunum og loks kröfunni sem gæddi atburðarásina heildarsýn. Ég held því fram að búsáhaldabyltingin hafi heppnast í þeim skilningi að hún var stórmerkileg aðgerð og hafði skýr markmið sem náðust jafnvel þó að hún hafi ekki átt beina eða skýra leiðtoga. Hún heppnaðist líka að því leyti að hún höfðaði sterkt til fólksins í landinu og myndaði þar með raunverulegt byltingarandrúmsloft. Ég held því hinsvegar fram að hún hafi (þegar hingað er komið sögu amk) misheppnast í þeim skilningi að engin raunveruleg stemmning hefur skapast um þær umbótakröfur sem mótuðu heildarhugsun hennar og réttlættu aðgerðina öðru fremur í augum margra.

Hver er ástæðan fyrir þessu? Það er spurningin sem ég hef raunverulegan áhuga á að svara. Sú tilgáta sem ég ætla að reifa hér er að umræðuhefð íslenskra stjórnmála sé meginástæðan fyrir því að krafa hinnar svokölluðu búsáhaldabyltingar um róttækar umbætur hafi einhvernveginn gufað upp. Vandinn sem við er að glíma er ekki aðeins stjórnmála- eða stjórnkerfisvandi, heldur varðar hann orðræðu íslenskra stjórnmála í heild sinni. Það virðist mjög erfitt að koma róttækri sjálfsskoðun og róttæku endurmati fyrir innan íslenskra stjórnmála. Umræðan leitar burt og leitar að óvini eða ógn. Tvennt hefur að mínu áliti fyrst og fremst orðið til þess að leysa kröfuna um róttækar umbætur upp í hálfgerða vitleysu:

Strax eftir að öllum meginmarkmiðum búsáhaldabyltingarinnar hafði verið náð breyttist karakter hinnar opinberu umræðu. Þetta varð sérstaklega áberandi eftir að pólitísk umræða í landinu var farin að snúast að verulegu leyti um Icesave. Í stað þess að orðræða umbóta og endurreisnar réði í umræðunni, urðu Íslendingar fórnarlömb. Menn börmuðu sér yfir því að ranglæti heimsins væri steypt yfir Íslendinga með því að láta þjóðina bera ábyrgð á þessari skuld og grátkór hófst handa við að útskýra fyrir þjóðinni og öllum heiminum að Íslendingar gætu ekki borgað. Ábyrgð á skuldinni við Breta og Hollendinga myndi steypa þjóðinni í ógæfu. Við skulum kalla þessa ástæðu Kveinstafi fórnarlambsins.

Skilningur manna á atburðum hrunsins hélt áfram að vera mjög misjafn. Á meðan ný ríkisstjórn tók þann pól í hæðina að þjóðin þyrfti að axla ábyrgð sína til að endurreisa orðspor sitt í hinum stóra heimi, óx öðrum skilningi á stöðunni stöðugt ásmegin. Hann er sá að Íslendingar þurfi ekki að líta svo á að þeir beri ábyrgð á því hvernig fór. Vissulega hafi ýmsir vafasamir karakterar slæðst inn í viðskipti og fjármál. Þeir heita (hinu nú niðrandi nafni) útrásarvíkingar. Þeim þarf að refsa, en að öðru leyti þurfum við að endurhugsa afstöðu okkar gagnvart umheiminum frekar en að líta í eigin barm. Við skulum kalla þessa ástæðu Þjóðvörnina.

Þjóðvörnin

Kvikmyndin Guð blessi Ísland sem sýnd var réttu ári eftir að þáverandi forsætisráðherra lét þessi orð falla í lok ávarps síns til þjóðarinnar, vakti viðbrögð sem í heild sinni er líklega eðlilegast að kalla fjandsamleg. Algengustu viðbrögðin voru að myndin „segði ekkert nýtt“ eða gerði enga tilraun til að skýra, greina eða setja í samhengi þá atburði sem hún þó fjallaði um, það er að segja hrunið og eftirmála þess. Ennfremur virtist mörgum þykja undarlegt og jafnvel óviðurkvæmilegt að ákveðnir einstaklingar voru áberandi í myndinni sem íslenskum áhorfendum þótti tæpast geta talist dæmigerðir fulltrúar almennings eða þjóðarinnar.

Það má kannski draga gagnrýnina saman og skýra hana um leið með því að íslensku áhorfendum hafi þótt hún „gefa ranga mynd“ af atburðunum og ástæðum þeirra. Kvikmyndagerðarmaðurinn hefði átt að velja fulltrúana af kostgæfni og í þeim tilgangi að sýna „venjulegt“ fólk sem undir venjulegum kringumstæðum væri hvorki nálægt mótmælum né í vandræðum. Það má geta sér til um að þessi viðbrögð ráðist að einhverju leyti af þeim væntingum íslenskra áhorfenda að íslenskur leikstjóri hljóti einhvern veginn að túlka málstað Íslendinga gagnvart umheiminum. Þar sem kvikmyndin er talin alþjóðlegur miðill, er allt sem fram kemur í kvikmynd sett í það samhengi. Flestir gagnrýnendur myndarinnar virðast hafa talið að hún skýrði ekkert fyrir áhorfendum, sýndi ekki einhvern málstað sem auðvelt væri að skilja og verja.

Það er hinsvegar einfaldara að sjá myndina alls ekki í þessu ljósi íslenskrar afurðar. Helgi Felixson, sem gerði myndina, beitir einfaldlega þeirri tækni að fylgja eftir persónum og söguþráðum sem atburðirnir setja í forgrunn hverju sinni. Þannig skilur myndin eftir sérkennilega eyðilega mynd af Íslandi árið 2009: Það er land sem velgengnin hefur yfirgefið. Allt í einu er brugðið nýju og óþægilega köldu ljósi á fólk, umhverfi, daglegt líf og svo framvegis. Þeir sem birtast í myndinni eru einkennilega umkomulausir. Ég held að viðbrögðin við Guð blessi Ísland segi okkur lítið eða ekkert um myndina Guð blessi Ísland, en heilmikið um íslenskt hugarástand og þá kappsfullu þjóðvörn sem  birtist í þeim.

Hugarfar þjóðvarnarinnar kemur þó kannski sterkast fram í bókum Styrmis Gunnarssonar (Umsátur) og Einars Más Guðmundssonar (Hvíta bókin) sem komu út með nokkurra mánaða millibili síðastliðið ár. Það kemur líka fram í margvíslegum samblæstri þeirra sem eru yst til hægri og yst til vinstri: Ögmundur Jónasson lofar skrif Styrmis Gunnarssonar í málgagni íslenskra íhaldsmanna, Þjóðmálum; Birgitta Jónsdóttir, Hreyfingunni og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins eru samherjar, Morgunblaðið hælir Lilju Mósesdóttur á hvert reipi og svo framvegis og svo framvegis. Ætli Ögmundi Jónassyni, Lilju Mósesdóttur og Birgittu Jónsdóttur hefði þótt það líkleg forspá fyrir ári að helstu aðdáendur þeirra yrði að finna í innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins?

Það er alltaf merki um að loft sé lævi blandið þegar eindregnir vinstri menn og eindregnir hægri menn virðast ná saman. Þannig er ástandið nú og hin sterku tengsl hugsunar og röksemda milli bóka Einars Más og Styrmis undirstrika þetta. Báðir eru þjóðvarnarmenn þótt viðhorf þeirra séu ekki nákvæmlega hin sömu. Einar leggur meiri áherslu á heimskapítalismann og hvernig samsæri auðmannanna hafi snúist upp í alþjóðlegt samsæri gegn fullveldi Íslands:

„Hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við í stöðu beiningamannsins. Íslenskir auðmenn hafa knésett okkur en koma okkur um leið upp í fangið á öðrum auðmönnum færa okkur á silfurfati upp í hendurnar á þeim sömu og heyja stríð um auðlindir annarra þjóða. Í þessu samhengi verðum við að spyrja um fullveldið. Er það til? Skiptir það máli? Hvernig munu þeir fara með landið okkar? Hvernig munu þeir fara með náttúruna? Börnin okkar og barnabörnin munu kikna undan byrðum alþjóðasmfélagsins sem miðast ekki við neitt annað en að halda heiminum í sínum óréttlátu böndum. Með allri sinni misskiptingu, öllum sínum umhverfisslysum. Vill enginn staldra við og spyrja: er þetta þess virði?“ (EMG bls. 86).

Styrmir spyr hinsvegar hverjir séu vinir okkar og kemst að því að þá megi þekkja á viðbrögðum við niðurlægingu Íslands. Hann segir tíma hinna þjóðlegu gilda runnin upp á Íslandi og telur að málsvara þeirra sé að finna meðal Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna (bls. 243). Endurmat okkar á stöðunni eftir hrunið felst ekki síst í að horfast í augu við og haga okkur sem smáþjóð, og það merkir að vini þarf að velja af kostgæfni:

„Bitur reynsla af framkomu Svía og Dana í Icesave málinu innan veggja alþjóðlegra stofnana gerir það að verkum að við munum seint treysta þessum frændþjóðum fyrir að gæta hagsmuna okkar innan ESB … Við eigum að stórauka samskipti okkar við Þýskaland og byggja á því, að þær sterku tilfinningar sem Þjóðverjar bera í brjósti til Íslands og íslenskrar menningararfleifðar tryggi  okkur öflugan talsmann og bakhjarl í samskiptum okkar við Evrópusambandið í framtíðinni …það skiptir miklu máli að eiga góð samskipti við Bandaríkin … Við eigum engar óuppgerðar sakir við Rússa … Rússar reyndust okkur vel þegar Bretar settu löndunarbann á íslenskan fisk árið 1952 .. Kínverjar hafa sýnt okkur ótrúlega mikinn pólitískan áhuga …Við erum smáþjóð og eigum að koma fram sem slík“ (SG bls. 297-299).

Málstaður þjóðvarnarinnar felst þannig í því að setja hrunið og afleiðingar þess í samhengi hnattvæðingar annarsvegar og heimsborgarahyggju hinsvegar. Í stað þess að hugsa um Ísland sem venjulegan þátttakanda í alþjóðlegu samfélagi, að vísu mjög smáan, en þó fyrst og fremst ríki sem hefur áhuga á að hér gildi nokkurn veginn sömu lögmál og í nágrannaríkjunum er sérstaðan undirstrikuð. Samkvæmt Einari eigum við að snúa baki við alþjóðasamfélaginu (hugtakið meira að segja notað hér í niðrandi merkingu), samkvæmt Styrmi eigum við að halda úti takmörkuðum samskiptum við aðrar þjóðir, ekki gera meira en það sem nauðsynlegt er til að tryggja hagsmuni okkar.

Þjóðvarnarorðræðan sem nú er svo áberandi er ekki afsprengi hinnar dæmigerðu fullveldisumræðu sem alltaf loðir við íslenska pólitík. Hún gengur lengra. Hún jaðrar við einangrunarhyggju og það sem er kannski merkilegra hún setur umbætur heima fyrir í samhengi þjóðlegra gilda frekar en alþjóðlegra hugmyndastrauma. Hún á sér vafalaust rætur í þjóðernisorðræðu 19. aldarinnar, en í samtímanum eru mögulegar afleiðingar hennar að mínu mati fyrst og fremst þær að skyggja á eða hindra að hægt sé að takast á við hin raunverulegu vandamál í íslenskri stjórnsýslu og pólitík. Hún er  þar með ein af skýringum þess að krafan um umbætur hefur steinrunnið í óþægilega kaldri dagsbirtu timburmannanna.

Kveinstafir fórnarlambsins

Þegar reynt er að móta stefnu og finna leiðir til að reisa landið við eftir hrunið vaknar sú spurning óhjákvæmilega hvernig rétt sé að skilgreina hrunið sjálft og ástæður þess. Því hefur verið haldið fram að greining og mat á hruninu og þeim atburðum sem fóru á undan því og eftir verði að bíða síðari tíma. Atburðirnir séu og dramatískir, tilfinningarnar of miklar og hlutdrægnin of mikil til þess að hægt sé með góðu móti að fella dóma. Því hefur einnig verið haldið fram að nauðsynlegt sé að „strik sé dregið í sandinn“ eins og það er kallað, það er að þorri fólks hætti að velta sér of mikið upp úr hruninu, láti rannsóknarnefndir og stofnanir ríkisins vinna sitt verk, finna hina seku og refsa þeim.

En ákveðinn skilningur á atburðum verður til hvort sem sá skilningur er á einhvern hátt afleiðing tilrauna til að greina atburðina með röklegum eða kerfisbundnum hætti, eða einfaldlega sá skilningur sem verður viðtekinn smátt og smátt án beinna tilrauna til greiningar. Rannsóknaskýrslan, sem vonandi kemur út einhvern daginn, mun væntanlega móta skilning á hruninu að einhverju marki, en hingað til hefur umræðan mótast með bloggumræðum og í amk níu bókum sem nú þegar eru komnar út um hrunið, aðdraganda þess og eftirmála. Það sem hefur gerst undanfarnar vikur er að ein rödd hefur orðið langmest áberandi og það mætti kannski segja að hún ráði ferðinni nú. Það er röddin sem leggur aðaláherslu á ranglætið sem fólgið sé í því að láta Íslendinga borga Icesave skuldina eins og hverja aðra þjóðarskuld. Það er þessi rödd sem ég vil kenna við kveinstafi fórnarlambsins.

Kveinstafaorðræðan hefur ýtt til hliðar heilbrigðum spurningum og efasemdum um íslensk stjórnmál og stjórnsýslu. Það hefur meira að segja borið á því, sérstaklega í einum fjölmiðli, að haldið sé fram að þeir sem ekki fallast á þá túlkun að Íslendingar beri ekki ábyrgð á Icesave séu þar með að vinna föðurlandi sínu tjón. Kveinstafirnir og þjóðvörnin fara þannig saman að vissu marki: Það er að segja um leið og aðalatriðið er að fallast ekki á túlkun annarra þjóða á hverjar skuldbindingar Íslendinga hafi verið, gerum við Iceasave í rauninni að einskonar þjóðarstolti: Þetta er dálítið öfugsnúið. Um leið og Íslendingar hafna ábyrgð af Icesave að einhverju eða öllu leyti, tengja þeir Icesave líka við Ísland með miklu sterkari hætti en annars hefði verið. Í stað þess að við einfaldlega semjum og bítum það súra epli að standa upp með skuldir sem erfitt getur reynst að greiða, höfum við nú komið því svo fyrir að um langan aldur verður Icesave nátengt ímynd Íslands. Þegar fréttaflutningur um Ísland vikum og mánuðum saman snýst einvörðungu um Icesave skuld Íslendinga og að þeir neiti að borga hana, er hætt við að ennþá erfiðara verði að hreinsa af sér slyðruorð hins fallna banka. Þó að ég sé enginn ímyndarsérfræðingur grunar mig að þetta geti haft hrikalegan aukakostnað í för með sér. Þetta er svona dálítð eins og maðurinn sem var stolið frá og fékk í kjölfarið viðurnefnið þjófur. Ætli einhver geti metið kostnaðinn af þessu ímyndarklúðri?

En þetta er reyndar ekki vandinn sem ég hef áhyggjur af hér, heldur sá að með því að beina allri athyglinni að hinni ósanngjörnu meðferð sem Íslendingar hafi fengið hjá öðrum þjóðum, er komið í veg fyrir eðlilega gagnrýna umræðu heima fyrir. Þetta er klassískur vandi: Sameiginlegur óvinur þjónar alltaf hagsmunum þess sem vill beina athyglinni frá eigin vandamálum og að einhverju öðru.

Niðurstaða

Er þetta ástand sem ég hef verið að lýsa háskalegt? Já, ég held að svo sé. Eins og ég nefndi áðan erum við í ástandi óvæntrar samstöðu, þegar hópar sem venjulega eru svarnir andstæðingar, eru farnir að sjá hagsmunabandalag sitt sem hentuga leið til að hafa áhrif og þegar þeir sjá að ákveðin gildi, til dæmis þjóðleg gildi, eru eitthvað sem þeir geta sameinast um. Þjóðernishyggja er, þegar öllu er á botninn hvolft, möguleg hvort heldur er til hægri eða vinstri. Athyglisverðasta birtingarform þessa bandalags er umræðan um atkvæðagreiðsluna sem fram fer í dag, laugardaginn 6. mars. Það er augljóst, þegar horft er á málið út frá vestrænum lýðræðissjónarmiðum, sem þróast hafa í hinum frjálsa heimi undanfarna áratugi, að atkvæðagreiðslan í dag er óþörf. Ástæðan er mjög einföld, það breytir engu um málefnið hver niðurstaðan verður. Þar sem nú þegar hefur verið lagður fram samningur sem er betri en sá sem ríkisábyrgðin nær til, er sá samningur í raun úr sögunni. Ef svo ólíklega vildi til að meirihluti þjóðarinnar tæki sig saman um að greiða atkvæði með lögunum um Icesave, hlytu stjórnvöld eigi að síður að gera nýjan samning sem nýtt frumvarp þyrfti að leggja fram um. Ef meirihluti þjóðarinnar fellir samninginn, gerist það sama. Það er í þessum skilningi sem atkvæðagreiðslan er marklaus: Niðurstaða hennar hefur engin áhrif á lausn þess máls sem atkvæði eru greidd um.

Þar sem þetta liggur ljóst fyrir hafa stuðningsmenn þjóðaratkvæðgreiðslunnar bent á að jafnvel þó að niðurstaðan breyti engu um hvað næst gerist í málinu, þá muni ákveðin niðurstaða (til dæmis sú að Íslendingar flykkist á kjörstað og greiði atkvæði gegn lagafrumvarpinu) hafa margvísleg önnur heppileg áhrif. Þessi áhrif gætu verið þau að bæta samningsstöðu Íslands, sýna umheiminum að Íslendingar láta ekki valta yfir sig, gefa skít í heimskapítalismann, lýsa því yfir að við borgum ekki, fella ríkisstjórnina eða næstum hvað sem er. Þannig er atkvæðagreiðslan ekki lengur tilraun til að leysa umdeilt mál með því að greiða atkvæði um það, en þannig var það jú réttlætt að stofnað væri til hennar, heldur er hún nokkurskonar þjóðaraðgerð, sameiginleg mótmælaaðgerð þjóðarinnar: Hún á þá að fara á kjörstað með kreppta hnefa og segja nei í þeirri trú að það hafi góð áhrif.

Nú er það ljóst, hvað sem manni finnst um aðgerðina, tilefnið og málefnið, að þetta er alls ekki sama og lýðræðisleg ákvarðanataka. Þannig minnir þjóðaratkvæðagreiðslan í dag á atkvæðagreiðslur þær sem iðulega eru haldnar í einræðisþjóðfélögum, frekar en lýðræðislega atkvæðagreiðslu. Í Nürnbergréttarhöldunum árið 1946 var Hermann Göring meðal annars spurður út í afstöðu nasista til vilja fólksins. Hann benti á að engin stjórnvöld gætu haldið völdum til lengdar án almenns stuðnings. En það þýddi alls ekki að lýðræði væri rétta leiðin til að kalla fram vilja fólksins. Þjóðin hefði treyst foringjanum fyrir örlögum sínum og hans hlutverk væri að skynja þennan vilja og framkalla hann. Stjórnvöld gætu hinsvegar af og til kallað til þjóðaratkvæðagreiðslu til að sýna með ótvíræðum hætti hvernig fólkið stæði bak við foringja sinn. Nasistar héldu margar þjóðaratkvæðagreiðslur á valdatíma sínum (frægust er kannski atkvæðagreiðslan um innlimun Austurríkis í Þýska ríkið) sem höfðu það hlutverk að sýna samstöðu fólksins með því sem þegar hafði verið ákveðið.

Nú ætla ég ekki að halda því fram að Íslandi í dag svipi á nokkurn hátt til Þýskalands á fjórða áratugnum, en ég held að það megi alveg hafa í huga að þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki endilega til marks um lýðræði: Það fer alveg eftir því hvernig hún er notuð.  Lýðræðisleg stjórnvöld sem farin eru að nota þjóðaratkvæðagreiðslu sem aðgerð eru, amk frá sjónarmiði þess lýðræðis sem frjálslynd öfl á vesturlöndum hafa viljað kenna sig við, á villigötum.

Markmið mitt í þessum fyrirlestri var að velta upp spurningum um stöðu stjórnmálaumræðu á Íslandi, hálfu öðru ári eftir hrun. Niðurstaðan er sú að krafan um stjórnmála- og stjórnsýsluumbætur sem að mínu mati var meginkrafa hinnar svokölluðu búsáhaldabyltingar hefur horfið í skuggann af allt öðrum kröfum sem ég tel að snúist frekar um að hylja og breiða yfir ástæður þess hvernig fór í íslensku samfélagi heldur en að afhjúpa þær og takast á við þær.

Hugsanlega verður breyting á umræðunni þegar Rannsóknarskýrslan kemur út, en ég myndi þó ekki gefa mér að slíkt gerist. Um leið og skýrslan kemur munu „sökudólgarnir“ taka að verja sig og eins og umræðan hefur þróast getur vel farið svo að á vettvangi stjórnmálanna muni sumir hinna föllnu víkinga finna óvænta bandamenn. Það er að minnsta kosti alveg hægt að gefa sér að enginn mun koma bljúgur og auðmjúkur og biðjast afsökunar. Þvert á móti, menn munu telja sig ofsótta, misskilda, hrakta og smáða. Þeir sem mesta ábyrgð bera á einstökum ákvörðunum eða stefnumarkandi niðurstöðum munu halda því fram að ásakanir í þeirra garð séu tilhæfulausar og ósanngjarnar.

Kannski viðhorf einhverra verði svipuð og fyrrum Enron forstjórans Jeffrey Skillings sem dæmdur var í 24 ára fangelsi árið 2006 fyrir sinn þátt í afbrotum fyrirtækisins. Daginn áður en réttarhöld yfir honum hófust birti Houston Chronicle viðtal við hann þar sem fram kom að síðustu tvær vikurnar fyrir réttarhöldin hefði Skilling haldið til í óbyggðum Utah fylkis, í eyðimörkinni. Þar hefði hann gengið yfir 40 kílómetra á degi hverjum og nærst á ormum og lirfum (18. júní 2006).

Það er hægt að byggja upp öfluga sjálfsmynd með því að telja sig eiga fleira sameiginlegt með sjálfum frelsaranum heldur en venjulegum mönnum. Það gæti vel hugsast að sumir útrásarvíkinganna séu að þróa með sér jafn öfluga sjálfsmynd og Jeffrey Skilling.

12 replies
 1. annag
  annag says:

  Kærar þakkir Jón fyrir frábært innlegg í það sem skiptir öllu máli í dag.
  Innsæi, skilningur og greining á kjarna málsins.
  Þú ert einn af þeim sem ég tek mark á og legg við hlustir þegar þú tjáir þig.

  Svara
 2. gerdur palmadottir
  gerdur palmadottir says:

  Íslendingar bera ábyrgð og eru ekki að reyna koma sér undan henni, en ábyrgðin er 3ggja þjóða og verður að vera samábyrgð, það verður hægt að lifa með það.
  Það sem mig undrar er að þessi deila skuli ekki vera sett í hendur dómstóla þannig að ábyrgðin á Icesave deilunni verði leyst á eðlilegan hátt.
  Af hverju vilja Bretar og Hollendingar ekki þá lausn?
  Að mínu og margra annarra mati liggur ábyrgðin hjá þremur þjóðum, enginn þeirra getur firrt sig ábyrgð.
  Bretar og Hollendingar tóku sjálfstæða ákvörðun um að greiða sparifjáreigendum síns lands út, því á íslenskur almenningur að greiða það?
  Íslendingar almennt hafa ekki tækifæri til þess að kryfja málin vegna klíkubanda sem þjóðin er niðurjörfuð með, sem hindrar heiðarlegt upplýsingastreymi það vita allar. Það er engin fjölmiðill sem miðlar nauðsynlegri þekkingu eða gefur almennar hlutlausar upplýsingar og eða opinber vettvangur þar sem málin eru krufin til mergjar.
  Allir pólitíkusar eiga undir atvinnurekendum og öfugt, allir eiga hagsmuna að gæta og þeim verður ekki stefnt í hættu með heiðarleika og hag landsins í fyrsta sæti.

  Svara
 3. Hilmar Hafsteinsson
  Hilmar Hafsteinsson says:

  Um margt áhugaverð greining – en skortir dýpt og þekkingu á baklandinu.

  Fræðimaðurinn fullyrðir að „búsáhaldabyltingin … var stórmerkileg aðgerð og hafði skýr markmið sem náðust jafnvel þó að hún hafi ekki átt beina eða skýra leiðtoga.“ Þetta er einfaldlega rangt.

  Hann fullyrðir ennfremur að „… hún (bb) hafi (þegar hingað er komið sögu amk) misheppnast í þeim skilningi að engin raunveruleg stemmning hefur skapast um þær umbótakröfur sem mótuðu heildarhugsun hennar og réttlættu aðgerðina öðru fremur í augum margra. Þetta er augljóslega einnig rangt, sbr. þjóðaratkvæðagreiðsluna.

  Fræðimaðurinn skriplar fyrst alvarlega á skötunni þegar hann fullyrðir að „Það er augljóst, þegar horft er á málið út frá vestrænum lýðræðissjónarmiðum, sem þróast hafa í hinum frjálsa heimi undanfarna áratugi, að atkvæðagreiðslan í dag er óþörf. Þarna er skotið langt yfir markið og fabulerað með að „… nú þegar hefur verið lagður fram samningur sem er betri en sá sem ríkisábyrgðin nær til, er sá samningur í raun úr sögunni.“ Hér er um að ræða óljós samningsdrög sem aðilar innan íslensku samninganefndarinnar eru ósammála um!

  Fræðimaðurinn kýs að líta fram hjá þeirri augljósu staðreynd að það var í ljósi yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem Bretar og Hollendingar voru tilbúnir að veita tilslakanir. Þær dugðu ekki til og niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er einróma áfellisdómur þjóðarinnar um botnlausan ágang Breta/Hollendinga og botnlausan niðurlægjuhátt stjórnvalda.

  Til að botna bullið tengir fræðimaðurinn íslenskan veruleika við þriðja ríki nazista – en slík tengslafræði hefur verið helsta vopn rökþrota manna síðustu áratugi.

  „Þannig minnir þjóðaratkvæðagreiðslan í dag á atkvæðagreiðslur þær sem iðulega eru haldnar í einræðisþjóðfélögum,“ ritar fræðimaðurinn fullur vandlætingar og sparar ekki Bifrastarbrellurnar.

  Íslenskt lýðræði er sumsé á villigötum en fræðimaðurinn fetar veg sannleikans!

  Pappírstígrisdýrin í háskólagarðinum hafa litla trú á íslenskri þjóð. Hún stóð hins vegar þétt saman haustið ’08 og varpaði af sér vanhæfri ríkisstjórn í janúar ’09, ásamt því að hreinsa til í Seðlabankanum og fme.
  Í framhaldinu stóð hún þétt saman gagnvart nýrri vanhæfri stjórn fjórflokksins sl. haust, sem kristallast í skýrri niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

  Pappírstígrísdýrin í háskólagarðinum halda hins vegar áfram að veita heiðursverðlaun í boði SÍS – talandi um öfluga sjálfsmynd 🙂

  Svara
 4. b.b.
  b.b. says:

  Er þetta ekki skilgreiningarstríð. Gott mit uns… Ef þú ert ekki sammála okkur ertu á móti öllu því sem íslenskt er…
  Einangruðum ríkjum vegnar ekki vel í hnattvæddum heimi. Heimurinn hefur áhrif á innanlands mál sama hversu sjálfstæð við teljum okkur vera. Er ekki betra að vera hluta af alþjóðasamfélaginu og hafa þó eitthvað um málið að segja, þótt ekki mikið sé.
  Skilgreining Íslendinga á sjálfstæði eða fullveldi er úr takti við gang mála í heiminum í dag.
  Ég sé ekki ljósið í enda ganganna….

  Svara
 5. Júlíus Björnsson
  Júlíus Björnsson says:

  Gerður Pálmadóttir vísar mjög vel á indi míns hug eða góð rök. Hinsvegar svalar ekki þurr spuni.

  Svara
 6. Stefán
  Stefán says:

  Fínn pistill. Til hamingju með hann.

  „meginkrafa hinnar svokölluðu búsáhaldabyltingar hefur horfið í skuggann af allt öðrum kröfum sem ég tel að snúist frekar um að hylja og breiða yfir ástæður þess hvernig fór í íslensku samfélagi heldur en að afhjúpa þær og takast á við þær.“

  Að skapa sem bestan jarðveg áður en blessuð skýrslan birtist hefur staðið lengi yfir hjá vissum aðilum, vonandi mistekst það og vonandi stendur skýrslan undir nafni.

  Svara
 7. Sigursteinn Másson
  Sigursteinn Másson says:

  Megininntak greinarinnar er rétt að mínu mati og það er ástæða til að þakka Jóni sérstaklega fyrir þessi skrif. Þjóðernishyggjan sem gosið hefur upp á undanförnum mánuðum og veifað er undir sjálfstæðisfánanum er hættuleg. Alþjóðasamstarf byggist ekki á hagsmunum einstakra ríkja eins og Bjarni heldur fram hér að ofan og hann hlýtur að vita betur. ESB, hvað sem mönnum nú finnst um það fyrirbæri, var stofnað eftir stríð til að tryggja frið í Evrópu og það hefur tekist í aðildarlöndunum. Sameinuðu þjóðirnar voru sömuleiðis stofnaðar til að vernda heildarhagsmuni þótt vissulega hafi stórveldin oft misnotað aðstöðu sína. Tekin var upp sameiginleg mynt í Evrópu og N-Evrópuþjóðir greiddu háar fjárhæðir í þróunarsjóði S-Evrópuríkja til að jafna hlut íbúanna í þeim ríkjum. Menn geta haft þá skoðun að Ísland sé sérstakasta land í heimi eða öllu heldur íbúar landsins sem eigi að njóta einstakrar sérstöðu og fyrirgreiðslu í viðskiptum og öllu öðru en þá skulu menn líka bara kalla það það sem það er. Það er laukrétt hjá Jóni að á meðan menn eru hér uppteknir við það að búa til óvini í útlöndum og hafa uppi kveinstafi um illa meðferð á Íslendíngum fer ekki fram sú nauðsynlega sjálfskoðun sem verður að eiga sér stað eigi landið að rísa og þjóðin með því.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *